Síðla maímánaðar 2012 áskotnaðist okkur ákaflega ódýrt flugfar til Billund á Jótlandi. Þar sem systir mín býr í nágrenni Legóbæjarins og fjallvegir vanalega ekki opnir fyrr en löngu síðar á Íslandi, stóðumst við frúin ekki mátið að skella okkur í litla reisu, en ákváðum að taka hjólin okkar með svo við kæmumst einhvern tímann heim.

Við lentum upp úr miðnætti 24. maí, og hjóluðum síðan nokkurn spöl að svokölluðu frumstæðu tjaldsvæði (primitive teltplads), þar sem tjalda má frítt í Danmörku og finna má á slóðinni naturkortet.dk. Hjóluðum við síðan í hálfan annan dag í hitabylgju um danska hjólastíga uns komið var til Hrossaness þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti í þrjár nætur. Þaðan héldum við svo norður á bóginn, klifum og hjóluðum á þrjá hæstu tinda Danmerkur á sama deginum og sjálft Himnabjargið á þeim næsta, inn á Herveginn svokallaða og síðan alla leið norður á Hjartarháls hvaðan Norræna var tekin til Færeyja á 6. degi frá Hrossanesi. 

Mig hafði alltaf langað til að taka Norrænu sem og að heimsækja Færeyjar og lét ég nú drauminn rætast. Siglt var á hálfu fjórða  dægri til Færeyja og tekið land í Þórshöfn að morgni mánudagsins 4. júní. Á leiðinni er siglt meðfram suðurströnd Hjaltlands, en það undirbjó okkur ekki fyrir aðkomuna að Færeyjum, hversu stórfenglega þær rísa úr sænum. Eyjarnar eru sumar svo litlar og háar að maður skilur ekki hvernig þær geta haldið jafnvægi.

Færeyjahluti þessarar reisu var að mestu leyti skipulagður í ferjunni, en þar var að finna bæklinga um ferjur, rútur og þyrlur. Eðli Færeyja er  þannig  að það er gjarnan bara einn vegur og botnlangar út frá honum, sem er ekki endilega það allra mest spennandi til hjólreiða og því geta aðrir samgöngumátar komið í góðar þarfir.

Þórshöfn er vinalegur bær, sem hefur vaxið útfrá höfninni þannig að hann myndar einhvers konar skál utan um hana. Því er ekki alltaf skynsamlegast að fylgja styztu leið á korti þegar farið er á milli tveggja staða, því að ef maður fer um miðjuna þarf maður að lækka sig um allt að hundrað metra.

Þyrlan góða að búa sig til lendingar

En ég hafði fengið augastað á þyrlunni og eftir að hafa skoðað elsta hluta bæjarins, Þinganes, með öllum sínum gömlu og fallegu byggingum og Skansinn og byrgt okkur upp af vistum, hringdi ég í flugfélagið og viti menn það var laust pláss út í Fugley, sem er norðvestasta eyjan, við þyrftum að vera mætt á þyrluflugvöllinn, sem er nokkuð fyrir utan Þórshöfn, eftir rúman klukkutíma. Eftir að hafa skoðað okkur um í trjágarði þeirra Færeyinga, en þeir eru líklega ennþá hrifnari af trjám en við Íslendingar, enda vaxa þau nánast hvergi nema í þessum garði, og séð kind í öðrum hverjum garði heimamanna, var haldið út á völl, en þyrluvöllurinn var bara pínulítill skúr sem stóð við lítinn malbikaðan blett og enginn á svæðinu. 15 mínútum fyrir brottför kom nokkuð geðstirður umsjónarmaður og var mjög hneykslaður á því að við létum okkur detta í hug að fara með reiðhjól í þyrluna og yfir höfuð að láta okkur detta það í hug að hjóla í Færeyjum, enda eingöngu brekkur að finna þar. Ég lét á mér skiljast að flugfélagið hafði samþykkt hjólin í ljósi þess að lítt var bókað í þyrluna og að ég hefði nú kynnst brekkum á hjólinu, enda ekki Dani. Borguðum við DKK 225 fyrir farið + 100 fyrir reiðhjólið, samtals um 7.000 íslenzkar krónur á mann, fyrir 20 mínútna þyrlutúr. Ekki eru Færeyjar tilkomuminni úr lofti en af sjó og stórkostleg strandbjörgin blöstu við okkur. Farið var yfir Austurey og millilent í Klakksvík á Borðey, þar sem farþegar komu og fóru, uns haldið var yfir Svíney áður en lent var í bænum Hattarvík á Fugley.

