9. – 25. júní 2013

 

Inngangur

Ég fór í mína fyrstu hjólaferð erlendis árið 2011. Þá fórum við Gústi bróðir saman til Frakklands og hjóluðum um 1100 km á 10 dögum. Sú ferð var ákaflega skemmtileg, krefjandi og lærdómsrík.

Fyrir og eftir þá ferð höfum við farið saman í ýmsar styttri og lengri ferðir innanlands, allt saman dagsferðir frá fimmtíu og upp í hundrað kílómetra. Við höfum oft rætt um að fara í aðra hjólaferð til útlanda, án þess að hafa neglt niður neinn sérstakan áfangastað.

Sumarið 2012 fórum við í nokkuð margar ferðir og í mörgum þeirra höfðu fleiri bæst í hópinn. Ólafur Þórisson (hér eftir Óli), Andrés Júlíus (hér eftir Júlli) og Svavar Svavarsson (hér eftir Svavar) fóru m.a. með okkur í tvær eftirminnilegar ferðir þar sem við hjóluðum á Selfoss; annars vegar um Þingvelli í veðri sem var ekki í takti við veðurspá (átti að vera andvari og úrkomulaust, en það var hávaðarok á Mosfellsheiðinni og rigning á Þingvöllum) og hins vegar um hinn nýja Suðurstrandarveg. Í seinni ferðinni var Hjörleifur Gíslason einnig með í för. Auk þess fórum við klassískan Nesjavallahring sem endaði í hamborgaraveislu heima hjá mér. Þá hjóluðum við Gústi saman á Laugarvatn og heim til baka daginn eftir.

Þessi fimm manna hópur náði vel saman. Aldursbilið er nokkuð stórt, frá Óla sem var nýorðinn þrítugur og upp í Júlla og Svavar sem eru skriðnir yfir fimmtugt. Hvað varðar hjólreiðarnar vorum við hins vegar nokkuð líkir. Við áttum það allir sameiginlegt að hafa meiri áhuga á að hjóla en á hjólunum sem slíkum. Það er mjög algengur misskilningur að halda að ég viti mikið um hjól og hjólabúnað. Svo er alls ekki.

Það var í byrjun nóvember 2012 sem ég fékk þá hugmynd að kýla á hjólaferð sumarið 2013. Ég var staddur á þannig stað persónulega að ég þurfti á því að halda að fá eitthvað til að hlakka til - eitthvað sem ég hef ástríðu fyrir - eitthvað spennandi. Áskorun.

Ég viðraði hugmyndina við Gústa og svo hina strákana. Þeir voru spenntir. Næsta mál á dagskrá var að ákveða lengd ferðarinnar, tímasetningu og hvert ætti að fljúga. Svo þurfti auðvitað að fá frí í vinnunni. Ýmsir möguleikar komu til skoðunar. Við Gústi vorum aðallega við teikniborðið á þessum tímapunkti. Við lærðum það í Frakklandsferðinni okkar að það er skemmtilegra og meira gefandi að hjóla í fjöllum og/eða hæðóttu landslagi en að hjóla mikið á jafnsléttu. Alparnir heilluðu okkur.

Þann 12. nóvember árið 2012 pöntuðum við flug til Berlínar og heim frá Mílanó.

Við ákváðum að fljúga út sunnudaginn 9. júní og aftur heim þriðjudaginn 25. júní.

Það voru 209 dagar í brottför!

 

Undirbúningur

Það var góður tími til stefnu.

Undirbúningurinn var mjög óformlegur og menn almennt séð nokkuð slakir á því. Atriði sem þurfti að huga að voru  búnaður, kortamál, tæknibúnaður, gisting og gróflega sú leið sem við ætluðum að fara.

Eins og áður hefur komið fram erum við engir sérstakir hjóla-nerðir. Sjálfur átti ég eitt hjól, keypt í Erninum á 80.000 kr. árið 2009. Það hafði dugað mér vel en ég var staðráðinn í því að fá mér nýtt hjól fyrir ferðina. Ég keypti mér Trek 520 hjól á vormánuðum 2013, eins hjól og Gústi var á, en hann keypti sitt árið 2010. Óli var líka á Trek hjóli, sem hann fékk lánað hjá Hjörleifi, og Júlli var einnig á nýlegu Trek hjóli. Nei, þetta er ekki auglýsing fyrir Örninn! Svavarinn var á bleiku hjóli - Bleiku eldingunni. Að öðru leyti var ég nokkuð klár í slaginn, búnaðarlega séð. Aðrir þurftu að fara í einhverjar smávægilegar fjárfestingar, t.d.  hjólatöskur og fleira. Svavar var sérstakur áhugamaður um allskonar aukahluti og fylgdist vel með nýjustu sendingunum hjá Sports Direct.

Við eyddum töluverðum tíma í að kortleggja gróflega hvaða leið við myndum fara. Við fylgdum því að einhverju leyti,  þó aðallega fyrstu dagana. Við tókum þá stefnu að bóka eingöngu hótel fyrir fyrstu tvær næturnar og svo ætluðum við að láta ráðast með framhaldið, hvert yrði haldið næst og hvar yrði gist. Byggðust þessar pælingar á reynslu okkar Gústa frá Frakklandi.

Engin kort voru keypt áður en við fórum út. Við pældum í því en létum það ógert.

Þegar nær dró ferðinni reyndi ég að hjóla aðeins meira en venjulega,en það var aðallega lengri leið heim úr vinnunni og þess háttar. Lengsta ferðin mín árið 2013 áður en við fórum út voru rétt rúmir 50 km. Ég var samt alveg í fínu formi, hafandi hjólað allan veturinn. Hópurinn náði engri ferð saman áður en við fórum út. Við höfðum eitthvað rætt um að taka nokkrar ferðir saman, æfa okkur að drafta og hjóla þétt saman í hóp, en það varð ekkert úr því.

Skömmu fyrir brottför leit svo út fyrir að Gústi myndi ekki komst í ferðina. Það kom upp stórt verkefni hjá honum í vinnunni, sem hann gat eiginlega ekki sagt nei við, en það datt svo upp fyrir skömmu fyrir ferð, þannig að hann komst með.

Laugardaginn 1. júní, 8 dögum fyrir brottför, héldum við pökkunaræfingu í bílskúrnum hjá Svavari. Ég hafði útvegað kassa handa okkur í Erninum, en þeir reyndust  vera of litlir . Hugmyndin var nefnilega sú að pakka hjólunum í kassana ásamt öllum öðrum farangri. Málinu var reddað. Svavar brunaði í Hjólasprett í Hafnarfirði sem átti nógu stóra kassa handa okkur. Pökkunaræfingin skilaði sínu - allir fengu kassa sem passaði fyrir bæði hjól og farangur.

Það var allt klárt og niðurtalningin hélt áfram...

 

Dagur 1

  • 9. júní 2013: Schönefeld - Freidorf/Baruth.
  • 67,5 km
  • 3:15:00

Loksins rann dagurinn upp 209 dögum eftir að við pöntuðum flugið. Veturinn og vorið höfðu liðið hratt. Við vorum klárir í slaginn, spenntir og fullir eftirvæntingar.

Pabbi keyrði mig, Gústa og Óla út í Keflavík en Svavar og Júlli komu saman. Svavar fékk sér bjór í morgunsárið, aðeins að slaka á. Vélin fór af stað klukkan 8:00 og lenti um kl. 13:00 að staðartíma í Berlín. Þriggja tíma flug. Tveggja tíma mismunur.

Það var u.þ.b. 20 gráðu hiti og léttskýjað í Berlín. Við biðum í smástund eftir kössunum og hófumst svo handa við að setja hjólin saman. Það gekk ekki áfallalaust fyrir sig - 2 sprungin dekk og ein brotin skrúfa. Að öðru leyti vorum við í lagi, smelltum okkur í gallana og byrjuðum ferðina.

Ferðin fór nokkuð brösuglega af stað. Við fengum kort á flugvellinum og byrjuðum að fylgja því í suðurátt. Samt áttum við í smá erfiðleikum með að staðsetja okkur á kortinu og á tímabili hjóluðum við eins mikið í suður og við gátum, en þar kom áttavitinn á hjólinu hans Hjörleifs (Óla) sér vel.

Stefnan var tekin á bæinn Baruth. Við vorum svo vitlausir að við vissum hvorki nafn hótelsins þar sem við áttum bókað um nóttina, né nákvæma staðsetningu þess, en við mundum að það var rétt hjá Baruth.

Eftir um 20 km stoppuðum við í bænum Rangsdorf. Við vorum svangir og þyrstir, og mögulega pínulítið áttavilltir. Eftir burð með hjólin yfir brú yfir lestarteina (djöfull voru hjólin þung!) tylltum við okkur á ítalskan veitingastað. Matseðillinn var eðlilega á þýsku. Gústi skilur þýsku vel og þarna strax var línan soldið lögð varðandi heimsóknir okkar á veitingahús - Gústi sagði okkur hvað var í boði, við völdum eitthvað og svo valdi Gústi bjór á línuna. Fyrsti bjór ferðarinnar var bæði svalandi og góður.

Framan af vorum við aðallega á hjólastígum og tempóið nokkuð rólegt. Við notuðum kortið og áttavitann í bland. Á einum tímapunkti hjóluðum við mögulega í stóran hring og ræddum  okkar á milli að það væri kannski gott að vera ekkert að GPS trakka þetta; þetta hefði litið illa út á mynd!

Um kl. 18:00 byrjaði að þykkna upp. Við duttum inn á langan beinan kafla á götu suður að Baruth og þar slitnaði hópurinn aðeins í sundur. Baruth var draugabær á þessu sunnudagskvöldi. Ekkert opið. Okkur langaði í kók og mögulega smá snæðing, en það var ekki í boði.

Stefnan var því tekin á hótelið. Í stoppinu í Rangsdorf höfðum við fundið út hvar hótelið væri ca. staðsett. Nafnið var hins vegar enn óljóst. Á leið okkar á hótelið fórum við í gegnum fallegan bæ sem heitir Glashutte. Hótelið fundum við skömmu fyrir myrkur. Það heitir Leonard Spreewald Inn og reyndist vera aðeins lengra frá þjóðveginum en við héldum í fyrstu, nánast inni í miðjum skógi og engin skilti sem bentu okkur á það.

Hótelið var læst þegar við mættum á svæðið og enginn starfsmaður á staðnum. Hins vegar var umslag með leiðbeiningum fest á hurðina. Gústi las bréfið og hringdi í uppgefið símanúmer og fékk þær upplýsingar að lykill að hótelinu væri í kassa þarna fyrir utan.

Þetta var hálfgerður brandari. Við vorum banhungraðir og þreyttir en í stað þess að fá okkur heita og góða máltíð þurftum við að skrapa saman þeim mat sem við höfðum meðferðis. Úrvalið samanstóð af hafraklöttum, harðfiski, M&M, hnetu-rúsínu-mixi Svavars, karamellum og döðlum. Þessu var fyrst skolað niður með ísköldu Kóka Kóla á meðan enn var til klink í sjálfsalann, en svo með volgu kranavatni þegar smápeningarnir voru búnir.

Um kl. 21:00 var skollið á niðamyrkur og byrjað að rigna. Líklega var þetta hótel hluti af gamalli rússneskri herstöð. Það var nákvæmlega ekkert sjarmerandi við það og leiðinlegt að komast ekki í keiluna sem okkur hafði hlakkað mikið til. Svo ég tali ekki um gufuna.

Aðallega vorum við þó svangir.

Ég, Óli og Gústi deildum herbergi og Svavar og Júlli voru saman. Þannig átti það eftir að haldast nánast alla ferðina. Í ljósi aðstæðna var farið snemma í háttinn. Lengsti leggur ferðarinnar var framundan daginn eftir.

 

Dagur 2

  • 10. júní 2013: Freidorf - Meißen.
  • 155,7 km
  • 7:28:24

Vekjaraklukkan var stillt á 6:50. Menn voru hræðilega svangir. Snarl gærkvöldsins hafði ekki verið nógu mikil fylling í magann. Morgunmaturinn byrjaði kl. 7:00 og við vorum mættir á slaginu. Starfsfólk hótelsins var mætt til vinnu og þetta líka fína morgunverðarhlaðborð beið okkar. Við tókum vel til matar okkar. Fylltum á tankinn og rúmlega það.

Fyrir ferðina var búið að ákveða að taka alltaf „Dags-myndina”, þ.e. mynd af okkur fimm í móttökunni á gististaðnum í lok dags. Þar sem enginn var á staðnum til að taka myndina kvöldið áður var mynd tekin þennan morguninn eftir matinn. Við vorum ferskir í myndatökunni.

Það var dumbungur um morguninn, skýjað og ca. 14°C og því vorum við nokkuð vel klæddir - síðbuxur og jakki. Þegar leið á daginn hlýnaði hins vegar og létti til. Fötum fækkaði.

Við vorum búnir að bóka gistinu í bænum Meißen og gróf áætlun gerði ráð fyrir ca. 150 km hjóladegi. Á móti kom að landslagið var mjög slétt og veðurspáin gerði ráð fyrir smávægilegum meðvindi.

Dagurinn fór rólega af stað. Við vorum ekki enn komnir með kort og notuðumst því aðeins við áttavitann. Stefnan var tekin í hásuður. Eftir um 20 km í smá óvissu, en þægilegri hjólastemningu, stoppuðum við á bensínstöð í bæ skammt frá Zutzen. Þar keypti Júlli góða kortabók, og átti hún eftir að nýtast vel í stórum hluta ferðarinnar. Einnig bættum við á vökvabirgðirnar.

Næst fréttist af okkur í bænum Luckau eftir um 30 km í viðbót. Það er krúttlegur bær með ca. 10þ. íbúa. Svengd var farin að segja til sín svo við stoppuðum við aðaltorg bæjarins (átti eftir að verða óopinbert þema ferðarinnar) og kíktum í bakarí. Berlínarbollur og kruðerí. Mikilvægar hitaeiningar. Við Gústi tókum smá rölt og leituðum að tourist info, en það reyndist lokað. Við ætluðum að finna 3G kort fyrir símann hans Gústa en því miður tókst það ekki í þessum bæ.

