Hér gefur að líta kafla úr ferðasögu Marty Basch frá New Hampshire í Nýja Englandi, sem hjólaði umhverfis landið sumarið 1996. Hann leggur ekki mikla áherzlu á hjólaþátt ferðarinnar en það er áhugavert að sjá hvernig hann upplifir landið. Hvað vekur athygli hans og hverju hann sleppir. Rétt er að geta þess að hann skrifaði ferðasöguna á fartölvu og birti jafnharðan á Netinu. E.Á.

 

REYKJAVÍK-SELFOSS.


Innan mínútna var hin hreina og pena Reykjavík að baki. Um 250.000 manns búa á Íslandi og um það bil helmingur telst eiga heima í Reykjavík. Borgin er snyrtileg. Vorgrænir smágarðarnir, ásamt því hve Íslendingarnir eru hrifnir af blómum, sem eru út um alla borg. En stefnan er í suðurátt og landið breytist hratt. Ekki lengur grænt heldur villt grýtt landslag. Næstu 3 vikurnar liggur leiðin um hringveginn, tvíbreiðan veg með bundnu slitlagi enn sem komið er, umhverfis þessa eyju lengst í norðrinu.

Því hærra sem er hjólað þess nær kemur snjórinn. Enn hef ég ekki snert hann en þetta er nú bara fyrsti dagurinn. Dökk fjöllin og mjúkur mosinn ráða mestu um útsýnið. Sumstaðar er moldarslóð meðfram veginum. Fljótlega kom í ljós að hún er fyrir hesta. Úr fjarlægð gat ég ekki alveg gert mér grein fyrir hvað tvær skepnur voru að fara yfir veginn. Gangur hestsins er svo óvenjulegur og hreyfingarnar líktust engu, sem ég hafði séð áður. Mér er sagt að landsmenn séu mjög hreyknir af hestunum. Ég verð að prófa eins og einn.

Hjólandi í austurátt 35km síðar rakst ég á einn af þessum kofum, sem eru á víð og dreif um landið til að veita vegfarendum skjól í illviðrum. Ef Mark Twain hefði komið til Íslands gæti eitt af hans orðatiltækjum verið "ef þér líkar ekki veðrið hinkraðu smástund". Þessi hét neyðarskýli og var rétt við veginn. Rautt og blátt, auðfæranlegt og áberandi, fest niður með stálvírum.

Innandyra voru nokkrir nytjahlutir svosem borð, klappstólar, tvö rúmstæði, kerti, og meira að segja fatahengi. Kort var á vegg með staðsetningu. Útí horni var kalltæki. Bara að ýta á takka og upplýsa yfirvöldin um hvar þú sért. Matarkassinn var áhugaverður. Á matseðlinum var þurrkað kindakjöt, kartöflur, laukur og sveppakássa. Sjúkrakassi með nauðsynlegust áhöldum var þarna líka. Það er gott að vita af þessum stöðum en ég vonast til að þurfa þeirra ekki með. Nema þá sem heiðursgistingar á bjartri nóttu.

Landslagið var jafn þunglyndislegt og veðrið en 3km fyrir neðan fjallaskarðið varð allt grænt aftur og þar gaf að líta frjósaman dal og smábæinn Hveragerði. Snyrtimennska er greinilega kostur á Íslandi. Rusl sést ekki og götur Hveragerðis voru tandurhreinar. Snyrtilegar litlar húsaraðirnar hreyktu sér. Ef það var ekki heimili þá var það gróðurhús. Héðan koma 70% grænmetis- og blómaframleiðslunnar í landi sem reiðir sig mjög á innflutning í þeim greinum (það sést á verðinu).

Ísland er þekkt fyrir heitar uppsprettur og jarðhita. Veitingahús auglýsir "hverasuða" , og fyrir utan hangir pottur yfir hver umluktur gufu. Seinna átti ég eftir að snerta slíkt vatn rétt hjá þjóðveginum. Fyrir Nýja Englandsbúa leit gufan út sem þoka og ég tengdi hana við kulda en heit var hún. Þeir hafa aldeilis brosað breitt landnámsmennirnir við þá uppgötvun, sem líklega leiddi til fastrar búsetu í landinu.

