Það var góður og hress hópur fólks úr Hjólarækt Útivistar mættur í flugstöðina til að fljúga út til Þýskalands í sex daga hjólatúr. 12. – 19. júní 2013. Farið var í loftið um klukkan hálf átta og lent í München um klukkan eitt að staðartíma. Eftir smásnarl á flugvellinum tók við um eins og hálfs klukkustundar lestarferð til bæjarins Herrsching við Ammersee-vatn. Þar tók á móti okkur íslenskt slagveður, sem sagt rok og rigning. Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir á hótelinu var farið út að kíkja á leiguhjólin sem við áttum að nota í ferðinni. Búið var að tjalda yfir þau svo við blotnuðum sem minnst við að skoða þau og prófa. Að kvöldverði loknum fóru sumir í göngutúr um bæinn áður en gengið var til náða.

 

Fyrsti hjóladagur.
Miðvikudagur 13. júní.

Fórum á fætur um klukkan átta og eftir morgunmat o.þ.h. gengum við frá farangrinum á hjólunum og lögðum af stað um klukkan hálf ellefu, aðeins seinna en áætlað var í upphafi. Það var vegna þess að veðrið átti að lagast þegar liði á daginnn en nokkur vindur og smá rigning var þegar við lögðum í hann.  Við fórum í gegnum nokkur bæversk þorp þar sem fjósin voru við þorpsgöturnar og  maður horfði á afturendann á beljunum í gegnum gluggana þegar við fórum framhjá! Við stoppuðum í bæ sem heitir Eberfing til að fá okkur að borða á týpískum bæverskum matsölustað. Konan sem þjónaði til borðs var hin hressasta og  með allt á hreinu hver átti að fá hvað þegar hún bar fram matinn.

Eftir vel útilátna máltíð var haldið áfram og eftir um klukkustundar ferð komum við að jarðarberjaakri þar sem fólk var við berjatínslu. Við urðum einnig að stoppa þar til að gera hið sama. Eftir jarðarberjatínslu og át var haldið áfram til Murnau en það tók innan við klukkustund að hjóla þangað og þar gistum við næstu nótt. Þegar við vorum rétt komin inn í bæinn byrjaði að rigna. Við vorum ágætlega staðsett undir tré þannig að við blotnuðum ekki mikið en fórum samt í regngallana. Sem betur fer  stytti fljótlega upp. Hótelið sem við gistum á er með hjólaskýli til að geyma hjólin í sem er nokkuð algengt þarna úti. Hótelið bruggar einnig sinn eigin bjór á staðnum, en það er nokkuð algengt á þessum slóðum. Það kom okkur skemmtilega á óvart þegar við fórum að borða að matseðillinn okkar var á íslensku. Þetta kvöld, sem við vorum þarna, var landsleikur milli Þýskalands og Hollands í EM í fótbolta og það var búið að setja risaskjá í portið við hótelið og þar var margt um manninn. Nokkrir úr hópnum okkar horfðu líka á. Sem betur fer, fyrir okkur, unnu Þjóðverjar. Þar sem við létum gera appelsínugula boli á okkur fyrir ferðina hélt fólk að við værum Hollendingar og þurftum við stöðugt að leiðrétta fólk í ferðinni. Appelsínugult er nefnilega litur Hollands. Nokkur okkar höfðu engan áhuga á þessum blessaða fótbolta og fóru í smá bæjarrölt áður en við fórum að sofa.

Þar sem Þjóðverjarnir höfðu unnið var töluvert fjör fyrir utan hótelið eftir leikinn. En það stóð ekki mjög lengi yfir.

Við hjóluðum tæpa 46 km á tæpum sjö tímum.

 

Dagur þrjú: Annar hjóladagur.
Fimmtudagur 14. júní.