Þarna var klukkan rétt tæplega 11 og ákveðið að taka fyrstu „11-myndina”. Það gengur út á það að taka mynd beint fram fyrir sig kl. 11, óháð því hvar maður er staddur. Gústi sá um það þar sem hann brá sér frá til að finna súpermarkað. Myndin var tekin en búðin fannst ekki. Áfram var hjólað.

Frá Luckau lá leiðin til Finsterwalde þar sem stefnan var tekin á hádegismat. Þangað komum við líklega um kl. 14:00. Tempóið hjá okkur var nokkuð gott. Líkaminn ferskur, meðvindur, slétt og bara hinar þægilegustu hjólaaðstæður. Við vorum aðallega að hjóla á götum og það var lítil umferð á þessum ágæta mánudegi.

Í Finsterwalde byrjuðum við á að kaupa kort af Tékklandi en menn skiptust á að kaupa kort til að dreifa kostnaðnum. Virkilega gott system hjá okkur. Við stoppuðum svo við stórt torg á ítölskum veitingastað, menn fengu sér pizzu eða pasta og bjór með.

Þaðan fórum við í súpermarkað og fylltum á drykkja- og matarbirgðar. Það var byrjað að hitna og sólin farin að skína. Menn báru á sig sólarvörn í fyrsta sinn.

Eftir 100 km hjólreiðar var stoppað í bænum Plessa. Ákveðið var að taka svokallaða „100 km mynd”. Við fengum okkur líka bjór á litlum bar. Glöggir lesendur átti sig á því að komin eru þrjú myndaþemu:

1. Dags myndin.

2. Ellefu myndin.

3. 100 km myndin.

Dags myndin var líklega það þema sem átti eftir að reynast best. Aldrei klikkuðum við á þeirri mynd. Ellefu myndin var erfið og átti til að gleymast, en oftast mundum við eftir 100 km myndinni.

Við komum til Meißen undir kvöld, líklega um kl. 18:00, og fórum beina leið á McDonald´s. Rosalega getur Makkinn verið góður, sérstaklega þegar það er langt síðan maður fékk hann síðast.

Meißen er u.þ.b. 30 þúsund manna bær, staðsettur um 25 km norðvestur af Dresden. Áin Elbe, eða Saxelfur, rennur í gegnum bæinn. Það voru mikil flóð í suður- og austurhluta Þýskalands í vikunni áður en við fórum út, Saxelfur hafði flætt yfir bakka sína og langt inn í bæ. Landslagið þarna í kring er  nokkuð hæðótt og hótelið okkar, Hotel Siebeneichen, var einmitt efst upp á hæstu hæðinni í bænum. Við höfðum verið varaðir við áður en við pöntuðum hótelið en létum það ekki stoppa okkur. Verðið var það gott.

Það var aðeins farið að dimma þegar við komum upp á hótel. Síðasti spottinn var erfiður; ca. 1 km löng brekka í 12-14 gráðu halla. Einhverjir teymdu hjólið hluta leiðarinnar. Engin nöfn nefnd. Gríðarhress kona tók á móti okkur með sódavatni. Við tjekkuðum okkur inn og tókum dagsmyndina. Herbergin tvö voru rúmgóð og fín og útsýnið til fyrirmyndar.

Við ákváðum að fara í göngutúr um kvöld. Fá okkur kannski smá að borða og setjast niður á bar í einn til tvo bjóra. Júlli varð eftir uppá hóteli, þreyttur eftir daginn. Við komumst fljótt að því að hluta borgarinnar hafði verið lokað. Það var rafmagnslaust og niðamyrkur. Flóðin höfðu náð langt inn í bæinn. Samt héldum við áfram göngunni, vongóðir um að finna einhvers staðar bjór og mat. Eftir stutta stund vorum við hins vegar stöðvaðir af um tíu löggum sem lýstu á okkur með vasaljósum. Þeir spurðu (á þýsku) hvaða erindi við ættum þarna og óskuðu eftir því að sjá vegabréf. Gústi náði að útskýra mál okkar og hvað við værum að vilja þarna. Löggurnar virtust smá skeptískar á svipinn en við fengum þó að halda áfram ferð okkar og þeir bentu okkur á að eini opni veitingastaðurinn í bænum væri McDonald´s, nema hvað.

Það var því ekkert annað í stöðunni en að þramma í áttina að McDonald´s. Á leiðinni fundum við opna bensínstöð og fjárfestum í nokkrum bjórum og drukkum á leiðinni. Það var smá rónabragur yfir þessu en allt í þágu mikilvægrar kaloríu inntöku. Það að hjóla í sjö og hálfa klukkustund krefst töluverðrar orku.

Tvær McDonald´s máltíðir á einum degi er allavega einni máltíð of mikið. En það var ekkert annað í boði og ég skóflaði í mig tveimur ostborgurum. Fleiri en við voru svangir. Löggurnar sem við höfðum talað við hálftíma áður voru mættar.

Blanda af þreytu, aumingjaskap og hræðslu við brekkuna löngu og bröttu varð þess valdandi að við pöntuðum leigubíl. Ungur leigubílstjóri keyrði okkur upp á hótel og það var sannkölluð rússíbanabílferð. Vegna lokana á hluta bæjarins þurfti að fara þvílíka krókaleið og okkar maður var ekkert að fara rólega yfir, þrátt fyrir myrkur og þröngar götur, heldur brunaði með okkur upp á hótel. Ég viðurkenni að ég var pínu smeykur. Bara pínu.

Langur dagur var að kvöldi kominn.

 

Dagur 3

  • 11. júní 2013. Meissen - Chomutov.
  • 117,87 km
  • 6:42:49

Morgunmaturinn á hótelinu var sæmilegur. Hlaðborð með brauðmeti, áleggi og ávöxtum. Kvöldið áður höfðum við pantað hótel í bænum Chomutov í Tékklandi. Kort voru jafnan höfð meðferðis í morgunmatinn og við fórum gróflega yfir hvaða stefnu við ætluðum að taka þann daginn, hver áætluð heildarvegalengd væri og hvar við myndum stefna á hádegismat. Hádegismatarstaðirnir voru valdir með það í huga að þeir væru í sæmilega stórum bæjum (á korti) þar sem við gætum fundið ágæta veitingastaði.

Í gönguferð okkar kvöldið áður höfðum við rekist á matvörubúð skammt frá hótelinu, neðar í götunni. Hún opnaði kl. 9:00 og við vorum mættir við opnun og fylltum á vökva- og matarbirgðir.

Það voru smá strengir í líkamanum svo við fórum nokkuð rólega af stað. Landslagið var líka smám saman að breytast - var orðið hæðóttara og það reyndi meira á. Hitastigið hafði aðeins hækkað og var komið í ca. 20 °C.

Eftir stutt matarstopp í strætóskýli í einhverjum mjög litlum bæ eftir ca. 20 km var stefnan sett á bæinn Freiberg. Leiðin sem við fórum inn í Freiberg var frekar leiðinleg. Við vorum í vegakanti á nokkuð fjölförnum þjóðvegi; mengun, læti og lítið gaman.

Þegar við komum inn í bæinn kl. 11 var 11-myndin auðvitað tekin. Síðan lá leiðin að aðaltorgi bæjarins. Freiberg er ca. 40 þúsund manna bær og því var torgið nokkuð stórt. Eftir að hafa fengið okkur bakaríis-kruðerí þurfi að leysa smá verkefni. Ég lét laga hjá mér afturdekkið -sem var pínu skakkt á gjörðinni; ég hafði ekki pumpað nógu vel í það. Gústi fór í símakortaleiðangur, sem tók smá tíma, en hófst að lokum. Við vorum lengi að koma okkur út úr bænum. Núna vorum við bæði komnir með google maps í símanum hans Gústa og einnig vorum við með venjuleg kort.

Það leið ekki á löngu þangað til við vorum aftur orðnir svangir en hádegismaturinn dróst á langinn. Við hjóluðum í gegnum hvern bæinn á fætur öðrum þar sem allir veitingastaðir voru lokaðir yfir daginn. Við bundum miklar vonir við bæinn Sayda, en þar var líka allt lokað. Hins vegar vorum við heppnir að hitta þar tvo hressa karla sem ræddu við Gústa á þýsku. Þeir litu svolítið út eins og Pat og Mat; Klaufabárðarnir.

Þarna var  soldið af erfiðum brekkum og einnig vorum við stundum á nokkuð grófum malarstígum. Svengd og pirringur magnaðist. Við fundum þó opinn veitingstað að lokum í bænum Olbernhau, skammt frá landamærunum að Tékklandi. Köllum þennan stað bara spergilstaðinn. Það var uppskerutími spergils (aspargus) og matseðillinn bar keim af því. Ég fékk mér

einhverja spergileggjahræru sem var býsna góð. Reyndar var ég það svangur að mér hefði þótt allt gott á þessum tímapunkti. Að sjálfsögðu var sperglinum skolað niður með bjór.

Landamærin sjálf voru ekki merkileg. Við fórum yfir litla brú yfir lækjarsprænu og vorum komnir inn í Tékkland. Strax við landamærin var fyrsta alvöru brekk ferðarinnar, en við vorum búnir að sjá á korti að það er fjallgarður sem skilur Þýskaland og Tékkland að. Við fórum hæst í 851 m.  Þetta var sæmilega erfitt á meðan á því stóð. Að vísu var fjallið ekkert sérlega bratt, en þetta var klárlega mesta áreynsla ferðarinnar fram að þessu. Eftir á, þar sem ég skrifa þessa sögu, var þetta bara létt og þægilegt.

Að komast upp á svona fjall - klára einhvern áfanga og áskorun - er það sem gefur hjólaferð gildi að mínu mati. Maður er þreyttur og glaður og líður vel. Og svo er það útsýnið. Ekki má heldur gleyma hversu gaman er svo að hjóla/renna  niður fjallið hinu megin, eftir allt erfiðið.

Við tókum 100 km myndina í bænum Jirkov,  þegar við vorum komnir niður . Maður tók strax eftir því að við vorum komnir inn í annað land. Fílingurinn var öðruvísi. Húsin voru ljótari. Það var skítugra.

Eftir 100 km myndina var þetta soldið upp og niður á slæmum vegum inn í Chomutov sem er ekki nema 50 þúsund manna bær sem mér fannst frekar ljótur, en samt vorum við í óratíma að komast niður í miðbæ. Við sáum nokkuð stóran hluta af honum og eftirminnilegast eru líklega neonlituðu austur-evrópu-blokkirnar. Ekki heillandi.

Áður en við fórum upp á hótel kíktum við niður á aðaltorg bæjarins. 3G kortið sem Gústi hafði keypt í Þýskalandi virkaði ekki í Tékklandi og því vissum við ekki hvar hótelið var staðsett. Reyndar höfðum við lært af reynslunni og skrifað niður nafn hótelsins og götuheiti.

Tékkneski bjórinn var ljúffengur. Við höfðum ekki hugmynd um hvað hann kostaði þar sem við vorum byrjaðir að nota krónur (tékknesk koruna) sem við fengum í hraðbanka. Væntanlega var bjórinn ekki dýr.

Hótelið var ekki langt frá aðaltorginu; kannski 1,5 km. Það heitir Chesky Dum og 2 herbergi með morgunmat kostuðu okkur ekki nema €65. Þetta var ódýrasta gisting ferðinnar en alls ekki sú versta. Dagsmyndin var sérstaklega góð. Móttaka hótelsins var líka bar!

Menn voru kannski fullrólegir eftir að upp á hótel var komið, tóku sér góðan tíma í sturtu, símtöl heim og almenna afslöppun og tíminn flaug áfram. Klukkan var allt í einu orðin 21:00. Við tókum leigubíl niður í bæ. Aðeins einn leigubíll kom til að sækja okkur fimm. Því þurfti að fara tvær ferðir. Án þess að vera með það á hreinu, þá held að tvær svona ferðir hafi kostað samtals um 600 kr.

Okkur langaði að fara á tékkneskan stað og fá einhvern local mat. Leigubílstjórinn fór með okkur á stað í hliðargötu frá aðaltorginu. Þar var enginn. Það var eiginlega búið að loka þarna og á öllum öðrum stöðum. Klukkan var að detta í 22:00. Afgreiðslustúlkan var hins vegar svo ljúf að leyfa okkur að fá að borða og bauð okkur að velja á milli tveggja rétta. Annar hljómaði betur en hinn og við enduðum á því að panta allir það sama. Þetta var eitthvað kjöt með brauði, sultu, rjóma og mikilli sósu og reyndist bara nokkuð gott. Við kláruðum allavega allir matinn okkar. Og drykkina!

 

Dagur 4

  • 12. júní 2013. Chomutov - Pilzen.
  • 110,87 km
  • 5:44:48

Morgunmaturinn á þessu hóteli var öðruvísi en í Þýskalandi. Hér var ekki hlaðborð heldur þurfti að panta sér rétt af matseðli. Einn réttur í boði! Hvaða rugl er það? Við erum svangir menn. Alltaf.

Það var heitt þennan morguninn og klárlega heitasti dagurinn fram að þessu. Við hófum daginn á því að stoppa í Lidl búð. Það eru kannski ekki flottustu búðirnar sem maður kemst í, en verðlagið er gott (sérstaklega í Tékklandi) og maður fær það sem maður þarf. Þennan daginn þurftum við mikinn vökva.

Stefnan var sett á bæinn Pilsen, eða Plzen eins og innfæddir kalla hann. Þar áttum við pantað hótel.

Fyrsta stopp dagsins var við Nechranice vatnið. Svavar hafði kynnt sér vatnið vel en það  er  víst einstakt í heiminum. Hvers vegna veit ég ekki.

Þessi dagur er í svolítilli móðu. Landslagið var einsleitt, upp og niður og engir sléttir kaflar, en ekkert sérstaklega erfitt.