Hattarvík er hálfgerður eyðibær. Þarna hafa bara um sjö manns vetursetu en áður bjuggu þarna einhver hundruð manns. Mörg húsanna eru í niðurníðslu en öðrum er haldið við sem sumarhúsum brottfluttra Klakksvíkinga og Þórshafnarbúa. Þaðan héldum við 4 km langan vegaspotta sem þó tók okkur upp í um 300 m hæð áður en við renndum okkur alla leið niður í Kirkju, sem er hinn bærinn á eyjunni. Vegurinn var þó hvergi mjög brattur, sem er gott, sérstaklega þegar ferðast er með farangur, og grunaði mig að hann hefði verið hannaður af dönskum verkfræðingum sem kynnu illa við sig í halla. Í raun voru allir vegirnir sem við fórum um hannaðir á þennan hátt, þannig að þó að brekkur væru langar voru þær aldrei of brattar.

Kirkja er eitthvað stærri en Hattarvík en að öðru leyti svipað fyrir henni komið. Þarna rákumst við á hóp fólks sem augljóslega var af sömu fjölskyldunni og þau einu sem höfðu vetursetu þarna, og ég gat ekki varist þeirri hugsun að fjölskyldumeðlimir gætu rakið sig saman á fleiri en einn veg. Ferjan, sem við ætluðum að taka var ókomin og þurftum við að bíða eftir henni í rúman hálftíma. Vont var í sjóinn og ferjan sveiflaðist því fram og aftur við hafnarbakkann. Þrír ferðamenn á efri árum voru um borð og einn þeirra hrasaði þegar hann steig úr ferjunni og sýndist lenda með fæturna á milli skips og bryggju sem skall í næstu andrá með látum á bakkann. Ég hélt að þarna hefði ég orðið vitni að aflimun, en betur fór en á horfðist og maðurinn slapp með mar en var augljóslega nokkuð brugðið, eins og reyndar okkur sem urðum vitni að þessu. Nú var tekið til við að vippa farangri og hjólum um borð, sem var nokkur áskorun enda lyftist og seig ferjan vel á annan metra auk þess að kastast til og frá bakkanum í ölduganginum. En allt hafðist þetta nú fyrir rest. Var okkur nú tjáð að við hefðum verið skynsöm að fljúga til Hattarvíkur og hjóla þaðan til Kirkju, frekar en öfugt, því að báturinn hefði aldrei geta lagst að í Hattarvík í svona sjólagi. Skildi ég nú betur af hverju þyrlurnar eru reknar sem hluti af almenningssamgöngukerfinu, enda geta liðið dagar að  ekki sé fært að lenda á sumum eyjanna fyrir brimi.

Var nú Fugley kvödd. Komið var við í Svíney, þar sem vistum var skipað á bryggju en annað tekið um borð, en eftir ævintýrið við Kirkju vorum við ekkert að fara í land, enda nánast ekkert vegakerfi í Svíney. Þarna er þó miklu betri sjór en við Fugley, a.m.k. í þessari vindátt. Næst var tekið land í Hvannasundi, sem er eyði sem tengir saman Viðey og Borðey. Þaðan héldum við um 8 km norður eftir Viðey út að Viðareiði en þar er að finna matsölustað sem ratað hefur inn í ferðamannabækur, auk fallegrar kirkju og prestseturs og 700 m lóðrétts strandbergs. En nú var farið að rigna og fáir á ferli. Ég sé þó einn mann á vappi í bænum og gef mig á tal við hann til að spyrja um hvar veitingarstaðurinn væri og hvort ekki mætti tjalda þarna. Þetta reyndist vera flæmskur ferða­langur sem var með hús á leigu ásamt tveimur félaga sinna. Þar sem þeir nýttu ekki öll herbergin bauð hann okkur gistingu sem við þáðum með þökkum í rigningunni. Við fórum því næst á veitingastaðinn og fengum okkur langvíu og fleira góðgæti áður við héldum heim í hús til Belganna þar sem okkur var boðið upp á öl og fórum því sæl í háttinn fyrstu nóttina okkar í Færeyjum.

