Ég starði á hjólið og trúði ekki mínum eigin augum. Eftir að hafa hlakkað til allt sumarið að komast í fyrstu almennilegu langferðina mína hjólandi einn á eigin ábyrgð, eftir að hafa sankað að mér öllum búnaði sem þurfti og meiru til, eftir að hafa komið mér í form til að ráða við ferðina, með verkfæri og varahluti, leit út fyrir að ég kæmist ekki einu sinni út úr dyrunum. Þetta var á laugardegi verslunarmannahelgina 1995. Þrem vikum áður hafði ég skipt um bremsupúða að aftan sem nú voru farnir að bremsa lítið. Mér datt ekki annað í hug en að ég þyrfti aðeins að stilla púðana til að redda þessu en það kom í ljós að þeir voru alveg búnir og ég átti ekki aukasett. Allt hjólafólk sem ég þekkti var hjólandi upp um fjöll og firnindi og verslunarfólk á jú frí um verslunarmannahelgina.

Nú var að duga eða drepast svo ég settist með sveittan skallann við símann og hringdi í allar hjólabúðir bæjarins. Það var ekki fyrr en ég hringdi í síðasta númerið að einhver svaraði. Jú, það var opið í Markinu til klukkan tvö þennan laugardag eins og aðra laugardaga og þeir redduðu mér nýjum bremsupúðum og fleiri smáatriðum sem ég ætlaði ekki að klikka á. "Nú skal sko ekkert stöðva mig," hugsaði ég og kláraði að pakka.

Ferðinni var heitið til Hólmavíkur í rútu og síðan átti að hjóla upp Strandirnar eða austurhluta Vestfjarðakjálkans eins langt og vegurinn lægi og til baka, fara yfir Steingrímsfjarðarheiði og upp í Kaldalón og þann botnlanga á enda og sjá svo bara til. Það var lagt af stað sunnudagsmorguninn í sól og blíðu og komið til Hólmavíkur um kaffileitið.

Vestfirðirnir hafa verið vinsælir meðal fjallahjólafólks undanfarin ár, vegna ægifagrar náttúru, skemmtilegra vega til að takast á við og ekkert of mikillar bílaumferðar. Reyndar hafði ég aldrei þorað að ferðast um Vestfirðina á mínum eigin bíl þar sem þær sögur ganga fjöllum hærra að vegirnir þar séu þvílíkir að bílar verði aldrei samir við sig ef þeir komast þá á leiðarenda. Bara nokkrum dögum áður en ég lagði af stað var í fréttum sagt frá því að fjall eitt hefði tekið upp á því að grýta bíla sem áttu leið um. Ein stúlka hafði fengið hnullung á stærð við körfubolta á sig í gegnum hliðarrúðu þar sem hún sat í aftursæti fólksbíls og í sömu viku hafði heilt bjarg stokkið á flutningabíl, lent við annað afturdekkið þannig að grindin skekktist og síðan skoppað út hinumegin. Sem betur fer slasaðist enginn alvarlega en náttúran fyrir vestan er greinlega óblíð.

vest8.jpg

Brimnesið þar sem varað var við grjóthruni - hvernig sem maður varar sig nú á því.

 

Ég var ákveðinn í að vera ekkert að stressa mig á einu eða neinu, sjá hvert hjólið bæri mig og festa á filmu það sem gleddi augað. Ég byrjaði á því að skoða Hólmavík og festa flutningabílinn fræga á filmu. Síðan var hjólað af stað í sól og góðu veðri sem átti eftir að fylgja mér upp Strandirnar. Fyrsti áningarstaðurinn var í fjörunni á Kaldrananesi, með útsýni yfir lygnan fjörðinn og kirkjuna, og sofnað við niðinn í sjónum. Morguninn eftir vaknaði ég í glampandi sólskini, henti dýnunni út og byrjaði daginn með almennilegu sólbaði enda aldrei hægt að treysta á að sólin sýni sig aftur. Mér tókst þó að drattast af stað aftur þegar ég sá á kortinu að ég gæti verið kominn í hádegismat á hótelið að Klúku.

 vest6.jpg

Fyrsti áningarstaðurinn var í fjörunni á Kaldrananesi, með útsýni yfir lygnan fjörðinn og kirkjuna.


