Sumarið '99 var ég á bílaferðalagi um Þýskaland og að heimsækja gamla vini. Þá sá ég Móseldalinn í fyrsta skipti og eyddi einum degi þarna og heillaðist gersamlega. Ég var staðráðinn í því að koma þarna aftur og gefa mér enn meiri tíma til að skoða allt sem svæðið hefur uppá að bjóða.

Það var svo ekki fyrr en í vor þegar ég var að skipuleggja sumarfríið mitt að þessi hugmynd varð til í bréfaskriftum við vin minn Stefan sem ég heimsótti áður. Hann er búsettur þarna skammt frá og er því nokkuð kunnugur svæðinu og hefur til dæmis búið í Trier um tíma þegar hann var í skóla. Þetta var nefnilega búið að standa lengi til hjá honum að hjóla þarna niður en einhvern veginn ekki orðið af því. Eftir nokkrar vangaveltur ákváðum við að fara hjólandi leiðina frá Trier niður til Koblenz um 200 km leið. Í þetta ætluðum við að nota 5 daga sem þýðir að við þurftum ekki að hjóla nema 40 km á dag. Þetta átti jú að vera létt ferð og svo er endalaust margt að sjá á leiðinni. Við pöntuðum svefnpláss á gistiheimilunum fyrirfram, athugðum með lestarferðir, áhugaverða staði ofl. Svo ætluðum við bara að spila svona nánast eftir hendinni hvernig við myndum eyða hverjum degi fyrir sig. Svo síðar bætum við einum degi við til að ganga um bröttustu vínekru í Evrópu sem er þarna á leiðinni. En heiðurinn af skipulagningunni á hann Stefan. Ég fæ honum seint fullþakkað fyrir að standa í þessu umstangi fyrir okkur.

Að koma hjólinu í flugið var mun minna mál og ódýrara en ég hafði búist við (kostaði ekki nema 2000.- hvora leið). Það þarf reyndar að skrúfa það nokkuð í sundur en ekkert sem venjulegur Jón eins og ég get ekki gert vandræðalaust. Hjá Reiðhjólaversluninni Erninum fékk ég kassa utan um hjólið og litla vatnshelda tösku framan á stýrið sem ég geymdi myndavélarnar, veski og önnur verðmæti í. Hana er hægt að losa af með einu handtaki svo ég þurfti aldrei að skilja hana við mig. Og eiga þeir hjá Erninum þakkir skyldar fyrir góð ráð og mikla þjónustulipurð.
   
Miðvikudaginn 3. september stóð ég með litla tösku og stóran kassa á flugvellinum í Frankfurt og skimaði í kringum mig. Jú, þarna var hann Stefan, kominn að sækja mig. Okkar fyrsta verk var að keyra heim til hans þar sem Gaby konan hans tók á móti okkur með dásamlegri grísasteik í kvöldmat. Daginn eftir skrúfaði ég saman hjólið eftir flugið. Svo fórum við í prufuhjóltúr um næstu sveitir til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi. Næstu dagar fóru svo í að skoða söfn, bjórverksmiðju og næsta nágrenni. Nokkrar bæjarferðir og svo auðvitað búðaráp.    

FB03-02.JPG

Á leið í lestina til Trier


Sunnudaginn 7. september um kl 10:00 stóðum við á brautarpallinum í Trier og stigum á bak. Þá um morguninn var Gaby búin að keyra okkur til Koblenz þar sem við tókum lestina. Það kom mér á óvart hvað var auðvelt að taka lest með reiðhjól í farteskinu. Þarna er þetta svo algengt að aftasta vagninum í lestinni er skipt í tvennt, annarsvegar fyrir fólk og svo er hinn helmingurinn sætalaus en belti eða teygjukrókar í hliðum vagnsins til að festa hjólin.     

FB03-26.jpg

Við upphafspunkt

 
Þarna voru fyrir um 30 hjól þegar við komum - við vorum greinilega ekki þeir einu sem höfðum fengið þessa hugmynd. Veðrið var milt, logn, um 16°c og léttskýjað. Þarna var margt að sjá fyrir Íslenskan ferðalang. Og eftir 17km í hlykkjum um miðbæinn fórum við út á hjólastiginn sem liggur niður með ánni Mósel.    