Í bænum Podborany var stoppað í hádegismat á Pizzerie Verona. Sætar stelpur gáfu okkur leiðbeiningar. Það var mál manna að sætustu stelpurnar í ferðinni voru í Tékklandi. Pizzustaðurinn bauð upp á fínasta pasta og enn betri bjór. Við sátum úti, í skjóli fyrir sólinni. Stærðarinnar Stella Artois auglýsing í garðinum vakti athygli.

Næst fréttist af föruneytinu á bensínstöð. Núna, á fjórða degi, þótti sniðugt að pumpa almennilega í dekkin. Af hverju vorum við ekki löngu búnir að því? Með réttan loftþrýsting í dekkjunum var allt annað líf að hjóla. Miklu léttara og betra rennsli.

Einhvers staðar var tekið bjór+franskar stopp. Þar sagði þjónninn okkur frá hópi manna sem hafði verið þarna nýlega. Það voru Svíar sem voru að fara 7000 km á 90 dögum. Vel gert það.

Við komum á Hotel Irina á skikkanlegum tíma - um kl. 17:00. Hótelið er steinsnar frá miðbænum, rétt norðan við ána Mze, staðsetningin var góð og verðið fínt. 40% af hópnum (Óli og Svavar) fóru í thailenskt nudd við hliðiná hótelinu. Þeir tjáðu sig óvenjulítið um þetta nudd, nema að það hafi verið gott. Sjálfur fór ég á McDonald´s og fékk mér snæðing. Einnig fór ég í búðina og keypti nokkra Pilsner Urquell - en það er original pilsnerinn og fyrsti

ljósi lagerinn. Hvernig var annað hægt, staðsettur í Pilsen? Mér fannst reyndar skrítið að þessi bjór var dýrari en flestir aðrir bjórar í þessari búð, þó hann hafi nú ekki kostað mikið.

Við fórum út að borða í miðbænum um kl. 20:00 og nýttum okkur töfra Tripadvisor til að velja okkur veitingastað. Staðurinn sem varð fyrir valinu heitir Pi.jez.pi. Hann er rankaður #6 af 115 veitingastöðum í Pilsen. Þetta var afbragðsstaður. Þrír fengu sér hægeldaða kanínu sem þótti frábær. Einnig voru snilldarbjórar á boðstólum. Sjálfur fékk ég mér fínasta hamborgara. Næst fæ ég mér Kalla Kanínu.

Það var hlýtt og góð stemning í bænum, fullt af fólki og flestir staðir þéttsetnir og það á miðvikudegi. Sjálfir vorum við nokkuð kátir, ágætlega hvíldir og ferskir. Sumir (40%) ferskari en aðrir. Víða fannst kannabislykt í bænum.

Hópurinn var búinn að ákveða að fara aðeins seinna af stað daginn eftir. Við vorum búnir að velja áfangastað og sáum fram á semi-hvíldardag. Í ljósi þess var tekinn einn viðbótar bjór á öðrum bar eftir matinn. Júlli ákvað að sleppa barferðinni. Hann var sá eini af okkur sem var ekki í áfenginu. Þess í stað fór hann upp á hótelherbergi og horfði á tímamóta umræðuþátt um samkynhneigð (á tékknesku). Mikið grín var gert að honum útaf þessu það sem eftir lifði ferðarinnar! 

 

Dagur 5

  • 13. júní 2013. Pilzen - Domazlice.
  • 66,43 km
  • 3:20:02

Gaurar eins og við köllum það hvíldardag að hjóla bara 66 km á einum degi.

Hvíldardagurinn var kærkominn. Við vorum búnir að hjóla rúma 128 km á dag að meðaltali síðustu 3 daga og okkur reiknaðist til að líklega værum við aðeins á undan áætlun. Því var gefið frí fyrir hádegi.

Samt var vaknað í morgunmat fyrir kl. 9:00. Fínasta hlaðborð. Eftir það tókum við Óli góðan göngutúr um miðbæinn, Svavar og Júlli kíktu m.a. í hjólabúð en Gústi hvíldi sig upp á hóteli.

Fyrir brottför (um hádegi) var farið í matvörubúð, svo í Samsung-búð og að lokum tekin ein hádegis-orku-pizzusneið. Það tók okkur óratíma að koma okkur út úr bænum því við vorum m.a. smá týndir í einhverju iðnaðarhverfi. Pilsen var fjölmennasti bærinn sem við höfðum komið í fram að þessu, með tæplega 200 þúsund íbúa, og eiginlega í það fjölmennasta sem ég myndi mæla með í svona ferð.

Fljótlega komumst við á beinu brautina. Hún var hins vegar frekar leiðinleg. Við vorum í vegakanti á gulum vegi (á kortinu). Það þýddi mikið af bílum á miklum hraða. Vegöxlin var ekkert sérlega breið en við létum okkur hafa það í ca. 25 km Það var meðvindur og tempóið nokkuð gott.

Stod var næsti bær og þar var stoppað til að meta stöðuna. Í Stod fundum við sæmilega sveittan Daytona Sport Bar og þar við hliðin var einhvers konar vagn (eins og pylsuvagn) sem seldi m.a. kebab og ís. Við fengum okkur bjór á barnum, sem við drukkum úti, og smá matarbita með. Óli var óheppinn. Þegar röðin kom að honum í matarvagninum ákvað afgreiðslukonan að það væri kominn tími til að loka sjoppunni. Óla var virkilega brugðið við þetta áfall, gekk á skilti og fékk smá skurð á höfuðið.

Á sama tíma sat Svavar á bekk og gæddi sér á bjór. Annar bjórinn hans í þessu stoppi. Þessi skrokkur þarf hitaeiningar. Ekki nóg með að Svavar er sjálfur vel á annað hundrað kíló, heldur var hann með svo mikið af allskonar drasli með sér, plús það að bleika hjólið hans vegur sitt, að líklega var þetta svona 200 kg pakki sem hann þurfti að knýja áfram. Þá er ég búinn að taka inn í útreikningana að við hinir vorum með hluta af hans drasli í okkar töskum! Aftur að bjórnum. Þetta var enginn venjulegur bjór. Við kölluðum hann kókbjórinn - bragðið var svona blanda af bjór, kóki og appoló lakkrís. Hann var vondur.

Eftir þetta fína stopp hélt ferðin áfram. Við komum okkur útaf þessum gulu vegum og inn á meiri sveitavegi. Mér leið vel eftir hvíldina um morguninn og var vel stemmdur. Landslagið var svipað og daginn áður; upp og niður. Stefnan var tekin á bæinn Stankov þar sem við ætluðum að stoppa næst.

Leiðir skildu aðeins á þessum kafla. Í aflíðandi brekkum upp í móti gerðist það eiginlega alltaf að ég og Gústi fórum hraðar en hinir þrír. Reyndar kom það í ljós mjög snemma í ferðinni, eins og var alveg vitað fyrir brottför, að menn voru í misgóðu formi. Sjálfur var ég líklega í besta hjólaforminu af okkur fimm og leiddi hópinn oftar en ekki - klauf vindinn. Mér fannst það fínt, þrátt fyrir að það er töluvert erfiðara en að hjóla í kjalsoginu (drafta). Einnig kom það í ljós að menn höfðu ákveðna sérhæfingu þegar kom að hjólastyrkleikum. Óli var t.d. frábær í því að hjóla upp mjög brattar brekkur og Júlli var líklega sterkastur á beinu köflunum, auk þess sem hann var laginn í því að drafta.

Í einni af þessum löngu aflíðandi brekkum á leiðinni til Stankov fórum við Gústi hraðar yfir og ákváðum að taka straujið á Stankov. Þar fundum við mjög subbulegan local bar og pöntuðum okkur bjór. Hálfur líter kostaði 16 tékkneskar krónur, eða ca. 95 íslenskar krónur. Þetta var ódýrasti bjór ferðarinnar sem pantaður var á bar. Óli, Júlli og Svavar komu í bæinn svona 3-4 mínútum á eftir okkur og voru ekki sáttir. Fyrsta ósætti eða deila ferðarinnar kom upp. Þeir voru ósáttir við það að við hjóluðum á undan þeim, Júlli var sérstaklega ósáttur, en bæði Óli og Svavar tóku undir.

Það myndaðist nett spenna og þrungið andrúmsloft. Auðvitað voru þetta réttmætar athugasemdir. Þeim fannst að með því að hjóla á meiri hraða en þeir réðu við, eða fannst þægilegt að hjóla á,  þá værum við óbeint að þvinga þá til að halda í við okkur, sem kannski tók aðeins frá þeim upplifun af ferðinni, umhverfinu og þess háttar. Það var alls ekki hugmyndin hjá mér og Gústa. Málin voru svo rædd þegar mesta reiðin og/eða pirringurinn rann af mönnum. Það var gott að þetta kom upp og  við fundum lausn á málinu sem allir voru sáttir við.

Auðvitað var þetta fyrst og fremst hópferð, en það er samt líka þannig að hjólatempó manna er misjafnt. Stundum vil ég geta hjólað hratt án þess að vera alltaf að líta aftur fyrir mig og þeirra sjónarmið voru líka mjög eðlileg. Lausnin var því að ákveða alltaf hvaða bær væri næsta stopp, og ef hópurinn slitnaði í sundur, þá myndum við bara hittast á aðaltorginu í þeim bæ. Engin pressa. Ef einhver vill stoppa til að taka myndir eða eitthvað slíkt, þá er það bara í góðu lagi. Júlli baðst afsökunar á að hafa æst sig. Það var gott hjá honum nn það var líka gott að ræða þetta.

Við vorum mættir í bæinn Domazlice rétt fyrir kl. 18:00 þar sem við áttum pantaða gistinu á Pension Koncelsky Seng gistiheimilinu/hótelinu. Þetta err ekki nema rétt rúmlega 10 þúsund manna bær, virkilega huggulegur og snyrtilegur, skammt frá landamærunum að Þýskalandi Í leit okkar að hótelinu rákumst við á eldri hjón sem voru á gangi og spurðum þau til vegar (á ensku). Líklega skildu þau bara nafn

hótelsins og héldu langa ræðu á tékknesku um það hvernig við ættum að koma okkur þangað. Að sjálfsögðu skildum við ekki orð af því sem þau sögðu, en náðum því samt að við áttum að fara til hægri.

Hótelið var fínt. Það var staðsett í hliðargötu út frá miðbænum og það virtust vera fáir aðrir gestir en við. Eftir fasta liði eins og sturtuferð, dagsmyndina, símtöl heim og þess háttar tókum við rölt upp á aðaltorgið sem var breitt og langt torg, hellulagt með stórum grófum hellum (sem var óþægilegt að hjóla á) og fullt af veitingastöðum. Samt fundum við engan veitingastað sem okkur leist nóg vel á og fórum því aftur á hótelið.

Hótelið var með fínan matseðil og við gátum setið úti í lokuðum bakgarði. Þarna fengum við dýringis rucola pizzu og allskonar. Við tókum virkilega vel til matar okkar og drykkja. Tékkarnir kunna að búa til góðan bjór.

 

Dagur 6

  • 14. júní 2013. Domazlice - Regensburg.
  • 119,25 km
  • 6:12:39

Morgunverðarhlaðborðið var á 2. hæð hótelsins. Við fórum snemma á fætur og vorum pínu ryðgaðir. Svavar hafði sofið illa og hélt því fram að drykkjulæti annarra gesta hefðui haldið fyrir sér vöku. Sjálfur svaf ég eins og steinn.

Stefnan var tekið á bæinn Regensburg í Þýskalandi, sem við áætluðum að væri rúmlega 100 km dagleið. Dagurinn byrjaði af krafti. Eftir ca. 10 km upphitun komum við aftur að „sama” fjallgarði og við fórum yfir þegar við komum inn í Tékkland. Núna var þetta aðeins erfiðara og við settum nýtt met yfir „erfiðasta hluta ferðarinnar hingað til.” Hópurinn skiptist fljótlega upp þegar brekkan varð sem bröttust og ég, Gústi og Óli slitum okkur aðeins frá hinum; án þess að það hafi verið markmið í sjálfu sér.

Útsýnið yfir Tékkland uppá toppi var flott og við tókum nokkrar myndir. Niðurbrunið var sérstaklega skemmtilegt. Brekkan inn í Þýskaland var þægilega aflíðandi, sem þýddi að við gátum hjólað af krafti í örugglega  7-8 km á blússandi hraða. Landamærin voru svo ca. þar sem brekkan endaði, án þess að eiginleg landamæri væru alveg skýr.

Hittingur hafði verið ákveðinn á aðaltorginu í bænum Waldmunchen, en það var eftir ca. 30 km. Þar var farið í bakarí og búð og borðað. B-in þrjú. Svavar tók upp á því að setja íslenska fánann á hjólið sitt. Það vakti athygli gamals manns sem gaf sig að tali við okkur. Gústi ræddi við hann en við hinir hlustuðum.

Það var heitt og sól og við höfðum ekki enn lent í úrkomu. Við vorum ennþá í sama upp og niður landslaginu og hafði einkennt Tékkland. Samt var mögulega aðeins fallegra þarna í Þýskalandi en Tékklandi. Hádegisstoppið var tekið eftir um 50 km í bænum Cham, sem er 16 þúsund manna bær.

Það var búið að vera óskipulagt hádegisþema hingað til þar sem við fengum okkur eiginlega alltaf pítsu eða pasta og bjór með. Gústi og Svavar héldu sig við það ágæta þema en við hinir duttum í kebab og kók. K-in tvö.

Næsta stopp þar á eftir var í bænum Falkenstein, en það er bær sem stendur efst uppá hæð. Alltaf gott að taka stopp eftir góða brekku. Á leiðinni til Falkenstein fórum við í gegnum bæi eins og Schorndorf og Michelsneukirchen. Við héldum okkur á götunum  í lítilli  umferð. Bjórinn í Falkenstein var fínn. Svo fínn að Gústa tókst að gleyma sólgleraugunum sem hann hafði fengið lánuð hjá Svavari.

