Landssamtök hjólreiðamanna (LHM)[1] eru hagsmunasamtök sem hafa að markmiði að efla hjólreiðar á Íslandi sem heilsusamlegan lífsmáta og sem samgöngumáta. Þau eru ekki rekin i hagnaðarskyni. Helstu hjólreiðafélög landsins eiga aðild að LHM. Samtökin eru þó ekki aðeins málsvari félagsmanna hinna ýmsu hjólreiðafélaga heldur eru þau jafnframt málsvari allra sem hjóla á Íslandi. LHM er aðildarfélag að European Cyclists’ Federation, sem eru heildarsamtök fyrir hjólreiðafélög til samgangna og ferðalaga í Evrópu. LHM hlaut samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2012 fyrir virka þátttöku og áhrif í að efla hjólreiðar á Íslandi.

LHM einbeita sér að því að efla hjólreiðar og fjölga þeim sem hjóla t.d. með því að reyna að hafa áhrif á stefnumótun ríkis og sveitarfélaga og með upplýsingagjöf til stjórnvalda og almennings. Samtökin sjá ekki um íþróttahlið hjólreiða en Hjólreiðasamband Íslands[2] sem er sérsamband innan ÍSÍ vinnur að skipulagningu og útbreiðslu hjólreiðaíþróttarinnar.

En látum verkin tala fyrir árið 2019, hvað vann LHM að á árinu og hverju komu samtökin til leiðar?

 

Aukning hjólreiða

Frá árinu 2003 hefur orðið umtalsverð aukning í hjólreiðum. Upplýsingar um það eru þó takmarkaðar við höfuðborgarsvæðið enda hafa stjórnvöld til skamms tíma lítið hirt um að skoða aðra ferðamáta en bílaumferð. Sú könnun sem hefur lengsta sögu og segir okkur mest um aukningu hjólreiða er skoðanakönnun sem Bílastæðasjóður Reykjavíkur og  Reykjavíkurborg hefur látið framkvæma á haustmánuðum frá um 2002. Hlutdeild hjólreiða hefur vaxið úr um 2% af ferðum fullorðinna úr og í vinnu og  í um 6% á haustmánuðum samanber mynd. Aðrar kannanir, talningar og ferðavenjukannanir á höfuðborgarsvæðinu segja sömu sögu.

 

 

Ferðavenjukönnun á landsvísu

Ríkið og flest sveitarfélög hafa til skamms tíma rekið stefnu þar sem bílinn hefur verið settur á stall og aðrir ferðamátar verið látnir mæta afgangi. Hluti af þeirri forgangsröðun hefur verið að safna nær eingöngu upplýsingum um bílferðir en láta upplýsingasöfnun um aðra ferðamáta lönd og leið. Verðmætamatið sem skinið hefur í gegn er að ferð á bíl er mun meira virði en ferð sem er farin gangandi eða hjólandi, þrátt fyrir umtalsverð slæm áhrif af bílferðinni á umhverfi og lýðheilsu. Vonandi er þetta nú að breytast. LHM hefur í mörg ár lagt til í umsögnum að ríkið geri ferðavenjukönnun fyrir landið allt. Til að lyfta upp hlut göngu og hjólreiða og vita hvort ferðavenjur breytist er nauðsynlegt að vita hverjar ferðavenjur eru í nútímanum. Haustið 2019 réðst ríkið í fyrstu ferðavenjukönnunina fyrir landið allt og samkvæmt samgönguáætlun stendur til að gera hana á 3 ára fresti.

 

Ívilnun fyrir reiðhjól og rafmagnsreiðhjól [3]

4. janúar 2019 sendi LHM bréf á ríkisstjórn Íslands og óskaði eftir því að ívilnun fyrir reiðhjól og rafmagnsreiðhjól yrði ekki lakari en fyrir rafmagnsbíla. Efnislega felur það í sér að fella þarf niður virðisaukaskatt af reiðhjólum og rafmagnsreiðhjólum. 1. janúar 2020 var lögum svo breytt og virðisaukaskattur á reiðhjól upp að vsk. 48.000 kr. og virðisaukaskattur á rafmagnsreiðhjól upp að vsk. 96.000 kr. var felldur niður, sem þýðir að reiðhjól að 200.000 kr. og rafmagnsreiðhjól að 400.000 kr. verða án vsk. Þetta gildir frá 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023 eins og fyrir rafmagnsbíla. Markmið frumvarpsins var að greiða fyrir orkuskiptum í samgöngum og til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Áhrifin af þessu má sennilega meta til lækkunar á ári um 200-400 milljónir króna af virðisaukaskatti fyrir kaupendur reiðhjóla.

