Upp með metnaðinn!

Það er kominn tími til þess að skilja að hjólandi  lúta ekki sömu lögmálum og akandi eða gangandi í skipulagningu innviða fyrir hjólreiðar. Þarfir hjólandi eru einfaldlega aðrar en gangandi og akandi, ekki síst vegna annars ferðahraða. Við uppbyggingu hjólaleiðanets hefur víða verið lögð áhersla á að koma upp innviðum meðfram helstu umferðaræðum, t.d. eru í Kaupmannahöfn hjólabrautir meðfram öllum helstu götum.

Stefnuskrá Landssamtaka hjólreiðarmanna (LHM, sjá http://www.lhm.is/lhm/barattumalin) segir gatnakerfið henta vönu hjólafólki best til samgangna. Það er vissulega mjög mikilvægt, eins og kemur fram í stefnuskrá  LHM að leiðir séu «samfelldar, án óþarfa útúrdúra og fari eins stutta leið og hægt er». Oft, þó það sé engin algild regla, uppfylla hjólaleiðir meðfram umferðaræðum upptöld skilyrði um virkni. Það eru hins vegar fleiri mikilvægir þættir sem hafa áhrif á hversu ánægjuleg upplifun það er að ferðast um á hjóli og ég vil fjalla um hér um leið og ég velti upp þeirri spurningu hvort ekki sé rétt að setja markið hærra til þess að Höfuðborgin verði alvöru hjólaborg ! 

Vegna tiltölulega lítils ferðahraða skynar hjólandi umhverfið af mikilli næmni. Sjón, lyktarskyn og heyrn vinna saman ásamt hreyfiskynjun sem er sérstaklega mikilvæg þegar hjólað er. Halda þarf jafnvægi á hjólinu, stíga pedalana með jöfnum takti og beina augunum fram á við til að gæta að því sem fram fer í umhverfinu. Talað hefur verið um að kjöraðstæðum sé náð þegar tilfinning fyrir svokölluðu ”flæði” myndast, þannig að sem minnst orka fari í að stíga reiðhjólið áfram.

Þó að það sé mikilvægt að leiðir hjólafólks séu í einhverjum skilningi «samkeppnishæfar þeim leiðum sem ökumönnum er boðið upp á » eins og segir í stefnuskrá LHM, þá er ekki endilega samasemmerki á milli þess og að gatnakerfið henti alltaf best til hjólreiða. Niðurstöður rannsóknar sem greinarhöfundur vann og eru hluti doktorsritgerðar leiddu í ljós að hjólaleiðir meðfram þyngri umferðaræðum höfðu oft mikla kosti tengt virkni en ókosti tengt fegurðarskynjun [heimildir 3,4,5].

Mynd 1. Nýja Hringbraut þótti hafa ýmsa góða kosti tengt virkni en nálægðin við umferðina dró
verulega úr ánægju skv. niðurstöðu úr könnun greinarhöfundar [3].  ©Harpa Stefánsdóttir 2011

Leiðarval felur í sér yfirvegað mat á mörgum þáttum m.a. um ásættanlega virkni og hefur með tilgang ferðar að gera. Einungis er hægt að velja meðal þeirra leiða sem eru færar að áfangastað hverju sinni. Talningar á vinsældum hjólaleiða gefa því aðeins mynd af því hve margir töldu viðkomandi leið skásta af því sem í boði var en gefa ekki til kynna hvað hjólreiðafólk hefði helst óskað sér. Niðurstöður úr ýmsum rannsóknum benda til þess að ferðatilgangur fólks sem hjólar í samgönguskyni sé oftast samofin ósk um aukin lífsgæði en þá hafa aðrir þættir en virkni vægi. Það er því rökrétt að hjólandi fólk velji ekki endilega alltaf stystu leiðina að áfangastað. Stundum er farin sú sem tekur stystan tíma, en í öðrum tilfellum sú sem á heildina litið gefur besta upplifun [4].  Þar er með talið að leiðin gefi góða tilfinningu t.d. sé kyrrlát eða falleg. 