Þegar við vorum að hjóla út úr Falkenstein mættum við hópi hjólamanna. Þeir voru að koma af stíg sem lá samhliða veginum. Við ræddum stuttlega við þá og þeir mæltu með þessum stíg og að sjálfsögðu fórum við eftir meðmælunum. Það reyndist vera frábær ákvörðun.

Þetta var skógarstígur, undirlagið frekar slétt, líklega blanda af niðurþjappaðri mold og möl. Mjög fínt að hjóla á þessu. Einnig sáum við eitthvað af fólki þarna á hlaupum eða í göngutúr. Mér fannst æðislegt að hjóla þarna og góð tilbreyting frá því að hjóla á götunum. Við hjóluðum nokkuð þétt saman en samt á fínum hraða og vorum í skjóli fyrir sólinni en samt í góðum hita. Landslagið var orðið nokkuð slétt og þetta varð ekki betra.

Reyndar vorum við í það góðum fíling að við vorum ekkert að spá í hvaða átt við vorum að fara. Regensburg var ca. í suðvestur frá Falkenstein en loksins þegar við stoppuðum vorum við komnir í bæinn Wald, sem var í norðvestur frá Falkenstein. Þetta var eftir ca. 25 km, en það var allt í lagi. Ánægja okkar með þessa tilbreytingu var það mikil að 10-15 auka kílómetrar skiptu engu máli.

Eftir stutt nestisstopp í Wald (kruðerí og kók) héldum við áfram á þessum sama stíg. Við vorum búnir að komast að því að hann lá í áttina að Regensburg. Stemningin, landslagið og veðrið næstu 25 km var svipað og það hafði verið á undan. Tempóið datt lítillega niður, við stoppuðum oftar, vorum að prófa að taka hjólamyndbönd og bara almennt létt yfir mannskapnum.

Hjólastígurinn endaði við úthverfi í norðanverðri Regensburg og það tók okkur töluverðan tíma að átta okkur á því hvar miðbærinn var staðsettur. Það voru einhverjar framkvæmdir í gangi á þessum slóðum og vegaskiltin ekki nógu skýr. Beina brautin var þó ekki langt undan og fljótlega vorum við komnir í miðbæinn. Á leiðinni inní bæinn hjóluðum við yfir Dóná, en hún á eftir að koma meira við sögu á morgun.

Regensburg er 140 þúsund manna bær og á sér langa sögu. Maður sá það strax á miðbænum því hann var mjög „gamaldags” og flottur; mörg torg, gamlar byggingar, hellulagðar götur og auðvitað fullt af fólki. Það var líka föstudagur, bongóblíða og allir í stuði.

Við stoppuðum við Haidplatz torgið, sem er mögulega aðaltorg bæjarins. Þar fengum við okkur bjór, sátum úti, sötruðum bjórinn og fylgdumst með mannlífinu. Þetta var Bock bjór og bragðaðist einstaklega vel. Samt fengum við okkur bara einn. Einn var hins vegar meira en nóg. Klukkan var líklega ca. 18:00 þegar við settumst á hjólin og lögðum af stað að hótelinu. Mér leið eins og ég hefði drukkið svona 3 bjóra, var hálf jafnvægislaus á hjólinu og hugsaði hver djöfullinn væri í gangi. Ég leit svo á félagana. Við vorum allir að upplifa það sama. Frábær Bock!

B&B hótelið var ca. 3-4 km frá miðbænum í svona semi-úthvefi. Okkur gekk vel að finna það. Hins vegar vorum við lengi að checka okkur inn. Hópur af Ameríukönum sem mætti á sama tíma og við, og eins og þessi þjóðflokkur er oft, þá voru þeir í banastuði sem var gott því það kryddaði dagsmyndina töluvert. Hótelið var ágætt, sæmilega þröng herbergi, snyrtilegt og hjólin voru geymd í bílakjallara.

Sturtan var fín og að henni lokinni tókum við leigubíl í bæinn. Stóran bíl - allir saman. Við höfðum ekki unnið Pilsen Tripadvisor rannsóknarvinnu og ákváðum bara að detta inn á

einhvern stað. Sá staður var thailenskur og var við fyrrnefnt Haidplatz torg. Við sátum úti við torgið, en staðurinn sjálfur var steinsnar frá. Veðrið var milt og það var gott að sitja úti. Svangir menn þurfa mikinn mat, þannig að við duttum í semi-hlaðborð og fengum  bilað magn af mat. Bjór með. Enginn matur var skilinn eftir, og ef ég man þetta rétt, þá fengum við auka hrísgrjón með öllum kjötréttunum.

Það var áliðið þegar við kláruðum loksins matinn. Svavar og Júlli höfðu fengið nóg og fóru upp á hótel, en við hinir ákváðum að vera aðeins lengur í bænum. Föstudagskvöld og kannski eitthvað stuð í gangi. Þegar við stóðum upp runnu á okkur tvær grímur. Við vorum ógeðslega saddir. Svo saddir að mann langað varla að labba; bara leggjast upp í rúm og sofna.

Hugmyndin um að fá sér einn tvo bjóra og svo uppá hótel var fljótt slegin útaf borðinu. Úr varð að við tókum smá labb. Gústi og Óli fengu sér ís á McDonald´s og þaðan fórum við á lestarstöðina, pöntuðum okkur leigubíl og fórum í háttinn.

 

Dagur 7

  • 15. júní 2013. Regensburg - Langenbruck.
  • 102,39 km
  • 5:21:53

Morgunverður var ekki inni í verðinu á hótelinu. Dagurinn hófst því á því að við hjóluðum niður í miðbæ. Markmiðið var að fá okkur morgunmat og kaupa kort. Kvöldið áður höfðum við séð svakalega fína kortabúð sem við vissum að myndi opna kl. 9:00. Áætlanir stóðust nokkurn veginn og við vorum mættir við opnun.

Þetta var frábær kortabúð. Úrvalið stjarnfræðilegt. Jafnvel stjörnukort. Okkur vantaði gott Alpa-kort og við fjárfestum í einu slíku. Morgunmaturinn var svo keyptur í bakaríi og borðaður úti á gangstétt. Það var hlýtt þennan morguninn, og örugglega komið yfir 20 gráður fyrir klukkan 10:00.

Skammt frá bakaríinu hafði verið komið upp knattspyrnuvelli. Mjög svipaður völlur og íslensku sparkvellirnir sem eru út um allt. Framundan var leikur í Bundesligunni í blindrafótbolta. Þetta var svolítið fyndið. Allir útileikmenn voru með bundið fyrir augun, markmennirnir virtust hafa fulla sjón (ekki bundið fyrir augun) og svo var bjalla inni í boltanum. Líklega voru fimm útileikmenn í hvoru liði. Ég fylgdist með þessu í svona 15 mínútur. Lítið dró til tíðinda, fá tilþrif sáust og þegar við lögðum af stað var staðan 0-0.

Líkt og í Pilsen voru við lengi að koma okkur út úr bænum. Vorum eiginlega í smá rugli, duttum inn í eitthvað iðnaðarhverfi og klóruðum okkur í hausnum. Svona kort eru almennt ekki hentug fyrir borgarhjólreiðar. Hins vegar vorum við pínu heppnir þegar við fundum fyrir tilviljun Stadler verslun í þessu iðnaðarhverfi. Stadler er risavaxin búð sem selur hjól og hjólavörur. Við tókum smá stopp. Algjört möst. Úrvalið var náttúrulega fáránlegt og við rétt náðum að skanna búðina. Ég keypti mér nýjar hjólagrifflur, bara til að kaupa eitthvað.

Fyrsta stefna var tekin á smábæinn Sinzing, sem er rétt fyrir utan Regensburg. Við mættum fólki skömmu eftir Stadler og fengum leiðbeiningar. Næstu kílómetar voru smá ævintýri. Fyrst fórum við yfir engi og mjög grófa stíga, þar næst yfir Dóná og duttum svo inn í Sinzing. Þaðan fórum við svo í áttina að Dóná þar sem við komum að mjög skrítnum stíg; eiginlega var þetta grastroðningur sem fjaraði smám saman út. Við Gut Minoritenhof Golf & Countryclub fundum við síðan stíginn sem við vorum að leita að. Beina brautin var fundin!

Það er góð tilfinning að finna sjálfan sig á korti. Vita hvar maður er. Sérstaklega þegar maður er búinn að vera „týndur.” Dónárstígurinn var sléttur malarvegur framan af og leiðin einstaklega falleg, með ána á vinstri hönd og klettabelti hægra megin. Leiðin lá til Kelheim til að byrja með. Þar ætluðum við að fá okkur hádegismat. Hópurinn slitnaði í sundur ca. á miðri leið, við Gústi vorum í ágætu stuði og fórum aðeins á undan hinum og tókum smá spretti. Skiptumst á að vera á undan í ca. 30 sekúndur. Þetta voru fín átök og púlsinn fór aðeins upp.

Við biðum eftir strákunum þegar við komum inn í byggð og hjóluðum saman niður í miðbæ. Kelheim er 15 þúsund manna bær og því einfalt að finna aðaltorgið. Þar fundum við veitingastað og fengum okkur pasta og bjór. Það var frábær stemning í bænum á þessum laugardegi. Hljómsveit lék lög og það var troðið af fólki.

Hótel kvöldsins var ekki komið á hreint. Við ætluðum að panta hótel með símanum hans Gústa, en 3G inneign hans kláraðist þarna í hádeginu. Nú voru góð ráð dýr en við fundum raftækjaverslun í úthverfi bæjarins þar sem hugmyndin var að bæta við gagnamagnið á 3G kortinu. Það gekk ekki að óskum og því fór ég í  spjaldtölvu (sem var nettengd) og pantaði hótel, ef hótel skyldi kalla. Það heitir Pension Heidi.

Kelheim ruglið hófst í framhaldinu. Við héldum að við gætum haldið áfram á stígnum sem við höfðum verið á og hjólað meðfram Dóná. Það reyndist ekki vera hægt, nema með því að synda yfir ána með hjólin. Næstu 10 km voru svo mikið ævintýri. Eftir að hafa hjólað í gegnum smá skóg komum við aftur að stígnum sem lá meðfram Dónó. Sléttur og fallegur stígurinn breyttist smám saman í drullusvað. Ég lenti í bullandi vandræðum og dróst aftur úr. Drulla safnaðist  á gírana, tannhjólin og bremsurnar og ég komst hreinlega ekkert áfram. Ákvörðun var tekin um að drullast af þessum stíg við fyrsta tækifæri.

Við fórum aftur út á þjóðveg og náðum aðeins að gefa í. Næstu kílómetrar voru frekar subbulegir. Drullan sem hafði safnast  á dekkin þeyttist útum allt þegar hraðinn jókst, fór framan í okkur, upp í munn, á næsta mann og hvert sem var. Því var stoppað í næsta bæ, sem heitir Eining, fengið sér smá að drekka og mesti skíturinn fjarlægður.

Landslagið þarna var nokkuð slétt, engar alvöru brekkur, bara smá hæðir. Við fórum í gegnum nokkra bæi - Bad Gögging, Neustadt An Der Donau og Munchmunster - áður en við ákváðum að fá okkur að borða, enn og aftur, í bænum Vohburg. Enginn opinn veitingastaður fannst í bænum, en við fengum leiðbeiningar um að það væri ítalskur staður skammt frá,  aðeins fyrir utan bæinn. Hress Ítali tók á móti okkur og við fengum  fínustu rucola pizzur og bjór.

Í kjölfarið villtumst við aðeins. Urðum áttavilltir og hjóluðum í smá hring. Geisenfeld var svo síðasti bærinn áður en við komum að hótelinu. Klukkan var um 19:40 þegar við fundum þvottastöð í útjaðri bæjarins, en þar skoluðum við af hjólunum með háþrýstigræjum.

100 km myndin var tekin stuttu síðar. Á þeim tímapunkti var klukkan orðin 20:00 og ég fattaði að check-in á hótelinu var bara til kl. 20:00, en það voru nokkrir kílómetrar til stefnu. Hófst þá Pension Heidi brunið. Ég rauk af stað, allt í botni. Það var ekkert plan B.

Ég var kominn á Pension Heidi um kl. 20:15, og strákarnir rétt á eftir. Það var enginn á hótelinu/gistiheimilinu og smá panik í hópnum. Við fundum eitthvað símanúmer og Gústi hringdi. Það vildi svo heppilega til að í sama húsi var bensínstöð/lítil búð. Þar beið lykillinn okkar. Yndisleg og hress eldri kona stóð þar vaktina. Hjólunum var komið fyrir í læstum bílskúr.

Í búðinni var hægt að kaupa bjór. Ískaldan hveitibjór á €1. Við sátum úti á bekk og fengum okkur einn. Þetta var búinn að vera langur, heitur og skítugur dagur með smá dassi af rugli og stressi. Það var aðeins byrjað að dimma. Gústi, Svavar og Júlli fóru upp á herbergi en við Óli fengum okkur annan bjór. Ég man hvað mér leið hrikalega vel á þessum bekk, með kaldan bjór, þreyttur og glaður, að spjalla við Óla. Þetta var uppáhalds augnablikið mitt í ferðinni fram að þessu.

Veitingastaður kvöldsins var hinu megin við götuna. Þetta var sæmilega stór staður og við sátum úti á palli. Mig minnir að við höfum flestir pantað okkur kálfakjöt, og líklega bjór með, ef mér skjátlast ekki.

Gistiaðstaðan var óvenjuleg. Í rauninni vorum við í þriggja herbergja íbúð á 2. hæð. Það voru tvö svefnherbergi, sjónvarpsherbergi og eldhús. Kvöldinu eyddum við í að skoða nýju kortin sem við höfðum keypt í Regensburg um morguninn,  horfa á álfukeppnina í fótbolta og drekkka smá bjór.

 

Dagur 8

  • 16. júní 2013. Langenbruck - Gröbenzell.
  • 95,13 km
  • 5:02:26

Morgunmaturinn á Pension Heidi var slappur. Úrvalið takmarkað og það sem var í boði ekkert sérstaklega gott. Á morgni sem þessum hefði maður helst viljað fá egg og beikon en ekki þurrt brauð með smjöri.

