Eftir að hafa selt húsið og bílinn lögðu Larry og Barbara Savage af stað hjólandi í ferðalag umhverfis jörðina. Þau hjóluðu um 37.000km gegnum 25 lönd á tveim árum. Barbara skrifaði einstaklega skemmtilega bók um ævintýrin og hér er þýðing á kynnum þeirra af mannætu öpum í Indlandi og ekki síður hættulegum björnum í norður Ameríku.

 

barb.gif


Larry og ég vorum í hjarta Rockie fjallanna á þjóðvegi 93 á leiðinni til Columbia ísbreiðunnar. Áður en dagsleiðin var hálfnuð gerði hellidembu. Þar sem við vorum ekki í regnjökkunum, hjóluðum við í næsta skýli sem var kamar við veginn. Við stilltum hjólunum upp við kamarinn, drógum upp jakkana, brauð, hnetusmjör og appelsínur og skelltum okkur inn í skjólið. Ég hafði hurðina opna til að hleypa fersku lofti inn og vondu lyktinni út. Síðan hrjúfruðum við okkur saman á klósettsetunni og snæddum hádegisverð. Af og til stoppaði bíll og og út stökk bílstjóri í spreng og hljóp í átt að kamrinum. En þegar þeir voru komnir 10 metra frá okkur, sáu hjólin tvö og tvær manneskjur inni, tyggjandi samlokur, sneru þeir allir við og óku af stað í leit að næsta kamri.

Það hafði kólnað þegar við hjóluðum af stað aftur og regnið var eins og hagl. Eftir korter sá ég að þó að ég væri að erfiða upp brekkur hlýnaði mér ekkert. Ég kallaði til Larry að ég ætlaði að stoppa og fara í peysu og vettlinga. Larry var kalt líka en hann var ekki í skapi til að stoppa. Hann hataði að stoppa í rigningu. Alveg sama hversu kaldur og blautur hann var, aldrei vildi hann stoppa og skipta um föt eins og ég. Við áttum enn eftir 60km ófarna að jöklinum og tilhugsunin um að hjóla fram á kvöld í rigningunni kom af stað rifrildi.

"Af hverju gastu ekki farið í vettlingana og peysuna í kamrinum?" hrópaði Larry.

"Af því að ég hélt að ég þyrfti þess ekki. Ég vissi ekki að það yrði svona kalt."

"Þú verður bara kaldari og blautari ef þú stoppar," kallaði Larry. "Og þú bleytir öll fötin ef þú opnar töskunar. Haltu áfram. Þér hlýnar."

"Nei!" mótmælti ég. "Mér er að kólna en ekki að hlýna!"

"Hjólum þá hraðar. Þá ætti þér að hlýna."

"Hjóla hraðar? Ég get ekki hjólað hraðar, ég er að frjósa!"

Og svona héldum við áfram þar til Larry gaf sig en þá var ég orðinn svo öskureið að ég var ákveðin í því að stoppa ekki, sama hvað. Ég skyldi bara halda áfram. ‘Ég skal halda áfram án vettlinganna og peysunnar og þegar ég frís í hel kemur í ljós hver hafði rétt fyrir sér’, hugsaði ég.

"Ég stoppa ekki!" hrópaði ég. "Ég skal sýna þér að ég ræð alveg við þetta líka."

"Láttu ekki svona, Barb. Ég vill ekki að þú farir að kvarta. Stoppaðu og klæddu þig betur."

"ÉG ER EKKI AÐ KVARTA OG ÉG ÆTLA EKKI AÐ STOPPA!"