 

Samgönguáætlun [4]

Samgönguáætlun hefur verið í vinnslu hjá stjórnvöldum í á annað ár. Í lok árs 2018 var áætlað að leggja um 6.810 milljónir króna í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng á landinu öllu næstu 15 árin. LHM lagði til í umsögn um áætlunina að framlög ríkisins til göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng yrðu aukin í 13.500 milljónum á 15 ára tímabili samgönguáætlunar. Á árinu 2019 var samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins undirritaður af ríki og sveitarfélögum og var ákveðið að auka við framlög til hjóla og göngustíga í samgönguáætlun um tæpar 5.756 milljónir kr. Næstu 15 árin eiga að renna samtals 12.566 milljónir til hjóla og göngustíga og til göngubrúa og undirganga í stað 6.810 milljónir kr. samkvæmt fyrri áætlun. Fjármagnið sem áður var ætlað til göngu- og hjólastíga fyrir landið allt um 4.466 milljónir rennur nú til  landsbyggðarinnar. Upphæðin til göngu- og hjólastíga á höfuðborgarsvæðinu verður 6.000 milljónir kr.

 

Umferðarlög [5]

Heildarendurskoðun umferðarlaga hefur staðið yfir í meira en 10 ár. Á þessu tímabili hafa LHM gert umsagnir um lögin á öllum stigum. 1. janúar 2020 tóku ný umferðarlög gildi eftir þessa löngu meðgöngu og þótt allt sé þar ekki fyllilega samkvæmt óskum LHM er þetta þó mikilsverður áfangi og hefur ýmislegt náðst fram af hagsmunamálum hjólreiðamanna. Ekki síður er þó mikilvægt að LHM tókst að afstýra ýmsum hugmyndum sem hefðu skemmt fyrir hjólandi umferð og haft slæmar afleiðingar fyrir veg hjólreiða. Af góðum málum sem náðu fram að ganga má t.d. nefna að nægjanlegt hliðarbil við akstur fram úr reiðhjóli (eða léttu bifhjóli) hefur nú verið skilgreint og er 1,5 m. Hugtökin hjólastígur og hjólarein hafa verið skilgreind í lögum, heimilt er að hjóla með tvo aftanívagna í stað eins og búið er að skýra að heimilt er að hjóla yfir á gangbraut. Ennfremur er áfram heimilt að hjóla á gangstétt eða gangstíg en ef það væri bannað myndu börn þurfa að hjóla á götunni í skólann.

 

Rödd hjólreiðamanna

Auðvitað er það svo að LHM getur ekki eitt eignað sér heiðurinn að þessum áföngum. Margir hafa komið að málum og það er sjaldan eða aldrei hægt að rekja eina breytingu til einnar raddar. Það má þó segja að stærsti ávinningurinn af því að LHM fylgist með löggjöf, áætlanagerð og skipulagsmálum er að rödd hjólreiðamanna fær að heyrast á þeim vettvangi þar sem ákvarðanir geta verið teknar um framtíð hjólreiða á Íslandi. Því miður er það svo að á öllum stigum stjórnkerfisins vantar þekkingu og skilning á þörfum hjólandi umferðar. Ástandið hefur þó sennilega lagast síðustu ár en áfram mun verða þörf á öflugum málsvara hjólreiðamanna á Íslandi. Hægt er að skoða þessa og aðra vinnu LHM á vef samtakanna.[6]

Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2020. 

[1] www.LHM.is
[2] http://hri.is/
[3] https://lhm.is/lhm/skjol/1306-ivilnanir
[4] https://lhm.is/lhm/skjol/1309-samgonguaaetlun-2020
[5] M.a. https://lhm.is/lhm/skjol/1255-umferdarlog-149thing
[6] https://lhm.is/lhm/skjol