Þessi vetur er sjötti veturinn sem Landssamtök hjólreiðamanna og Hjólafærni á Íslandi hafa farið í vikulegar hjólaferðir frá Hlemmi á laugardagsmorgnum en fyrstu ferðirnar voru farnar haustið 2010. Byrjað er í samgönguviku í september og hjólað vikulega til loka nóvember, hlé gert í desember og byrjað aftur í janúar og síðasta ferðin er síðasta laugardag í apríl. Mæting er við Hlemm kl. 10 en lagt af stað um kl. 10:15.

Hjólaðar eru mismunandi leiðir um borgina og höfuðborgarsvæðið eftir rólegum götum og stígum í 1-2 klst. Vikulegar upplýsingar um ferðirnar birtast á Facebook síðu LHM. Þær eru ókeypis og allir velkomnir. Allir sem kunna að hjóla eiga að geta tekið þátt. Meðalhraði fer eftir hægasta manni og er oftast á bilinu 10-15 km/klst. Hjólaðir er um 10-20 km í flestum ferðunum, sem er ekki erfitt. Þegar vetrar og dimmir þarf að gera ráð fyrir hlýjum og skjólgóðum fatnaði og að hafa ljós að framan og aftan. Í hálku er öryggi í nagladekkjum á hjólinu.

Þessar ferðir voru hugsaðar sem mótvægi við þriðjudagsferðir Fjallahjólaklúbbsins, sem byrja í maí og enda í byrjun september. Þessi tími á laugardagsmorgnum var valinn til að sem flest fullorðið fólk gæti mætt og verið búið um hádegi og eftir það átt daginn fyrir sig við aðra iðju. Þannig ætti t.d. fjölskyldufólk að geta komið en samt haft tíma fyrir sund með börnunum eftir hádegi. Þá var einnig hugsað til birtunnar en það er jú bjartara að morgni heldur en að kvöldi að vetrarlagi. Hlemmur var valinn þar sem hann er miðpunktur almenningssamgangna og því auðvelt að koma með hjólið í Strætó fyrir þá sem koma lengra að.

Markmiðið með ferðunum er að hittast og sjá og læra af öðrum hjólreiðamönnum hversu auðvelt er að hjóla í borginni. Áherslan er á samgönguhjólreiðar og mikið lagt upp úr spjalli og að fara rólega yfir. Í upphafi ferðar er farið yfir með nýju fólki hvernig öruggast er að hjóla í hóp, hvar við staðsetjum okkur á götum og stígum, gefum merki o.s.frv. Fyrirvari er um að menn hjóla á eigin ábyrgð og fari eftir umferðareglum en fylgi ekki öðrum í blindni t.d. þegar ljós skiptir úr grænu í rautt.

Reynslan hefur verið góð. Á þessum sex vetrum hefur aðeins ein ferð fallið niður vegna veðurofsa. Veðrið spilar auðvitað stóra rullu í aðsókninni. Fleiri koma í góðu veðri og þegar er frostlaust og gott færi. Seglum er líka hagað eftir vindi í fararstjórn. Ef það er slæm færð er hjólað í miðborginni þar sem er betur rutt og minni snjór en þegar gefur er farið lengra, í úthverfin og nágrannasveitarfélögin. Flestir sem koma nota orðið nagladekk þannig að öryggi í hálku er eins og best verður á kosið.

Í lok ferðar er hápunktinum náð að margra mati því þá er farið í kaffi, oftast í bakarí eða kaffihús en stundum í heimahús. Stundum er ákveðið þema í ferð eða gestum boðið með. Í ferðirnar hafa m.a. komið lögreglustjórinn í Reykjavík, forstjóri Samgöngustofu, ýmsir sveitarstjórnarmenn og erlendir gestir á ráðstefnum og fundum. Nýjir stígar hafa verið skoðaðir, misgreiðfærar leiðir milli sveitarfélaga kannaðar og meira að segja kafað í bílastæðahúsin í borginni og í Kópavogi.

Menn verða aldrei of gamlir til að leika sér og kanna ótroðna stígu. Endilega komið með frá Hlemmi.

 

www.facebook.com/LandssamtokHjolreidamanna/

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016