Lagt af stað inni í bústaði myrkursins

Morguninn eftir sást til sólar. Við kvöddum Belgana og héldum nú út að kirkjunni og síðan að höfninni en létum strandbergið eiga sig enda illfært þangað upp á hjólaskóm og eggjar út á bjargbrún. Þegar við nálguðumst Hvannasund á ný fórum við í gegnum regnskúr. Ég hjólaði í gegn en frúin stoppaði í honum miðjum til að fara í regngallann og fékk því á sig talsvert meira vatn. Við skoðuðum okkur nú um í Hvannasundi, snæddum nesti við kirkjuna, en alltaf var regnskúr þarna á ca. 100 m kafla í hlíðinni. Handan eiðisins yfir á Borðey er bærinn Norðurdepill og þangað héldum við og síðan þrjá km að fyrstu göngunum, sem Færeyingar eru þekktir fyrir. Ólíkt íslenskum göngum voru þau algjörlega óupplýst. Við höfðum tekið með okkur höfuðljós og afturluktir, en ljósið mitt var ekki betra en það að biksvart malbikið gleypti ljósið og því ekkert að sjá nema ljósið í enda ganganna í um 2 km fjarlægð. Þetta var mjög skrýtið og einhvern veginn var tilfinningin eins og að synda, en jafnvægisskynið virkaði ekki sem skyldi þegar búið var klippa á hið sjónræna. Varð ég því að biðja frúna, sem var með nokkru betra ljós, að vera á undan og ég elti svo afturluktina hennar. En út komumst við í Árnafirði, en þar koma göngin út áður en þau fara að nýju inn í fjallið. Við vorum ljósinu fegin og ákváðum að skella okkur ofan í þorpið sem lá um 100 metrum fyrir neðan okkur. Þá byrjaði að rigna þannig að við leituðum okkur skjóls í kirkjunni og snæddum nesti þar í fordyrinu. Ekki slotaði rigningunni strax þannig að ég fór að fletta sálmabók og komst að því að nokkuð hefur ratað þangað af íslenzkum sálmum. En nú stytti upp, við héldum aftur upp að göngunum og skelltum okkur nú yfir á vesturströnd Borðeyjar. Þegar út var komið lá nú leiðin til norðurs um eiði að bænum Haraldssundi sem er á austurströnd Konueyjar. Þar skildum við farangur eftir við gangamunna sem leiddi okkur yfir að vesturströnd sömu eyjar og að samnefndum fallegum bæ. Þaðan er magnað útsýni yfir austurströnd Karlseyjar. Skoðuðum við okkur um áður en haldið var til baka sömu leið og nú alla leið í Klakksvíkur sem er annar stærsti bær í Færeyjum og mikill útgerðarstaður. Þar er mikil kirkja sem við skoðuðum, en í loftinu í kirkjuskipinu hangir gamall prestsbátur og skírnafonturinn er mörg þúsund ára gamall hlautbolli sem er gjöf frá Danmörku.

Við höfðum hugleitt að taka ferjuna yfir til Karlseyjar, sem er ein svokallaðra Norðureyja, en þar er bara einn 16 km langur vegur með fimm jarðgöngum eftir endilangri eyjunni allt norður að Tröllanesi. Hefðum við getað tekið strætisvagn til baka. En eitthvað stóðust strjálar ferjusiglingar og enn strjálli áætlunarakstur ekki betur á en að okkur sýndist sem að þetta myndi taka allan daginn. Auk þess hafði okkur tekist að skoða eyjuna nokkuð vel úr vestri og myndi standa slíkt til boða síðar úr austri. Var Karlsey því sleppt.

Umferð hafði fram að þessu verið nánast hverfandi en nú fór hún að þyngjast. Frá Klakksvík tókum við strætisvagn um neðansjávargöng yfir til Leirvíkur á Austurey. Þar skoðuðum við okkur um, snæddum nesti og héldum svo gömlu leiðina í vestur sem þræðir strandbjarg, með geysilegu útsýni og liggur framhjá einu volgrunni í Færeyjum. Þarna var mikið af sauðfé, eins og víðast annars staðar í Færeyjum og grasið svo vel nagað að þetta væri eins og á golfvelli ef ekki væri fyrir hallann, fuglaskít og lambaspörð. Hvergi sér þó í svörð enda næringin sem berst frá hafi og fuglum nóg til að halda grasinu þéttu og heilbrigðu þrátt fyrir áganginn. Nýja leiðin liggur auðvitað um göng, en þar sem við höfðum þegar hjólað í gegnum fjögur göng og ekið um ein, þá var gamla leiðin hinn augljósi og gleðilegasti kostur.