Þessi dagur rann upp bjartur og fagur og sólin skein í heiði…. eða öllu heldur á fjöll og það var heitt. Eftir morgunmat og áður en við fórum út var sólarvörn sett á andlitið, handleggi og fótleggi og ekki veitti af. Þennan dag átti einn í hópnum, hann Helgi, sextíu ára afmæli og var hjólið hans skreytt hátt og lágt með blöðrum, borðum og öðru skrauti. Það kom svolítið flatt upp á hann! Við lögðum af stað  rúmlega níu. Þennan dag fórum við ekki eins mikið í gegnum sveitaþorp  og daginn áður heldur  meira í gegnum skóga, um dali og upp í fjöll. Hæst fórum við í meira en 900 metra hæð. Það er alveg magnað að vera í þessari hæð og hafa fjöll fyrir framan sig sem eru 1200–1300 metra há. Sem sagt yfir 2000 metra há fjöll. Ekki nóg með það heldur vaxa tré langt upp  hlíðarnar. Til samanburðar má geta þess að það er nánast enginn gróður yfir 600 metra hæð hér á Íslandi! Í Eschenlohe var keypt kaka í tilefni afmælis Helga og voru 60 kerti sett á hana og blés hann á þau og slökkti á þeim öllum og fór létt með það. Þarna var kirkja ein skoðuð. Þetta er kaþólskt svæði þannig að kirkjurnar eru eftir því. Það er alveg merkilegt hvað þessar kaþólsku kirkjur geta verið íburðarmiklar „Hvað ætli margir hafi soltið vegna þessa“, sagði ein í hópnum. Næst lá leið okkar upp í fjallaskarð með nokkrum bröttum brekkum. En sem betur fer var sú brattasta niður í móti og þurftum við að „standa“ á bremsunum á leiðinni niður. Við borðuðum hádegisverð um klukkan tvö í Garmisch-Partenkirchen. Þar var einnig eitt hjól yfirfarið sem var með bilaða gíra. Í ljós kom að  ekki var hægt að laga það þannig að það þurfti að fara á því biluðu til Mittenwald. Frá Garmisch-Partenkirchen var nokkuð löng en jöfn „þægileg“ brekka sem tók svolítið á hjá sumum. En erfiðasta brekkan var eftir, í blálokin að hótelinu. Það var aðeins einn sem náði að hjóla hana alla leið en það var erfiðisins virði. Þvílíkt hótel. Ekki aðeins að hótelið sjálft er flott og með flottan garð, en útsýnið! Maður lifandi! Yfir bæinn og fjöllin í kring. Þarna var einnig læst hjólageymsla. Við komum frekar seint, upp úr hálf sjö, og átti maturinn að vera framreiddur korter yfir sjö, þannig að við þurftum að vera snögg í sturtu o.þ.h. fyrir matinn. Á þessum stað var einnig íslenskur matseðill og allar upplýsingar á morgunverðarhlaðborðinu einnig. Eftir matinn voru öll herbergin skoðuð, nema kannski eitt,. Ekkert þeirra var eins og flest voru með flott útsýni yfir bæinn. Í þessu eina herbergi sem við skoðuðum ekki var víst fólk sem við vissum ekki af. Við héldum að við værum ein á hótelinu. Þegar hér var komið sögu var orðið frekar áliðið og fórum við flest í háttinn. Við hjóluðum um 61,5 km á rúmlega níu og hálfum tíma. Heildarhækkun þennan dag var yfir 1.600 metrar!

 

Dagur fjögur: Þriðji hjóladagur.
Föstudagur 15. júní.

Sólin skein glatt á Mittenwald þennan morgun. Eftir morgunmat o.þ.h. var lagt af stað í ferð dagsins um hálf tíu og stefnan tekin á Hinterautaldal, sem er í Austurríki. Það er nokkuð skrýtið að það er ekkert skilti eða neitt þess háttar sem segir að maður sé kominn til Austurríkis en við fengum SMS frá símafyrirtækjunum um að við værum komin þangað.  Á leiðinni til baka tókum við eftir smá skilti Þýskalandsmegin. Við komum við í búð í bænum Scharninitz og þar fengu sumir sér 80% Stroh. Það tók stundum aðeins í fótinn á leið inn dalinn, enda tæplega 300 metra hækkun. Á vegi okkar varð gangandi fólk, hjólandi fólk og einn gangandi sem dró kajak á eftir sér. Hann var á leið upp með ánni til að fara niður hana á bátnum. Við sáum hann síðan á ánni á leiðinni niður. Þetta átti að vera bíllaus leið en svo var nú ekki. Þó sýndist mér að bílarnir sem við sáum tengdust allir einhvers konar þjónustu á svæðinu. Auk þess var verið að laga veginn með alveg frábærum tækjum og gætu Íslendingar lært margt um hvernig á að laga malarvegi! Við enduðum ferðina við upptök árinnar Isar, þar eru uppsprettur og vatnið kemur upp úr jörðinni hér og þar.