Endurnærður eftir hamborgara löðrandi í olíu og með alla vasa fulla af sælgæti var svo haldið áfram. Malarvegurinn var í ágætu standi og ekkert of erfiðar brekkur að hjóla. Ég hafði reyndar skipt um minnsta tannhjólið að framan og fengið mér minna, til að létta róðurinn upp brekkurnar. Ég hjólaði þarna um áhyggjulaus og í sólskinsskapi, jarmaði á rollurnar og svipaðist um eftir selum. Ferðin gekk vel, leiðin var nokkuð flöt með einstaka brekku sem var auðvelt að hjóla upp og síðan hentist maður niður þær á fleygiferð og allt lék í lyndi, þar til ég fór aðeins of harkalega í holu niður eina brekkuna og það sprakk hjá mér.

"Ekkert mál. Maður klikkar nú ekki á smáatriðunum," hugsaði ég og dró upp verkfærasettið. Kippti slöngunni af og bætti, kom henni fyrir aftur og svipaðist um eftir pumpunni. Hún átti að vera í einhverri töskunni en eitthvað var hún nú að fela sig. Það var ekki fyrr en ég var búinn að rífa allt upp úr öllum töskunum að ég komst að þeirri niðurstöðu að pumpan hefði orðið eftir heima. Ég hafði tekið hana til en hún hafði geinilega sloppið framhjá töskunni.

Nú voru góð ráð dýr. "Ég hlýt að fá hjálp á næsta bæ," hugsaði ég og greip Vegahandbókina mína til að sjá hversu langt væri í næsta bæ. Ég hafði farið fram hjá einhverjum bæjum en þeir höfðu virst í eyði. Og jú, samkvæmt bókinni voru 30 km í hvora átt í næsta byggða ból. Ég var ákveðinn í að láta ekki svona smáatriði skemma daginn eða ferðina, settist niður og nartaði í nestið mitt. Fimm mínútum seinna bar að stífbónaðan fólksbíl með öldruðum hjónum alls ólíkleg til að geta hjálpað mér en ég ákvað að stoppa þau samt.

"Góðan daginn. Ekki vill svo vel að þið séuð með pumpu? Það sprakk hjá mér og pumpan virðist hafa orðið eftir heima," sagði ég vandræðalega.

Hjónin horfðu á mig í augnablik. "Já, er með loftpressu í skottinu," svaraði maðurinn síðan og glotti. "Bíddu augnablik meðan ég næ í hana." Ég hélt að maðurinn væri að grínast en hann fór, náði í rafmagns loftpressu og stakk í samband í kveikjaratenglinn. Meðan ég dældi bæði dekkin grjóthörð til að ekki springi aftur, kom svo spurningin. "Hefur þú ferðast mikið?"

Ekki nógu mikið greinilega. Um kvöldmatarleitið kom ég að Hótel Djúpuvík í Reykjarfirði. Ég fór inn til að hringja heim og láta senda mér pumpuna því ekki vildi ég lenda í svona vandræðum aftur. Matarilminn lagði á móti manni strax í dyrunum svo ég stóðst ekki mátið. Pantaði mér lambakjöt og gistingu í þessu vinalega hóteli. Það var ekki amalegt að fá almennilegan mat og komast í sturtu. Þarna voru nokkur hjón í mat og leyst greinilega vel á þennan fararmáta minn. "Svona á að gera þetta," sagði einn, "komast í almennilega snertingu við náttúruna en ekki sitja inni í bíl allan daginn." Ég jánkaði því, fór svo símann og hringdi heim.

 vest9.jpg

Útsýnið út um gluggann í svefnpokaplássinu á Hótel Djúpuvík um miðnætti


Í Djúpuvík er töluverð byggð þar sem fólk kemur og dvelur jafnvel sumarlangt en á veturna er víst fátt um fólk. Eftir að hafa skoðað þorpið var haldið áfram og hjólað út að Gjögri. Heilsað þar upp á sjómann sem var að flá sel sem hafði fests í netið og fylgdist með gröfu sem var að ýta stórgrýti ífjörunni til að verja húsin sem standa þarna lítt varin í fjöruborðinu. Vitinn, sem stendur þarna eins og lítill eldrauður Eifel turn og blikkar ljósum, var festur á filmu ásamt litlum heitum potti sem hafði verið útbúinn í fjörunni. Heitt vatn spratt þar úr jörðu og rann í pottinn en því miður var tappinn ekki í svo ekki fékk ég að baða mig þarna í fjörunni. Úr því var þó bætt seinna um daginn þegar ég komst í sundlaugina í Krossnesi, snyrtileg laug í fjörunni með glæsilegu útsýni.