Þessari dýrategund brá fyrir endum og eins í ferðinni

Til móts við Fuglafjörð byrjaði nú að rigna þannig að við slepptum þeim bænum, enda úr leið. Haldið var suður á bóginn framhjá Götu og upp í 150 m hátt Götueiðið, en þar hætti að rigna á okkur. Síðan héldum við enn suður á bóginn, framhjá Søldarfirði og Runavík og fallegu Tóftavatninu og alla leið suður að Æðavík sem er syðsta ból á Austurey. Þar er tjaldstæði og vorum við einu gestirnir. Byrjaði að helli rigna þegar við komum á svæðið þannig að úr varð að við gistum á gólfi í aðstöðuherbergi þarna. Komumst við jafnframt í langþráða þvottavél auk sturtu.

Miðvikdagurinn rann upp nokkuð bjartari. Við skoðuðum okkur um í víkinni áður en haldið var aftur norður á bóginn, um Tóftir og þaðan aftur í Runavík. Þar skelltum við okkur í Bónus verzlun sem við höfðum séð síðasta kvöldið. Var úrvalið nú talsvert líkara dönskum matvöruverzlunum en íslenzkum, en þó var eitt og annað sem gladdi Íslendinginn. Vel birg héldum við nú enn norður, komum við á Lambaeiði en svo áfram norður meðfram Skálafirði, framhjá stærsta kúabúi þeirra Færeyinga, en þarna er eitt mesta sléttlendi Færeyja sem heitir Milli Fjarða. Fljótlega var beygt til hægri áleiðis til Önundarfjarðar og farið upp í rúmlega 260 m hæð áður en komið er til fjarðarins. Þar er að finna í flæðamálinu svokallaða ruggusteina, sem rugga og fljóta einhvern veginn í flæðamálinu, en þar sem það var fjara þegar við komum urðum við ekki vitni að þeim undrum.

Á meðan við héldum ennþá að þetta yrði auðvelt í Elduvík

Nú tók við ævintýralegasti hluti ferðar­innar, en áður en Ísland var yfirgefið hafði ég lagst yfir loftmyndir af eyjunum og séð að hægt var að tengja tvo langa botnlanga með því að fara nokkuð ógreinilega götu, fyrst upp brekkurnar fyrir ofan bæinn og síðan um eyði til norðurs að Funningsfirði. Þaðan tók við gata undir hlíðum Skorartinds alla leið til Elduvíkur. Eftir að hafa skoðað snotran Önundarfjörðinn hjóluðum við  áleiðis upp brekkuna á meðan vega gætti og leiddum síðan hjólin unz komið var í varpann á milli fjarðanna í um 130 m hæð. Þar gátum við hjólað aftur þegar dró úr hallanum.

Efasemdir farna að skjóta rótum

Fljótlega fór þó að þrengjast um okkur, stígurinn varð mjórri og brattara bæði fyrir ofan og neðan okkur. Kom nú í ljós að loftmyndir gefa ekki endilega glögga lýsingu á halla, en þarna vorum við á bergsyllum, einstigi, og bráður bani búinn, niður fertugan hamarinn, hverjum þeim sem villtist af leið. Urðum við nú að leiða hjólin, og stundum að hjálpast að þar sem gatan var tæpust, en ekki vildum við snúa við, eftir allt erfiðið að komast þarna og vonuðumst til að þetta tæki nú brátt enda. Þó var alltaf öðru hverju að finna sauðfé í bjarginu og einnig á götunni, en henni er sjálfsagt mest haldið við af umferð sauðfjár. Smásaman fór gatan að lækka og hlíðin að fletjast uns við gátum aftur sezt á hjólin skammt undan Elduvík. Ég er viss um að ef við hefðum byrjað Elduvíkurmeginn hefðum við fljótt snúið við enda byrjaði tæpa gatan þar nokkuð fljótlega, en Önundarfjarðarmeginn þurftum við fyrst að erfiða með hjólin upp vegleysur og móa þannig að það hefði verið sálfræðilega miklu erfiðara að snúa við þeim megin frá, komin svo langt. En eftir á að hyggja var útsýnið stórkostlegt yfir hin tilkomumiklu strandbjörg Karlseyjar og Austureyjar, og reynslan nokkuð ævintýraleg. Er ég nokkuð viss um að við höfum verið fyrstu ferðalangarnir sem fóru þessa leið með reiðhjól, a.m.k. fulllestuð ferðahjól.

