Ferð ÍFHK um nýliðna helgi, frá Landmannalaugum á Hellu, með viðkomu í Dalakofanum, norðan Laufafells var fjölmenn og góðmenn. 18 þátttakendur voru í ferðinni sem hófst í Laugum 13. ágúst kl. 14.

Hjólað var um Dómadal í blússandi meðvindi og töluverðu öskufoki á köflum og áð í Landmannahelli. Þaðan lá leiðin upp að Krakatindi og síðan upp í Rauðufossafjöll uns komið var í Dalakofann um kvöldið, eftir rúmlega fimm tíma ferð, nokkuð krefjandi á köflum.


Á síðari hluta þessarar dagleiðar varð því miður slys þegar ein úr hópnum féll af hjólinu og handleggsbrotnaði ásamt því að fara úr axlarlið. Segja má að viðbrögð félaga í hópnum hafi verið óaðfinnanleg, því Stefanía hjúkrunarfræðingur annaðist sjúklinginn frá upphafi og af mikilli fagmennsku. Trússbíllin var líka skammt undan og flutti hina slösuðu upp í skálann þar sem nánar var hlúð að henni. Stefanía kom því til leiðar að þyrla LHG var send á staðinn. Tildrög slyssins voru þau að vindhviða feykti hjólinu á hliðina þegar það var á um 5 km hraða og lenti konan á öxlinni með áðurnefndum afleiðingum. Skömmu eftir þetta atvik féll annar þegar hann þurfti að bremsa mjög skart við vatnsrás í veginum en meiddist ekki.

Fyrrnefnda atvikið varpaði eðlilega skugga yfir andrúmsloftið hjá þeim sem eftir urðu, en eftir að þyrlan var farin til Reykjavíkur var eigi að síður var ákveðið að taka til við matseld og grilla kjötið og halda kvöldvökuna eins og ætlað var. Daginn eftir var áframhaldandi rjúkandi norðanátt sem þýddi kröftugan meðvind og öllu meira moldviðri en fyrri daginn. Segja má að meðvindurinn hafi verið jafnvel fullmikið af hinu góða því fólk átti fullt í fangi með að hafa hemil á hraðanum þegar þeyst var niður brekkur. Moldviðrið gerði það líka að verkum að fólk hneigðist eðlilega til að hraða förinni til að komast inn á svæði með meiri loftgæðum. Sennilega urðu þessir samverkandi þættir til þess að sumir fóru aðeins fram úr sjálfum sér svo við óhöppum lá. Að lokum urðu tvö óhöpp með stuttu millibili þegar tveir úr hópnum féllu af hjólum sínum, Til viðbótar þessum atvikum, lenti fólk í því að sprengja dekk um 5 sinnum.

Að loknum þessum seinni hjóladegi endaði hópurinn á Hellu og fór í sund og fékk sér hressingu áður en heim var haldið. Viðburðarík ferð var á enda. Eins og nærri má geta er ekki beinlínis hægt að segja að hún hafi gengið vel, en þó verður að halda því til haga að hópurinn skemmti sér vel saman og ánægjan var við völd frá upphafi til enda, þótt fyrrnefnd atvik hafi vissulega hrellt okkur. Slysin gera ekki boð á undan sér, en draga má úr afleiðingum þeirra með réttum viðbrögðum og ekki síst góðum öryggisútbúnaði. Síðan er það þáttur fararstjórnar, sem mætti taka til gagnrýnnar umræðu, þ.e. hvort nægilegum upplýsingum um eðli ferðarinnar hafi verið komið til skila og skipulag í heild sinni. Sú umræða sem og önnur sem tengist starfi í okkar ágæta klúbbi á vonandi eftir að leiða í ljós eitthvað gagnlegt.

Texti og myndir: Örlygur Steinn Sigurjónsson

Smellið hér eða á myndina til að skoða myndagallerý úr ferðinni. Gott að vellja Fullscreen og Slideshow

 Hjólað í átt að Krakatindum