Á síðasta ári fékk undirritaður styrk frá Rannsóknarsjóði vegagerðarinnar í samvinnu við Hörð Bjarnason á verkfræðistofunni Mannvit til að gera skýrslu um öryggisskoðun hjólastíga. Hörður hafði veg og vanda að ritun skýrslunnar en ég gerði öryggisúttektir á nokkrum hjólastígum á höfuðborgarsvæðinu. Skýrslan er nú komin út og er hún aðgengileg á heimasíðu Vegagerðarinnar og frá heimasíðu Landssamtaka hjólreiðamanna ásamt með skýrslum yfir öryggisúttektir.

Samtals voru skoðaðir 28,5 km af hjóla­stígum í fjórtán úttektum. Atriði sem gerð var athugasemd við voru skráð ásamt staðsetningu og tekin mynd ef þurfti. Skráð var athugasemd við atriðið, athuga­semdirnar voru flokkaðar í flokka (t.d. skert stígsýn, hætta við stíg, yfirborð, vegvísar, umferðarmerki o.fl.), mat var lagt á áhættu í þremur flokkum (mikil hætta, lítil hætta, þægindi) og tegund úrbóta í þremur flokkum (viðhald, minniháttar framkvæmd, meiriháttar framkvæmd) og tillaga síðan gerð að úrbótum.

Niðurstöðurnar verða kynntar sveitar­félögunum ásamt skýrslunni um öryggis­úttekt hjólastíga. Óskað er eftir því að þau taki niðurstöður úttektanna til skoðunar og láti lagfæra þau atriði sem bent er á. Jafnframt verða þau hvött til að láta fara fram öryggisúttektir á öðrum hjólastígum hjá sér.

Á efsta kortinu sjást stígarnir sem voru skoðaðir og atriði sem voru skráð, hver punktur táknar eitt atriði.

Staðir sem voru metnir hættulegir, fengu matið "Mikil hætta".
Samtals fengu 48 atriði þetta mat eða um 16% af skráðum atriðum.

 

Myndirnar sýnir staði sem voru metnir hættulegir, fengu matið „Mikil hætta“.

Hætta við stíg, grindverk án merkingar alveg við stíg.

Hætta á stíg, vatn frá uppsprettu rennur yfir stíg og frýs að vetrarlagi

Nánari upplýsingar um stígana sem voru skoðaðir má finna á vef Landssamtaka hjólreiðamanna: Öryggisskoðun hjólastíga

Árni Davíðsson

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015