Hlið fyrir lestuð reiðhjól

Elduvík er fallegasta þorpið sem við heimsóttum í Færeyjum og er þó samkeppnin hörð. E.t.v. spilar þar inn í hve fegin við vorum þegar þorpið blasti loks við okkur. En nú var komið kvöld og við úrvinda. Við sáum konu tala við aðra konu í bíl og gáfum okkur fram við þær og spurðum hvort  hægt væri að tjalda í þorpinu. Eru þið Íslendingar var spurt til baka á hinu ylhýra og meðgengum við. Þarna var þá kona sem hafði starfað í fiski á Íslandi og talaði lýtalausa íslenzku. Hún benti okkur á bæjarstjórann sem var þarna  á vappi og hann sagði okkur að við mættum tjalda hvar sem væri, og völdum við okkur því sléttan og fallegan reit við litla á sem rennur til sjávar í þorpinu. Þarna var meira að segja fyrirtaks salernisaðstaða fyrir ferðamenn.

Búgvin nær en Kerlingin og Risinn fjær

Á fimmtudagsmorguninn skoðuðum við þorpið og sérstæða lendingu í djúpri gjá eða skoru. Maður nokkur sem var að vinna að viðgerð á kirkjunni benti okkur á þennan „leynistað“ vestan bæjarins, en þar hafði aðstaðan til þess að komast í gjána verið betrumbætt fyrir stuttu  því að von hafði verið á Margréti Þórhildi Danadrottningu, en planið breyttist, en stígurinn og tröppurnar eru þarna enn.

Danskir, skv. kenningunni, verkfræðingar sáu til þess að það var alltaf þægilegur halli

Við kvöddum Eldufvík með trega og héldum nú inn með Funningsfirði uns komið var í samnefnt ljótt þorp í botni hans, þar var sögunarmylla, sem kom nokkuð spánskt fyrir sjónir í skóglausum eyjunum. Til gamans má einnig geta að þar tekur FARICE strengurinn land á leið sinni frá Íslandi. Var nú snúið út fjörðinn að vestanverðu í góðum byr uns komið var að þorpinu Funningi. Við fórum ekki ofan í þorpið, til þess hefðum við þurft að lækka okkur um einhverja tugi metra, en gátum virt það fyrir okkur af veginum fyrir ofan. Var nú lagt af stað áleiðis í Eiðisskarð, sem er hæsti fjallvegur í Færeyjum í tæpum 400 m. Áður var þarna aðalvegurinn á milli Þórshafnar og Klakksvíkur, en nú er búið að bora göng í gegnum fjallið miklu sunnar, þannig að umferð var nánast hverfandi og hafði verið svo síðan við beygðum í átt að Önundarfirði. Að vísu ætluðum við ekki að fara um háskarðið í þetta skipti heldur beygja af leið í rúmum 300 metrum niður að bænum Gjá eða Gjógv, sem er víst borið fram svipaði og orðið brandari á engilsaxnesku. Hafði ég ætlað mér, i fyrsta skipti á erlendri grund, að stöðva bíl og láta hann flytja farangurinn a.m.k. upp að vegamótum og auka þannig á leti okkar, en enginn kom fyrr en við vorum komin rúmlega helminginn af hækkuninni. En við stöðvum bílinn samt. Karlinn var á leið í Gjá þannig að hann tók farangurinn alla leið, og sagði okkur að taka hann bara úr sendiferðabílnum þar sem honum yrði lagt á áberandi stað þegar við kæmum í þorpið. Varð það úr.

Gjáin. Svona gjár og skorir einkenna landslag Færeyjum

Hjóluðum við því upp í Gjáarskarð, nokkuð léttari á okkur, og síðan niður aflíðandi brekkuna alla leið ofan í þorp, fundum farangurinn og skoðuðum helsta aðdráttarafl bæjarins sem er samnefnd gjá. Hún er ekki ósvipuð gjánni við Elduvík, nema að ganga má beint ofan í þessa á landenda hennar og því aðkoma öll þægilegri en við lendinguna í Elduvík. Þessar lendingar eru auðvitað bara fyrir smábáta og því er engin marktæk útgerð lengur frá þessum bæjum. Í gjánni var selur að synda, sem varð okkar ekki var í fyrstu, en skaust svo á brott á ógnarhraða, svona 2 m frá okkur.

