Fimmtudaginn 30 mars verður kynning á ferðum sumarsins í klúbbhúsinu að brekkustíg 2. Í boði eru auðveldar ferðir, erfiðar ferðir og allt þar á milli. Komdu og sjáðu hvort við höfum ekki eitthvað á prjónunum sem heillar þig. Húsið opnar kl 20:00 og kynningin hefst kl 20:15.

Þá munu aðilar frá reiðhjólaversluninni www.gotuhjol.is verða á staðnum og kynna touring og fjallahjól sín. Sjá nánar hér:

Ferðahjól: https://gotuhjol.is/collections/touring

Fjallahjól: https://gotuhjol.is/collections/fjallahjol

-Ferðanefnd

13.-14. maí ætlum við að endurvekja Eurovision ferðina.  Gist í bústað við Úlfljótsvatn, grillað og heimsmálin rædd í heita pottinum og þeir sem vilja geta horft á Eurovision. Leiðin er að mestu á malbiki, ca 10 km á malarvegi. Það eru ágætis brekkur til að reyna sig í, bæði upp og niður. Fín leið fyrir fólk til að vega og meta getu sína, þetta eru 50 km, sama leið hjóluð til baka. Trússbíll fylgir hópnum og ef einhver sér ekki fram á að komast upp bröttustu brekkuna, þá er minnsta málið að hoppa inn í bíl og fá far upp á topp.  Allir sem hafa eitthvað hjólað geta tekið þátt í þessari ferð.  Fararstjóri er Hrönn.  Erfiðleikastig 6.

2.-5. júní verður einstakt tækifæri fyrir þá sem vilja prófa að hjóla með tjald og allan farangur á hjólinu.  Lagt af stað frá Reykjavík, hjólað þaðan yfir að Þingvallavatni, síðan er farinn nettur hringur niður á Suðurland og vestur á Reykjanes.  Þetta eru 3 nætur og 4 hjóladagar.  Gist í tjaldi.  Fararstjórar eru Björn og Auður.  Erfiðleikastig 8.

24.-25. júní verður Snæfellsnesið heimsótt og ægifögur náttúran skoðuð. Gist verður á tjaldsvæðinu í Stykkishólmi og hjólaðar léttar dagleiðir í nágrenninu á laugardag og sunnudag. Ferðaryk laugardagsins skolað af í sundlauginni og við munum fara út að borða um kvöldið. Kvöldvaka á tjaldsvæðinu, sungin ættjarðarlög og sagðar hetju og hreystisögur.  Ekta útilegustemming í þessari ferð.  Fararstjóri er Örlygur.  Erfiðleikastig 5.

7.-9. júlí. Það er önnur harðjaxlaferð hjá okkur þessa helgi.  Haldið frá Þingvöllum að kvöldi föstudags upp Uxahryggi áleiðis að Kaldadal. Beygjum af leið og höldum í Lundareykjadal. Tjaldstæði / gist þar sem okkur þykir hentugast, úti í náttúrunni.  Daginn eftir er haldið að Kleppjárnsreykjum og Reykholti. Gist að lokum í Húsafelli.  Daginn eftir er haldið upp Kaldadal alveg þar til komið er til Þingvalla aftur.  Þeir allra hörðustu geta hjólað alla leið til Reykjavíkur.  Þetta er ferð með allan farangur, tjöld og mat. Hjólin þurfa að vera nokkuð góð og búnaður til að bera farangurinn á að vera á bögglabera eða í vagni, má ekki vera á bakinu.  Fararstjóri er Friðjón.  Erfiðleikastig 9.

22.-23. júlí. Vík í Mýrdal.  Hjólaðar eru dagleiðir í nágrenni Víkur.  Við munum skoða Þakgil, Litlu Heiði og Reynisfjöru.  Dagleiðirnar eru stuttar, 30 km, að mestu á möl og það er töluvert um brekkur.  Gist á tjaldsvæðinu í Vík og farið út að borða um kvöldið.  Góð aðstaða á tjaldsvæðinu, skáli þar sem hægt er að snæða inni, hita vatn og rista brauð. Fararstjóri er Hrönn. Erfiðleikastig 6.

Athugið að fólk er á eigin ábyrgð í ferðum Fjallahjólaklúbbsins og ekki tryggt hjá okkur.

Svipmyndir úr fyrri ferðum:

En hvað svo?

Það má vel vera að það verði fleiri ferðir, ef þú ert með hugmynd, hafðu þá samband, netföng og símanúmer stjórnar er að finna á heimasíðunni okkar, www.fjallahjolaklubburinn.is.  Við erum með kerru sem getur tekið 18 reiðhjól og erum alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt.  Aukaferðir verða auglýstar með góðum fyrirvara á póstlista ÍFHK og facebook síðunni. Helgarferðirnar eru opnar öllum félagsmönnum ÍFHK.

Spjall á facebook

Við erum með spjallhóp á facebook, hann heitir Fjallahjólaklúbburinn og þar er hægt að finna ferðafélaga og fá ráðleggingar um hvaðeina sem fólki dettur í hug þegar klúbburinn, reiðhjól og ferðalög eru annars vegar.