Ég var farin að skjálfa af reiðinni og kuldanum. Ég var kominn með sting í hendur og fætur og vatnið var komið í gegnum jakkann. Skyndilega, rétt áður en ég ætlaði að hrópa eitthvað að Larry, slettist blóð á stýristöskuna mína. Ég horfði á töskuna í nokkrar sekúndur og reyndi að átta mig á hvað þetta væri. Ég horfði með hryllingi þegar meira blóð streymdi niður framhlið jakkans, yfir lappirnar mínar og hjólið. Það virtist sem blóðið kæmi frá mér. Ég snerti andlitið. Munnurinn og hakan voru þakin þessum rauða hlýja vökva. Ég hlýt að hafa öskrað því andartaki síðar renndi Larry sér upp að mér. Andlit hans fylltist skelfingu.

"Fljót! Stoppaðu!" öskraði hann og gerði sig líklegan til að stoppa.

"Nei! Mér er sama þó mér blæði út! ÉG ÆTLA EKKI AÐ STOPPA!" svaraði ég umhugsunarlaust. En ég var hrædd við allt blóðið og stöðvaði eftir nokkra metra.

Ég var kominn með blóðnasir og blóðið fossaði út um aðra nösina. Ég settist niður í vegarkantinum, hallaði höfðinu aftur og hélt við nösina. Meðan ég beið eftir að hætti að blæða tók Larry upp peysuna mína og vettlingana og hjálpaði mér að klæða mig. Síðan faðmaði hann mig til að hlífa mér fyrir regninu.

"Af hverju gleymi ég því alltaf, í hvert skipti sem rignir, hversu mikið ég elska þig?" hvíslaði hann. "Heldurðu að við lærum nokkurn tíma að stjórna tilfinningum okkar þegar viðrar ílla? Veistu, það er eins og ég æsist allur upp um leið og ég finn regndropa. Ég veit að þú ferð að vilja stoppa og klæða þig betur, og þú veist að ég vill hjóla enn hraðar og við erum strax komin í hár saman. Það er svo erfitt að halda ró sinni í regninu en við verðum að reyna. Kannski lærum við þetta einn daginn."

Eftir að blóðnasirnar hættu, hjóluðum við í þrjá tíma í regninu þar til við komum að hinu 3000 metra háa Sunwapta fjallaskarði, aðeins 5 km frá jöklinum. Frá rótum fjallanna virtist vegurinn lóðréttur; hann skaust beint upp frá flötum árfarveg Sunwapta árinnar og hvarf upp í skýin. Það var uppgjöf í okkur áður en við lögðum af stað; vöðvarnir voru aumir og okkur var kalt. Við stóðum í vegarkantinum og borðuðum hnetusmjörssamlokur. Settum svo í lágu gírana, tókum stýrin taki og hömuðumst á pedulunum.

Þegar vegurinn sneri til himins fór allur minn þungi og orka í hvern snúning sveifanna. Einn - tveir, einn - tveir. Fyrst fór önnur löppin niður af krafti og síðan fylgdi hin jafn fast á eftir. Einn - tveir, einn - tveir. Við þokuðumst upp í skýin og þó við hefðum jöklana við hlið okkar og köld rigningin skylli á okkur þá var ég í svitabaði. Ég reif af mér jakkann og peysuna og erfiðaði áfram aðeins klædd í bol, stuttbuxur og ullarsokka. Á, að því er virtist heil eilífð, þokuðumst við uppávið á hraða sem virtist hægari en gönguhraði. Ég þurfti á allri minni orku og einbeitingu að halda bara til að halda mínum takti og halda áfram.

[ Það má minna á hér að ferðin er farin 1980 á 10 gíra götuhjólum þegar lítið úrval var af sérhönnuðum hjólafatnaði. Seinna í ferðinni fengu þau sér þriðja tannhjólið að framan og léttist þá róðurinn upp bekkurnar - innskot PG ]

Þegar ég komst upp skarðið fann ég mikinn létti og sigurtilfinning helltist yfir mig. Þetta höfðu verið langir hundrað kílómetrar. Við tjölduðum undir jökulinum, sem sást varla fyrir skýjahulu. Að tjalda við hlið jökuls er að mörgu leiti eins og að tjalda í frystikistu. Ég skreið inn í tjaldið, fór úr blautu fötunum og klæddi mig sveitt og moldug í öll þurru fötin mín; tvo boli, dúnjakka, jogging buxur, tvö pör af sokkum og prjónahúfu. Síðan renndi ég mér í dúnsvefnpokann minn, renndi upp rennilásnum og var þannig alla nóttina.

