Það hefur lengi verið vitað að Ísland er kjörland hjólreiðamannsins; meðalbrekkur og meðalfjöll, meðallangt milli sjoppa, meðalgróðursnautt landslag og að meðaltali mjög magnað veðurfar. Okkur meðaljóninum finnst það allavega. En víst eru margir aðrir góðir staðir og lönd sem eru rakin dæmi um paradís hjólreiðamannsins.

Alla jafna má skipta ferðalöngum á hjólum í tvo meginhópa: Sumir vilja púla og paufast upp brekkur og skörð í 2000 metra hæð með froðufellandi fjallaljón að naga afturdekkið. Þeir vilja helst vera 1000 km frá næstu sjoppu, sofa undir berum himni og lifa á þurrfóðri og svita. Svo eru það hinir sem vilja helst rúlla niður í móti gegnum breiða og slétta skógarstíga, finna goluna leika um vangann, fylla lungun af blómailmi og til að gera daginn æsilegan reyna þeir að hjóla upp fiðrildi. - Þetta er bara gert í útlöndum eða í hjólhermum.

turkom1.gif

Þegar útlendingar koma svo hingað til lands er annað upp á teningnum. Við höfum jú áfram tvo meginhópa. Annar hópurinn vill leita uppi fáfarna fjallaslóða og berjast þar við storma og él. Þeir puða svo og púla yfir ófærur og ár í 200 metra hæð, með jórtrandi rollur allt í kring um sig. En hinn hópurinn veit hreinlega ekkert út í hvað hann er að vaða og mætti stundum halda að þeir hafi ætlað sér að rúlla gegnum skógarstíginn Ísland. Útbúnaður þeirra, bæði fatnaður og annar búnaður benda alltént til þess að svo sé. Því miður vill það brenna við að þessi hópur ferðalanga kemur hingað á vegum ferðaskrifstofa, innlendra sem erlendra (þó svo ég ætli ekkert að alhæfa í þessum efnum). Þetta á ekki bara við um hjólaferðir heldur og líka gönguhópa, skíðahópa o.fl. Einhvers staðar klikkar upplýsingastreymið sem veldur því að hingað kemur stundum fólk, sem ætti frekar heima í öndunarvélum á einangrunarstöð en á ferðalögum.

Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé og ekki hægt að búast við því að allir séu fitt og í fínu formi en hjólaferðir eru hjólaferðir "for kræing át lát". Og nokkurra vikna hjólreiðaferð um hálendi Íslands er ekki rétti staðurinn til að uppgötva hjólið í fyrsta sinn (því þá verður það um leið í síðasta sinn). Þeir sem hjólað hafa í Evrópu eða Skandinavíu - eða bara hvar sem er komast fljótt að raun um að þessi basalthólmi norður í rassgati á ekkert skylt við það sem almennt tíðkast í öðrum löndum. Nú er ég ekkert að hallmæla okkar ástkæra ylhýra. Ég vil ekkert fremur en hossast um íslenska fjallvegi í útsynning (eða svona stundum).

Ég hef aðeins fengist við leiðsögn í hjólreiðaferðum fyrir hina og þessa aðila og hefur það verið bæði skemmtilegt starf og fræðandi. Maður ferðast, kynnist fólki frá ýmsum löndum, tekst á við ýmsar þrautir og erfiðleika og kynnist landinu svolítið í gegnum augu útlendingsins. Það er margt sem kemur á óvart í þessum ferðum, sumt er grátbroslegt, annað fyndið og enn annað getur verið hreint og klárt fáranlegt.

Nú er frá að segja alþjóðlegum hópi manna og kvenna sem hingað koma um mitt sumar ´95, 13 að tölu. Breiður hópur þar sem sumir eru greinilega vanir fjallahjólum, einn stundar fjallaklifur í Ölpunum en aðrir segjast hafa ferðast um víða veröld á hjólum og vera hingað komnir til að kanna aðstæður fyrir hjólahópa á þeirra vegum. Enn aðrir setjast á bögglaberana, segja Hott, hott og leggja svo kollhúfur þegar ekkert gerist.

Það kom fljótt í ljós að ekki var allt með felldu í upphafi ferðarinnar. "Fjallahjólin", sem voru af ódýrustu gerð, þurftu viðgerðar við áður en lagt var í´ann. Þetta verður að skrifast algjörlega á kostnað hjólreiðaverkstæðisins sem átti að vera búið að útskrifa fákana.