Í náttstað í Elduvík

Eftir að hafa skoðað okkur um og heimsótt minningarreit um slysadauða bæjarbúa, héldum við að eina gististaðnum, rétt ofan bæjarins, þar sem við komumst að því hvenær myndi loka um kvöldið og spyrja til vegar yfir í Ambardal. Þangað héldum við fótgangandi upp með strandberginu til vesturs eftir tæpum götum og sneiddum hjá efsta hjallanum  ofan í  dalinn. Hann er nokkuð grösugur, en er hömrum girtur niður í sjó og því hefur þarna eingöngu verið selstaða í gegnum tíðina. Þarna er að finna hæsta frístandandi sædrang við Færeyjar, Búgvin, 188 m háan, en einnig má sjá Risann og Kerlinguna, tvo dranga nokkru fjær, norðan Eiðiskolls. Héldum við nú inn dalinn og um skarð til baka, náðum tímanlega í matinn, og spurðum eftir tjaldstæði sem við höfðum séð merkt á sumum kortum. Staðarhaldarar könnuðust ekkert við tjaldstaðinn, sem hafði verið merktur nánast við hliðina á þeim og grunaði mig að þeir hefðu beitt sér fyrir því að samkeppnin liði undir lok. En veður var gott og við vildum tjalda þannig að við héldum inn dalinn þar sem tjaldstæðið hafði verið merkt, en fundum engin ummerki. Rákumst þar á bónda sem var gangandi  á leið heim frá gegningum og spurðum hann hvort  hann ætti þetta land. Hann sagðist eiga landið ögn ofar í dalnum, handan næsta grjótgarðs og þar væri okkur velkomið að tjalda; sem við og gerðum.

Í Saksun

Föstudagur rann upp í þoku og drunga. Við stoppuðum fyrsta bílinn sem var á sömu leið og við og konan svaraði auðvitað strax á íslenzku, enda hálfíslenzk og hafði dvalið löngum á Íslandi. Hún tók vel í að ferja farangurinn okkar upp í 400 m hátt Eiðisskarð undir hlíðum hæzta tinds Færeyja, Slættaratinds, en vegna skyggnis varð fljótlega ljóst að fyrirætlanir okkar um að ganga á þann tind myndu ekki ganga eftir þann daginn. En eftir hverja brekku upp tók  önnur við niður, en vegna þess hversu hvasst var, máttum við þó ekki gefa fákunum alveg lausan tauminn. Komum við fyrst fram hjá uppistöðulóninu Eiðisvatni sem sér nærsveitarmönnum fyrir rafmagni. Blöstu nú Risinn og Kerlingin aftur við okkur, en nokkuð nær og frá öðru sjónarhorni. Síðan komum við til bæjarins Eiðis. Þar versluðum við í matinn og ég gerði tilraun til að heimsækja þjóðháttasafn, en þar var víst bara opið eftir hádegi á miðvikudögum (eða eitthvað þessháttar) og gæfan ekki alveg með okkur. Var nú haldið suður með Sundinu á milli Austureyjar og Straumeyjar, í nokkrum mótvindi, unz komið var að brúnni yfir Atlantshafið, eins og þeir kalla hana. Þar vorum við aftur komin á aðalveginn og umferð talsverð. Fórum við yfir á Straumey og áfram 3 km í suður  unz við beygðum til  Hvalvíkur til norðvesturs og inn í Saksunardal. Þessi dalur er líkari íslenzkum dölum en aðrir dalir í Færeyjum, en þó er alltaf mjög stutt í klappirnar. Dalurinn er um 11 km langur að örþorpinu og prestsetrinu Saksun sem er einn fegursti staður í Færeyjum. Þarna var líka safn en það opnaði ekki fyrr en eftir miðjan júní. Þess í stað ræddum við við safnhaldarann, sem var á leið í gegningar, um sauðfjárbúskap þar og hér, og er margt á annan veg. Færeyingar taka t.d. fæstir fé sitt nokkurn tímann á hús, enda eiga þeir fæstir slík hús. Eftir nestisstopp og myndatökur héldum við nú aftur upp dalinn, en þar þóttumst við hafa séð vænlegt tjaldstæði.

