Hjólað óháð aldri  - fáum vind í vangann
Hjólafærni á Íslandi – Cykling uden alder

Við mamma gengum saman á fjöll og fórum á skíði við hvert tækifæri. En eftir að hnéð sveik hana og hún þurfti að hætta sjálfstæðri búsetu, hefur dregið mjög úr sameiginlegri útivist okkar mæðgna. Hún elskar að komast í bíltúr, sem er auðvelt að bjóða og ég var hálft í hvoru búin að gleyma því hvað vindur í vanga og roði í kinnar væru henni líka mikilvæg upplifun.

á tvímenningshjóli

Útivist og hreyfing var móður minni ævinlega mikils virði.
Áður en að hnéið gaf sig, gátum við líka leikið okkur á tandemi.

Eftir að pabbi dó varð oft þyngra hjá mömmu. Einu sinni þegar hljóðið hafði verið dekkra lengur en oft áður og lítið gaman að vera til, þá bauð ég henni móður minni að tylla sér í kassann á frakthjólinu mínu og fékk leyfi til að hjóla með hana þannig um bæinn í stað þess að fara á bílnum.

Ferðin tók 25 mínútur. Við mamma hlógum allan tímann. Það var vor í lofti og hún fékk vind í vanga og roða í kinnar og svaf eins og engill næstu nótt. Vaknaði flissandi og hringdi í mig til að fara yfir það hversu skemmtilegt hafði verið hjá okkur.

Því miður bilaði hjólið skömmu síðar og hefur ekki verið til friðs síðan svo ferðir okkar mömmu urðu ekki fleiri á því um bæinn.

Þegar ég heyrði Ole Kassow segja frá því á TedEx myndbandi hvernig hann og Torkild urðu hjólavinir og til varð Cykling uden alder, fann ég um leið að þarna var nýtt tækifæri sem Hjólafærni ætti að setja krafta sína í. Cykling uden alder skyldi líka koma til Íslands og við mamma og ótal fleiri í hennar sporum, skyldu komast aftur út að hjóla.

Hjólafærni á Íslandi (HFÍ) gekk til formlegrar samvinnu við Cykling uden alder (CUA) um að innleiða verkefnið á Íslandi og heitir það á íslensku Hjólað óháð aldri (HÓA). HÓA hefur frá því það varð til í Kaupmannahöfn árið 2012, notið fádæma hylli um alla Danmörku og starfsemi hreyfingarinnar breiðist hratt út um allan heim. Í dag er HÓA til í yfir 20 löndum á fleiri hundruð hjúkrunarheimilum.

Markmið HÓA er að rjúfa einangrun og efla lífsgæði vistmanna á hjúkrunarheimilum með því að gefa þeim kost á að fara út að hjóla, fá vind í vangann og roða í kinnarnar.

Hjólað óháð aldri

Sitjum þétt saman, hlæjum og njótum.

Síðastliðið haust komu fyrstu þrjú hjólin til landsins. Það er létt að hjóla á þeim þar sem þau eru með rafknúinn hjálparmótor og lögð er áhersla á rólegar hjólreiðar, fara hægt um og njóta útivistarinnar saman. Hjúkrunarheimilin Sóltún, Mörk og Sunnuhlíð eru heimili þessara hjóla, sem fengu satt að segja frábærar móttökur í samfélaginu og prýddu fimmtu sekúndu í inngangi kvöldfrétta RÚV lengi vel í vetur.

Hjólað óháð aldri

Hjólum óháð aldri – fáum vind í vanga og roða í kinnarnar.

Í samvinnu við starfsmenn heimilanna, þær Kristínu, Bryndísi, Þórdísi, Hildi og Þórdísi, höfum við verið að fikra okkur áfram með reglur varðandi hjólin. Við höfum velt upp alls konar áhyggjum og leitað lausna, skoðað tryggingamál, spáð í kuldann, innkomu á heimilin fyrir utanaðkomandi og umsjón og aðstöðu fyrir hjólin. Kjarkurinn til að nota þau yfir kaldasta tímann, hefur ekki verið mikill en við hlökkum til hækkandi sólar og vorsins – þá verður sannarlega farið út að hjóla helst með öllum þeim 30 sjálfboðaliðum úr nágrenni hjúkrunarheimilanna sem hafa gefið sig fram og óskað eftir þátttöku í verkefninu sem Hjólarar. Svo er líka að virkja aðstandendur vistmanna og starfsmenn. Hvert hjól þarf sinn Hjólastjóra, sem sér um þjálfun nýrra Hjólara og hefur yfirumsjón með hjólinu.

Á Höfn, í Garðabæ og á Sauðárkróki var um miðjan vetur búið að safna fyrir hjólum til að gefa hjúkrunarheimilum staðanna. Fjölmargir aðrir hafa sett sig í samband við Hjólafærni og lýst yfir áhuga á að vera með í verkefninu, bæði að fá til sín hjól og vera virkir Hjólarar.

Ég hvet eindregið alla betri hjólreiðamenn landsins til að koma og vera með okkur sem Hjólarar um allt land. Fjallahjólaklúbburinn á þegar einn góðan Hjólastjóra í Sunnuhlíð, Björn Aðalsteinsson og fljótlega verður þörf fyrir fleiri Hjólara og Hjólastjóra. Með HÓA byggjum við samfélagslegar brýr. Brýr þar sem nágrannar mega taka virkan þátt í starfi hjúkrunarheimilanna, brýr þar sem aðstandendur og heimilismenn geta aftur notið þess að líða um á slóðum endurminninganna, brýr þar sem við sjáum og munum eftir að það er fólk á öllum aldri í okkar samfélagi og allir eiga að fá að njóta þess að hjóla óháð aldri – fá vind í vanga og roða í kinnarnar.

Vertu velkomin/n í lið með okkur!

 

Hjólafærni á Íslandi

Hjólafærni á Íslandi var stofnað formlega í apríl 2011 og er fræðasetur um samgönguhjólreiðar. Félagið var tilnefnt til Samgönguviðurkenningar Reykjavíkurborgar í Evrópsku samgönguvikunni 2012 í flokki félagasamtaka.

Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastýra Hjólafærni, hlaut Samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2014 í flokki frumkvöðla fyrir góðan árangur og aðgerðir sem hvetja til hjólreiða sem samgöngumáta.

Netfang HFÍ er This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Höfundur: Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastýra Hjólafærni á Íslandi

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016