En aftur að túrhestunum sjálfum. Þeir sem farið hafa með hóp í hjólaferð vita hvað það er erfitt að halda hópnum saman. Með útlendinga er vandinn stærri. Fólk kemur hvert úr sinni áttinni og virðist svo ætla að hjóla hvert í sína áttina. Eins og fyrr segir er fólk misvant á fjallahjólum og þegar kemur að ferðalögum er það virkilega óvant íslenskri vegagerð. Malarvegir virðast ekki vera til annars staðar en hér á landi og ef þeir eru til eru þeir lokaðir eða bara til sýnis. Mér er minnisstæður einn karl frá Þýskalandi sem kom hingað ´93. Hann var alger íþróttaspækja að eigin sögn, hafði hjólað víða um heim og skipulagt hjólaferðir í Afríku, Evrópu, Mið-Austurlöndum og víðar. Þetta var merkisferð að mörgu leyti fyrir hann. Sextugsafmæli var í uppsiglingu og hann var í brúðkaupsferð ásamt konu sinni. Reyndar hjólaði hún bara fyrsta daginn því hún var engin hjólmanneskja að eigin sögn. Hafði farið þessa ferð eftir áeggjan eiginmanns síns. Hún var því gerð að aðstoðarbílstjóra á fóðurbíl ferðarinnar, og þar talaði hún stöðugt um montið og grobbið í manninum sínum. Karlinn á hinn bóginn þaut um móa og mela hraðar og lengra en aðrir. Hann var óþreytandi við að segja mér frá því hvað kerlingin væri mikill aumingi og rola að geta ekki hjólað. Svo var brunað, púlað og pústað um aukvegi og afleggjara. En fljótt skipast veður í lofti. Eftir fáa daga var farið að bera á nokkrum andlegum og líkamlegum brestum vegna umhverfisaðstæðna. Kom þó í ljós að Ísland hafði alls ekki litið svona út í bæklingum. Eftir tveggja vikna ferð hér á landi var hann nær dauða en lífi. Vegirnir og veðrið slógu hann gersamlega flatan.

Á síðasta ári, 1995, var hér svo hópur manna og kvenna frá ýmsum löndum eins og fyrr greinir. Þessi tiltekni hópur ætlaði að hjóla um landið í tvær vikur. Sumir höfðu fengið: A) Villandi upplýsingar, B) Engar upplýsingar, C) Misskilið upplýsingarnar eða D) Ætlað eitthvert annað. Ein stúlkan í hópnum "hjólaði" á ca. 7 km meðalhraða, hvort sem var á jafnsléttu eða niður í móti (hún teymdi upp brekkurnar). Sá sem hafði ferðast um víðan völl hafði þegar til átti að taka líklega aldrei séð vað í á og því síður hafði hann farið yfir vað á hjóli. Dæmi: Þegar komið var í Dómadalinn á Landmannaleið var þar fyrir óbrúuð spræna, svona 2 m. breið og ca. 20 cm. djúp á broti. Í stað þess að hjóla yfir tekur þessi garpur hjól sitt og konu sinnar og grýtir þeim yfir lækinn. Tekur hann svo undir sig stökk og hoppar ... út í miðjan læk. Hinum megin lágu svo hjólin í kássu; gjörð kengbogin, gírhengja og stýrisstammi úr skorðum og hnakkurinn rifinn. Þetta tókst að laga og eftir smátölu um meðferð reiðhjóla og tilsögn í að-hjóla-yfir-ár-á-broti-tækni var haldið af stað. Svo kom að eina almennilega vaðinu á leiðinni og viti menn, hann hjólar yfir ... beint af augum og ofan í hyl ... jamm og jú, þannig fór nú sjóferð sú. Svo var þarna einn ítali, mikill fjallgöngumaður sem hafði aldrei farið á fjallahjól áður. Sagði reyndar að aðeins þeir ríkustu ætti svona flott fjallahjól!!! Annars átti hann 3ja gíra hjól sem hann notaði til að fara milli bæja og kunni því ekki alveg á alla þessa átján. Það lærðist þó fljótt og að allajöfnu gekk ferðin vel.

