„Fyrstu fregnir af notkun reiðhjóla á Íslandi birtust í tímaritinu Fjallkonunni árið 1887. Greinin fjallaði um hæfileika kvenna og að þær gætu jafnvel skarað fram úr karlmönnum. Þar var orðið hjólhestur notað í fyrsta sinn. Fyrstu reiðhjólin sem vitað er að hafi verið flutt til Íslands sáust í Reykjavík árið 1890“. „Reiðhjól voru fyrst í fárra eigu og þóttu nýstárleg mitt í hestaumferðinni.“

Í tilefni þess að 125 ár eru frá komu fyrsta reið­hjólsins til Íslands gaf Pósturinn út þetta skemmtilega frímerki sem Hany Hadaya hannaði og eins og sést á kynningartextanum fyrir ofan kom reiðhjólið á undan fyrstu bifreiðinni. Alla sögu reiðhjólsins má lesa á heimasíðu klúbbsins ásamt 25 ára sögu ÍFHK. Með til­komu reiðhjólsins breyttist margt og innan um annan fróðleik í greinasafninu á heima­síðunni er fjallað um mikilvæg áhrif hjólreiða á kvenfrelsisbaráttuna, því ekki gekk að hjóla í korse­letti og stífum pilsum Viktoríu­tíma­bilsins.

Nú horfum við á uppgang í hjólreiðum út um allan heim með þeim þunga að líklega verður ekki aftur snúið. Íbúar stórborga hafa fengið nóg af heilsuspillandi mengun sem fylgir umferðinni. Yngri kynslóðir sækja í að búa í þéttri byggð þar sem ekki er sama þörf á einkabíl og hægt er að velja milli fjölbreyttra farar­máta eftir tilefni og vegalengd. Stórborgir um víða veröld hafa snúið við blaðinu og í stað þess að ryðja öllu úr vegi til að svala óseðjandi kröfum um meira rými fyrir fleiri bíla er farið að haga skipulaginu þannig að það bjóði upp á fleiri og minna mengandi valkosti.

Eins og sjá má á efni þessa blaðs er unnið gríðarmikið starf innan Fjallahjólaklúbbsins og Landssamtaka hjólreiðamanna og er þó ekkert fjallað hér um gríðaröflugt og gott starf í hjólasportfélögunum.

Samstarfið út í heim fer vaxandi í kjölfar heimsókna á hjólaráðstefnur á vegum ECF og komu erlendra gesta á hjólaráðstefnur LHM og Hjólafærni í Samgönguviku. Samvinna og samráð hefur líka batnað mikið hérlendis og hefur Reykjavíkurborg t.d. veitt báðum þessum aðilum Samgönguviðurkenningu fyrir starf sitt í þágu aukinna og bættra hjólreiða á Íslandi. LHM árið 2012 og framkvæmdastýru Hjólafærni á Íslandi 2014.

Ritsjórapistill - Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015