Hjóladagurinn fór nokkuð rólega af stað. Það var sunnudagur, fáir á ferli og því var hjólað í suðurátt á semisveitavegi. Áfangastaður hafði ekki verið valinn. Planið var að hjóla í áttina að München, skoða Dachau safnið, sem er þar rétt norðvestan við, og finna svo hótel í framhaldinu.

Fyrsta stopp var í bænum Pfaffenhofen an der Ilm eftir ca. 20 km. Flestar búðir voru lokaðar, en við fundum bensínstöð/bakarí sem var opið. Þar var fyllt á tankinn; kók, muffins og sætabrauð.

Í Pfaffenhofen duttum við inn á merkta hjólastíga sem við höfðum séð á kortinu okkar góða. Við þræddum þessa hjólastíga næstu 25 km. Þetta var frekar þægilegt, lítið um brekkur, virkilega góðar merkingar á stígakerfinu og bara til fyrirmyndar hjá Þjóðverjanum. Stígarnir voru líklega um 2 m breiðir og ýmist malbik, möl eða niðurþjöppuð mold. En mikið ofboðslega var heitt. Um hádegisbil var líklega kominn 30 stiga hiti, logn og glampandi sól.

Bjórþorsti og svengd fór að gera vart við sig skömmu eftir hádegi. Það var þá sem við komum inn í bæinn Fahrenzhausen, en hann virtist vera þokkalega stór miðað við leturstærð á kortinu. Þetta var hins vegar bara 5000 manna bær. Erfitt var að átta sig á því hvar miðbærinn var og því var ákveðið að taka einhvern hring. Fljótlega vorum við komnir inn í íbúðahverfi og það vildi svo skemmtilega til að það var einhvers konar bæjarhátíð í gangi.

Að sjálfsögðu stoppuðum við og tókum þátt í hátíðinni. Búið var að koma upp grillum og bekkjum og þarna var hljómsveit að spila og fullt af fólki setið við öll borð. Ég myndi skjóta á að þarna hafi verið ca. 200 manns. Það sem var í gangi var söfnun fyrir slökkvilið bæjarins, enda var hátíðin á planinu fyrir framan slökkvistöðina.

Djöfull var heitt. Menn mökuðu á sig sólarvörn og settust svo að snæðingi. Það var ýmislegt í boði. Grillaðar pylsur og lambakjöt og risastórar kringlur. Bjór var á boðstólum en eingöngu í líters glösum. Hann var æðislegur og svalandi. Þetta var góð stund og óvænt og ein af þeim eftirminnilegri í ferðinni allri.

Áfram héldum við svo á hjólastígunum og eftir um 25 km, eða um kl. 15:00, komum við að Dachau útrýmingarbúðunum. Gústi er mikið sagnfræðinörd og var aðal hvatamaðurinn að því að fara að skoða. Við hinir vorum einnig áhugasamir og áhugaverð tilbreyting í ferðinni.

Búðirnar, safnið, eða minnisvarðinn (veit ekki alveg hvað á að kalla þetta) er eins og nafnið gefur til kynna í bænum Dachau, 50 þúsund manna bæ um 20 km norðvestur af München. Maður hafði heyrt af fólki sem hafði farið í Auschwitz búðirnar í Póllandi og  komið út sem „breyttar manneskjur” eftir að hafa skoðað þann hryllilega stað. Það var því nettur hnútur í maganum þegar maður fór inn um hliðið, en þar var setningin þekkta „Arbeit macht frei.”

Þetta var fróðleg heimsókn. Gústi sá um stóran hluta fræðslunnar en einnig var þarna stórt safn með upplýsingum um þessar  og fleiri búðir. Við fórum í gegnum safnið og þar mátti sjá margar skelfilegar ljósmyndir og sögur af og úr þessum búðum. Einnig var hægt að skoða vistverur fanganna, sem voru auðvitað hræðilegar. Gott stopp og fínt að taka því rólega yfir heitasta tíma dagsins.

Eftir þetta fórum við inn í bæinn þar sem við ætluðum að finna McDonald´s stað, sem væri með internetsamband, og panta okkur hótel fyrir nóttina. Eftir mikla leit og stoppi á bensínstöð þar sem við spurðum til vegar tókst okkur að finna slíkan stað við Dachau Bahnhof. Leitin að hóteli í hóflegri fjarlægð gekk illa auk þess sem menn voru ekki alveg sammála um hvers langt í viðbót við ættum að hjóla. Smá pirrings fór að gæta í hópnum. Endaði þetta þannig að við fundum enga gistingu á viðráðanlegu verði og héldum áfram að hjóla í suðvestur átt.

Við komum svo í bæinn Olching eftir um 15 km og ætluðum að detta inn á einhverja gistingu. Þar hittum við fyrir eldri hjón og spurðum til vegar. Þau voru einstaklega hjálpsöm og maðurinn, sem var á hjóli, vísaði okkur veginn og hjólaði með okkur á hótel sem var ekki svo langt frá. Það hótel reyndist vera alltof dýrt m.v. okkar áætlanir og engin hostel eða ódýrari hótel í bænum. Hótelstúlkan var hins vegar til í að hjálpa okkur og fann fyrir okkur hostel í næsta bæ, hringdi þangað og lét taka frá herbergi handa okkur.

Hostelið (Hostel Narnia) er í bænum Gröbenzell, 20 þúsund manna bæ í um 10 km fjarlægð frá Olching. Þetta var ekki merkilegt hostel. Það var aðeins eitt herbergi laust fyrir okkur fimm. Hins vegar voru bara tvær kojur í því herbergi, en svo var bedda smellt á gólfið. Ég fórnaði mér og tók beddann. Herbergið var þröngt og lítið og það var enn mjög heitt, en fyrst og fremst vorum við ánægðir að hafa fengið einhverja gistingu.

Við Óli tókum smá rölt á meðan aðrir fóru í sturtu, tóku tvist, teygðu á, eða hvað sem menn gerðu í lok hjóladags. Bensínstöð var áfangastaðurinn. Þar keyptum við bjór fyrir mannskapinn. Einn svalandi áður en við færum út að borða. Hér má benda á að við vorum ekki búnir að drekka neinn bjór síðan á bæjarhátíðinni.

Hostelstarfsmaðurinn mælti með grískum veitingastað fyrir okkur. Þar væri bæði góður matur og menn kæmust á wi-fi (sem var ekki á hostelinu). Við þurftum ekki að heyra meira. El Greco varð fyrir valinu og það vildi svo skemmtilega til að hannvarr ca. 200 metra frá hostelinu.

El Greco er töff staður. Við sátum úti í garði og vorum vel stemmdir. Bjórinn sem við Óli græjuðum var mikilvægur og róaði annars temmilega pirraðan hóp. Eins og oft áður sá Gústi um að þýða matseðilinn. Ég borðaði eitthvað kjöt í aðalrétt en forréttirnir eru eftirminnilegri því við tókum allir saman tvo risabakka með allskonar grískum réttum, og það er ekki fræðilegur möguleiki að ég geti munað hvað það var. Eitt man ég þó. Menn átu yfir sig þetta kvöld, og drukku með.

Þarna var líka hart tekist á um landbúnaðarmál og gæði íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Spannst sú umræða út frá gæðum íslenskra osta ef ég man rétt. Sitt sýndist hverjum (aðallega voru það þó Gústi og Svavar, ef ég man rétt) og voru þetta skeleggar umræður og rökfastar, en aldrei tilfinningaþrungnar.

Þetta var fínn dagur, heitur nokkuð léttur hjólalega og skemmtilega fjölbreyttur.

 

Dagur 9

  • 17. júní 2013. Gröbenzell - Kempten.
  • 125,18 km
  • 6:19:57

Ég svaf ekkert sérstaklega vel á beddanum. Samt ekkert illa.

Það var enginn morgunmatur í boði á hostelinu og því var bara komið sér í gallann, hjólin græjuð og brunað í bæinn Olching. Þar fundum við búð, keyptum morgunmat og  birgðir fyrir daginn . Morgunarmaturinn var borðaður fyrir utan búðina. Klassískur morgunverður; jógúrt, ávextir, djús og sætabrauð. Keyra þetta í gang. Reyndar misstum við matarlystinu um stund þegar ein ruddaleg tanorexíu/anorexíu-kona mætti á svæðið. Djöfull var hún mjó og djöfull var hún brún.

Þetta var heitasti dagurinn fram að þess og strax snemma um morguninn var hitinn kominn yfir 30 gráðurnar. Fyrst var stefnan tekin á bæinn Furstenfeldbruck. Þar lentum við í smá vandræðum. Við vorum að reyna að fylgja hjólastígakerfinu sem við höfðum verið inn á síðustu daga en  fundum það ekki alveg þegar inn í bæinn var komið, þó það hafi gengið fyrir rest. Á korti virkaði bærinn Landsberg am Lech hóflega stór til að vera áfangastaður hádegisverðar.

Það var nokkuð stöðug hækkun á þessum kafla, mikill hiti og engin sérstök vellíðan. Við vorum áfram á  svipuðu stígum og við höfðum verið á alla leiðina að Landsberg. Þangað komum við um hádegi, eftir svona 40-50 km, vel grillaðir og svangir.

Í miðbænum fundum við ágætlega huggulegan veitingastað sem bauð uppá pítsur og pasta og við settumst inn og geymdum hjólin í skugga. Ég fékk mér pítsu og bjór. Á veitingastaðnum var tvífari Rafa Benitez, því líklega var þetta ekki hann sjálfur. Þetta var ekki eini tvífari dagsins. Meira um það síðar.

Um miðjan dag var ferðin hálfnuð í tíma, þ.e. átta og hálfur dagur var liðinn af 17 daga ferð. Við vorum þá staddir í einhverjum bæ um 20 km sunnan við Landsberg og stoppuðum í kjörbúð, fengum  kók og súkkulaði og tókum nokkrar myndir þar sem við sátum á svokölluðum tröllabekk. Þarna vorum við  búnir að hjóla ca. 900 km í heildina.

Áfram héldum við í suðvesturátt. Landslagið breyttist smám saman, brekkurnar lengdust og urðu tíðari og brattari. Við sáum líka Alpana í fyrsta sinn. Það var góð tilfinning. Fyrir mig voru Alparnir eiginlega kjarni ferðarinnar svona hjólalega séð og við það að sjá þá þarna í fjarska fylltist maður blöndu af ótta og tilhlökkun.

Hitinn hélt áfram að hækka og þorstinn í bjór jókst með hverjum kílómetranum. Við fórum í gegnum hvern smábæinn á fætur öðrum í leit að þessum töfradrykk en það gekk illa að finna bar. Það var ekki fyrr en skömmu áður en við komum að Kempten að við fundum opinn bar. Klukkan var þá orðin rúmlega 18:00. Við sátum úti undir sólhlíf til að verjast brennandi sólinni.

Það var stutt eftir af dagleiðinni, það vissum við. En við vissum ekki að fyrst þyrftum við að hjóla upp síðustu brekku dagsins. Hún var löng og brött en við börðumst áfram. Líklegast í fyrsta gír. Þá kom einn alvöru hjólagaur á racer og brunaði fram úr okkur. Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég sé menn hjóla svona hratt upp brekkur.

Útsýnið upp á toppi hæðarinnar var magnað og Alparnir sáust núna fáránlega vel. Teknar voru myndir áður en við runnum  niður í Kempten, en þangað komum við rétt um kl. 20:00. Kempten er 65.000 manna bær og er elsti bær Þýskalands. Við áttum pantað hótelherbergi á Hotel Furstenhof. Það gekk vel að finna hótelið sem er staðsett alveg í miðbænum. Þetta var dýrasta gistingin fram að þessu, en það var ekkert annað í boði fyrir okkur í þessum bæ. Hótelið var líka mjög flott og alltaf mikill styrkur fyrir hótel þegar það bíður manns lítið súkkulaðistykki á rúminu uppi á herbergi. Hótel Furstenhof var þannig hótel.

Hótelstarfsmaður mælti með veitingastað handa okkur. Sá staður heitir Zum Stift og var í ca. 10 mínútna göngufæri frá hótelinu. Við höfðum ekkert verið að drífa okkur þegar við komum til Kempten og vorum meira að segja búnir að ákveða að taka hvíldardag daginn eftir, þannig að við mættum ekki á Zum Stift fyrr en rétt fyrir kl. 22:00.

Þjónustustúlka kom svo til okkar rétt rúmlega 22:00 og tilkynnti okkur að það væri búið að loka eldhúsinu og enginn matur í boði. Gústi mælti fyrir hópinn og benti henni á að við hefðum verið komnir fyrir klukkan tíu og að við ætluðum víst að fá mat. Ákveðni Gústa skilaði sér og við fengum að panta mat og bjór. Við sátum úti í stórum garði og það var stappað af fólki. Þjóðverjinn greinilega í góðri stemningu á mánudegi.

Á Zum Stift var annar tvífari dagsins,  enginn annar en Valtýr Björn Valtýsson var mættur til Kempten, og ekki nóg með það, heldur sat hann við næsta borð og talaði reiprennandi þýsku. Fjölhæfur hann Valtýr og tekur sænsku Adolfs Inga í nefið.

Við héldum heim á leið á hótelið rétt fyrir miðnætti. Maturinn hafði farið eitthvað illa í magann á Svavari og hann labbaði aðeins fyrir framan mig og Óla þegar kona tók framúr okkur og var rétt fyrir aftan Svavar. Byrjar okkur maður þá að reka við, og það ítrekað og af krafti. Honum til varnar þá vissi hann ekki af konunni, en svona gerir maður ekki.

 

Dagur 10

  • 18. júní 2013. Kempten. Hvíldardagur.

Hotel Peterhof

Það var hvíldardagur í Kempten. Tempóið fyrstu 9 daga ferðarinnar hafði verið gott og við vorum alls búnir að hjóla 960 km og því aðeins á undan áætlun.

