„Fárviðri. Ofsarok og rigning. Sást ekki í skip á ytri höfn fyrir sjódrifi. Ég fór af stað kl. rúmlega sjö á hjóli. Nokkuð mikill stormur var og er ég bremsaði þá ætlaði vindur að feykja mér af veginum. Setti mig tvisvar af hjólinu en það kom ekki að sök.“ Þannig lýsir Sveinn Mósesson ferð sinni til vinnu í dagbók þann 15. janúar 1942 en hann varð að taka daginn snemma því leiðin lá frá austanverðum Digraneshálsi til Reykjavíkur og því um langan veg að fara og veðrið sjaldan fyrirstaða.

Óhætt er að fullyrða að reiðhjólið hafi verið þarfasti þjónn frumbyggja Kópavogs í upphafi byggðar. Samgöngur voru lélegar þegar þeir fyrstu settust að laust fyrir 1940 og þar sem flestir sóttu vinnu til Reykjavíkur var um fátt annað að ræða en að hjóla. Almenningssamgöngur voru bágbornar, bifreiðaeign munaður fárra og tímafrekt að fara fótgangandi. Reiðhjól urðu fljótt mikið þarfaþing eftir að þau bárust fyrst til landsins undir lok 19. aldar enda fjölgaði þeim hratt eftir aldamótin. Segja má að gullöld hafi ríkt í hjólreiðum á millistríðsárunum því þá höfðu menn almennt efni á að koma sér upp hjóli enda voru þau fábrotnari en nú þekkist. Með vaxandi þéttbýli og fjölbreyttara atvinnulífi urðu greiðar samgöngur sífellt mikilvægari. Ísland var að breytast úr sveitasamfélagi, þar sem vinnan fór að mestu fram heima við, í iðnaðarsamfélag þar sem flestir stunduðu launavinnu utan heimilis. Kópavogur var dæmigerður fyrir þær samfélagsbreytingar enda höfðu langflestir frumbyggjarnir lífsviðurværi sitt annars staðar.

Kópavogur hefði varla byggst jafn snemma upp hefði reiðhjólið ekki komið við sögu. Saga bræðranna Finnjóns og Sveins Mósessona er dæmigerð í því sambandi en þeir settust að í Kópavogi snemma árs 1939. Þeir voru málarar og öfluðu sér verkefna víða en sóttu vinnu einkum til Reykjavíkur. Sveinn bjó við Digranesblett 21, sem seinna varð Álfhólsvegur 135, en Finnjón var við Digranesblett 6, sem síðar varð Nýbýlavegur 62. Þeir fóru flestra sinna ferða á hjóli og það gat verið mjög tafsamt að komast á áfangastað þegar illa viðraði og færð var slæm. Þegar verst lét var ekki um annað að ræða en ganga eins og fram kemur í eftirfarandi færslum í dagbók Sveins frá árinu 1939. 19. febrúar: „Mikill snjór í kvöld, sá mesti sem komið hefur síðan við fluttum á bústað 21 Álfhólsvegi. Ég gekk í bæinn...“ 20. febrúar: „Sama veður og í gær. Ég gekk í bæinn í morgun.“ 21. febrúar: „Líkt veður og í gær. Ég gekk báðar leiðir. Varð samferða Finna í morgun.“ Þess má geta að leið Sveins var nokkuð örðugri en Finnjóns (sem var kallaður Finni) þar sem hann þurfti að fara lengri leið um veglausa brekku Digraness. Sveinn átti einnig til að sækja vinnu langt fyrir utan bæinn. Eitt sinn sinnti hann störfum við Sogið í Grímsnesi og hjólaði báðar leiðir.

Kona Sveins, Guðdís Guðmundsdóttir, var einnig ötul við hjólreiðar þó ekki þyrfti hún að sækja vinnu utan heimilis. Þau hjón brugðu gjarnan undir sig hjóli sér til upplyftingar. Oftast voru það bæjarferðir þar sem þau tóku hús á fólki, sóttu samkomur, brugðu sér í verslanir og nutu bæjarlífsins. Slíkar ferðir voru nokkuð algengar á millistríðsárunum og eins að fólk færi lengri leiðir á hjóli til að njóta útiveru og skoða sig um. Víst er að reiðhjólið jók mjög möguleika manna til að fara lengri leiðir og skoða sig um enda talaði Sveinn um að hjólinu hefði fylgt mikið frelsi. Nokkuð sem foreldrar hans og eldri kynslóðir höfðu ekki getað leyft sér á ungdómsárum sínum en Sveinn fæddist í sveit í Dýrafirði árið 1907. Á þeim tíma var aðeins hægt að fara hratt yfir á hestbaki en ekki áttu allir kost á því enda þótti ekki eins mikil ástæða til ferðalaga þá og síðar varð.

Guðdís og Sveinn fóru í nokkrar hjólreiðaferðir austur fyrir fjall þar sem foreldrar Guðdísar bjuggu í Ölfusinu. Ferðalagið var vitaskuld torsóttara en í dag þar sem vegurinn var alsettur holum og hlykkjum. Þurfti nánast að krækja fyrir hvern klett og á stöku stað var vegurinn sérstaklega grófur. Þá voru reiðhjólin þyngri og gírum ekki fyrir að fara. Þurfti fólk yfirleitt að teyma hjólið upp Lögbergsbrekkuna og Hveradalabrekkuna, svo ekki sé talað um Kambana en þar þótti einnig öruggara að teyma hjólið niður brekkuna, þó ekki væri nema til að hlífa bremsunum. Tveir áningastaðir voru á leiðinni þar sem hægt var að þiggja veitingar Lögberg og Kolviðarhóll. Guðdís og Sveinn tóku yfirleitt með sér nesti en stundum þótti þeim gott að líta inn fyrir og gæða sér á rjúkandi kaffi.