 ves10.jpg

ves11.jpg

Heiti potturinn í fjörunni - því miður var tappinn ekki í.


 ves13.jpg

Gjögur


Ekki fékkst pumpa í kaupfélginu í Norðurfirði, en þeim mun meira af mat, svo ég hélt áleiðis í Ingólfsfjörð þar sem kortið sýndi jeppaveg. Á leiðinni heilsaði ég upp á bændahjónin á Norðurfirði í fjörunni þar sem þau voru að brenna sorpinu. Frá Munaðarnesi virtist sem kviknað væri í eyðibyggðinni í Ingólfsfirði en þegar ég kom þangað kom í ljós að tvær fjölskyldur sem dvelja þar yfir sumarið voru líka niðri í fjöru að brenna rusl. Það var farið að skyggja, enda klukkan orðin níu. Þarna standa rústir af verksmiðju og húsum frá síldarævintýrinu eins og í Djúpuvík en ennþá ævintýralegri að skoða.

 ves12.jpg

Sjómaður gerir að sel sem hafði flækst í neti

ves15.jpg


Ég hafði fengið mér samloku með súkkulaði hnetusmjöri áður en ég kom inn í Ingólfsfjörð og sykurskjokkið var eins og þegar Stjáni Blái fær sér spínat. Eftir að ég skoðaði mig um hentist ég aftur á hjólið og þaut fram jeppaveginn sem lá þarna í fjöruborðinu, sneyddi hjá djúpum pollum á veginum og hossaðist yfir rekavið og drasl sem hafði skolað upp á veg. Ég jafnaði mig ekki fyrr en inni í Ófeigsfirði. Það var næstum komið myrkur þegar ég sá þar gott tjaldstæði með útsýni yfir fjörðinn og tókst loks að hemja mig aftur og tjaldaði.

ves21.jpg

 Sorpbrennslan í Norðurfirði og rollur á hafbeit.

ves23.jpg

ves14.jpg


Ég hélt að núna væri ég loksins kominn frá öllu fólki. Vegurinn varla bílfær og endaði við eyðibýlið þarna. Ég var ákveðinn í því að hjóla þetta spottakorn til að geta sagt að ég hefði hjólað veginn á enda. Það var sól og blíða um morguninn og þetta virtist vera tíu mínútna hjólerí fram og til baka. Ég ákvað að vera ekkert að setja farangurinn á fyrr en í bakaleiðinni og fyrst sólin skein og sundskýlan var enn ekki þornuð frá gærdeginum greip ég tækifærið að þurrka skýluna og fá smá lit á kroppinn í leiðinni. Ég skildi því allt eftir og hjólaði af stað í sundskýlunni einni fata. Vegurinn hélt áfram fram hjá býlinu sem virtist nú ekki vera í eyði þegar að var gáð, svo ég hélt áfram, fór yfir á og enn hélt vegurinn áfram. Það var ekki fyrr en eftir næstum klukkutíma hjólreið að vegurinn endaði við göngubrú yfir Hvalá. Þar fyrir norðan er engin byggð skilst mér en skemmtilegar gönguleiðir.

 ves16.jpg

Rekaviður í Ófeigsfirði


Ekki veit ég hvað þau hugsuðu ítölsku hjónin sem höfðu verið að þramma þarna í níu daga um óbyggðir, þungklyfjuð, með farangurinn á bakinu, þegar framhjá þeim hjólar náhvítur íslendingur, í sundskýlu einni fata, með engar vistir, engann farangur og stefndi út í óbyggðirnar með bros á vör.