Morgunmaturinn á Furstenhof var ágætur en það var verra að þurfa að taka daginn snemma á hvíldardegi. Ástæðan var sú að það var ekki laust herbergi fyrir okkur aðra nótt á hótelinu og því þurftum við að færa okkur á Hotel Peterhof sem var í ca. 2 km fjarlægð frá miðbænum, en samt á ágætis stað.

Eftir checkin á Peterhof tókum við röltið í mollið; Forum Allgau. Ég hafði aðeins eitt kaupverkefni í ferðinni. Það var að kaupa chihuahua bangsahund fyrir Kristínu Maríu og Pétur Pan plakkat fyrir Sunnu Karen. Í svona ferð er ekkert pláss í töskum og því er enginn óþarfi keyptur. Við vorum því svolítið eins og illa gerðir hlutir í þessari búðarferð.

Svo skiptist hópurinn aðeins upp. Ég fór í H&M verslunarkeðjuna og keypti mér nærbuxur og var síðan aðeins með augun opin fyrir síðerma hjólatreyju, sem fannst þó ekki. Við Óli hittumst svo fyrir tilviljun og fengum okkur Subway í hádegismat.

Eftir smá hvíld uppá hóteli yfir miðjan daginn fórum við Óli svo í smá gönguferð um bæinn og vorum menningarlegir. Við gengum  meðfram ánni Iller, sem rennur þarna í gegn, og gerðumst meira að segja svo djarfir að setjast inn í kirkju. Þar voru fáir, en þó nokkrir líklega svona 10 manns sem muldruðu eitthvað, non-stop. Ég skil ekki svona lagað. Þau sjálf skilja örugglega ekki hvers vegna við hjólum. Ágætt að það séu ekki allir eins.

Allur hópurinn fór svo aftur saman í Forum Allgau og keypti nesti fyrir næsta dag. Síðan þurfti auðvitað að fá sér kvöldverð. Fyrir valinu varð huggulegur lítill staður ekki svo langt frá Hotel Furstenhof. Við heyrðum í þrumum og það var orðið rigningarlegt. Þess vegna var þetta ekki langt stopp, borðað og farið, og komið tiltölulega snemma upp á hótel. Þar hittumst við í herbergi Júlla og Svavars og lögðum á ráðin með næstu daga. Alparnir voru steinsnar frá okkur og ýmsir möguleikar í boði.

 

Dagur 11

  • 19. júní 2013. Kempten - Feldkirch
  • 118,13 km
  • 6:27:15

Morgunmaturinn á Hotel Peterhof var geggjaður. Langbesti morgunmatur ferðarinnar. Fullt hús og verður ekki betra.

Við vorum ekki komnir út úr Kempten þegar fyrsta óhapp ferðarinnar kom upp. Keðjan á hjóli Gústa slitnaði. Einhver var með auka keðju og því var skipt um. Við erum ekki vanir menn í svona viðgerðum og þetta tók örugglega svona 20 mínútur.

Leiðin lá svo í suður upp meðfram ánni Iller. Bein stefna á Alpana. Landslagið á þessum kafla var reyndar frekar slétt og stígurinn mjög fínn. Að vísu fórum við frekar hægt yfir þar sem Gústi var pínu hikandi með nýju keðjuna. Síðan var stoppað í bænum Immenstadt eftir ca. 30 km þar sem við fengum okkur smá nesti.

Eftir þetta stopp var stefnan tekin beint í vestur í áttina að Oberstaufen. Fyrst lá leiðin meðfram stóru vatni - Grosser Alpsee. Þar er ægifagurt og greinilega mikil paradís. Stuttu seinna komum við svo að Alpsee Bergwelt og þar var hægt að fara í semi-rússíbana. Samt ekki beint rússibani. Við Gústi prófuðum þetta. Fyrst tókum við skíðalyftu (þetta er skíðastaður yfir veturinn) uppí ca. 800 m hæð þar sem við fórum í sitthvorn bílinn/vagninn og tókum svo keyrandi risa-stórsvig alla leiðina niður. Gaman að prófa þetta, fínn hraði og ágætis adrenalín. En tók kannski aðeins of mikinn tíma í heildina.

Þessi dalur sem við vorum að hjóla í eftir var fallegur og nokkuð sléttur. Hitinn var skuggalegur og ekki leið á löngu þar til við stoppuðum aftur. Núna var það í hjólabúð. Hjólið hans Svavars var búið að vera með einhver leiðindi og hann lét líta á það. Keypt var ný keðja og svo haldið áfram.

Næst var stoppað í bænum Oberstaufen, stuttu eftir hjólabúðina. Þá höfðum við hjólað ca. 50 km í heildina en það hafði tekið svolítinn tíma með öllum þessum stoppum. Oberstaufen er sjö þúsund manna bær og það tók okkur smástund að finna ítalskan veitingastað, en hafðist fyrir rest, og við borðuðum og drukkum á Gemsle Cafe. Sátum úti á svölum á annarri hæð og það virtist enginn annar vera þarna en við.

Kaflinn frá Oberstaufan að bænum Dornbirn var hrikalega erfiður. Fyrir það fyrsta þá var hitinn ruddalegur eins og fram hefur komið og maður var stöðugt að drekka. Vatn, kók, djús. Bara hvað sem er. Þá komumst við í smá ógöngur til að byrja með. Við ætluðum að fara einhvern svakalega sniðugan malarveg sem lá meðfram þjóðveginum, en það fór ekki betur

en svo að við komum að dead-end og þurftum að snúa við. Eftir það hjóluðum við bara á þjóðvegunum. Umferðin var róleg til að byrja með en jókst þegar leið á daginn.

Þessi kafli hefur verið um 40 km í heildina og sá erfiðasti í ferðinni fram að þessu að mínu mati. Landslagið var orðið hrikalegra en áður og þetta voru meira og minna langar brekkur upp og svo brunað niður. Mér var orðið hálf bumbult í maganum og hafði líklega drukkið yfir mig af vökva. Á miðri þessari leið fórum við svo inn í Austurríki. Þriðja landið í ferðinni.

Við komum að bænum Dornbirn  seinni partinn; líklega um kl. 17:00. Þar sem við brunuðum niður að þeim bæ komum við að göngum, en þar er bannað að hjóla. Sem betur fer var vegur sem lá nokkurn veginn samsíða göngunum því annars hefðu góð ráð verið dýr.

Lokakaflinn, frá Dornbirn að Feldkirch, var eiginlega rennisléttur og þetta voru þægilegir 30 km. Á vinstri hönd var glæsilegt frekar lágt klettabelti en á þeirri hægri var hár fjallgarður. Það var ágætis kraftur í strákunum á þessum kafla en sjálfur átti ég í pínu basli og var eiginlega alveg orkulaus. Samt drullaðist maður áfram.

Við stoppuðum stutt í bænum Götzis, aðallega til að taka mynd af okkur við bæjarskiltið. Skv. Gústa keppti Jón Arnar Magnússon reglulega þar í tugþraut á árum áður, og skv. wikipedia síðu Jóns Arnars tók hann alls þátt í tíu þrautum í bænum, fyrst árið 1994 og síðasta árið 2004.

Hostel Feldkirch - Jugendherbergen var gistiheimili næturinnar. Þangað komum rétt um kl. 19:00 og ég var dauðuppgefinn, grillaður og svangur. Þetta var flott gamalt hús á þremur hæðum og með kjallara og ef ég man  rétt þá var þetta heimili fyrir berklasjúklinga einhvern tímann fyrir löngu síðan. Herbergin okkar voru á annarri hæð og þar var sko heitt.

Engin loftræsting í boði á svona low-budget hosteli. Sturtuaðstaðan var sameiginleg - 2 sturtur fyrir hæðina.

Sturtan gerði ekkert sérstaklega mikið fyrir mig og ég var ennþá að svitna þegar við fórum á China-Restaurant Lotos, sem var hinu megin við götuna. Ekkert verið að flækja málin. Boðið var upp á kínverskt hlaðborð, bjór og ís í eftirrétt. Það dropaði af mér svitinn allan matinn. Ekki gaman.

Þetta var falleg dagleið - líklega sú fallegasta hingað til, en upplifunin litaðist pínulítið af ýmiss konar veseni og hita.

 

Dagur 12

  • 20. júní 2013. Feldkirch - Davos
  • 86,4 km
  • 5:17:25

Ég svaf illa í eigin svitabaði og var eiginlega bara glaður að nóttin væri liðin. Morgunmaturinn samanstóð af þurru brauði, áleggi og ávaxtasafa. Við vorum því nokkuð snöggir af stað. Leiðin lá til Davos í Sviss og við sáum fram á erfiðasta dag ferðarinnar fram að þessu.

Við stoppuðum í búð í Feldkirch og keyptum nesti áður en við tókum stefnunum á Vaduz í Liechtenstein. Líklega voru ekki nema um 6-7 km inn í Liechtenstein, aðrir 7 km  inn í höfuðborgina Vaduz og síðan 7  km út úr landinu. Við stoppuðum í rauninni ekkert, nema rétt fyrir myndatöku en hjóluðum bara í gegn. Þetta er ekki nema 36 þúsund manna land og ekkert að sjá sem við höfðum ekki séð áður. Þannig séð.

Sviss tók við eftir Liechtenstein og strax við landamærin tók brekka á móti okkur. Hópurinn slitnaði strax  í sundur því við Gústi fórum smá á undan. Veðrið var mildara, skýjað og alls ekki of heitt. Skriðdrekar tóku framúr okkur í brekkunni og uppi á toppi var opið svæði og heræfing í gangi. Frá toppi runnum við svo niður í bæinn Maienfeld þar sem við stoppuðum í hádegismat. Þetta er lítill bær með ekki nema 3000 íbúa, en það var of langt í næsta sæmilega stóra bæ. Það kom ekki að sök því þarna fundum við sveitta verkamannabúllu sem var opin. Eitthvað tvennt var í boði í matinn en við sáum aldrei matseðil. Þetta var svo sem   og bjórinn fínn, en okkur var brugðið þegar reikningurinn kom. Ætli þetta hafi ekki verið hátt í 4000 kr. á mann.

Í bænum Landquart skildu leiðir. Við fórum yfir málin og vorum sammála um að ég og Gústi myndum bara fara á okkar hraða og svo myndum við hittast í bænum Klosters, en þangað voru 34 km Þaðan væru svo ca. 12 km í Davos. Lestur okkar á kortin gerði ráð fyrir að nú fyrst yrði þetta erfitt og að Alparnir væru að byrja fyrir alvöru.

Það var reyndar ekki alveg þannig og við vorum í raun að hjóla upp með á sem rann í eftir dal. Vissulega var hækkunin nokkur á þessu kafla en það varð aldrei sérlega bratt. Landquart er í 550 m hæð yfir sjávarmáli á meðan Klosters er í 1179 m hæð.

Þjóðvegur með mikilli traffík lá  eftir dalnum en sem betur fer lágu hjólastígar  meðfram veginum megnið af leiðinni. Einnig vorum við á kafla alveg upp við ána, og þá fann maður að það kólnaði verulega. Þetta var ísköld á. Ferðin gekk stórslysalaust fyrir sig. Að vísu villtumst við pínulítið á kafla, þurftum að spyrja til vegar og hjóluðum upp brekku sem var með 20% halla (það var erfitt). Síðan hittumst við allir í Klosters, en þá höfðum við Gústi líklega beðið í góðan hálftíma, fengið okkur að borða í súpermarkaði og slakað á.

Lokakaflinn til Davos var yfir fyrsta fjallaskarð ferðarinnar sem hafði nafn: Wolfgang Pass. Hæst fer það í 1631 m og hallinn er mestur 10%. Þetta var erfitt meðan á því stóð og fyrsta alvöru þolraunin. Við tókum þessu bara nokkuð rólega og Óli sýndi styrk sinn í bröttum brekkunum. Um miðja brekkuna kom úrhellisrigning og við leituðum skjóls (við vorum svo heppnir að um leið og úrhellið byrjaði vorum við staddir við einu bygginguna í brekkunni).

Frá toppnum runnum við síðan síðustu kílómetrana inn í Davos. Björgólfur Thor Björgólfsson var hvergi sjáanlegur en hótelið fannst eftir að við spurðum til vegar. Jugendherberge Davos Youthpalace var ódýrasta gistingin sem við fundum í bænum og auðvitað þurfti það að vera staðsett í efsta hluta bæjarins og því fengum við smá baráttu þarna í lokin.

Youthpalace var fínasta hostel, á fimm hæðum, snyrtilegt, herbergin ágæt, skítsæmilegt wi-fi og þar var viðkunnalegur afgreiðslumaður sem talaði góða ensku og vildi allt fyrir okkur gera. Útsýnið var líka magnað yfir Alpana.

En það var verst með helvítis verðlagið í Sviss. Við hreinlega tímdum ekki að fara út að borða og ákváðum að fara bara út í búð, kaupa pasta og eitthvað gott og elda á staðnum. Það gekk ekki því það var búið að loka eldunaraðstöðunni.

Því var farið út í búð og keypt í matinn. Flestar almennar matvörubúðir voru lokaðar en það var einhver svona 10-11 búð opin, en þó með mun minna úrvali en 10-11 er með og miklu

hærra verð. Kvöldmaturinn samanstóð af samlokum, jógúrti, kóki og bjór. Hljómar ekki vel saman, en fínasta blanda engu að síður.

Kvöldið fór svo í að skipuleggja næsta dag og finna gistingu. Það var aðeins flóknara en áður þar sem við höfðum ákveðið að skipta hópnum upp hluta af næsta degi, en ætluðum svo að hittast á sama hótelinu.

 

Dagur 13

  • 21. júní 2013. Davos - Grosio
  • 136,22 km
  • 9:00:35

Venju samkvæmt hófst dagurinn á morgunmat og svo búðarferð. Við vorum staddir í 1560 m hæð yfir sjávarmáli í Davos, það var frekar kalt í morgunsárið í þessari hæð og við sáum fram á erfiðan hjóladag, sem varð raunin.