Það gat orðið hlýtt í meðvindi upp brekkur, en annars var lítil blíða í Færeyjum

Rigning næsta morguns tafði brottför okkar til hádegis en þá hjóluðum við áfram sömu leið til Hvalvíkur og síðan eftir aðalveginum um Húsavík og svo vestur með Kollafirði og inn Kollafjarðardal, framhjá veggöngum nokkrum en fara mátti hjáleið meðfram fögru stöðuvatni og yfir að Vestmannasundi. Síðan framhjá þorpunum Leynum, Stykkinu og Kvívík upp í tæplega 300 m hæð unz við lækkuðum okkur aftur niður að virkjana- og útgerðarbænum Vestmanna, en þar á stærsti hluti vatnsorku Færeyinga uppruna sinn. Höfðum við ætlað að fara í kvöldsiglingu um hina rómuðu hamraströnd norður af Vestmanna, en auglýstar tímaáætlanir stóðust ekki. Þess í stað pöntuðum við fyrstu ferð næsta morgun og fórum að huga að tjaldstæðinu. Það reyndist eitt hið þokkalausasta tjaldsvæði sem ég hef heimsótt og ákváðum við að kanna einhverja ódýra gistingu í staðinn. Við verzluðum í matinn og hittum svo stráka á reiðhjóli og spurðum hvort þeir vissu um stað til að gista á, jafnvel tjalda. Það gerðu þeir og hjóluðu með okkur aðeins upp í hlíðina þar sem finna mátti sléttan flöt á almenningi þar sem allur fjörðurinn blasti við okkur. Þetta var hið fegursta tjaldsvæði og stutt í salerni í kirkjugarði nokkrum þannig að þarna undum við okkur hið bezta.

Torfan uppi til vinstri var augljóslega vannýtt og því voru bændur að klífa upp með fé

Sunnudagsmorguninn vorum við mætt niður á höfn á tilsettum tíma. Skipstjórinn hafði verið á báti frá Ísafirði og meðal annars komið á Hornstrandir en talaði ekki íslenzku að ráði. Þessi sigling var hin skemmtilegasta. Báturinn sigldi í gegnum göng og inn í hella, milli klettaþilja og lands, og á einum stað urðum við vitni að því þegar færeyskir bændur voru að flytja sauðfé í björg til sumardvalar; en svo gjörnýttar eru Færeyjar af sauðfé að smæsta bjargtorfa er nýtt þó svo að smalar og búsmali virtust lagðir í talsverða hættu.

 

Þarna mátti komast á milli

Þarna mátti komast á milli

Þegar í land var komið brugðum við okkur á sögusafn (sem var opið) á meðan við biðum eftir strætisvagni sem myndi flytja okkur aftur sömu leið til Kollafjarðardals. Þaðan hjóluðum við síðan svokallaðan Eyjaveg sem tengir dalinn við Þórshöfn. Þetta var áður alfaraleið, 20 km löng sem fer upp í rúmlega 350 m hæð og fylgir fjallaheiðum alla leið niður í efstu hverfi Þórshafnar, en nú fara aðrir en ferðamenn um göng. Þoka og rigningarsuddi var hins vegar á okkur og því minna útsýni en ella. Þarna hjóluðum við framhjá bækistöð setuliðs Dana á eyjunum, nokkuð smekklegri af herstöð að vera, og hefðum við getað tekið það fyrir fjallahótel ef ekki hefði komið til upplýsingaskilti.

Í efstu hlíðum Þórshafnar er farfugla­heimili. Þar komum við okkur fyrir áður en við héldum í gegnum Þórshöfn og yfir að Kirkjubæ, en þar eru rústir af fornri steindómkirkju. Gaman var að skoða rústirnar og nýju kirkjuna. Einhver norræn móttaka var í gangi og þekkti ég einhverja íslenzka stjórnmálamenn þó svo ég muni ekki lengur hverjir það voru. Við héldum síðan til baka sömu 12 km aftur á farfuglaheimilið. Þegar við vorum komin í úthverfi Þórshafnar stoppaði ég vegfaranda með hund til að spyrja hann hvar næsta matvöruverzlun væri. Þetta var þá Íslendingur sem hafði búið í Færeyjum í 20 ár og var farinn að tala með örlitlum hreim. Vísað hann okkur greiðlega til búðar og þaðan héldum við á farfuglaheimilið þar sem þvottur og búkar voru þvegnir.

