Stígakerfið á höfuðborgarsvæðinu er orðið þétt og samanhangandi. Nú er hægt að komast frá Mosfellsbæ í norðri að Hafnarfirði í suðri og frá Seltjarnarnesi í vestri að Norðlingaholti í austri eingöngu á stígum. Samanhangandi stígakerfi sem gerir hjólandi og gangandi vegfarendum kleift að komast milli staða án þess að deila stofnbrautum með hraðri umferð bíla hefur verið eitt helsta hagsmunamál Landssamtaka hjólreiðamanna frá upphafi.

Það gerist líka æ sjaldnar að notendur endi “úti í móa” þar sem stígur endar og ekkert tekur við eins og gerðist oft hér áður fyrr. Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa líka tekið vel við sér og sýna að þeir kunna vel að meta stígana. Í ferðavenjukönnun 2014 kom fram að um 61% íbúa höfuðborgarsvæðisins höfðu notað reiðhjól síðastliðið ár og væntanlega langflestir á stígum.

Það er þó ekki nóg að leggja stíga. Notendur þurfa líka að geta ratað um þá. Við þekkjum flest okkar nánasta umhverfi t.d. þar sem við gengum í skóla. Þeir sem hafa gengið eða hjólað sinna ferða læra líka á umhverfi sitt og rata út frá kennileitum og reynslunni. Því miður á þetta ekki við um alla. Margir fara aldrei gangandi eða hjólandi af heimili sínu en þekkja leiðina sem þeir fara akandi. Það er ekki sami hluturinn að aka milli staða og hjóla eða ganga. Kennileitin eru oft ólík og reynsluna vantar til að það verði auðvelt að rata um stígana. Hætt er við að menn verði fyrir vonbrigðum og óþægilegri reynslu og fyrir marga getur það verið næg ástæða til að leggja hjólinu, hætta að ganga eða sleppa því að taka strætó.

Landssamtök hjólreiðamanna hafa í málflutningi sínum í gegnum tíðina lagt áherslu á að stígar verði merktir með leiðarmerkjum eða vegvísum eins og vegakerfi landsins. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa síðustu ár unnið að verkefni um gerð leiðbeininga um vegvísa fyrir stígakerfið og áætlun um staðsetningu vegvísa á stígakerfinu. Leiðbeiningarnar eru tilbúnar og áætlunin sömuleiðis. Og það sem meira er, búið er að merkja stóran hluta stígakerfisins með vegvísum á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík, Mosfellsbær, Garðabær og Hafnarfjörður hafa merkt stígkerfið að hluta eða öllu leyti. Kópavogur ætlar að hefjast handa núna í vor og Seltjarnarnes er líka að hugsa sér til hreyfings. Núna er víða hægt að rata um stigakerfið með því að fara eftir vegvísunum og er þetta hagsmunamál hjólandi og gangandi vegfarenda því komið vel áleiðis.

 

1. mynd. Töfluvegvísir, úr leiðbeiningum.

 


2. mynd. Vegvísir sem sýnir á hvaða stíg maður er, úr leiðbeiningum:

Á vegvísunum rekast menn á að skilti eru merkt með mismunandi litum. Litirnir afmarka svokallaðar litaðar lykilleiðir, sem eru skilgreindar aðalleiðir sem teygja sig oft enda á milli á höfuðborgarsvæðinu. Lykilleiðirnar eru í sérstökum forgangi þegar kemur að sópun á sumrin og mokstri og hálkuvörnum að vetri til. Markmiðið með litamerktum lykilleiðum er að bæta þjónustu við hjólreiðafólk, fjölga þeim sem hjóla og hjálpa fólki að velja góða stíga á ferðum sínum, bæði íbúum og gestum.

 

3. mynd. Kort af lituðum lykilleiðum.

Leiðin meðfram strandlengjunni er blá, græna leiðin fer í gegnum Víðidal, Elliðaárdal, Öskjuhlíðina, Fossvog og endar í miðbæ Reykjavíkur. Rauða leiðin liggur frá Sæbraut, gegnum Garðabæ og Kópavog í miðbæ Hafnafjarðar. Fjólubláa leiðin liggur frá Elliðavogi í gegnum Elliðaárdal, Garðabæ og Kópavog í miðbæ Hafnarfjarðar. Gula leiðin liggur frá miðbæ Mosfellsbæjar í miðbæ Reykjavíkur um Elliðaárósa. Á skiltunum er að finna þjónustumerki, þar sem það á við eins og tjaldstæði eða sundlaug. Vegvísar verða líka settir upp á öðrum stígum líka til viðbótar við lituðu lykilleiðirnar þegar fram í sækir.

 

4. mynd. Þjónustumerki sýnd í Elliðaárvogi, tjaldstæðið og sundlaugin í Laugardal. Gult og blátt merki sýnir að sami stígur tilheyrir báðum lykilleiðum. Þarna er upphaf fjólubláu leiðarinnar.

 

5. mynd. Við gatnamót Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar. Rauða leiðin til vinstri í Hafnarfjörð og til hægri að byrjun leiðarinnar við Sæbraut. Hjólamerkið með bláum kassa í kring sýnir að ef beygt er til hægri kemst maður á bláu leiðina við ströndina hjá Sæbraut.

 

6. mynd. Við ánna Korpu eða Úlfarsá. Til vinstri kemst maður á ólitaða leið inn í Úlfarsárdal.

 

Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2019.