Um morguninn hafði regnið minnkað niður í sudda, eða kanadískan hráka eins og það var kallað þarna, og yfir fjöllunum var þunnt lag af nýföllnum snjó. Það létti til skömmu eftir að við fórum á fætur og innan tveggja tíma glitraði jökullinn í sólinni. Stórkostleg sýn sem létti okkur lund og bætti upp fyrir erfiðleika gærdagsins. Fyrri helming dagsins gengum við um svæðið í hlýju sólskininu. Seinni helminginn eyddum við á hjólunum 70 km leiðina að tjaldstæðinu við Waterfowl Lake. Það var ekki ský á himni sem skyggði á fjallgarðana sem gnæfðu yfir beggja vegna vegarins.

Tjaldsvæðið var staðsett í skógi við tært dimmblátt vatnið sem speglaði jöklana umhverfis. Vegna þess að við komum á reiðhjólum fengum við ókeypis gistingu frá þjóðgarðsverðinum. Hún úthlutaði okkur tjaldstæði nálægt öðru pari sem var að hjóla um Rockie fjallgarðinn. Hún varaði okkur við því að stundum ráfuðu birnir inn á tjaldstæðið í leit að mat, svo Larry setti allan matinn okkar í tösku og strengdi upp í tré þrjá metra yfir jörðu.

Klukkan þrjú um nóttina vaknaði ég snögglega af værum svefn. Meðan augun vöndust myrkrinu hlustaði ég eftir hljóði sem gæti hafa vakið mig. Fyrst heyrði ég eitthvað skrjáf en síðan færðist kyrrð yfir. Ég velti mér við og leit á Larry. Hann sat uppi, spenntur og stífur með útglennt augu. Hann var að hlusta eftir einhverju.

"Hvað er að?" spurði ég.

"Uss," hvíslaði hann svo lágt að ég heyrði það varla. "Hlustaðu."

Ég hlustaði en heyrði engin sérkennileg hljóð. Larry sat hreyfingarlaus í nokkrar mínútur og hlustaði. Síðan teygði hann sig fram og leit út um gluggann. Hann horfði vandlega allt í kring áður en hann settist upp aftur og hlustaði aftur vandlega í nokkrar mínútur. Enn heyrðist ekkert.

"Rétt áður en þú vaknaðir heyrði ég eitthvað hreyfast við tjaldið," hvíslaði hann. "Síðan heyrðist mér eitthvað strjúkast við tjaldið svo ég velti mér við og leit út um gluggan. Ég lagði andlitið upp við moskítónetið og þarna rétt við nefið á mér, starandi beint í augu mér, var björn. Ég fann andardrátt hans! Ég gerði næstum í brækurnar og hjartað hamaðist svo að ég hélt að ég yrði ekki eldri. Sem betur fer varð hann jafn hræddur að sjá mig og ég hann. Hann stökk frá glugganum og hljóp í burtu með miklum látum og þau vöktu þig upp."

Larry þagnaði og lagði við hlustir aftur. Hann leit út um alla fjóra glugga tjaldsins en ég þorði ekki að hreyfa mig.

"Maturinn," hvíslaði ég. "Ertu viss um að þú hafir sett allan matinn út? Hvað ef það er enn súkkulaði eða ávöxtur í einhverri töskunni hér?"

"Ég held að ég hafi tekið allt, en við ættum að fara yfir allt aftur. Ef annar björn kemur sem er ekki jafn hvumpinn og þessi og lyktar eitthvað hér inni gætum við lent í raunverulegum vandræðum."

