Þetta hófst á því að ég tók mér frí um síðustu verslunarmannahelgi (1995) vann þó á föstudegi. Þegar ég kom heim hófst ég handa við að koma 2 brúsastativum og bögglabera á minn ársgamla Fisher. Pakkaði svo og bjó til ferðaáætlun. Eftir að hafa neytt matar í 45 mín. setti ég Walkman-inn í gang og steig á sveif vitandi ekki hvar ég svæfi þá nótt.

Á Mosfellsheiði beygði ég í átt að Nesjavöllum, fór síðan þaðan um Grafninginn að Ljósafossstöð. Þegar komið var að söluskálanum við Laugavatn var etið, ný rafhlaða sett í labbi-kallin, Trans dans 4 spóla sett í og stillt í botn og haldið í átt að Geysi.

Alla leiðina að Laugavatnsafleggjaranum liðu ekki meira en 20 sek. á milli bíla og síðan það sem eftir var til Geysis liðu að minnsta kosti 5 mín. milli bíla.

Á Geysi voru tveir Ástralar á hjólum (þeir misstu áhugann á mér vegna þjóðernis) og 2 Svisslendingar og sat ég á spjalli í 45 mín, dágott stopp það. Við línuveginn af Kjalvegi að Bláskógaheiði áttaði ég mig á því að ég hafði engin eldfæri. Að endingu fékk ég gefins kveikjara hjá Gullfossi.

Á heitum sunnudagsmorgni fór maður ber að ofan yfir Haukadalsheiði, plús buxnalaus yfir Lambahraunið, ber að ofan yfir Skjaldbreiðarhraun og yfir hálfan Kaldadalinn aðeins með hjálm og í skóm. Síðan bættust við buxur, grifflur og sokkar. Á Húsafelli mundi ég eftir því að það er hægt að brenna í sólinni.

Bæ-öe-vei, ég hitti tvo Íslendinga á hjólum í Kaldadal og spjallaði við þá í smá stund. Vegna mótvinds tók það mig 3 tíma að fara næstu 26 km. frá Húsafelli að Reykholti og vegna þreytu fór ég 35 km. á 2 tímum. Sem sagt á fimm tímum og 61 km. förnum kom ég að fyrrum tjaldstæði Skorradals, á norðaustur bakkanum, fögurra ára upplýsingar á 2 ára gömlu korti.
Fór til næsta bónda, tjaldaði þar.

Mánudagsmorguninn kl. 8 fór ég inn Skorradalinn og upp á Uxahryggi. Á Uxahryggjum hitti ég fjóra útlendinga. Næst sá ég bíl á Tröllahálsi og eftir það fölgaði þeim. Eftir ísstopp á Þingvöllum, var ísstopp í Mosfellsbæ tveimur tímum síðar. 30 mín. seinna hjólaði ég á mann sem var að mála húsið sem ég bý í.
Kristján Heiðar J.

Birtist fyrst í Hjólhestinum 2. tbl. 5. árg. maí 1996