Dagurinn skiptist í rauninni í fimm hluta.

Fyrsti hluti: Flüela Pass.

Fyrsta fjallaskarðið hófst í 1554 m hæð yfir sjávarmáli og endaði í 2383 m. Vegaengdin upp á topp var 13 km, meðalhallinn 6,4% og heildarhækkunin 829 m.

Þetta var erfitt, en samt ekkert viðbjóðslega erfitt. Svavar og Júlli fóru aðeins á undan okkur, en við hinir fórum ca. 10 mínútum seinna af stað. Hjólið var sett í fyrsta gír og svo voru þetta bara þokkaleg átök í ca. 90 mínútur, og engin löng stopp á leiðinni. Það leið ekki á löngu þar til tré fóru að lækka og líklega um miðja brekku fórum við upp fyrir trjálínu. Brattinn jókst eftir því sem leið, síðustu 5 km voru með tæplega 8% halla að meðaltali. Þá var kominn slatti af snjó og hafði að kólnað nokkuð og hitinn kannski um 10°C. Við komum allir upp á topp á svipuðum tíma, tylltum okkur aðeins niður, tókum myndir, fengum okkur smá að borða og héldum svo áfram.

Lækkunin hinu megin var 957 m á 13 km. Við byrjuðum í 2383 m og fórum niður í 1426 m en þá komum við í bæinn Susch. Meðalhallinn í lækkuninni var 7,4%.

Það er ekki einfalt að hjóla niður svona bratta brekku og varla hægt að tala um að maður sé að hjóla því í rauninni er maður bara að renna, bremsa og passa að  fara ekki of hratt en um leið er maður líka að reyna að njóta útsýnisins sem er stórkostlegt. Því var stoppað 2-3 sinnum til að taka myndir.

Frá Susch til Zernez voru síðan rúmir 6 km sem við hjóluðum saman. Það var þægilegur kafli, sléttur og rólegur. Þriðja Burning Mountain Festival raftónlistarhátíðin var í fullum gangi skammt fyrir utan Zernez, en þó voru flestir líklega þunnir, og það var straumur fólks til bæjarins. Við stoppuðum í Zernez og ætluðum að fá okkur heita máltíð á veitingastað. En þá föttuðum við að við vorum ennþá í Sviss. Því var farið í súpermarkaðinn, sem var troðfullur af þunnum raftónlistarkrökkum. Þar fengum við okkur hádegismat og leiðir skildu. Ég, Gústi og Óli fórum saman í austurátt, en Svavar og Júlli fóru í suðvestur. Svo ætluðum við að hittast í bænum Grosio um kvöldið.

Annar hluti: Passo del Fuorn/Ofenpass.

Annað fjallaskarðið hófst í 1473 m hæð yfir sjávarmáli og endaði í 2149 m. Vegalengdin upp á topp var 21,6 km, meðalhallinn 3,1% og heildarhækkunin 829 m en heildarklifrið er 968 m. Heildarklifrið er meira þar sem það kom rúmlega 100 metra lækkun um miðja leið.

Þetta var aðeins auðveldara en fyrsta skarðið á heildina litið. Vissulega er þetta töluvert lengra, en á móti kemur að hallinn er minni heilt yfir og við fengum ágæta 5 km hvíld eftir um 7 km. Strax eftir 1 km varð brekkan mjög brött og kílómetrar 1-4 voru með 8,1% halla að meðaltali. Síðan var þetta bara nokkuð þægilegt alveg þangað til rétt í lokin, en síðustu 2 km voru með 9,1% og 8,2% halla.

Þarna vorum við samtals búnir að hjóla ca. 55 km og heildarhækkun dagsins komin í 1818 m. Eitt af markmiðum ferðarinnar var að fara í meiri hæð en Hvannadalshnjúkur (2110 m) og við vorum búnir að ná því tvisvar, og það á sama deginum.

Frá toppi að næsta stoppi (þetta rímaði) voru tæpir 14 km og það allt niður í móti. Fyrstu fimm kílómetrana var mjög brött lækkun, allt að 12% halli, en síðan kom um 5 km frekar sléttur kafli áður en við tókum aðra 7-9% lækkun síðustu 4 km. Þá vorum við komnir í Santa Maria Val Mustair, sem er í 1375 m hæð.

Í Santa Maria Val Muster var ca. 20°C hiti og skýjað og við vorum svangir. Við vildum eina heita, góða, kolvetnaríka og dýra máltíð áður en við tækjum lokakaflann útúr Sviss. En nei. Á þessum tíma í þessum bæ var heitur matur ekki í boði sem er kannski ekki skrítið þar sem íbúar bæjarins eru rétt tæplega 400 og það var ekki matmálstími. Hins vegar fundum við bar og fengum dýrindis hveitibjór.

Á meðan við sötruðum þennan bjór og reyndum að koma niður enn einum banananum og súkkulaðinu ræddum við um það sem var framundan, en það var Umbrail Pass, okkar langerfiðasta þolraun fram að þessu. Klukkan var ca. 16:00 og við vorum allir sammála um að það meikaði ekkert sens að ætla að hjóla upp þessa brekku; frekar þreyttir, illa nærðir og pínulítið óttaslegnir yfir því sem framundan var. En það stoppaði okkur ekki.

Þriðji hluti: Umbrail Pass.

Umbrail Pass hófst í 1375 m hæð yfir sjávarmáli og endaði í 2501 m. Vegalengdin upp á topp var 13,2 km, meðalhallinn 8,5% og heildarhækkunin 1126 m.

Þetta byrjaði af krafti í 9,5% halla og það var sæmilega þéttur skógur fyrst 3-4 km og þá vorum við að hjóla fram og til baka. Reyndum að taka beygjurnar sem víðastar til að fá smá breik. Við fengum þá hugmynd að kalla alltaf eftir hvern hjólaðan kílómeter en drifum aðeins upp í „EINN” en þá vildi Gústi ekki meira af því.

Um miðja brekku kom smá malarkafli þar sem við tókum matar- og drykkjarstopp. Áður höfðum við stoppað nokkrum sinnum rétt til að ná andanum, en ekki of lengi svo við myndm ekki stífna upp. Það er nefnilega helvíti erfitt að taka aftur af stað í

brekku og tekur mann 2-3 mínútur að ná aftur sama tempói. Á malarkaflanum var aðeins lengra stopp og Gústi dró upp stóran bjór sem við deildum. Vatnið og djúsinn var svo sem ágætt en bjórinn gerði meira fyrir mann. Lét mann mögulega slaka aðeins á vöðvunum en gaf manni líka kraft. Erfitt að lýsa því en við erum að tala um semi-bugaða menn af þreytu og við notuðum bara það sem virkaði.

Áfram héldum við svo á þrjóskunni einni saman. Tré voru horfin, lítið um annan gróður og aðallega möl og grjót meðfram veginum. Hitinn lækkaði stöðugt og þegar það voru svona 3 km eftir (2200 metra hæð) var ég eiginlega kominn í  öll fötin mín, vettlinga og með lambhúshettu. Við höfðum haldið hópinn fram að þessu en Gústi fór að dragast aftur úr - var að verða orkulaus - og ákvað að skella í sig einhverju geli sem hann var með. Það fór ekki betur en svo að hann var næstum búinn að æla.

Þegar þarna var komið vorum við farnir að sjá Stelvio, aðal markmið þessarar dagleiðar en við erum að tala um að Stelvio var ÞARNA uppi og maður fór að efast hvort við myndum hreinlega komast þetta.

Við kláruðum Umbrail Pass, vorum komnir í 2501 m og inn í síðasta landið í ferðinni, Ítalíu.

Fjórði hluti: Stelvio Pass.

Vandinn var sá að klukkan var orðinn 19:00, við vorum svangir, kaldir og þreyttir og það var virkilega freistandi að taka aflíðandi hægri beygju og renna í rólegheitunum á hótelið í heita sturtu. Það varð hins vegar ekki ofaná. Þess í stað opnuðum við bjór sem við deildum, tókum töskurnar af hjólunum og sögðum „fuck it”. Við sögðum það ekki beint, en þið skiljið. Þetta var einfaldlega dauðafæri á því að hjóla eina flottustu og frægustu hjólaleið í heimi.

Frá húsinu við vegamótin og upp á topp eru 3 km. Við byrjuðum í 2490 m hæð og enduðum í 2758 m. Meðalhallinn var rúmlega 10% og fór hæst í 12%. Heildarhækkun upp á 268 m. Heildarhækkun dagsins var þá komin í 3211 m.

Einhvern veginn fórum við upp. Bjór, kuldi, og viljinn til að komast svona hátt keyrði okkur áfram, því við áttum kost á því að sleppa þessu. Búið var að skrifa á veginn með reglulegu millibili hversu langt væri eftir og það var ákveðin hvatning, og einnig var búið að skrifa skilaboð til einstakra hjólreiðamanna.

Stundum er sagt að það sé kalt á toppnum. Á toppi Stelvio var um 5°C og mikill snjór. Við tókum myndir, skoðuðum útsýnið og fengum okkur svo að borða. Tíminn var hins vegar naumur. Klukkan var orðin 20:00 og það var slatti langt eftir að hótelinu og ekkert voðalega langt í myrkur. Við pöntuðum tvær pizzur og kók. Ítalska verðlagið hafði kikkað inn. Þetta var einhver sú besta máltíð sem ég hafði borðað lengi, bæði vegna svengdar og svo eru alvöru ítalskar pizzur bara drullugóðar.

Fimmti hluti: Stelvio til Grosio brunið.

Klukkan var ca. 20:30 þegar Stelvio brunið hófst. Áfangastaðurinn var Grosio í rúmlega 40 km fjarlægð og við áætluðum að það væri kannski klukkutími í myrkur.

Frá Stelvio til Bormio er 21 km með lækkun úr 2758 m í 1225 m. Það er 7% meðalhalli. Fyrstu kílómetrarnir á leiðinni niður voru hrikalega kaldir. Maður hjólaði ekki, var bara á bremsunni og það var mikil vindkæling. Frá Bormio að Grosio voru svo rúmir 20 km með nokkuð jafnri og stöðugri lækkun. Grosio er í 656 m yfir sjávarmáli.

Það var komið myrkur þegar við komum til Bormio og góð ráð dýr. Við vorum svo vitlausir að vera illa ljósaðir. Ég var með gult ljós að framan, Óli með rautt ljós að aftan en Gústi var ljóslaus. Ég hjólaði því fyrstur, Gústi í miðjunni og Óli aftastur og við reyndum að hjóla mjög þétt saman, en þó ekki of þétt. Ljósið mitt er þannig að það blikkar en lýsir ekki mikið.

Götulýsingin á vegunum var eiginlega engin og því ákveðin hætta á að hjóla í holu eða á stein með tilheyrandi veseni. Á móti kom að við vorum að drífa okkur svakalega.

Einhvern veginn hafðist þetta samt og við komum á hótelið í Grosio um kl. 22:00. Svavar og Júlli voru mættir en hótelstarfsmaðurinn hafði verið áhyggjufullur, vitandi hvaðan við vorum að koma. Hann talaði ekki stakt orð í ensku en var samt hinn hressasti og bauð okkur upp á drykk við komuna.

Við drifum okkur svo í sturtu og fórum þrír saman og fengum okkur pítsu og bjór. Algjörlega frábær pítsa en bjórinn aðeins síðri en þeir bjórar sem við vorum orðnir vanir.

Magnaður dagur að baki. Erfiður og eftirminnilegur og maður fór bæði stoltur og þreyttur að sofa.

Ferðasaga Svavars og Júlla frá því að leiðir skildu:

Eftir að við skildum við ungana héldum við Andrésína (Svavar) af stað frá Zernez áleiðis til Pontresina. Leiðin er rúmir 32 km og liggur upp dal á milli hárra fjallgarða. Hæðarmismunur þessara tveggja staða er ekki nema 320 m og heildarklifur ekki nema 550 m. Á góðum degi er þetta því létt og ábyggilega skemmtileg leið en þennan dag var hinsvegar sterkur mótvindur auk þess sem okkur virtist á tímabili sem allir vörubílar í Sviss hlytu að vera á sömu leið og við, slík var traffíkin.

Þegar við komum loks að gatnamótunum til St. Moritz fórum við Andrésina að velta fyrir okkur hvort ekki væri upplagt að við slægjum þessu upp í kæruleysi, færum þangað og skelltum okkur á barinn og í spilavítin. Við stóðumst sem betur fer freistinguna og héldum áfram. Í Pontresina tókum við smá hvíld og fylltum á orkutankinn. Áfram lá leiðin og nú upp í Passo del Bernina 17,5 km leið sem er öll á fótinn.

Passo del Bernina er í 2328 m hæð yfir sjávarmáli, meðalhallinn á leiðinni upp er 3,5% en einstaka stuttar brekkur, 1000 m, eru 8%. Þetta var því spurningin um að setja í nokkuð lágan gír og fara þetta á seiglunni. Sjálfur komst ég í bestu hjólavímuna í þessari brekku og þegar nálgast fór toppinn leið mér þannig að mér hefði verið alveg sama þó brekkan væri helmingi lengri. Efst í skarðinu tókum við góða pásu og nutum útsýnisins. Á meðan við stoppuðum komu tveir hjólarar á racerum upp í skarðið Ítalíumegin frá. Báðir stoppuðu til að klæða sig betur fyrir niðurförina, veitti sjálfsagt ekki af því hitinn var aðeins um 4° C. Annar dró þunnan stakk upp úr vasa á bakinu en hinn samanbrotin dagblöð. Dagblöðin tók hann í sundur og setti inn á sig beran að framanverðu til að þau verðu hann fyrir vindkælingu. Síðan fór hann niður sömu leið og hann kom.

