Ég vakna upp á gjörgæslunni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Það tekur svolitla stund að síast inn í vitund mína hvar ég er stödd og hvers vegna. Svo átta ég mig á því að ég er að vakna eftir aðgerð á hné. Ég reyni að hreyfa fótinn en finn ekki fyrir honum. Mín fyrsta hugsun er: „Ég skal upp á lappirnar aftur.“ Ég hafði farið úr liði á hné. Við það skaddaðist æð sem nauðsynlega þurfti að loka. Liðbönd voru ónýt eða eydd og heim fór ég með þau skilaboð að ég þyrfti að mæta fljótlega í æðaaðgerð.

Úr því varð þó ekki því í fyrri meiðslum á hnénu hafði ég myndað það sem Haraldur Hauksson, skurðlæknir kallaði fjallalæki. Hann hristi höfðið yfir þessu, kvaðst ekki hafa séð þetta áður og aldrei fengið sjúkling á mínum aldri með svipaðan áverka.

Við tók sjúkraþjálfun í heimabæ mínum Egilsstöðum. Ég var fljót að átta mig á því að þó ég væri ekki góð til gangs þá átti ég auðvelt með að hjóla. Því ákvað ég fljótlega að fá mér þríhjól vegna þess að ég hafði ekki lært að hjóla sem barn.

Nú hófst leit á netinu og á endanum rakst ég á þríhjól hjá Stoð, sem er þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði í Hafnarfirði. Það vildi svo til að ferma átti barnabarn mitt sem búsett er þar og notaði ég tækifærið og leit á gripinn í leiðinni.

Ég kolféll strax fyrir „Viktoriu“ sjö gíra dökkgrænum sérsmíðuðum gæðingi úr smiðju Jørn Iversen í Rødekro í Danmörku, en í mínum huga er það land Mekka hjólreiðamanna. Einnig var til sams konar hjól með rafmagnsmótor sem ég var hvött til að kaupa , bæði af sjúkraþjálfaranum og aðstandendum. En það tók ég ekki í mál. Ég var ákveðin í að fram að sjötugu skyldi ég ferðast fyrir eigin afli. Því má svo við bæta að þegar sjötugsafmælinu var náð framlengdi ég það markmið fram að 75 ára afmælinu.

Til að gera langa sögu stutta þá gengu kaupin eftir. Í fallegu veðri um miðjan maí árið 2009 kom hjólið með flutningabíl í Egilsstaði og ég hjólaði út í umferðina þá 64 ára að aldri. Þess má geta að sjúkraþjálfarinn minn, sem er ástríðufullur hjólreiðamaður, fylgdi mér úr hlaði og gaf mér góðar ráðleggingar.

Viktoría er hönnuð fyrir fatlað fólk og það er stutt upp á pedalana. Það kom sér vel fyrir mig, því framan af var ég með svokallaðan „dropfót“ sem ég þurfti að toga upp á pedalann. Ég gleymi seint þessum fyrsta hjólreiðatúr. Eftir að hafa haltrað um í marga mánuði var ég allt í einu komin á það sem mér fannst vera blússandi ferð. Upplifunin minnti mig helst á útreiðartúra sem ég stundaði á unglingsárum. Ég man að það flaug í gegnum hugann. „Ég verð að skrifa um þetta, fólk í sömu aðstæðum og ég verður að frétta af þessum möguleika.“ Af því hefur þó ekki orðið fyrr en nú að ég er sest við lyklaborðið.

Í vor verða sjö ár liðin frá því ég eignaðist „Grænu merina“ eins og ég kalla hjólið mitt. Saman höfum við átt ótal ánægjustundir og segja má að ég fari allra minna ferða hjólandi á meðan veður og færð leyfir. Egilsstaðabær er byggður á ásum og því töluvert um brekkur. Fyrir sprækari hjólreiðamenn skipta þær litlu máli, en fyrir mig og mína Grænu meri, sem báðar erum í þyngri kantinum, eru þær töluverð áskorun. Við látum líka eftir okkur lengri ferðir út í nágrannasveitirnar..

Ég held að það að eignast þetta hjól hafi skipt miklu máli fyrir heilsu mína. Í dag get ég farið í styttri göngutúra og ég finn að fjallalækirnir mínir eru enn að eflast og dafna, fyrir utan hvað þessi hreyfing er holl fyrir hjartakornið og upplífgandi fyrir sálina.

Sem stendur njótum við hjónin lífsins á Spáni. Græna merin stendur við stallinn heima en hér hef ég tekið til kostanna gráan gæðing, gamalt sendisveinshjól, sem kunningi okkar keypti fyrir mig á markaði. Auðvitað kalla ég það Rosinante eftir hinu frægu hrossi Don Kíkóti. Hér hentar landið vel til hjólreiða og á hverjum morgni hjólar maðurinn minn ásamt félögum sínum langa túra. Við Rosinante tökum það hins vegar frekar rólega og höldum okkur við nágrennið. 

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016