Finnjón fór einnig í lengri hjólreiðaferðir en ekki er mér jafn kunnugt um þær og ferðir Guðdísar og Sveins. Þó er vitað að hann hjólaði oftar en einu sinni upp í Hvalfjörð með trönur, pensla, liti og léreft þar sem hann málaði myndir sér til hugarhægðar. Sveinn fékkst einnig við að teikna og mála í frístundum en þeir bræður voru mjög listrænir.

Á þessum árum átti fólk ekki kost á léttum og skjólgóðum útivistarfötum eins og nú þekkist. Eftir því sem ég kemst næst hjóluðu Finnjón, Guðdís og Sveinn í fremur hefðbundnum fatnaði. Finnjón og Sveinn voru gjarnan í svokölluðum sportfötum þegar þeir frílystuðu sig á hjólinu en þau samanstóðu af útvíðum buxum og jakka auk sixpensara. Guðdís klæddist pilsi enda tíðkuðu konur það lítt að fara í buxur á þessum árum. Yst fata var notast við frakka og kápur væri veðrið ekki þeim mun betra.

Finnjón, Guðdís og Sveinn virðast hafa lagt hjólinu að mestu á stríðsárunum. Velmegun stríðsins hafði í för með sér bættar almenningssamgöngur og aukna bifreiðaeign enda fór þeim mjög fækkandi sem notuðust við reiðhjól. Þegar líða tók á hernámsárin fór Sveinn yfirleitt með strætisvagni eða þáði bílfar til vinnu. Skömmu eftir stríð eignaðist hann eigin bifreið. Hjólreiðaferðir til skemmtunar lögðust einnig af hjá þeim hjónum. Bíllinn hafði náð yfirhöndinni. Á undraskömmum tíma heyrðu hjólreiðar fullorðinna til undantekninga. Veltiár stríðsins breyttu því eins og svo mörgu öðru. Mörg ár áttu eftir að líða þar til hjólreiðar fullorðinna urðu algengar aftur en þá var það fremur val um lífstíl heldur en nauðsyn eins og áður hafði verið.

1 Sveinn Mósesson 1929
2 Finnjón Mósesson
4 Kort af höfuðborgarsvæðinu 1942
5 Suðvesturland 1946
6 Kolviðarhóll  um 1950
7 Reynir Sveinsson á hjóli sínu við Nýbýlaveg í Kópavogi

Engin hjól á mánudögum

Reiðhjólið hafði fljótt mikil áhrif á samgöngur landsmanna eftir að það barst hingað fyrst rétt fyrir aldamótin 1900. Samfélagið tók miklum breytingum á þessum árum með vaxandi þéttbýli en sveitamenn streymdu á mölina sem aldrei fyrr. Mönnum var mikilvægara en áður að komast leiðar sinnar því flestir þurftu að sækja vinnu utan heimilis, ólíkt því sem viðgekkst í sveitinni, og þá var gott að geta farið hratt yfir án þess að kosta miklu til. Reiðhjól urðu mjög almenn um og upp úr 1920 en á þeim árum voru tvö fyrirtæki stofnuð sem um árabil voru hvað þekktust fyrir að sinna þörfum hjólreiðamanna – Fálkinn og Örninn.

Bæði fyrirtækin voru stofnuð af dönskum manni, Harald Gudberg að nafni, en hann var lærður reiðhjólasmiður. Gudberg flutti hingað til lands árið 1916 og setti sama ár á fót reiðhjólaverkstæðið Fálkann. Hann seldi fyrirtækið árið 1924 þegar hann flutti til Danmerkur vegna heilsubrests en ári síðar sneri hann aftur til Íslands og stofnaði Örninn.

Gudberg var „prinsippmaður“ og ein meginregla hans var að afgreiða aldrei hjól á mánudögum og byggðist sú afstaða á biturri reynslu eins og sjá má á eftirfarandi sögu sem Sveinn Mósesson skrifaði í dagbók sína, en frá honum segi ég nánar í annarri grein í þessu blaði. Sveinn greinir hér frá ferð sinni í Örninn þar sem hann hugðist kaupa reiðhjól fyrir son sinn.

„Vorið 1955 fór ég í Örninn hjá Gudberg og pantaði „gearhjól“ handa Reyni. Ég óskaði eftir að fá hjólið afgreitt í vikunni, en því gat Gudberg ekki lofað, vegna þess að það voru margar pantanir fyrirliggjandi. Fór ég þá fram á að fá hjólið afgreitt á mánudaginn næstkomandi. Þá svaraði Gudberg: „Ég vil ekki lofa neinni afhendingu á mánudegi, þér að segja, því ég er svolítið „overtroisk“ skilurðu, en það verður að hafa það. Meistari minn var það líka og lofaði engu á mánudegi. Ég skal t.d. segja þér frá einu atviki þessu til staðfestingar. Það var árið 1921, þá kom til mín maður og pantaði hjá mér hjól handa syni sínum. Það var sama hvað ég sagði við piltinn sem átti að fá hjólið. Hjólið vildi hann fá afhent á mánudegi. Það var engu tauti við hann komið. Ég man þetta eins og það hefði gerst í dag. Jæja, hjólið fékk hann. En viti menn. Klukkan eitt eftir hádegi hjólar hann inn Laugaveg; þegar hann er kominn á móts við Klapparstíg verður hann fyrir bíl. Drengurinn meiddist eitthvað og hjólið gereyðilagðist. Síðan hef ég ekki afgreitt hjól á mánudegi.“

*Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2017