 

ves24.jpg

 


Ég skellti mér út í Hvalá að kæla mig aðeins niður áður en ég sneri við og útskýrði málið fyrir ítölunum. Þar sem við bárum saman ferðasögur impra ég á að ég hafi nú ekki séð neinn sel nema þann sem sjómaður á Gjögri var að flá á bryggjunni. Frúin horfði hissa á mig og skyldi ekkert í þessum íslending sem hjólaði um óbyggðir allslaus á sundskýlu. "Sérðu ekki selina þarna?" spyr hún og bendir á tíu seli flatmagandi í sólinni. Jú, það fór ekki á milli mála, þarna voru þeir. Ég hafði verið alveg blindur fyrir þeim en sem betur fer hafði ég spennt utaná mig beltinu með myndavélinni og aðdráttarlinsunni áður en ég lagði af stað um morguninn og festi selina á filmu þar sem þeir lágu þarna í sólinni.---Ekki varð hún minna hissa en ítalirnir, frúin á býlinu þegar hún sá allslausan hjólreiðamanninn koma hjólandi úr óbyggðunum. Hún bauð mér þó inn í kaffi með heimilismönnum eftir að ég útskýrði málið. Ég kunni nú ekki við að heimsækja fólkið á blessaðri sundskýlunni og afþakkaði gott boð en flýtti mér hinsvegar að farangrinum og fötunum og þakkaði mínum sæla fyrir að hafa þó verið í skýlunni.

vest7.jpg
 

 Rústir af versluninni í Ingólfsfirði


Um leið og ég komst upp úr Ingólfsfirði á almennilegann veg dró ský fyrir sólu í fleiri en einum skilningi. Ég tók eftir því að önnur framtaskan sveiflaði sér eins og hún væri enn á jeppavegi og við athugun kom í ljós að ein suðan á bögglaberanum var brotin. "Ekkert mál. Maður klikkar nú ekki á smáatriðunum," hugsaði ég aftur og dró upp nælonspotta sem ég hafði með mér. Eftir að hafa vafið og hnýtt saman bögglaberann varð hann jafn góður. En Palli var ekki lengi í Paradís. Stuttu seinna þegar átti skipta í stóru gírana niður einhverja brekkuna tók hjólhesturinn völdin og setti í léttustu gírana. Ekki var hægt að una við svona uppreisnarsemi svo ég vippaði mér af baki og ætlaði að segja jálkinum hver væri húsbóndinn. En hann tók engum sönsum og neitaði að hreyfa framskiptin. "Ekkert mál. Maður klikkar nú ekki á smáatriðunum," hugsaði ég eina ferðina enn. Ég vissi að vírar í bremsur og skiptara ættu það til að slitna og hafði því auka víra í farteskinu. En það dugði ekki til því barkinn sjálfur var sprunginn.

ves20.jpg

Horft yfir Ingólfsfjörð og Ófeigsfjörð.


Bögglaberinn hafði náð að nudda sér utan í þennan barka og naga í sundur. Þetta var ekki uppreisn heldur stríð. Ég var nú ekki á því að láta hjólhestinn taka af mér völdin heldur hentist upp á hann og hjólaði eins og ekkert hefði í skorist. Þá snerist Kári á móti líka en það gerði ekkert til því ég var fastur í léttu gírunum hvort eð var. Þegar veðurguðirnir sáu að hjólhesturinn og Kári voru að tapa stríðinu bættu þeir um betur og gerði rigningu mikla.

"Ég sagði það þegar ég lagði af stað og ég segi það enn; Það skal ekkert stöðva mig," hrópaði ég á þá, renndi upp mínum GoreTex jakka, setti þungarokk í vasadiskóið og virti þessa vandræðagemsa ekki viðlits. Ég vissi nefnilega að það var flug úr Reykjavík á Gjögur daginn eftir og frá Hótel Djúpuvík gæti ég hringt eftir varahlutum. Þar biði mín líka hlýtt rúm, sturta og kvöldmatur ef ég héldi áfram.

