Það var í Rangárvallasýslu sem hjólaferill minn hófst með harmkvælum. Eldri bróðir minn píndi mig til að læra á þetta fjárans apparat sem var ákaflega valt þegar ég sat á því. Þetta hafðist að lokum og kom sér vel síðar meir, þegar ég var við nám í marflatri þýskri borg sem státaði af hjólreiðamenningu. Með tímanum fékk ég svo hjólabakteríu sem grasserar mestan hluta ársins á vestfirskum fjallaslóðum og snjósköflum.

Stundum, einkum á sumrin, fer ég víðar um landið til að svala ferðafýsn minni og hjólaáráttu. Þá er ég oftast að safna efni í Hjólabækurnar mínar. Í fyrra var ég í Árnessýslu en nú er ég kominn á mínar fornu slóðir, Rangárvallasýslu. Ó, hve það er gaman að upplifa þetta svæði upp á nýtt. Sami maður og sami staður en hvort tveggja hefur breyst einhver ósköp. Og svo þessi breyting á hraða, sjónarhornum og upplifun sem fylgir því að nota reiðhjól sem farartæki. Ég var ósvikinn túristi í minni gömlu heimabyggð og naut þess. Ég fór á marga staði  sem ég hafði aldrei komið á áður af því ég hafði aldrei átt beint erindi þangað. Túristinn þvælist um í unaðslegu erindisleysi.

Það er svo sannarlega hægt að njóta þess að þvælast um á hjóli í þessari sýslu. Ólíkt nágrannasýslunni í vestri, er víðast hvar pláss á vegum Rangárvallasýslu fyrir hjólreiðafólk. Bílaumferðin er hvergi verulega þung nema á þjóðvegi nr. 1, margir fáfarnir sveitavegir, ýmist með malbiki eða möl, og sumstaðar hagar svo til að hægt er að hjóla tímunum saman án þess að lenda í einni einustu brekku. Afréttir sýslunnar eru alger draumur. Þá á ég ekki við að allar leiðir þar séu greiðfarnar. Sumstaðar er laus sandur og víða er yfir ár að fara og á helstu leiðum til Landmannalauga er óþægilega mikil og rykmenguð bílaumferð. En þetta er bara svo óborganlega fallegt, þið afsakið hlutdrægnina.

Það má finna slatta af hjólanlegum slóðum í Rangárvallasýslu sem ekki eru bílvegir, eins og til dæmis Laugavegurinn sem er göngustígur  Það er mjög mikil hestamennska iðkuð í sýslunni og sumar reiðleiðir eru ákjósanlegar hjólaleiðir ef ítrustu tillitssemi er gætt.

Það er vonandi bara tímaspursmál hvenær  góður hjólastígur kemur meðfram þjóðvegi nr. 1 og sýslan öll verði þar með orðin góð hjólasýsla. Því trúi ég vegna þess að Ísland vill vera hluti af EuroVelo kerfinu. Búið er að velja leiðina og hún liggur m.a. í gegnum Rangárvallasýslu, eftir nefndum þjóðvegi. Umferðarþunginn á honum er hinsvegar meiri en staðlar leyfa. Sem sagt, hjólastíg í gegnum Rangárvallasýslu eða ekkert EuroVelo. Sveitarstjórinn í Rangárþingi eystra, Ísólfur Gylfi, er forfallinn hjólreiðaáhugamaður (er t.d. aðal hvatamaður að Tour de Hvolsvöllur). Hann er búinn að æsa aðra sveitarstjóra til að fara að gera eitthvað í málunum.

Það má sem sagt mæla með Rangárvallasýslu fyrir fólk sem hefur nautn af því að ferðast um á reiðhjóli og það á trúlega bara eftir að  batna.

Ómar Smári ásamt ferðamönnum frá Frakklandi og Póllandi. Fjallaþyrpingin að baki heitir Norðurnámur.

Höfundur ásamt ferðamönnum frá Frakklandi og Póllandi. Fjallaþyrpingin að baki heitir Norðurnámur.

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016