Félagsmenn ÍFHK fengu sent með Hjólhestinum Hjólabingó leikinn sem er ætlað að hvetja þá sem ekki hjóla til að prófa það, fræðast um kosti reglulegra hjólreiða og vonandi komast upp á lagið með að nýta sér þennan góða valkost.

Hjólabingó

Prófaðu að leysa hvert atriði á bingóspjaldinu og merktu við jafnóðum. Í hverri upplifun eru jafnframt fólgin verðlaun, njóttu þeirra vel.

Þegar þú hefur klárað allt spjaldið ættir þú að sjá hversu auðvelt það er að tileinka sér reglulegar hjólreiðar. Ef þú nærð að flétta hjólreiðum inn í daglegt líf þitt vinnur þú þér inn stærstu vinningana. Það þarf ekki að hjóla nema samtals í um 30 mínútur á dag og þó það sé minna hefur það strax drjúg áhrif á heilsuna.

 

Æska: Þeir sem hjóla reglulega hafa þrek á við þá sem eru 10 árum yngri.

Í rannsókn  Tuxworth W, Nevill AM, White C, Jenkins C, 1986 segir meðal annars: Áhrifaþáttur hjólreiða á líkamshreysti reyndist stærri en allar aðrar breytur tengdar lífsstíl sem kannaðar voru í rannsókninni. Líkamshreysti þeirra sem hjóluðu stundum mældist sambærileg þeirra sem voru fimm árum yngri en hjá þeim sem hjóluðu reglulega mældist líkamshreystin á við þá sem voru tíu árum yngri.

 

Hreysti: Þeir sem hjóla reglulega eru hraustari en hinir og áhrifin eru víðtæk.

Ekki aðeins veikjast þeir sjaldnar heldur hefur hreyfingin fyrirbyggjandi áhrif á lífsstílssjúkdóma nútímans s.s. ákveðnum krabbameinum, hjartasjúkdómum, ofþyngd og fl.þ.h.

 

Hamingja: Þeir sem hjóla reglulega erinda sinna eru ánægðari á ferðum sínum en þeir sem notast við aðra fararmáta.

Hreyfingin hefur líka áhrif á hamingjuna, þeir sem hana stunda eru líklegri til að finna hamingjuna. Einnig hættir þeim sem hjóla reglulega síður við þunglyndi og fleiri geðsjúkdómum.

 

Langlífi: Þeir sem hjóla reglulega lifa lengur og eru hraustari í ellinni.

Rannsóknir sýna að reglulegar hjólreiðar eru árangursríkasta leiðin til að lengja lífið, og það á líka við um fólk sem stundar aðra hreyfingu.

Þetta var t.d. niðurstaða einnar stærstu og vönduðustu rannsóknar á samgönguhjólreiðum hingað til þegar Copenhagen Center for Prospective Population Studies* fylgdist með um 30.000 körlum og konum á aldrinum 21 - 90 ára í 14 ár.

Það hefur jafnvel verið reiknað að fyrir hverja stund sem hjólað er lengist lífið sem því nemur. Það voru niðurstöður vísindamanna sem skoðuðu ferðavenjur 50.000 einstaklinga í Hollandi*. Þar í landi hjólar almenningur um 75 mínútur vikulega og er það fjórðungur allra ferða. Þeir nýttu sér m.a. HEAT reiknivél Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnarinnar.

2013 voru á málþingi Innanríkisráðuneytisins um samgöngumál og almenningssamgöngur kynntir útreikningar með þessari sömu reiknivél sem sýndu fram á að hjólreiðar á Íslandi kæmu í veg fyrir fimm ótímabær dauðsföll árlega og að heilsufarsávinningurinn næmi um einum milljarði á ári.

 

Hreysti á efri árunum

Í nýlegri könnun vísindamanna við King’s College London og The University of Birmingham, Englandi var hópur fólks á aldrinum 55 til 79 ára sem æfðu hjólreiðar reglulega valinn og mælt ýmislegt svo sem  þol, þrek, vöðvamassi, efnaskipti, jafnvægi, minni, viðbragð, beinþynning og fl. Enginn þessara mælikvaðra gáfu skýr merki um aldur viðkomandi og flestir mældust á við fólk sem var mikið yngra.

 

Bara korter til hálftími á dag

Almennt er ráðlagt að hreyfa sig sem nemur 30 mínútum daglega eða 150 mínútur í hverri viku en samkvæmt nýrri viðamikilli rannsókn frá Taiwan kom í ljós að þó hreyfingin sé aðeins 15 mínútur daglega hafi það veruleg áhrif á heilsuna og geti aukið lífslíkurnar um þrjú ár.

Fararmátinn hefur áhrif á vellíðan og heilsufar. Þeir sem hjóla eða ganga til vinnu líður betur en þeim sem keyra milli staða og sýndi það sig líka hjá þeim sem skiptu um fararmáta. Þetta voru niðurstöður Adam Martin hjá University of East Anglia sem rannsakaði gögn um 18.000 breta yfir 10 ára tímabil. Rannsóknin staðfesti jafnframt niðurstöður annara rannsókna um heilsufarsávinning hjólreiða og göngu.

* Allt eru þetta niðurstöður vandaðra rannsókna sem má lesa nánar um á vefnum hjólreiðar.is

Páll Guðjónsson

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016