 ves17.jpg

Kirkjan á Stað


Ekki stóð á hjálp að heiman eða þjónustu á hótelinu. Pakkinn kom með fluginu og var sóttur á Gjögur fyrir mig. Bögglaberinn hét Groddi, sérsmíðaður fyrir íslenskar ómalbikaðar aðstæður og hefur staðið sig með prýði en það fór hins vegar verr með barkann. Afgreiðslumaðurinn fullvissaði nefnilega vin minn um það að mig vantaði nýjan vír en ekki barka svo það var bara vír sem kom upp úr kassanum. Það var ekki hægt að drattast á hjólhestinum í þessum léttu gírum endalaust svo það var að duga eða drepast. Með nælon spottann að vopni var aftur ráðist til atlögu við villtann hjólhestinn. Ég skyldi koma á hann böndum og ná að temja hann. Eftir nokkur átök var ég búinn að hnýta og vefja nokkrum metrum af nælonspotta utan um barkann. Þetta leit einna helst út eins og risa stórt lirfrar hýði, þar sem von væri á að út skriði skorkvikindi. Mér hafði tekist að þrengja svo að barkanum að hjólhestinum lá við köfnun og hafa ekki heyrst óánægjuraddir frá honum síðan, heldur þýtur hann um stilltur og húsbóndahollur..

En það eru ekki bara hjólhestar sem haga sér sem ótemjur. Næst hjólaði ég nefnilega fram hjá þýskum ferðamanni sem sagði mér þá sögu að sérútbúni Mercedes Bens ferðabíllinn sinn hefði stokkið út af veginum í einhverjum óhemjuskap og næstum verið búinn að drepa sig. Blikkbeljan var greinilega enn íllvígari en hjólhesturinn minn þar sem hún vó salt á stóru grjóti og gerði sig líklega að velta sér niður hlíðina þá og þegar. Ég reyndi að gefa manninum góð ráð til að ná stjórn á brjálaðri blikkbeljunni en hann hafði ekki trú á að nælongyrnið mitt dygði. Ég skildi því við hann þar sem hann sat einmanna og örvæntingarfullur, dauðhræddur um að margmilljóna blikkbeljan færi sér að voða áður en hann næði að tjónka við hana.

Sólin var farin að skína aftur þegar ég stoppaði í Klúku til að ná í blessaða pumpuna sem ég hafði látið senda mér með rútunni. Ég lét fituborgarann eiga sig í þetta skiptið en stakk mér í staðinn í sund og Gvendarlaug þar sem sveitamenn hafa haft náttúrulegan heitapott með loftbólum um aldaraðir meðan við borgarbörnin uppgvötuðum slíkt ekki fyrr en við sáum það í útlöndum fyrir nokkrum árum.

 ves19.jpg

Gamla neyðarskýlið á Steingrímsfjarðarheiði og fallegur foss

ves22.jpg


Steingrímsfjarðarheiðina var auðvelt að hjóla upp og leiðin niður malbikuð svo ég gaf hjólhestinum lausan tauminn og hann æddi niður á ofsahraða. Ég var farinn að hlakka til að koma í byggðina sem ég hafði reiknað með við Ísafjarðardjúpið svo ég gæti byrgt mig upp af ferskum mat og kexi en þegar á reyndi fann ég bara litla bensínstöð og hún var lokuð. Ég var búinn með allt kex og sælgæti sem mér finnst bráðnauðsynlegt að maula yfir daginn til að halda orkuflæðinu gangandi. Ég stoppaði við bensínstöðina við Rauðumýri og horfði löngunaraugum á tvo Homeblest kexpakka. En það var enginn að afgreiða og ekki kunni ég við að ræsa út fólk til að selja sælgæti heldur hélt áfram og gisti við Kaldalón með útsýni yfir skriðjökulinn.

Einhver hafði sagt mér að leiðin til Ísafjarðar um djúpið væri lítið spennandi svo ég var að vonast til að komst með ferjunni Fagranesi daginn eftir. Einhver bæklingurinn hafði lofað reglulegum ferðum en þær voru aðeins tvisvar í viku og tveggja daga bið eftir næstu ferju. Ekki þýddi að bíða eftir henni heldur hjólaði ég veginn á enda í Unaðsdal og til baka í átt að Homeblest pökkunum tvem. Heldur gekk ferðin seint á orkunni úr þurrmatnum einum saman og fór það svo að ég náði ekki alla leið fyrir kvöld, heldur tjaldaði og dreymdi Homeblest alla nóttina.