 

FB03-23.jpg
Í lestinni - við vorum ekki þeir einu með hjól


Það væri of löng upptalning að tíunda alla þá staði sem ég kom á, alla kastalana sem ég skoðaði, vínhátíðirnar í litlu bæjunum og öll þorpin og veitingahúsin. En að uppbyggingu voru allir dagarnir mjög svipaðir. Vel útilátinn morgunverður kl 8:30 eftir sturtu. Pakkað saman dótinu á hjólið og dóla sér af stað. Það kom í ljós að við hjóluðum 53 til 58 km/dag með öllum auka krókum og útúrdúrum samtals 263km.     

FB03-24.jpg
Hliðargata í Traben-Trarbah

 

Síðasta daginn hjóluðum við reyndar ekki nema 37km.Við eyddum stærstum hluta dagsins í að skoða kastala, vínhátíðir, þorp og ýmislegt skemmtilegt sem fyrir augu bar. Borðuðum þar sem okkur datt í hug og leist vel á. Nesti höfðum við ekkert enda nóg að velja úr af ódýrum veitinga og kaffihúsum sem við bókstaflega þefuðum uppi þegar okkur hentaði.    

FB03-20.jpg
Aðalgatan í Kobern-Gondorf

 

Vínekrur eru einkennandi fyrir Mósel. Þær eru bókstaflega alstaðar! Hvert sem maður lítur má sjá vínviðinn í endalausum röndum í hlíðunum upp frá ánni. Við pössuðum okkur svo á því að vera komnir ekki seinna en um kl 18-19 á næsta gistiheimili. Fara í sturtu og koma okkur fyrir. Það var nefnilega ekkert óalgengt að betri veitingahúsin lokuðu um kl 20-21!     

FB03-18.JPG
Endapunktur


Aðbúnaður á öllum gistiheimilunum var mjög góður og vel útilátinn morgunverður sem fylgdi alltaf. Verðið var á bilinu 17 til 25 Evrur (1500 til 2200kr) nóttin á mann, innifalið aðgangur að læstri geymslu fyrir hjólin og morgunmaturinn.

Veðrið lék við okkur alla dagana og ég var langmest í stuttbuxunum. Hitinn var á bilinu 18 - 27°c yfir daginn og nær alltaf logn. Það rigndi einn daginn, en ekki meira en svo að það var nánast stytt upp aftur þegar ég var kominn í regnjakkann. Þegar við stóðum við ármót Mósel og Rín, sem var endamarkið í þessari ferð okkar, fór ég í huganum yfir það sem við höfðum gert síðustu daga. Það hafði ekkert bilað, ekkert týnst og engu verið stolið. Allt sem við höfðum skipulagt hafði gengið upp. Þetta var einstök tilfinning. Eina viðhaldið á hjólinu mínu (Trek 4500) var að ég smurði keðjuna eftir 110km. Öll ferðin í heild sinni var í einu orði sagt frábær.

   Það sem eftir var af tímanum fram að fluginu til baka eyddi ég með þeim Stefan, Gaby og Katrinu dóttur hennar. Við gerðum ýmislegt skemmtilegt svo sem ferð til Kölnar, heimsókn í risa-tívolí, lautarferðir og út að borða ofl. ofl. Heimferðin var þægileg og vandræðalaus þrátt fyrir að hafa eitt stykki reiðhjól í farteskinu. Heim er ég kominn og þakklátur öllum sem komu að þessu brölti mínu á einn eða annan hátt.

Fjölnir Björgvinsson

FB03-25.jpg
Móseldalurinn

 Fleiri myndir:

FB03-01.jpg

 

FB03-03.jpg

 

FB03-04.jpg

 

FB03-05.JPG

 

FB03-06.JPG

 

FB03-07.jpg

 

FB03-08.JPG

 

FB03-09.JPG

 

FB03-10.JPG

 

FB03-11.JPG

 

FB03-12.JPG

 

FB03-13.JPG

 

FB03-14.JPG

 

FB03-16.JPG

 

FB03-17.JPG

 

FB03-19.JPG

 

FB03-20.jpg

 

FB03-21.jpg

 

FB03-22.jpg

 © ÍFHK
Hjólhesturinn 2. tbl nóvember 2003.