Kortagerðarfólk

Ferðamenn sem fara á reiðhjólum um landið hafa tekið fagnandi á móti kortinu Cycling Iceland. Það kom fyrst út árið 2013, þar sem reynt var að draga saman alla hjólaþjónustu landsins og síðan kom út virkilega skemmtilegt kort 2014, þar sem unnið var mun ítarlegra og sérhæfðara landskort með nauðsynlegum upplýsingum fyrir hjólandi ferðamann.

Á hjólakortinu frá 2014 má sjá undirlag allra helstu vega á Íslandi og umferðarþunga sem má vænta á þeim vegum. Þar er einnig merkt inn gisting og tjaldstæði sem eru utan við 20 km radíus við þéttbýli, helstu vöð á vegum á hálendinu og upplýsingar um hjólaþjónustu sem er í boði hringinn í kringum landið.

Samhliða hjólakortinu var unnið línulegt kort yfir allar almenningssamgöngur í landinu og hefur samgöngukortið sýnt sig vera í sérlegu dálæti þeirra sem starfa við að upplýsa ferðamenn um slíka þjónustu. Við gerð almenningssamgangnakortsins var leitað eftir að kynna alla þá þjónustuaðila sem bjóða áætlunarferðir um allt land, á landi, sjó og með flugi.

Hjólakort um Ísland er eingöngu gefið út á ensku en kortamyndin stendur fyrir sínu. Markmiðið með útgáfu þess er að hvetja til hægfara ferðamennsku og betri nýtingar almenningssamgangna um allt land.

Þeir sem slá inn www.cyclingiceland.is fara inn á enskan hluta heima­síðu Íslenska fjallahjólaklúbbsins, en þar eru líklega bestu upplýsingarnar að finna á innlendum vef, til leiðbeiningar um hjóla­ferðalög um Ísland. Þar er einnig linkur á pdf útgáfu af kortinu.

Kortið hefur verið prentað árlega í 30.000 eintökum og það hefur farið mjög hratt í dreifingu.

Yfir vetrarmánuðina hefur Hjólafærni sinnt því að senda kortið eftir pöntunum út fyrir landsteinana. Áætluð útgáfa á Cycling Iceland 2015 kortinu er 1. júní.  

Fjölmargir aðrir hafa og lagt lóð sitt á vogarskálarnar og er öllu þessu góða fólki þakkað þeirra framlag. Allar ábendingar um það sem betur má fara í útgáfunni eru ævinlega vel þegnar. Fram til þessa hafa þær komið víðsvegar að og hafa reynst mikill styrkur við gerð kortanna.

Sesselja Traustadóttir til hægri á mynd, er ritstjóri Cycling Iceland kortanna og framkvæmdastýra Hjólafærni á Íslandi er útgefandi þeirra. Ómar Smári Kristinsson og Nina Ivanova, til vinstri á mynd, eru höfundar 2014 og 2015 kortanna. Ingi Gunnar Jóhannsson hjá Hugarflugi, til hægri á mynd, er höfundur Public transport kortanna.

Sesselja Traustadóttir

   PDF (8 mb): Cycling Iceland map 2014

 

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015