Þar var fyrir hópur kvenna með nokkur börn sem gengu þarna um hálf- eða allsnakin eins og ekkert væri sjálfsagðara. Nokkur okkar ræddu um að þetta hefði ekki gengið í US of A. Þar hefðu þær eflaust allar verið kærðar! Eftir að hafa staldrað við þarna í smátíma var farið til baka. Samkvæmt áætluninni átti að fara innar í dalinn en við ákváðum að stytta ferðina aðeins til að komast í kláf sem fer upp á bæjarfjall Mittenwalds, Karwenspize. Við vorum búin að ákveða að fara með kláfnum klukkan hálf fjögur en við vorum aðeins of mörg til að komast í kláfinn en starfsmennirnir voru svo elskulegir að fara sérferð með þau sem ekki komust í fyrri ferðina. Kláfurinn fer upp í 2244 m hæð og flestir gengu enn hærra eða upp í rúmlega 2370 m. Þau sem tóku seinni kláfinn höfðu ekki tíma til að fara þá leið, enda ekki mikill tími til stefnu þar sem við þurftum að ná síðasta kláfnum niður. En allir náðu samt töluverðri stund þarna uppi, við myndatökur o.þ.h. áður en farið var niður. Þarna uppi gengum við á landamærum Þýskalands og Austurríkis.  Sá sem sat við stjórn annars kláfsins á leiðinni niður var nokkuð hress og lá hann í einu horni kláfsins, eins og hann væri dauðadrukkinn að eigin sögn, við að taka myndir af hópnum. Þegar komið var niður fóru flest okkar niður í bæ til að skoða mannlífið áður en farið var upp á hótel. Eftir matinn fóru nokkrir aftur niður í bæ en flestir voru áfram á hótelinu og röbbuðu saman áður en farið var í háttinn. Þetta var sólríkur og heitur dagur þannig að sumir brunnu lítillega, en það var ekkert alvarlegt.

Við hjóluðum rétt um 40 km á rúmlega níu og hálfum tíma þ.e. fyrir utan fjallið og bæjarferðina.

 

Dagur fimm: Fjórði hjóladagur.
Laugardagur 16. júní.

Klukkan níu yfirgáfum við uppáhalds hótelið okkar í ferðinni og hófum ca 60 km ferð til Bad Töls. Sem betur fer var þetta að mestu niður í móti. Við byrjuðum á að stoppa við herstöð rétt utan við Mittenwald, fórum í gegnum þorpin Krun og Wallgau áður en við héldum inn  dal sem áin Isar rennur eftir. Við komum að Sylvenstein – Stausee  sem er manngert vatn eftir stíflugerð til að hafa hemil á flóðum í dalnum fyrir neðan. Við stoppuðum og áðum í hlíð við vatnið. Þar var vatnspóstur og fylltu allir vatnsbrúsana sína þar. Auk þess fóru nokkrir í fótabað. Ekki var það nú verra að geta sett hausinn undir bununa og kælt hann. Mikið var það nú gott að kæla sig aðeins. Reyndar vorum við búin að stoppa aðeins áður til að kæla á okkur tásurnar í Isar. Við héldum för okkar áfram og stoppuðum í bænum Winkel til að fá okkur ís enda orðið frekar heitt. Að ísáti loknu héldum við áfram för okkar til Bad Töls, þar sem við áttum að gista. Á leiðinni þangað var fjöldi manns að sóla sig við ána og fólk og hundar að leika sér í henni og sigla niður hana. Við komum svo að hótelinu rúmlega fjögur. Það var um 32°C hiti yfir daginn og sól þannig að við vorum að stikna við matarborðið. Að áti loknu fór hópurinn niður í bæ, við Isar, þar sem búið var að koma upp sviði. „Stórhljómsveitin“ Rock offs spilaði þar fyrir dansi. Það voru samt ekkert margir að dansa, bara ein! Þau spiluðu samt ágætis lög, það máttu þau nú eiga. Seinna um kvöldið, þegar við vorum komin upp á hótel, kom hellidemba yfir bæinn. Eins gott að við vorum komin í hús.

Við hjóluðum rúma 60 km á rúmum sjö tímum.

 

Dagur sex: Fimmti hjóladagur.
Sunnudagur 17. júní.

Það var skýjað þegar farið var á fætur. Ahhh gott. Enda nokkrir búnir að fá nóg af sólinni og hitanum daginn áður. Á meðan við borðuðum morgunmatinn létti til og sólin fór aðeins að skína en það var skýjað að hluta, þannig að það var ekki stanslaus sól. Þennan dag átti enn einn, hann Boggi, afmæli og ekki nóg með það hann og Rósa konan hans  áttu brúðkaupsafmæli. Hann fékk því kúabjöllu að gjöf svo að Rósa myndi alltaf vita hvar hann væri! Við lögðum af stað klukkan níu í ferð dagsins til Tegernsee. Leiðin þangað var nokkuð greið. Við fórum að venju í gegnum nokkur sveitaþorp, skóga og ræktarlönd. Við stoppuðum á einu túni til að taka hópmynd.

