Margir eru haldnir söfnunaráráttu og hún tekur á sig margar myndir. Ein birtingarmynd hennar er sú tegund túrisma þegar  fólk safnar stöðum; 100 hæstu toppar landsins, fjöldi landa í heiminum, austasta og vestasta hitt og þetta og svo framvegis. Ég verð víst að játa að ég tilheyri þessum hópi fólks. Samt er það yfirlýst trú mín að ferðalög snúist um upplifanir fremur en tölfræði eða landakortaútfyllingar. Mín söfnunarhneigð tengist teiknaraeðlinu í mér. 

Ég hef í hálfa öld unnið að sömu teikningunni. Hún sýnir ferðir mínar um landið. Ég safna línum í þá teikningu. Þessi mynd hefur fengið að þróast tilviljunarkennt. Líkt og sumir rithöfundar og myndlistarmenn 20. aldarinnar hafa fengist við ósjálfráða sköpun, hef ég skemmt mér við að fylgjast með hvernig teikningin mín þróast, einsog af sjálfu sér. En nú er orðið spurning hvort söfnunaráráttan fer að hafa áhrif á þessa sjálfsprottnu teikningu; hvort ég fer að velja mér leiðir til að hafa áhrif á hana. Þá myndi eðli hennar breytast og hætt er við að nautnin af ferðalögunum myndi minnka.  Hitt er svo annað mál að ef eina leiðin til að fá fólk til að fara út að hreyfa sig sé að höfða til söfnunaráráttu þess, þá er það vel ásættanlegt.

Er ánægja mín af teikningunni minni aðeins fólgin í því að sjá línunum fjölga og netið þéttast? Nei, línurnar eru hugsanafarvegir. Ég get setið sem dáleiddur fyrir framan myndina og rifjað upp ferðir. Svo er líka gaman að ímynda sér hvernig myndin muni þróast í framtíðinni. Ég hef líka gaman af að skoða ferðalínuteikningar annarra. Þær gefa hugmyndir og maður fer að bera sjálfan sig saman við þær. Það að skoða línuteikningar eftir t.d. Hauk Eggertsson eða Andreas Makrander er skemmtilegt og hvetjandi en ef maður passar sig ekki, þá getur það fyllt mann minnimáttarkennd, því þeir hafa ferðast svo miklu meira en ég. Ekki þarf að taka það fram að línur sem standa fyrir gönguferðir og hjólreiðar eru hærra skrifaðar en þær sem tákna akstur vélknúins ökutækis.  Ég er nú að skrifa í Hjólhestinn.

Ég læt fylgja bút úr teikningunni minni. Auðvitað vel ég stað þar sem ég hef verið mikið á ferðinni; annars myndi fólk sjá hversu lítið ég hef farið um landið. Ég vil að fólk haldi að ég sé reynslumikill ferðalangur með víðfeðma þekkingu á Íslandi. Gulu línuna hef ég fremsta, því hún táknar hjólaleiðir og ég er að skrifa í hjólreiðablað. Grænt er gönguferðir og bleikt stendur fyrir leiðir sem ég hef ekið. Myndin sýnir 70 x 100 km á Suðurlandi, aðallega í Rangárvallasýslu. Svartur flötur kemur í korts stað. Þannig geta lesendur Hjólhestsins notið listræns gildis ómengaðrar línuteikningarinnar eða gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn eða gert sér gátu úr þessu; reynt að þekkja leiðirnar út frá lögun þeirra. Góða skemmtun – eða ekki.

Ómar Smári Kristinsson

 

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2018.