Margir sjá framtíð samgöngumála snúast um sjálfkeyrandi bíla en persónulega myndi mér ekki líða vel á götunum innan um þessi tölvustýrðu apparöt enda hef ég ekki enn rekist á tölvu sem ekki gerir mistök eða bara eitthvað allt annað en hún á að gera, svona stöku sinnum amk. Einnig er verið að prófa að senda vörur til viðskiptavina með drónum. Ekki líst mér á þau háværu tól svífandi um og auka enn á umferðarniðinn.

En nú er líka verið að hanna sjálfkeyrandi farartæki á mun mannlegri skala. Það eru sjálfkeyrandi rafmagnshjól á tveimur hjólum. Þau eru há uppá sýnileikann, mjó svo þau taki ekki heila akrein, með stór dekk til að takast á við ójöfnur og með farangurspláss á stærð við skottið í Toyota Prius, nógu stórt fyrir stærstu pakka Amazon. Þau geta haldið sér uppréttum þegar þau stoppa með agnarlitlum hreyfingum líkt og fólk gerir á fixie hjólum. Þau ættu að komast svo til allstaðar þar sem gangandi og hjólandi fara um og hámarkshraði verður líklega um 40 km / klst.

Sjálfvirki hjólasendillinn er enn bara á teikniborðinu, og þó, því hægt er að fá frumgerð með fulla virkni til prófunar í rannsóknarverkefni sem er aðeins 4.5 sm á breidd og lítur út eins og tússtafla, sjá mynd.

Sjálfvirki hjólasendillinn væri eins og stærri og fjölhæfari útgáfa af litlu vöruvögnunum frá Starship Technologies sem eru hönnuð til að sendast með pakka eða mat í 3.-5. km. radíus frá sendistöð. Þeir fara yfirleitt um á röskum gönguhraða en geta náð 16 km./klst. hraða og gætu því verið 15-30 mínútur á leiðinni. Í samvinnu við Just Eat hafa þeir síðustu mánuði verið að keyra út mat í Greenwich. Veitingastaðurinn setur matinn í vagninn, vagninn sendir viðskiptavininum skilaboð þegar hann leggur af stað og önnur með tengli sem opnar vöruhólfið þegar hann er kominn á áfangastað.

Sjá:

lastmilerobotics.com og http://newatlas.com/just-eat-starship-technologies-first-robot-food-delivery/46735/


*Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2017