Vegurinn lá inní Selfoss þar sem ég hitti íslenzka útgáfu af Hemingway. Hvítskeggjaður maður með hornaboltahúfu, sem sat í sportbíl fyrir utan kjörbúðina, sá hjólið mitt og hóf samræður. Hann gaf mér vínber og sagðist hafa hjólað hringveginn á 20 dögum á síðasta ári. Hann var sjötugur. Þannig verða sögur til. Um kvöldið fann ég mér svefnstað á tjaldstæðinu. Ferðamannatíminn byrjar raunar ekki fyrr en 1. júní. Tjaldsvæðið var opinberlega lokað en ég mátti vera þarna óopinberlega og ókeypis. Ekki var ég einn þarna, þýzkur stúdent hafði líka tjaldað. Hann ætlaði að ganga umhverfis landið á 3 mánuðum. Tjaldið hans var stórt jöklatjald með mörgum hælum negldum niður. Ég spurði afhverju hann þyrfti slíkan útbúnað. "Þú hefur aldrei komið til Íslands fyrr" sagði hann "þú skilur þetta seinna".

Þetta er skrifað nokkrum dögum seinna á karlasnyrtingunni í þjóðgarðinum Skaftafelli. Þjóðgarðurinn opnar ekki fyrr en 1. júní. Ég sit hér og þorna eftir að hafa hjólað í léttu regni allan daginn og hagnýti mér rafmagnsinnstungu fyrir tölvuna.

GRÍMSEY.


Fleiri fuglar en fólk búa á þessari heimskautseyju, en það truflar ekki Sigrúnu Ólafsdóttur. Sigrún, sem rekur gistiheimilið Bása á vesturenda þessa 5km langa og 3km breiða kletts, er fædd og uppalin í þessu 120 manna samfélagi. "Við erum alls ekki einöngruð" segir hún um leið og hún hreinsar nafnspjald staðarins. "Hérna eru góðar samgöngur. Ferjan er tvisvar á viku. Flug alla daga á sumrin og þrisvar á viku að vetrarlagi. Það er mjög auðvelt að fara til og frá".

Á mínútunni 10 fer rútan frá Akureyri með tvo Breta og einn Ameríkana. Einn farþegi bættist síðar við Veðrið var skýjað með sólarglennum inn á milli, gott miðað við júní á Íslandi. Akureyri er kærkomin tilbreyting frá kindum, hestum og kúm íslenzku sveitarinnar. Norðrið er rétt að vakna uppúr vetrardvalanum. Túnin að mestu grá með grænum blettum. Há fjöll, skýla þessum 14000 manna bæ, hulin skýjum hið efra, sem skipta hæðunum eins og í kransaköku með snæþöktum giljum, sem líkjast kökuskreytingu(hvítum glasssúr). Á Dalvík var allt fullt af krökkum í vetrarklæðnaði að spila fótbolta, nýkomnum úr skólanum, sem lokar í maí. Hafnarverkamenn voru að lesta gulan og bláan bát með varningi til Grímseyjar og heimskautsbaugsins. 4 bílar voru hífðir um borð með hrópum og köllum og snérust þarna í loftinu eins og leikföng. Póstur pakkar og eitt stakt 21 gíra skítugt grænt fjallahjól voru einnig með í farteskinu. Grímsey er nyrzti hluti landsins rétt ofan heimsskautsbaugsins á 66gráðum og 33 mínútum norður. Baugurinn liggur reyndar um miðja eyjuna. Hann er merktur rétt utan við dyrnar hjá Básum, sem er hjá flugvellinum. Merkið bendir í átt til borga einsog New York, Tokyo og Moskvu, sem eru langt í burtu.

Grímsey er um 40km frá ströndinni. Á bryggjunni vigta fiskimennirnir afla dagsins, krani landar körum með um 300kg af ferskum fiski. Á austurendanum er viti. Kirkja er á staðnum en presturinn býr á Akureyri svo hann fer á milli. Skóli er þarna líka sem börnin ganga í þar til þau eru 12 ára en þá fara þau í heimavistarskóla til Dalvíkur. Svo er búðin með benzíndælunum, pósthúsið, sundlaugin og kannski 20 íbúðarhús. Flestir eyjarskeggjar vinna við fisk. Á meðan ég var þarna fór litla dóttir Sigrúnar í afmælisboð. Aðeins suðurhluti eyjarinnar er í byggð. Svo eru bara fuglar og klettar. Það er vegna fuglanna að svo margir koma til Grímseyjar. Þarna eru svartfuglar, margar mávategundir og hin herskáa kría. En aðalfuglinn er lundinn. Hugsanlega uppáklæddastur fleygra skepna, lundinn lítur út eins og Toucan Sam á morgunkornpakkanum. Appelsínugult nef og fætur, hvíta bringu og með svartan yfirfrakka er hann reiðubúinn að halda á vit skemmtanalífsins. Ekki er erfitt að finna fuglana eingöngu að fylgja rauðu plastkúlunum frá húsi Sigrúnar í yfir túnið. Bara að passa sig á kríunni því þótt hrollvekja Hitchcocks Fuglarnir væri ekki tekin upp hér þá sækja kríurnar í nýja hausa af mikilli illkvittni. Þær taka dýfur og sprengja fólk. Ein snéri húfunni á kollinum á mér. Ekki skifti máli þó ég setti upp hettuna. Ef þú ert á hjóli gera þessi illfygli allt sem þau geta til að merkja þig. Þegar búið er að bjóða illfyglunum byrginn sjá ferðalangar ógrynni fugla svífandi yfir klettunum, sitjandi á hreiðrum og sækjandi fæðu. "90% ferðafólks hér eru fuglaskoðarar hinir koma til að sjá miðnætursólina. Það er alltaf fullt þann 21. júní lengsta dag ársins. Fólkið horfir á miðnætursólina og nýtur fegurðar lífsins í friði og ró" sagði Sigrún. En vertu fljótur að bóka, rúmin tólf í gistiheimilinu eru að verða upppöntuð.

