Vegir liggja til allra átta, en hvaða leið er best að hjóla?

Þegar bíllinn er skilinn eftir heima og hjólað af stað opnast nýr heimur undir berum himni með nýjum valkostum og það getur verið mikið ævintýri að upp­götva nýjar leiðir um borgina. Má þar nefna leiðina meðfram suðurströnd Reykjavíkur inn í Fossvog og alla leið upp í Heiðmörk þar sem hægt er að forðast samneyti við bílaumferð að mestu alla leið. Einnig er hægt að hjóla á móti umferð í einstefnugötum uppi á gangstétt eða þar til gerðum hjólastígum.

Skemmtilegast getur verið að uppgötva þessar leiðir í góðum félagsskap t.d. í rólegu þriðjudagskvöldferðunum okkar í Fjalla­hjóla­klúbbnum á sumrin eða ferðunum á laugardagsmorgnum sem Landssamtök hjól­reiða­manna og Hjólafærni á Íslandi standa fyrir.

Á myndinni sést Strava heatmap sem sýnir hvar notendur forritsins hjóla mest og hvaða leið þeir velja milli hverfa, sveitafélaga o.s.frv. Það hafa jafnvel verið uppi hugmyndir um að yfirvöld nýttu sér svona kort til að forgangsraða framkvæmdum þegar kemur að úrbótum hjólaleiða. Reyndar eru notendur Strava meira keppnisfólk að æfa sig heldur en almenningur að dóla sér í vinnuna en þetta er góð viðmiðun ef þú ratar ekki úr Grafarvog í Hafnarfjörð.

labs.strava.com/heatmap
Páll Guðjónsson

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015