Eftir að hafa tekið myndir af Andrésínu  við merkjastaurinn lögðum við af stað niður til Ítalíu. Næsti áfangastaður Tirano var í 35 km fjarlægð. Bærinn liggur í 433 m hæð yfir sjávarmáli og lækkunin því 1895 m. Fyrstu kílómetrana var vegurinn snarbrattur, allt að 12% halli. Það þurfti því að liggja vel á bremsunum. Andrésina  kláraði svo gott sem bremsuklossana sína á þessari leið og var bremsulítil það sem eftir var ferðar. Þrátt fyrir að bremsa skarpt var ferðin á okkur niður af skarðinu töluverð og fyrstu 10 km var vindkælingin svo mikil að ég var að krókna á höndunum.

Náttúrufegurðin á þessari leið er mikil. Fjöllin spegluðust í spegilsléttu Lago de Poschiavo stöðuvatninu og þorpið Brusio var eins og út úr ævintýri. Niður til Tirano komum við síðla dags. Þá var aðeins eftir stuttur spotti um 15 km upp til Grosio þar sem við höfðum mælt okkur mót við ungana og pantað gistingu. Ég hafði reyndar sagt Andrésínu  að þetta væru 10 km og þegar svo reyndist ekki varð hún fúl út í mig.

Þegar til Grosio kom ákváðum við að stoppa á bensínstöð og spyrja til vegar. Þetta reyndist þá vera áfangastaður okkar sem var allt í senn gistihús, veitingastaður og bensínstöð. Vertinn og kona hans fögnuðu okkur eins og glötuðum sonum og báru í okkur ávaxtasafa. Klukkan var orðin átta, við náðum engu símasambandi við ungana og ákváðum því að bíða ekki með að fara á veitingahús og fá okkur að borða. Vertinn vísaði okkur á pizzastað þar sem við fengum bestu pizzu ferðarinnar. Þegar klukkan var að nálgast tíu, komið niðamyrkur og við á leiðinni til baka mættum við, okkur til mikils léttist, ungunum sem loks voru komnir á áfangastað eftir langan dag.

 

Dagur 14

  • 22. júní 2013. Grosio - Traona
  • 78 km
  • 3:44:15

Ekki voru allir sammála um að hjóla þennan dag en lýðræðisleg kosning var haldin og ákveðið að fara stutta dagleið og eiga þá frekar inni frídag í lokin.

Ítalski morgunmaturinn var ólíkur því sem við vorum vanir í hinum löndunum. Núna var þetta meira sætabrauð, muffins og þess háttar og flest innpakkað. Ekkert sérstakt, en matur. Síðan fórum við í kjörbúð og versluðum nesti fyrir daginn.

Stefnan var tekin á bæinn Traona þar sem við áttum pantaða gistingu. Við sáum fram á nokkuð þægilegan dag eftir átök gærdagsins. Grosio er í 656 m hæð en Traona er í 252 m hæð. Leiðin lá niður breiðan dal og við hjóluðum meira og minna meðfram ánni Fiume Adda.

Fyrsta stoppið var eftir ca. 15 km  í bænum Tirano. Svavar var í einhverjum vandræðum með hjólið sitt og kom við í hjólabúð. Við hinir vorum aðeins á undan honum í brekkunni sem lá niður í bæinn og vissum um tíma ekki hvað varð um hann. Stoppið dróst á langinn en það var bara ágætt að tylla sér aðeins niður og slaka á. Gústi nýtti tækifærið og lagði sig á bekk.

Við komumst svo fljótlega inn á hjólastíg sem lá meðfram veginum mjög falleg leið á köflum en nokkuð einsleit. Á miðri leið stoppuðum við í mat og að sjálfsögðu fengum við okkur pasta og bjór. Svavar var aðeins þyrstari en við hinir og fékk sér bjór og hálfan lítra af hvítvíni. Það liggur við að hvítvín hússins sé ódýrara en vatnið.

Þetta gekk annars fínt og við vorum komnir til Traona, 2500 manna bæjar skammt frá Morbegno, um kl. 16:00. Það hafði orðið einhver misskilningur með bókun okkar á www.booking.com en sem betur fer voru herbergin enn laus, þrátt fyrir að þetta væri ansi lítið gistiheimili. Gistiheimilið heitir Le Cantine Del Vecchio Borgo og líkt og í Davos þurftum við að taka aðeins á honum stóra okkar þar sem það var  í miðri fjallshlíð. Okkar herbergi var sæmilega rúmgott, en bara tvö sæmilega stór rúm. Svavar og Júlli deildu hins vegar ansi litlu rúmi.

Við Óli tókum síðan seinni parts göngutúr og skoðuðum einhvern verslunarkjarna, fengum okkur gelato og spottuðum veitingastað fyrir kvöldið. Það var ítalskur staður, nema hvað, og menn voru að detta í pítsur og drykki. Svo var fótboltaleikur í gangi, Ítalía – Brasilía, í Álfukeppninni. Brassarnir unnu 4-2 í skemmtilegum leik.

 

Dagur 15

  • 23. júní 2013. Traona - Varese
  • 109,2 km
  • 5:18:47

Síðasti hjóladagur ferðarinnar var runninn upp. En fyrst var það morgunmatur. Og þvílíkur morgunverður sem var á boðstólum. Fyrir það fyrsta var geggjaður nýpressaður appelsínusafi. Okkar maður, eigandinn, stóð vaktina og stoppaði ekki í safapressunni. Áfyllingu takk. Prego. Svo voru allskonar ostar, skinkur og álegg og bara algjörlega frábært. Ég myndi gista þarna aftur, bara fyrir morgunmatinn.

Við byrjuðum svo á því að hjóla beint í vestur, út þennan dal sem við höfðum verið að hjóla daginn áður, í áttina að Como vatni. Eftir um 15 km. vorum við komnir að vatninu en þá vorum við í bænum Colico Piano. Þetta voru þægilegir 15 km, smá lækkun, á hjólastígum og veðrið var frábært. Við stoppuðum í búð í bænum áður en við héldum áfram.

Frá Colico Piano og að Lecco, þar sem við stoppuðum í hádegismat voru ca. 40 km. Þetta var ótrúlega falleg leið. Öll meðfram vatninu. Ég er ekki með réttu lýsingarorðin en á skalanum 1-10 í náttúrufegurð, þá gef ég þessu 10. Við vorum bara á vegunum (ekki annað í boði) og hópurinn var þéttur og tempóið afslappað. Það var talsverð umferð, bæði af bílum og öðrum hjólreiðamönnum. Greinilega vinsæll staður á sunndagsmorgni í bongóblíðu. Sem kemur ekki á óvart.

Lecco er tæplega 50.000 manna bær við syðsta hluta Como vatnsins. Dagleiðin var ca. hálfnuð, það var hádegi og við fengum okkur hádegismat. Ég þarf varla að skrifa það, en við fórum á ítalskan stað, fengum okkur ítalskan mat og bjór og vín með. Veitingastaðurinn stóð við svona semi-torg alveg við vatnið og við sátum úti.

Lecco – Varese kaflinn var heitur, hæðóttur og ekkert sérstaklega eftirminnilegur. Hápunkturinn var líklega þegar við stoppuðum og fengum okkur ís þegar það var hvað heitast. Við komum til Varese og vorum ekki klárir á því hvar hótelið okkar, Albergo Belforte, væri staðsett. En fyrir tilviljun komum við inn í bæinn á þeirri götu þar sem hótelið var og þegar við svo stoppuðum á einhverjum vegamótum blasti það við okkur, hálf illa merkt og það hefði örugglega tekið okkur óratíma að finna það hefðum við ekki verið svona heppnir.

Hótelið var ekki merkilegt. Móttakan var lítil, en þó ekki minni en svo að undarlegi hótelstarfsmaðurinn svaf þar á bakvið tjald. Herbergin voru sæmilega rúmgóð en frekar sjabbí.

Við Óli tókum klassískt bjór-leitar-labb eftir sturtu og höfðum erindi sem erfiði. Um kvöldið fórum við svo á pítsastað sem var þarna rétt hjá. Það voru alveg tveir kílómetrar niður í miðbæ og við hreinlega nenntum ekki að fara þangað. Góð pítsa en ekki alveg jafn góður bjór.

 

Dagur 16

  • 24. júní 2013. Varese. Hvíldardagur.

Varese er 80.000 manna bær. Hann var valinn fyrir hvíldardaginn, bæði vegna ágætrar stærðar og einnig vegna nálægðar við flugvöllinn. Mílanó þótti of stór til að vera að hjóla þangað.

Varese olli hins vegar töluverðum vonbrigðum. Ég og Óli tókum rölt í bæinn eftir hræðilegan morgunverð á hótelinu svona 20 mínútna labb. Það var góður hiti en ekki of heitt. Ég ætlaði að reyna að kaupa smá fyrir stelpurnar og Óli var að leita að einhverri hlaupa-græju.

Það kom fljótlega í ljós að  eiginlega allt var lokað í miðbænum. Mánudagar virðast vera þeirra sunnudagar. Samt voru flestar nærfataverslanir opnar. Mjög skrítið. Við löbbuðum samt talsvert um og þessi bær  heillaði mig ekki. Hann var eiginlega bara ljótur. McDonald´s var hins vegar opinn. Þar fengum við okkur að borða og ætluðum að nota okkur fría wi-fi-ið sem þeir auglýsa en það var hins vegar ekki í boði fyrir erlendan snjallsíma Óla.

Því var aftur farið upp á hótel, kíkt á netið og við komumst að því að Centro Commerciale Belforte mollið var ekki svo langt frá okkur. Kannski 2 km í hina áttina frá miðbænum. Þangað fórum við og Gústi slóst með í för. Mollið var ágætt, virkaði nýlegt, það var ein risabúð með allskonar og svo slatti af minni búðum Við keyptum eitthvað smotterí, eins og töskupláss leyfði, fengum okkur að borða en skemmtilegast var að sjá matardeildina í stóru búðinni. Við erum að tala um fáránlegt úrval og viðbjóðslega girnilegt.

Eftirmiðdeginum var eytt í eftirmiðdagsdúr. Lagt sig aðeins. Ah, hvað það var gott. Um kvöldið ætluðum við á veitingastað sem við höfðum rekist á á göngu okkar í mollið, en hann reyndist vera lokaður. Það voru pínu vonbrigði þar sem þetta virkaði sem þokkalega fínn staður og við vildum enda á  flottri máltíð. Því var endað á öðrum ítölskum stað skammt frá hótelinu.

Eftir matinn fórum við síðan í keilusal sem var þarna við hliðina,  tókum leik og svo smá pool þar á eftir. Var það ekki Óli sem stóð uppi sem heildarsigurvegari kvöldsins?

 

Dagur 17

  • 25. júní 2013. Varese - Flugvöllur.

Heimferðardagurinn var frekar leiðinlegur og langdreginn.

Svavar og Júlli höfðu verið sniðugir daginn áður og fundið hjólabúð sem átti kassa undir hjólin. Ekki var í boði að fá kassa á flugvellinum (líkt og t.d.í París) og því þurfum við að redda okkur í Varese.

Við hjóluðum í hjólabúðina eftir ljósmyndaminni þeirra félaga. Það hafði rignt mikið um nóttina, þrumur og eldingar, og kassarnir, sem voru geymdir úti, fóru ekki vel í bleytunni. Samt tókst okkur að finna 5 sæmilega kassa, troða hjólum og öðrum farangri í þá, líma fyrir og merkja. Síðan var gaurinn í búðinni svo góður  að skutla okkur á lestarstöðina, sem var í svona 2-3 km fjarlægt. Það hefði verið vesen að bera kassana.

Þangað vorum við komnir fyrir hádegi og vorum vel tímanlega í því þar sem flugið átti ekki að fara í loftið fyrr en 23:10. Engin lest fór beint á flugvöllinn, Malpensa, svo við keyptum lestarmiða til annarar lestarstöðvar. Það var hins vegar löng bið, sex tímar ef ég man rétt. Biðina nýttum við í að skoða miðbæinn aðeins betur og kíktum meira að segja í nokkrar búðir, sem nú voru opnar. Menn fóru í hollum því einhverjir þurftu að gæta kassanna hverju sinni.

Ég man ekki nákvæmlega hvernig við komumst út á flugvöll. Þetta var bölvað vesen og við tókum allavega þrjár lestar. Sú síðasta fór til Busto Arsizio. Það var alltaf ákveðið stress að fara í hverja lest því nokkrir kassar kröfðust tveggja manna taks. En þetta tókst, eins og allt annað í ferðinni, og það var aðalatriðið.

Á flugvellinum hittum við  Dag Tjörva og Þóreyju Hildi, börn systur minnar, en þau voru að koma úr fríi með pabba sínum.

Við lentum í Keflavík laust eftir kl. 1:00 að nóttu í Keflavík og ferðin var á enda.

 

Tölulegar upplýsingar

Við hjóluðum alls 1488,27 km í ferðinni á 14 dögum eða 106,3 km að meðaltali á dag. Lengst fórum við tæpa 156 km á degi tvö til Meißen en styst á degi fimm til Domazlice.

Heildarferðatími á hjóli var 79 klst. og 16 mín. Meðalhraðinn var 18,77 km/klst. Hægast fórum við á „dauðadeginum“ frá Davos til Grosio og hraðasti dagurinn var daginn eftir, frá Grosio til Traona.

Þetta var ekki dýr ferð miðað við hversu löng hún var. Flugið kostaði okkur ca. 30.000 kr. Inni í því var gjald vegna hjólanna sjálfra. Gistingin kostaði 350.000 kr. í heildina, eða 70.000 kr. per mann. Það gerir 4.386 kr. per nótt per mann að meðaltali.

Dýrust var gistingin á seinni deginum í Kempten en ódýrust var hún á þriðja degi í Chomutov. Að meðaltali kostaði gistingin okkur 21.930 kr. per nótt fyrir hópinn.

Kostnaður vegna uppihalds var misjafn milli landa. Langódýrast var í Tékklandi en dýrast í Sviss. Ég myndi skjóta á að matur og drykkir hafi verið svona 5.000 kr. að meðaltali á dag. Heildarkostnaðurinn er því um 180.000 kr.

Birtist í Hjólhestinum mars 2014