 

Viðmið fyrir hönnun hjólaleiðanets

Þeir sjö megin þættir sem koma til álita þegar meta á gæði hjólaleiða varða 1) vegalengd, 2) krókstuðul og greiðfærni, 3) samfelldni og þveranir, 4) öryggi, 5) þægindi, 6) umhverfi og 7) þjónustu og götugögn [1,2]. Vegalengd þarf að vera sem styst milli helstu áfangastaða. Leitast skal við að hafa hjólaleiðir með sem minnstum útúrdúrum (mælt með krókstuðli) og sem greiðfærastar, byggðar upp með sem lengstum samhangandi leiðarhlutum þannig að hægt sé að ná jöfnum hraða með lágmarks töfum (flæði). Hjólaleiðir ættu að vera auðrataðar með samfelldum gæðum og með samræmdri hönnun alla leið að helstu áfangastöðum. Fyrirkomulag þverana er því mjög mikilvægt s.s. um gatnamót og yfir eða undir götur fyrir vélknúin ökutæki. Leitast skal við að láta þann hjólandi erfiða sem minnst með t.d. lágmarks hæðamun. Eftir því sem umferðarhraði vélknúinna ökutækja eykst verður æskilegra að aðskilja hjólandi umferð frá til að gæta öryggis. Einnig er mikilvægt að geta valið um hentuga leið í myrkri sem er vel upp lýst. Yfirborð það sem hjólað er eftir þarf að vera sem sléttast, vel við haldið, beygjur aflíðandi og í eins litlum landhalla og kostur er til að stuðla að því að upplifun þess hjólandi verði sem þægilegust.  Þannig skal forðast að leggja á hjólreiðarfólk óþarfa áreynslu. Ýmsar lausnir eru til þess að bæta gæði hjólaleiða tengt upptöldum þáttum, en þeir tengjast allir virkni hjólaleiðarinnar (sjá mynd 2).

Mynd 2. Efri:Stutt og breið undirgöng í Malmö með aflýðandi aðkomu. Hæðabreyting er verulega mikið minni
í undirgöngum heldur en þar sem brýr eru, því þarf hinn hjólandi að erfiða minna, auk þess sem undirgöng
skýla betur í roki og rigningu. Neðri: Þverun gatnamóta í Óðinsvéum. ©Harpa Stefánsdóttir 2011

Síðasti þátturinn og sá sem oft hlýtur minnsta athygli en er ekki síst mikilvægur er að hjólaleiðir liggi um aðlaðandi umhverfi til að stuðla að ánægjulegri upplifun þegar hjólað er, ekki bara vegna frístundahjólreiða heldur einnig þegar hjólað er í samgönguskyni. Niðurstöður rannsókna sem greinarhöfundur vann á upplifun hjólreiðarfólks í Reykjavík, Þrándheimi og Óðinsvéum árið 2011 sýndu að fegurðuarupplifun gegndi mikilvægu hlutverki tengt hjólreiðum þeirra í samgönsuskyni [3,4,5].  Í öllum borgunum þremur var besti hluti hjólaleiðar til og frá vinnu oftast tengdur því að fara frá akandi umferð inn í rólegra, hljóðlegra og grænna umhverfi.  Versti hluti leiða var hins vegar um mjög bílmiðað umhverfi og reyndist nálægð við akandi umferð oft valda óþægindum vegna hávaða og mengunar.  Niðurstöðurnar bentu einnig til að fegurðarupplifun væri samofin virkni hjólaleiðarinnar, fegurðarskynjun nær t.d. hámarki þegar góðu flæði er náð.  Þeir leiðarhlutar sem voru mest metnir voru því samtímis greiðfærir og fallegir (sjá mynd 3).