VARMAHLÍÐ-BLÖNDUÓS.


Eitthvað fannst mér athugavert við fánana 9 utan við móttöku tjaldstæðisins á Blönduósi, sem er 1200 manna þorp við mynni jökulárinnar Blöndu. Hér var lengi kaupskipahöfn og 1876 fékk staðurinn verzlunarréttindi. Tjaldstæðið kom í endann á einum af þessum dögum, sem sveiflast á milli himins og heljar á hjólaferðum. Skýjaður morguninn og það teigðist úr hæðunum uppfrá Varmahlíð, smáþorpi, sem hefur orðið til á vegamótum. Langar brekku niðri í móti voru uppskeran og vindurinn í bakið. En að endingu stefnir leiðin í aðra átt, landslagið breytist aftur í frjósaman dal með húsdýrum og vindi sem stöðvaði jafnvel þungavigtarmann. Loks eyddi sólin lágskýjunum og blár himinn tók við. Blönduós og fánarnir birtust eftir enn eina beygjuna.Á tjaldstæðinu hitti ég umsjónarmanninn Ófeig Gestsson. Hví er ekki Ameríkufáninn þarna spurði ég. Ég flagga þjóðfánum eftir því hvaða gestir eru hér því ég held að þeim finnist það gaman. Þegar ég er erlendis finnst mér vænt um að sjá fánann minn það sýnir hugulsemi. Ófeigur á 27 fána en vantar tilfinnanlega fána frá Singapúr.

Nú ég sagði Ófeigi að ég ætlaði að tjalda þarna. Hann upplýsti mig um að ferðamannatíminn væri rétt að byrja og fyrstu dagana væri ókeypis. Ekki var það verra og ég hélt yfir götuna í átt að annari íslenzkri hefð. Ef eitthvað verður helzt til bjargar í þessu fagra og vilta landi þá eru það sundlaugarnar, meira en 80 fyrir þessar 260.000 hræður. Fyrir 150-200kr má synda í allskyns laugum. Hérna var heitur nuddpottur utandyra. Ég skellti mér í nuddpottinn og vegarykið gufaði upp. Í pottinum hitti ég 2 konur, sem búa hér, önnur frá Svíþjóð og hin frá Þýzkalandi. Þær gátu talað ensku og við spjölluðum um samfélagið og ferðalög. Það kom til tals að ég væri hjólandi þá sagði önnur "ó þú ert einn af þessum rugluðu". Á sunnudögum er lokað snemma svo ég var brátt á leið að tjaldstæðinu aftur og nú voru fánarnir eðlilegir, það var búið að flagga fyrir mér.

REYKJAVÍK


Hringvegurinn endaði við upphafið í borginni við flóann. Í nær 1400km gegnum sól, rigningu, hagl, snjó og hina grimmustu storma var þetta þolpróf búið að standa. Skrokkurinn slapp og hjólið næstum því. Að vísu sá nokkuð á því slitin keðja, 2 brotnar klemmur og brotinn teinn en slíkt má laga.

Þetta land á engan her. Hér geta fangar skroppið í frí. Lögreglan er byssulaus. Menn státa sig af 100% læsi. Reyndar má finna dekkri hliðar. Áfengisvandamál er talsvert. Matvælaverð er hátt . Veðrið er ýmist blítt eða þú ert veðurbarinn í rokinu. En í heilan mánuð hafa Íslendingar leyft þessum ferðalangi að kíkja á eitt og annað. Björgunarsveitin í Hafnarfirði sýndi honum íshelli í stærsta jökli Evrópu. Maður úr ólympíusveitinni frá 1960, sem kallar sig tjaldbúa kenndi mér sitthvað um íslenzkan mat. T.d. get ég nú sagt "hrossabjúga" en ég get líka kvatt á íslenzku. Bless Ísland.



© Þýðandi: Elvar Ástráðsson.

Hjólhesturinn. 2. tlb. 6. árg. Maí 1997.