Besta leiðin til að jafna sig eftir flugferð yfir hálfan heiminn er að hjóla. Það var nákvæmlega það sem ég og bekkjarfélagar mínir gerðum í útskriftarferð okkar til Taílands vorið 2013.

Fimmtán manna hópurinn lagði af stað snemma morguns eftir heimsókn á einn af fljótandi mörkuðum Taílands.

Hjólin voru af sterkari gerðinni; Trek fjallahjól sem má þjösnast á  og bara ganga sama hvað. Í svona ferð skiptir höfuðmáli að hafa skemmtilega leiðsögumenn og ekki skemmir fyrir ef þeir heita skemmtilegum nöfnum. Woody og Bottle voru stórkostlegir. Þeir vissu kannski ekki nákvæmlega hvað við myndum hjóla langt eða hvenær við myndum koma á áfangastað en þeir bættu fyrir það með brosi út að eyrum, óvæntum söngatriðum og stórkostlegum húmor. Við buðumst til að ættleiða þá og hafa með okkur út ferðina en þeir hafa svo gaman af vinnunni sinni að þeir vildu ekkert fara.

Fyrsti dagurinn var frekar auðveldur hjólalega séð, sem var mjög jákvætt þar sem hitinn í sveitum Taílands var óbærilegur þennan daginn. Hópurinn vildi helst ekkert stoppa þar sem vindkælingin þegar hjólað var hélt mesta svitanum í skefjum. Sem betur fer dældu Woody og Bottle í okkur ávöxtum og drykkjum við hvert stopp því annars hefði einhver sennilega látið lífið sökum ofhitnunar.

Allt í allt eiga að hafa verið hjólaðir 30 kílómetrar þann daginn en undirritaðan grunar að í reynd hafi verið hjólað lengra en það. Vegalengdir og tími eru frekar afstæð í þessum hluta heimsins og þýddi lítið að taka mark á svörum leiðsögumanna okkar við spurningum eins og hvað hafi verið hjólað langt og hvað væri mikið eftir.

Á fyrsta deginum hjóluðum við í fjölbreyttu umhverfi þar sem  grænir og fallegir hrísgrjónaakrar léku  stærsta hlutverkið. Woody og Bottle voru duglegir að benda á hina ýmsu ávexti sem virtust vaxa eins og illgresi í öllum skúmaskotum. Eitt sinn sló ég hendinni annars hugar í stóran ávöxt sem  hékk fyrir ofan veginn, svo ávöxturinn losnaði. Skömmu síðar brunaði brjálaður bóndi fram úr hópnum með ávöxtinn í för og öskraði á Woody sem tók við ferlíkinu og lét mig síðan fá.

Bóndinn brjálaði þaut í burtu og ég burðaðist skömmustulegur með ávöxtinn það sem eftir lifði ferðar, þar sem hann var víst óþroskaður og ekki tilbúinn til átu. Við reyndum að stoppa sem minnst en stukkum af hjólunum endrum og sinnum til að skoða lítil þorp, markaði, búddahof og styttur á leiðinni. Svona rétt nógu lengi til að smella af nokkrum myndum en ekki það lengi að svitinn byrjaði að streyma af líkamanum.

Eftir fyrsta daginn var fólk ánægt að komast á risastórt en mannlaust golfhótel og geta þar kælt sig aðeins niður í risastórri sundlauginni. Flestir voru frekar uppgefnir eftir hitann og ferðalagið og því var farið snemma að sofa þar sem næsta dag beið okkar annar hjóladagur.

Verandi nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar var hópurinn í þokkalega góðu líkamlegu ástandi og áttuðu þeir félagar Woody og Bottle sig á því að fyrsti dagurinn hafði verið frekar léttur fyrir okkur. Woody leiddi hjólreiðakappana á mun meiri hraða seinni daginn sem var ekki leiðinlegt þar sem hópurinn hefur ákaflega gaman af að taka vel á því. Leiðin sem var hjóluð í Kaeng Krachan þjóðgarðinum var líka aðeins strembnari en fyrri daginn:  meira utanvegar og meira af brekkum. Náttúran var ennþá jafn falleg og sem fyrr urðu fullt af framandi ávöxtum á vegi okkar.

Ein bóndakonan var með chillirunna alveg við veginn með gullfallegum rauðum chilli. Sumir tóku smá bita en ég gat ekki verið minni maður og stakk því heilum chilli upp í mig og tuggði. Ég held ég hafi nú náð að halda andliti en grét eins og lítið barn inni í mér. Hann var nú samt mjög bragðgóður áður en heljareldurinn byrjaði að loga í kjaftinum á mér.

Við heimsóttum líka lítinn skóla þar sem krakkar á öllum aldri voru að læra og leika sér. Eldri krakkarnir voru í enskutíma og gátu aðeins heilsað okkur og spjallað við okkur á ensku. Þau yngri voru mjög feimin og tókst mér að koma einum litlum dreng til að hágráta bara með því að reyna að nálgast hann og heilsa honum. Skúli skelfir var ekki lengi að forða sér þegar sá litli byrjaði að öskra.

Þegar lítið var eftir af hjólreiðum þennan daginn stoppuðum við hjá árbakka einum þar sem við fengum dýrindismáltíð. Klárlega besti maturinn í allri ferðinni þó svo að sumir hafi undir lokin verið orðnir þreyttir á taílenska matnum og helst viljað  fá hamborgara. Eftir matinn kældum við okkur niður með því að sveifla okkur af rólu út í ána með mismiklum tilþrifum. Eftir sundsprettinn var svolítið erfitt að stíga aftur á pedalana þar sem fólk var orðið svolítið þreytt en síðasti spölurinn var eftir og komu allir til baka á hótelið himinlifandi með hjólreiðatúrinn.

Stórkostleg byrjun á því sem átti eftir að verða eftirminnileg ævintýraferð.