Fossvogsdalur

Mynd 3. Fossvogsdalurinn er gott dæmi um leiðarhluta fjarri umferð sem er bæði greiðfær og í fallegu umhverfi.
Hægt er að hjóla fremur langa vegalengd með jöfnu flæði.Vegna þessara kosta var leiðin sérlega mikils metin skv. niðurstöðum rannsóknar greinarhöfundar. ©Harpa Stefansdottir 2011

 

 

Hjólaleiðanet fyrir hverja

Þarfir hjólreiðarmanna eru mismunandi eftir tilgangi með hjólaferð og hjólafærni. Að stuðla að ánægju hjólreiðarfólks með því að bjóða upp á hágæða aðstöðu til hjólreiða fyrir sem flesta er grundvallaratriði til að hámarka fjölda þeirra sem hjóla.  Ánægðara hjólreiðarfólk er líka líklegra til að hjóla oftar og lengra. Tilgangur hjólaferðar er í aðalatriðum af tvennum toga, þ.e. til afþreyingar eða í samgönguskyni. Hjólaferð í samgönguskyni felur í sér ferð til einhvers ákveðins áfangastaðar s.s vinnu, skóla eða verslunar. Þá er ferðatími, ekki síst komutími á vinnustað, mjög mikilvægur.  Ferðir til og frá vinnu eiga sér stað á megindráttum á morgnanna og síðdegis þegar umferð almennt er í hámarki.  Ferð sem afþreying felur í sér hjólaferð ferðarinnar vegna, s.s skoðunarferð, leik barna eða til heilsueflingar. Tilgangur getur líka verið samsetning fleiri markmiða t.d. foreldri sem ætlar að skila eða sækja barn á barnaheimili á leið til eða frá vinnu eða versla á leiðinni heim.

Tilgangur hjólaferðar og hjólafærni hafa áhrif á væntingar gagnvart hjólaleiðinni, þ.e. hvað hinn hjólandi þarf og hvaða þættir vega þyngst þegar velja á hjólaleið. Rannsóknir sýna að aðskildar hjólabrautir eða reinar eru mikilvægari fyrir fólk með lágmarks hjólafærni [6,7]. Vanir hjólreiðarmenn, þ.e. með mikla hjólafærni hafa frekar neikvæðari upplifun af stöðvunarmerkingum, en þá er ferðatími sérlega mikilvægur [8]. 

 

Mótum hjólaborg af metnaði

Ef það er ánægjulegra að hjóla um gróðursæl svæði, hlusta á fuglasöng, lykta af laufi og horfa yfir vatn og gróður, af hverju ættum við þá að sætta okkur við að hjóla í umferðarhávaða, loftmengun og horfa á malbikseyðimerkur?  Fyrri atriði eru mikils metnir umhverfiseiginleikar á hjólaleiðum samgönguhjólreiðarfólks skv. rannsóknum greinarhöfundar en þau seinni atriði sem tengdust neikvæðri upplifun.  Er ekki rétt að setja markið hærra og móta hjólaleiðir sem eru bæði með góða virkni og í fallegu umhverfi?  Séu akreinar teknar frá bílaumferð verður umhverfið strax minna bílmiðað en áður, með styttri vegalengdir til að þvera götur, meira pláss fyrir gróður, minni hávaða og mengun.

Nokkrar nýungar hafa sprottið upp í mótun og skipulagningu hjólaleiða í borgum síðustu ár.  Sem dæmi má nefna græna hjólaleiðanetið í Kaupmannahöfn en skipulagning þess hófst 2006. Grænu leiðirnar mynda samhangandi leiðanet hjóla- og göngustíga gegnum opin útivistarsvæði, græn svæði, meðfram strandlengjum og vatnasvæðum. Oft eru hjáleiðir notaðar til að tengja saman leiðahluta. Leitast er við að velja bíllaust umhverfi eftir því sem kostur er við skipulagningu og forðast götur með þungri umferð.  Lögð er áherslu á öruggar og þægilegar þveranir, t.d. um brýr eða með aðstoð sértækra umferðarmerkinga. 