Leitin skilaði engu en samt leið klukkutími áður en við sofnuðum aftur. Við lágum í svefnpokunum okkar, hlustuðum eftir þruski úti með spennta vöðva, tilbúin að stökkva út.

Morguninn eftir skoðaði Larry tjaldið. Hann var sannfærður um að nóttina áður hefði hann heyrt klór og göt yfir einum glugganum á tjaldhimninum voru ummerkin.

"Hann hefur rétt verið að rífa sig inn í tjaldið," sagði ég. "Eins gott að þú leist út um gluggann á réttu augnabliki."

Meðan Larry byrjaði að elda morgunmatinn tók ég vatnsbrúsana af hjólunum og gekk að næsta krana. Þegar ég skrúfaði frá vatninu breyttist brúsinn í sturtuhaus. Vatnið fossaði út um göt nálægt botninum og yfir mig. Björninn hafði læst klónum í fleira en tjaldið okkar.

Larry var að tala við Karen og Dave, hjólaparið frá San Diego af næsta tjaldstæði, þegar ég kom til baka. Dave talaði mest, iðaði allur og sveiflaði höndunum í allar áttir. Karen stóð við hlið hans, starði niður og andvarpaði þungt og órólega.

"Ég var að komast að því hvað gerðist eftir að björninn yfirgaf okkur í nótt," útskýrði Larry. "Ófrýnilegt andlit mitt virðist hafa hrætt hann svo illa og hann leit ekkert á hvert hann var að fara."

"Heldur betur," jánkaði Dave. "Hann æddi heim til sín á fullri ferð og sennilega hefur tjaldið okkar verið á þeirri leið. Þegar hann þeyttist að okkur hrasað hann um tjaldhæl og brotlenti á tjaldinu.

"Ég skal segja ykkur, það að vakna inní samanföllnu tjaldi með björn liggjandi ofan á þér, er virkilega skelfileg upplifun. Ég vissi strax að þetta var björn því einn hrammurinn var í andliti mínu, og ég vissi að aðeins björn gæti haft svona stóran hramm. Hrammurinn var mjúkur - engar klær. En ég vissi að þær kæmu. Ég lá þarna frosinn í svitabaði og beið eftir að klærnar kæmu út. ‘Það er bara spursmál um sekúndur núna’ endurtók ég í sífellu. ‘Eftir örfáar sekúndur rífa klærnar andlitið í tætlur.’

"Þá heyrði ég Karen skyndilega hvísla eitthvað. Hún hreyfði sig ekki en hvíslaði sífellt, ‘Dave, það liggur björn ofan á okkur. Við verðum að gera eitthvað. Dave. Dave, það liggur björn ofan á okkur! Gerðu eitthvað!’ Hvað í ósköpunum átti ég að gera? Ég gat ekki talað; ekki með hramminn framan í mér. Hann var svo mjúkur og sakleysislegur meðan klærnar voru ekki úti. ‘Eins og lognið á undan storminum’, hugsaði ég.

"Vitið þið, það var eins og hálf nóttin liði áður en hrammurinn fann fasta jörð. Síðan létti þunganum af okkur þegar björninn stóð loks upp og drattaðist inn í skóginn."

14. maí. 1978 lögðu Larry og Barbara Savage af stað hjólandi, eftir að hafa selt húsið og bílinn, í ferðalag umhverfis jörðina. Þau hjóluðu um 37000km gegnum 25 lönd á tveim árum. Barbara skrifaði einstaklega skemmtilega bók um ævintýrin í ferðinni sem heitir "Miles from nowhere". Útgefandi: The Mountaineers. 1011 S.W. Klickitat Way, Seattle, WA 98134, USA.

Þýðing: Páll Guðjónsson.

Teikning Jón Örn Bergsson

© Hjólhesturinn 2.tlb. 5.árg. maí 1996.