Undanfarin ár hef ég heimsótt Stokkhólm nokkrum sinnum og hjólað um borgina.  Stokkhólmur er höfuðborg Svíþjóðar og stendur á þurrlendi og eyjum milli stöðuvatnsins Mälaren og Eystrarsalts. Borgin hefur verið kölluð Feneyjar norðursins vegna náins sambýlis við vatn og eru leiðir úr norðri og suðri á fáum brúm sem takmarka leiðaval. Hún er falleg og mjög gaman að skoða hana hjólandi. Þar er margt að sjá t.d. byggingar, söfn, skemmtigarðar, baðstrendur og verslanir. Umhverfis borgina eru mörg úthverfasveitarfélög sem einkennast af nokkuð dreifðri íbúðabyggð með þéttbyggðum kjarna þar sem er járnbrautarstöð ásamt verslun og þjónustu. Það var í einu slíku sveitarfélagi sem ég gisti hjá systur minni sumrið 2013 og hjólaði inn til miðborgarinnar eins og ég hef gert margoft. Í þetta sinn hjólaði ég í gegnum borgina og í heimsókn til annars úthverfasveitarfélags. Hjólið sem ég notaði var gamalt 21 gíra fjallahjól, sem ég fékk lánað.

Leiðin lá frá Sollentuna um 20 km norður af Stokkhólmi og til Haninge um 20 km suður af borginni. Leiðin lá eftir skipulagðri leið  í gegnum miðborgina að heita má óslitið þessa 40 km, að mestu á blönduðum göngu- og hjólastígum, annað slagið á götum með lítilli umferð utan þéttbýlis en þó nokkuð á hjólareinum í miðborginni. Svíar leyfa ekki hjólreiðar á gangstéttum en þó er stór hluti stígakerfisins merktur með boðmerki fyrir reiðhjól ásamt göngumerki og því er útkoman ekki ósvipuð og hér heima, að umferð gangandi og hjólandi er blandað saman. Umferð gangandi var ekki mikil og ekki til trafala enda ganga menn síður langar leiðir milli sveitarfélaga. Þetta var þó á miðjum virkum degi  og kannski er meiri umferð á annatíma. Bygging og viðhald stíganna var víðast hvar í lagi. Nokkuð var um skerta sýn fram á stíginn og var ég næstum því lentur framan á öðrum hjólreiðamanni á einum stað. Hjólareinarnar í miðborginni eru frekar mjóar og á nokkrum stöðum taka þær erfiðar beygjur í vegsniðinu þvert fyrir akandi umferð til að skáka hjólandi yfir veginn. Ekki þægilegt fyrir óvana en þessum leiðum má sleppa og nota frekar stíga sem víðast liggja umhverfis eyjarnar i borginni. Norðan og sunnan við Stokkhólm stóðu yfir framkvæmdir við stofnvegi og rataði ég sæmilega greiðlega í gegnum þær enda leiðin merkt. Leiðarvísamerkingar voru til staðar víðast hvar  en gætu þó verið betri, a.m.k. tókst mér að villast sunnan við borgina á milli Huddinge og Haninge. Með GPS-app í símanum villist maður þó aldrei en þarf að stoppa og skoða kortið.

Á heimleið seint um kvöldið tók ég pendeltåget eða úthverfalestina en það má taka reiðhjól með í hana utan annatíma en reiðhjól eru þó óvelkomin á Centralen - aðalbrautarstöðinni. Samgöngur eru nokkuð tímafrekar í Stokkhólmi, sem kemur ekki að sök í sumarfríi en það tók mig rúma tvo tíma að hjóla þessa 40 km milli húsa í þessum úthverfum. Lestarferðin  tekur lítið styttri tíma. Fyrst þarf að koma sér á brautarstöðvarnar sem tekur um 30 mín. samtals, gangandi eða með strætó og lestarferðin tekur ríflega 60 mín. með bið og einum lestarskiptum.

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016

Smellið á fyrstu myndina til að sjá hana í fullri stærð ásamt skýringartexta og fléttið svo áfram.