Græna hjólaleiðanetið í Kaupmannahöfn

Mynd 4. Græna hjólaleiðanetið í Kaupmannahöfn. ©Harpa Stefansdottir 2011

Áhugi fyrir því að skipuleggja og byggja upp svokallaðar hraðleiðir er víða að aukast um þessar mundir (e. Express routes, Bicycle superhighway).  Markmiðið með þessum leiðakerfum er að hvetja fólk til að ferðast lengri vegalengdir til og frá vinnu. Um er að ræða hágæða samhangandi og mjög greiðfærar hjólaleiðir fyrir háan hraða á hjóli (allt að 40 km/klst) í rólegu umhverfi ætlaða samgönguhjólreiðarfólki til að komast lengri vegalengdir (5-20 km) milli mikilvægra áfangastaða.  Við hönnun þessa leiðakerfis er lögð áhersla á að hjólreiðafólk geti haldið jöfnum hraða og því er leitast við að finna lausnir á gatnamótum til þess að sem minnst verði um stöðvanir eða þörf til þess að hægja á sér.

Það má ljóst vera af framansögðu að mikilvægt er að bjóða upp á gott hjólaleiðakerfi sem uppfyllir sem best viðmiðunarþættina um hönnun, ekki bara hvað varðar virkni heldur líka fallegt umhverfi. Sams konar leiðakerfi henta ekki alltaf fyrir akandi, gangandi og hjólandi og það er alls ekki hentugt að hanna leiðakerfi fyrir reiðhjól á forsendum einkabílsins. Það er mikil áskorun falin í því að tengja saman falleg svæði með flýtileiðum sem heimila aðgengi hjólandi umfram akandi og þar sem möguleikar á «flæði» eru sem bestir.  Til þess þarf að fara að skoða kort og prófa nýja hluti. Maður kynnist ekki möguleikum borgarinnar út um bílgluggann. Hvernig væri t.d. að halda hönnunarsamkeppni um grænt leiðakerfi innan Elliðaáa?  Hvernig skyldi skemmtilegasta, greiðfærusta, stysta og mest samhangandi leiðin frá Kringlumýrarbraut að Suðurgötu líta út? Hvar er hentugast að staðsetja hraðleiðarkerfi þar sem væri alltaf skafið og aldrei þyrfti að stoppa á leiðinni? Leyfum okkur að hugsa lengra og hvetjum til aukins metnaðar svo Höfuðborgin verði nú alvöru hjólaborg!

 

Heimildir:

1. Cycle network and route planning guide. (2004). Retrieved from New Zealand: www.ltsa.govt.nz

2. Harpa Stefánsdóttir. (2013). Skipulag og vistvænar samgöngur: samantektarskýrsla.. https://issuu.com/betri_borgarbragur/docs/vistvaenar-samgongur_samantektarsky

3. Harpa Stefansdottir (2014a). Features of urban spaces and commuting bicyclists’ aesthetic experience. Nordisk arkitekturforskning, 26(1).

4. Harpa Stefansdottir (2014b). Pleasureable cycling to work - Urban spaces and the aesthetic experience of commuting cyclists. (PhD), Norwegian University of Life Sciences, Ås.   (2014:55)

5. Harpa Stefansdottir (2014c). Urban routes and commuting bicyclist’s aesthetic experience. FORMakademisk, 7(2).  https://journals.hioa.no/index.php/formakademisk/article/view/777

6. Hunt, J. D., & Abraham, J. E. (2007). Influences on bicycle use. Transportation, 34(4), 453-470.

7. Pucher, J., & Buehler, R. (2009). Cycling for a few or for everyone: The importance of social justice in cycling policy. World Transport Policy and Practice, 15(1), 57-64. 

8. Stinson, M. A., & Bhat, C. R. (2003). Commuter bicyclist´s route choice: Analysis using a stated preference survey Transportation research record, 1823, 107-115. doi:10.3141/1828-13

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016