Það er margsannað að starfsmenn sem hjóla til vinnu mæta ferskari, þeir eru hraustari, taka færri veikinda daga og þeir taka ekki síðasta lausa bílastæðið. Það er því til margs að vinna fyrir bæði starfsmenn og atvinnuveitendur að vel sé gert við þá sem hjóla og að hvetja fleiri til að prófa það. Hér eru nokkrir punktar.

Hjólastæði:

Hjólabogar fyrir starfsmenn og viðskiptavini eru góð hjólastæði því þeir styðja vel við hjólið og auðvelt er að læsa stellinu við boga með traustum U-lás. Grindur sem framhjóli er stungið í uppfylla ekki þessi skilyrði og ætti að skipta þeim út.

 

Aðstaða fyrir föt

Allir eiga að geta hengt upp blaut föt til þerris, geymt skó, reiðhjólahjálm og bakpoka. Einnig er gott ef boðið er upp á aðstöðu til að geyma vinnuföt  og vinnuskó til skiptanna.

 

Samgöngusamningur 

Samgöngusamningar verða sífellt algengari á vinnustöðum enda gagnast þeir bæði starfsmönnum og atvinnuveitendum. Skattfrjálsar greiðslur geta numið 7.500 kr. mánaðarlega sem samsvarar launum upp á 123.246 kr. fyrir skatt á einu ári. Greiðsluna má líka nýta til kaupa á hjóli fyrir starfsmanninn og auðvelda þannig breyttar ferðavenjur til og frá vinnu. Viðbúið er að þessi útgjöld skili sér til baka í formi færri veikindadaga. Nánari umfjöllun Landssamtaka hjólreiðamanna: Samgöngusamningar

Síðan má auðvitað gera enn betur með sturtuaðstöðu, læstri hjólageymslu, aðstöðu til að hlaða rafmagnshjól og fl.

 

Bílastæði kosta

Flest fyrirtæki hafa verulegan kostnað af bílastæðum, jafnvel mun meiri en sem nemur greiðslum vegna samgöngusamninga. Ef starfsmenn þurfa ekki að borga af bílastæðum eru það hlunnindi sem hvetja fólk til að koma á einkabílnum í vinnuna frekar en að hjóla.

 

Lánshjól

Lánshjól fyrir starfsmenn

Lánshjól eru sniðug og nýtast starfsfólki sem þarf að skreppa stutta vegalengd á fund. Þau nýtast líka þeim sem ekki hjóluðu í vinnuna þann daginn eða vilja ekki nota sitt eigið hjól í vinnunni. Einnig gæti vinnustaður lánað starfsmanni sem ekki á hjól reiðhjól í ákveðinn tíma meðan hann er að prófa samgöngumátann og jafnvel gæti viðkomandi keypt hjólið að lánstíma liðnum.

 

Hvatning 

Það má hvetja til hjólreiða með ýmsum hætti. Hjólabæklingar eins og Kostir hjólreiða og Samgönguhjólreiðar mættu liggja frami á kaffistofum. Þá má nálgast frítt í klúbbhúsi okkar á Brekkustíg 2 þegar við erum með opið hús eða eftir samkomulagi með því að senda okkur póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Það má prenta út kort sem sýnir hversu langt er hægt að hjóla á 5-15 mínútum; margir gera sér ekki grein fyrir því hversu langt stutt hjólaferð skilar manni fyrr en maður prófar það. Hér er korterskort Reykjavíkurborgar en bikecitizen er líka með gagnvirkt kort sem teiknar upp hversu langt nokkurra mínútna hjólatúr ber þig frá þínum vinnustað. Prófið það hér: map.bikecitizens.net/is-reykjavik

 

Félagslíf

Hjólað í pikknik - Tweed Ride Reykjavik

Það er skemmtilegt hópefli að fara í hjólatúra saman af og til og gera það þá á rólegu nótunum og njóta ferðarinnar og félagsskaparins. Skreppa til dæmis í lautarferð í hádeginu og borða nesti.