Ég var búin að ákveða að fara ekki í þessa ferð, en þegar nær dró helginni og ég sá hversu góð spáin var, undirstakk ég systir mína að hafa litlu stelpuna og bróðir minn að sækja mig ef ég gæfist upp. Veðurblíðuna á laugardagsmorgninum stóðst ég auðvitað ekki, og ákvað að skella mér með manninum vitandi að blessaður gsm síminn virkaði og bróðir minn með kveikt á sínum. Það var mjög vel tekið á móti okkur á planinu (þó við værum í síðasta falli).  Drifum við í því að græja okkur og leggja af stað.

Haldið var upp úr Árbænum og inná afleggjarann að Hafravatni en þar var aðeins stoppað og fækkuðu þar sumir fötum en aðrir spurðu um sólarvörn! Slík var veðurblíðan. Haldið var svo áfram með mislöngum stoppum og komið að Úlfljótsvatni um hálf átta.

Þegar á leiðarenda var komið var fólk orðið svangt svo drifið var í að hita upp í grillinu og segja nokkrar gamansögur. Nokkur orð voru höfð um að það vantaði heita pottinn til að skríða í. Eftir skemmtilega kvöldstund með léttu spjalli og skemtun í boði Gísla rakara, skriðu ferðalangar í kojur.

Á sunnudagsmorgni var borinn fram morgunverður á staðnum, eftir hann fór nokkra að kítla í hjólafæturnar og lögðu sumir af stað og tóku Þingvallahringinn aukalega en aðrir fóru smá upphitunarhring í Grímsnesinu. Ég lagðist hinsvegar aftur útaf og velti því fyrir mér hvort ég kæmist til baka. Eftir hádegisverð og frágang var lagt af stað til baka.  Ekki var veðrið eins gott, engin sól en samt ágætlega hlýtt og smá gola að Nesjavöllum.

Þar var ég svo heppin að hafa góða ástæðu til að reyna ekki við brekkurnar því vita vonlaust var fyrir manninn minn að reyna við þær með barnakerruna aftan í og drengurinn tók ekki í mál að fara í bíl nema ég færi með. Þar með fór Múkkinn (trússbíllinn sem fylgdi hópnum) með kerruna og öll barnahjólin meðan aðrir dýrkuðu hetjudáðir og virtust ekki hafa mikið fyrir mishæðunum. Þegar yfir var komið var farið að hvessa aðeins og kólnaði þá en sem betur fer var vindur á hlið. Það var kaldara á leiðinni heim og því minna stoppað og komið að Árbæjarsafni um hálf sex.

Mikið var ég fegin að vera komin heim, það eru svo bara fáir útvaldir sem ég hef sagt frá því að ég elti manninn minn í þessa ferð, því viðbrögðin láta ekki á sér standa; "þér er ekki viðbjargandi".

En hetja ferðarinnar var án efa um 9 ára gamall strákur sem hjólaði nánast alla leiðina. Af þessari ferð lærðum við margt um hjólreiðar og það fyrsta verður að mjókka stýrið svo leiðir eitt af öðru. Það var synd að ekki skyldi hafa verið betri þátttaka í þessari ferð því veðrið var frábært. En við þökkum ferðafélögum fyrir skemmtilega ferð.

P.S. Pétur minnti mig á að það ætti að koma fram að hann stóð sig frábærlega.
Lára