 


turkom3.gif

Við vorum afar heppin hvað veður varðaði þó svo mótvindur vildi stundum tefja för og feykja sumum til baka en það var að mestu leyti hlýtt og þurrt. Veðrið er annars það sem kemur útlendingum einna mest á óvart þegar þeir ferðast um landið og þá er það oftast heldur neikvæð kynni sem þeir segja af. Snögg veðurbrigði, rignig samfara hífandi roki -yfirleitt á móti, slyddu og jafnvel snjókomu um hásumar. Svona sýnishornaveður getur þó verið hin besta skemmtun fyrir þá ævintýraþyrstu, sérstaklega ef það þarf að grafa tjaldið upp úr snjó í júlí. En svo getur allt dottið í dúnalogn eins og hendi sé veifað. Þessum snöggu veðrabrigðum verður seint fulllýst fyrir ferðalöngum sem hingað koma og verða því að kynnast því af eigin raun.

 

Eins og áður segir eru vegir landsins einnig sér kapituli út af fyrir sig. Ég hef alltaf haldið að þvottabrettismalarrembingur fyrirfyndist í öllum heimshornum en af viðbrögðum margra sem hingað koma til að hjóla er það ekki svo. Grófir malarvegir og óbrúaðar ár virðast allavega ekki hafa flækst fyrir hjólum þeirra áður. Í þeim ferðabæklingum sem ég hef kynnt mér er lítið sem ekkert minnst á fjallaslóða, óbrúaðar ár, hvernig á að vaða þær eða aðrar hagnýtar upplýsingar fyrir hjóla- og gönguhópa. Þeir sem eru best undir Íslandsferðir búnir eru oftast þeir sem koma á eigin vegum og hafa kynnt sér aðstæður og lesið sér til eftir öðrum leiðum. Þetta er þó ekki algilt, frekar en annað.

 

ÍFHK hefur veitt upplýsingar til þeirra sem þess hafa óskað um fjallahjólaferðir hér á landi. Þær upplýsingar eru afar góðar að ég tel og ættu að vera ferðaskrifstofum sem selja hjólaferðir hér til fyrirmyndar. En markaðurinn fyrir skipulagðar ferðir er afskaplega brokkgengur. Eitt árið getur verið rífandi gangur en hið næsta hefur botninn dottið úr greininni. Ekki er hægt að benda á neina eina skýringu á þessum sveiflum og ekki má kenna (oft) frumstæðum landkynningum einum um. Langstærsti hópur hjólreiðamanna kemur frá þýskumælandi löndum og er sá hópur einmitt einna erfiðastur í allri meðferð og þjónustu. Því þarf að vanda sérstaklega til allra upplýsinga á öllum sviðum - allt að því með skurðstofunákvæmni.

 

 

turkom2.gif

 


Þjóðverjar eru afar hrifnir af reglugerðum, tölum, smáatriðum, sauerkraut, norrænum fornsögum, draugasögum, Bratwurst, súluritum, þjónustu og öllu sem þeir geta grætt á, þannig að ef það er hægt að sameina þetta í eina heild, (sem verður þó að vera það loðin að auðvelt verði að snúa sig út úr hinu óvænta) þá ættu þeir að verða ánægðir. Ánægðir ferðalangar geta gert ferðaiðnaðinum gott og þeirra auglýsingar kosta ekkert.

Það er hreint ekki gott að segja til um hvað gerist á næstu árum. Samkvæmt nýjustu fréttum á að eyðileggja hálendið með risahótelum, bílaumferð og raflínum. Kjölur er orðinn lítt fýsilegur kostur eftir að allar ár voru brúaðar og ekki eiga fyrirhugaðar framkvæmdir á Hveravöllum eftir að gera staðinn betri fyrir þá sem eru að leita eftir ósnortinni náttúru. Sama máli gegnir um eystri hluta hálendisins þar sem Landsvirkjun ætlar að demba niður háspennulínum, ávetuskurðum, og uppistöðulóni þar sem náttúran og auðnin eiga að njóta sín. Trausti Valsson er svo maður sem þarf að skoða sérstaklega, en hann og "þróun" hálendisins, dvínandi Paradís okkar hjólreiðamannanna verður að bíða betri tíma og blóma í haga.

Gjört á þorra, það herrans ár 1996.

Jón Örn Bergsson
© Hjólhesturinn 1.tlb. 5.árg. Febrúar 1996.