Mánudagsmorguninn notuðum við til að erindast í Þórshöfn og nágrenni en hittumst síðan niðri í bænum. Þar keypti ég þykka bók með færeyskum þjóðsögum og ævintýrum á nokkuð fornlegri færeysku og hef ég síðan þá tekið nokkrum framförum í málinu. Vandamálið með færeyskuna er að það þarf að læra nokkra samhljóða upp á nýtt og þá skilst þetta nokkuð vel. Lesmálið er hins vegar öllu einfaldara, svolítið eins og að krakki með takmarkaðan orðaforða hafi verið að skrifa textann með beygingar og málfræðivillum og nýyrðum þegar við á. Flestar færeysku sögurnar fjalla um landamerkjadeilur, enda hver spilda fullnýtt, og þjófnaði. Meira að segja huldufólkssögurnar fjalla um deilur um beit huldubúsmala á landi bænda. Svona breytir nábýlið áherslum þjóðsagnanna, annað en útilegumanna- og draugasögurnar okkar sem þrífast betur í einangrun og víðáttu öræfanna. Reiðhjólaverzlun var heimsótt til að laga gírskiptingu frúarinnar og kaupa slöngu. Síðan var hjólað um borð og siglt áleiðis heim en siglingin um sund á milli rismikilla eyja héldu okkur uppi á dekki unz landsýn þraut.

Við afköstuðum minna en við ætluðum okkur í upphafi, hefðum þurft aðra viku til, til að heimsækja Voga, Mykines, Dímona, Sandey og Suðurey, og verðum við því að snúa aftur við tækifæri; því eyjarnar kalla. Líklega er hvergi betra að vera Íslendingur en í Færeyjum. Furðumargir sem ég kom að tali við töluðu íslenzku, og allir aðrir sýndu okkur vinsemd og frændsemi. Matvöruverð er e.t.v. 30-50% hærra en í Danmörku, en ferðin var okkur ódýr enda allar nætur utan þeirrar fyrstu (sem var frí) og síðustu í tjaldi. Allt sem við fórum, fyrir utan Elduvíkurævintýrið var á malbiki, enda tíðkast fjallahjól lítið í Færeyjum, og þrátt fyrir að hlíðarnar væru brattar, voru vegirnir í þægilega bröttum sneiðingum. Flesta dagana rigndi eitthvað, en við urðum alblaut bara einu sinni. Hins vegar var aldrei heiðskýrt þennan tíma sem við dvöldum þarna. Almannaréttur til að tjalda  er ekki til staðar, enda mestallt land í einkaeigu. Þó fékkst alls staðar góðfúslegt leyfi til að tjalda þegar eftir var leitað og engin (kræsileg) skipulögð tjaldstæði á boðstólum. Erfitt getur þó verið að finna hallalausan þurran blett. Það kom mér hvað mest á óvart hvað lítið var af ferðamönnum í Færeyjum þennan fyrrihluta júnímánaðar. Það hélst e.t.v. í hendur við það hversu lítið ferðamönnum var beinlínis boðið upp á til afþreyingar. Við fengum auðvitað nóg að gera að kljást við brekkur þó svo að vegalengdir hefðu ekki verið langar. En maður er orðinn svo vanur ferðamannafarganinu hér á Íslandi að það er eins og að komast í frí í Færeyjum.

Um hádegisbil á þriðjudegi komum við í land á Seyðisfirði. Á flugöld yrkja menn ekki lengur: ,,Úr útsæ rísa Íslandsfjöll“, en ég skildi nú Fagraskógarskáldið. Fjarðarheiðinn, 650 m.y.s. var miklu brattari en allt sem við kynntumst í Færeyjum og snjóaði á okkur á kafla. Á Egilsstöðum skildi ég við frúna sem flaug heim, en ég hélt áfram í rúman vikutúr sem leiddi mig um Eiðaþinghá, Hróarstungur, yfir Jökulsá á Brú á vaði skammt ofan ósa, Hellisheiði, Vopnafjörð, Bakkaflóa, Langanes út á Font, Þystilfjörð, Melrakkasléttu, Ásbyrgi og Reykjaheiði og ofan í Reykjahverfi unz ég varð mér úti um fari í bæinn á samferda.net