Það mátti sjá margan jeppakallinn snúa sig úr hálsliðnum síðastliðna helgi, en þá fór Fjallahjólaklúbburinn með nýju hjólakerruna sína jómfrúarferð upp í Landmannalaugar.


08-13_024_1104500.jpg

Þar voru fákarnir leystir úr læðingi, og 14 knapar þeystu af stað áleiðis í Dalakofann.  Þrír jeppakallar og kellingar komu svo í humátt á eftir.  Farin var svokölluð Dómadalsleið, mikið um brekkur, bæði upp og skiljanlega líka niður.  Stundum er gott að hafa meðvindinn þegar maður er að hjóla, en hann hefur náttúrulega líka galla með í för.  Það var svolítið mikið um sandrok og erfitt að koma auga á holur sem leyndust í veginum.  Þó að sól hafi sést á köflum á laugardaginn, þá var ekki hangið í sólbaði, til þess var aðeins of mikil vindkæling.  Við fengum hins vegar þessa líka fínu húðslípingu af öllum sandblæstrinum, húðin verður slétt eins og á nýfæddum barnsrassi.

08-13_022_1104501.jpg

Enginn veit hvað það er góð skemmtun að láta vindinn feykja sér áfram á 40 km hraða eftir sléttum og góðum malarvegi.  Nema prófa það sjálfur.

08-13_030_1104502.jpg

Við ákváðum að grilla lambalæri, snæða saman og hafa huggulega kvöldvöku i Dalakofanum.  Björgvin sá um að jeppakerran yrði klár í tíma, Sif keypti í matinn, Unnur skar niður grænmeti, ég pakkaði inn lærunum, ekki mínum, hvílauksgljáðum lambalærum sem strákarnir tóku við og skelltu á grillið.

08-13_023_1104503.jpg

Kristjana ætlaði að sjá um skemmtiatriði kvöldsins, og það gerði hún svo sannarlega með stæl.  A la 2007.  Þyrla og alles.  Var nú ekki upphaflegt plan, en fór þó þannig.

Fólk er mis glannalegt á reiðhjólum.  Ég misreiknaði t.d. eina bratta brekku, fetaði mig niður með aðra löpp á grundu, en þegar ég hélt að ég ætti stutt niður á jafnsléttu sleppti ég bremsunum og svo var ég bara komin á 50 km hraða niður holótta brekku, hjólið hristist og skalf og ferðafélagarnir sem voru fyrir neðan brekkuna stóðu á öndinni að aðdáun.  Hvar ég hefði lært svona mergjaða downhill takta.  Þegar ég hafði endurheimt hjartað úr buxunum viðurkenndi ég að ég hefði nú ekki ætlað að fljúga niður brekkuna, bara misreiknaði hvað hún var löng.

08-13_025_1104504.jpg

Það gerði hins vegar Kristjana ekki, hún fer ætíð mjög varlega, leiðir niður varasamar brekkur, og var á cm 5 km hraða (svipað og gönguhraði) þegar hjólið skrikaði í sviptivindi og hún datt á hliðina og meiddi sig.

Við vorum svo heppin að með í för var Stefanía, hjúkrunarfræðingur af slysadeild og Sif sjúkraþjálfari.  Eftir stutta skoðun var ljóst að Kristjana var farin úr axlalið og handleggsbrotin.  Hún var flutt í skálann sem var rétt hjá og hlúð að henni þangað til þyrlan mætti til að flytja hana á sjúkrahús.  Þó að það sé ekki hægt að kalla svona atburð skemmtan, þá voru fæst okkar sem höfðu séð þyrluna í návígi og við fegin að hjólafélagi okkar fékk svo fljótt nauðsynlega aðhlynningu og viðeigandi lyfjagjöf til að lina verki sem fylgja svona beinbroti.

Enn og aftur er maður minntur á hversu mikilvægt það er að hafa björgunarsveitir og þyrlur starfandi hér á Íslandi, þar sem náttúran er óblíð og óvægin þeim sem um hana fara.  Það verður sko bruðlað í flugelda um næstu áramót!

08-13_021_1104506.jpg

Við hin héldum áfram kvöldvökunni eftir að vinir okkar voru flognir á vit heilbrigðiskerfisins, ég fékk óvænta afmælistertu frá Önnu og Munda, gómsæta fallega skreytta skyrtertu.  Og var afmælissöngurinn sunginn svo glumdi í Dalakofanum.

08-13_034_1104507.jpg

Það voru óvenju margar byltur í þessari ferð.  Af 14 hjólurum hlutu 3 aðrir byltu.  Einn rispaði síðuna, annar fleytti kerlingar, missti andann og fyllti munninn af sandi.  Og svo gleymdi ég mér aðeins við að dáðst að útsýninu þegar sandrokinu slotaði og lá allt í einu í götunni með svona syngjandi fugla yfir mér eins og maður sér í teiknimyndasyrpum.  Eftir að hafa skoðað vegsummerki hef ég hjólað  á góðri ferð inn í sandgloppu, hjólið stoppað á punktinum, en ekki ég.  Hjálmurinn með þremur sprungum, svolítið ringluð, aum í öxlinni, pínu marin á mjöðminni og búin að týna pumpunni.  Það þótti mér verst, sjæse ef það skyldi nú springa dekk hjá mér...  Þá er nú gott að hafa varadekk.

08-13_017_1104508.jpg

Stuttu síðar kom Björgvin á jeppanum að athuga, hvað ég væri að drolla þarna úti í mýri og tók mig upp í.  Ég var svo keyrð niður á Hellu, fékk kaffi, ibufen og ís.  Eftir það var ég bara ljómandi hress.  Skelltum okkur svo í sund til að mýkja skrokkinn sem var óneytanlega svolítið lemstraður eftir átökin við móður náttúru.

Maður hefur heyrt um slöngur sem gleypa menn og önnur spendýr í heilu lagi og hrúgaldið sést þá utan frá á belgnum.  Ekki veit ég hvað þessi slanga át, það hlýtur að hafa verið mús eða hamstur.

08-13_014_1104510.jpg

Hér má svo sjá myndband úr ferðinni:
 


 

Birtist fyrst á bloggi Hrannar: hrannsa.blog.is