Þegar við komum að vatninu fórum við á matsölustað til að borða. Sá sem þetta skrifar hefur ekki séð eins út úr stressaðan þjón eins og á staðnum þar sem við borðuðum. Úff. Að áti loknu fórum við aðeins til baka, meðfram vatninu, að bænum Guðmundi. Hann heitir nú reyndar Gmund. Þar skiptist hópurinn. Annar hópurinn fór að rölta um tívolí sem var búið að koma upp í bænum en hinn fór að busla í vatninu. Næst á dagskrá var að skoða brugghús, bjórverksmiðju, í klaustri einu en brugghúsið var lokað þegar við komum þangað svo við fengum okkur ís og bjór sem þar var í boði.  Þarna spilaði bæversk lúðrahljómsveit og var hún beðin um að spila afmælissönginn fyrir Bogga en hann kom aldrei að við töldum en svo kom í ljós að þeir eru með allt annan afmælissöng en við erum vön! Síðan skoðuðum við kirkjuna á staðnum. Þar var búið að kveikja á slatta af kertum og Boggi hélt að það hefði verið gert í tilefni afmælisins og ætlaði að blása á þau öll!

Þegar við höfðum fengið nægju okkar þarna héldum við heim á hótel. Þangað komum við um klukkan hálf fjögur. Veðrið var fínt þennan dag, skýjað og hlýtt en það hékk yfir okkur eins og hann ætlaði að fara að rigna stóran hluta dagsins, en við vorum alveg búin undir það. Þegar við komum á hótelið voru þessi fínu mótorhjól í bílageymslunni þar sem við geymdum hjólin okkar. Þar af voru nokkrir Hallar, þ.e.a.s. HarleyDavidson-hjól. Eftir matinn fóru nokkur okkar í bæjarrölt og skoðuðu hluta bæjarins sem við vorum ekki búin að skoða áður en aðrir sátu og horfðu á fótboltaleik: Þýskaland – Danmörk. Líklega unnu Þjóðverjar miðað við lætin úti að leik loknum. Kannski hegðar fólk sér svona hvort sem landslið þeirra vinnur eða ekki.
Við hjóluðum rúmlega 57 km á rétt rúmlega átta og hálfum tíma.

 

Dagur sjö: Sjötti og síðasti hjóladagur.
Mánudagur 18. júní.

Þegar við sátum og borðuðum morgunmatinn komu gæjarnir á mótorhjólunum, sem var svo sem ekkert í frásögur færandi nema að einn þeirra var í Harley Davidson-bol merktum Íslandi og Reykjavík í bak og fyrir í orðsins fyllstu merkingu! Hann hafði komið hingað og ferðast um landið. Upp úr hálf níu lögðum við af stað og nú lá leiðin til München. Við stoppuðum í einni verslun til að kaupa nesti og vatn. Eftir að hafa hjólað nokkurn spöl stoppuðum við  í skugga trjáa til að borða nestið sem við höfðum keypt  enda orðið frekar heitt. Eftir um fimmtíu km leið komum við í úthverfi München og héldum áfram inn í borgina að aðallestarstöðinni, Hauptbahnhof, þar sem við skiluðum hjólunum. Farangurinn var tekinn úr hjólatöskunum og settur í ferðatöskurnar í skyndi áður en við gengum að hótelinu, sem tók um fimmtán mínútur. Reyndar fóru sumir með leigubíl sem við tókum saman til að flytja hluta farangursins. Um leið og komið var á hótelið var farið í kalda sturtu, enda búið að vera heitt yfir daginn. Að því loknu var aðeins kíkt niður í bæ til að skoða mannlífið. Í bænum er stór gosbrunnur sem var mjög freistandi að hlaupa í gegnum, eins og sumir höfðu gert. Að þessu bæjarrölti loknu var farið á hótelið. Síðan var rokið af stað í kvöldmat sem var í garði einum skammt þar frá. Þar var búið að koma upp risaskjá í tilefni EM og þegar við komum að var verið að sýna einhvern EM-þátt sem væri ekki í frásögur færandi nema að hljómsveitin Of Monsters and Men var að spila. Eftir  fínan mat sem var í boði var trítlað til baka á hótelið.

 

Dagur átta: Heimferð.
Þriðjudagur 19. júní.

Upp úr klukkan tíu, að loknum morgunverði o.þ.h., röltum við á lestarstöð til að taka lest á flugvöllinn. Þó höfðu nokkur úr hópnum farið fyrr um morguninn í skoðunarferð um borgina og fóru þau beint á flugvöllinn að því loknu. Flugvélin fór í loftið rétt fyrir hálf þrjú að staðartíma og lenti hér heima um korter yfir fjögur.

Þetta var mjög skemmtileg ferð, farin í samvinnu við Bændaferðir, og er fólk sem enn hefur ekki farið utan til að hjóla hvatt til að skella sér út sem fyrst. Þá er bara að hlakka til næstu ferðar! Er nokkuð mál að redda því? 

Hér má sjá fleiri myndir úr ferðinni: Hjólað um Þýskaland