Bensínstöðin var enn lokuð morguninn eftir þegar mig bar að. Ég gægðist inn um gluggann og enn var einn Homeblest pakki eftir. Það hafði einhver verslað þarna en samt var enginn að afgreiða. Enginn bjalla eða bóndabær í sjónmáli. Aðeins tveir mannlausir sumarbústaðir til leigu. Ég þóttist vita að fólkið á næsta bæ sæi um afgreiðsluna en enn kunni ég ekki við að ræsa út fólk til að selja mér sælgæti. Þar sem ég stóð þarna slefandi við gluggann og glápti á Homeblest pakkann bar loks að bensínþyrstan bíl. Ég vísaði bílstjóranum á bæinn og sendi hann eftir afgreiðslufólki. Þegar ég loksins komst inn reyndist úrvalið heldur fátæklegt í sjoppunni, það átti nefnilega að loka henni eftir tvær vikur. Ég keypti minn Homeblest pakka og allt annað nammi í sjoppunni fyrir tvöþúsund kall og hélt aftur af stað glaður í lund.

ves18.jpgJeppavegurinn yfir Kollafjarðarheiði var næstur á dagskrá en þegar ég kom þangað reyndist hún lokuð. Ég spurði bóndasoninn á Laugabóli hverju þetta sætti um mitt sumar. "Æ, það festu sig einhverjir jeppamenn þarna svo okkur þótti vissara að setja upp merkið, en þú ættir ekki að vera í vandræðum á hjólinu." svaraði hann og tjáði mér að ég þyrfti að vaða þrjár ár á leiðinni. Ég þóttist hafa sloppið vel eftir að hafa hjólað yfir þrjár sprænur en bóndasonurinn hafði ekki talið þær með. Þarna voru alvöru ár sem þurfti að vaða en það er nú bara hressandi að fá smá fótabað og þar sem bílar komast yfir nær vatnið yfirleitt ekki upp á hné. Það var þoka og dúlúð yfir heiðinni og álfar og huldufólk út um allt að því er virtist. En þegar betur var að gáð voru þetta bara fuglar í feluleik valhoppandi milli þúfna að stríða mér.

Síðustu nætur hafði rignt svolítið og ég var kominn upp á lag með það að ef ég lúraði svolítið frameftir á morgnana hætti rigningin áður en ég færi á fætur, en næsta morgun klikkaði þetta alveg. Þegar ég loksins kom mér af stað var klukkan hálf tvö. Það var rok og rigning allan daginn og ef ég hefði átt meira en tvo pakka af þurrmat eftir hefði ég bara legið í leti og slappað af þennan dag. En það eru ekki kaupmenn á hverju horni á Vestfjörðum og mig vantaði mat, svo stefnan var sett á Flókalund og hjólað af stað. Þarna fékk ég fyrst að reyna ágæti nýju GoreTex fatanna minna sem héldu mér hlýjum og þurrum og einu áhrif veðursins voru að hægja aðeins ferðina.

Ekki var hægt að ljúka ferðinni án þess að prófa einu sinni bændagistingu svo ég sló til og bankaði upp á í Fossá og bað um svefnpokapláss. Annað eins svefnpokapláss hef ég aldrei fengið. Ég hafði heila tveggja herbergja íbúð út af fyrir mig með öllu. Sjónvarpsveðurspáin spáði sól daginn eftir en síðan ekki ljósmyndaveður í nokkra daga svo ég ákvað að halda heim á leið með ferjunni frá Brjánslæk.

Eftir mat í Flókalundi, meðan beðið var eftir að sundlaugin opnaði, kom það óhjákvæmilega. "Verr arr jú fromm?" var spurt og á eftir komu sögur um hve viðkomandi hefði hjólað mikið í Danmörku þegar hann bjó þar. Þetta er víst eitt af því sem fylgir íslendingum á hjólum en í allri ferðinni fann ég aldrei fyrir öðru en tillitssemi frá bílstjórum og hvatningu frá fólki sem ég talaði við. Almenningur virðist búinn að sjá að þetta er spennandi fararmáti en er enn nokkuð feimin við að prófa sjálfur. Það getur alltaf eitthvað farið úrskeiðis en það finnst varla sá vegur á landinu sem bíll á ekki leið um daglega svo það er alltaf stutt í hjálp. Það er allt öðruvísi upplifun að ferðast á hjóli og komast í snertingu við landið og náttúruna heldur en að horfa á þetta allt þjóta fram hjá bílrúðunni og ólíkt skemmtilegra.

Páll Guðjónsson.

© Hjólhesturinn 2. tbl. 5.árg. Maí 1996 og 3. tbl. 5.árg. - Október 1996