Stefan Sverrisson Ferðamenn: Stefán Birnir Sverrisson                                              

Dagsetning 29.7.2008

Vegalengd: 50 km

Mesta hæð: 621 m                      

Hjól: Mongoose-fjallahjól með framdempara, leigt á Ísafirði


Ég og fjölskyldan vorum í vikufríi á Ísafirði hjá skyldfólki. Þessa fimm daga sem við höfðum verið á Ísafirði hafði verið fádæma veðurblíða og hiti yfirleitt farið um og yfir 20 gráður að degi til. Svæðið í kringum Ísafjörð fannst mér virkilega spennandi til útiveru. Daginn áður hafði ég hlaupið um 20 kílómetra hring upp á skíðasvæði Ísfirðinga og þaðan lengra upp á heiði í átt að Suðureyri. Þar sá ég í fjarska veg á Breiðadalsheiðinni og langaði strax til að fara þangað. Það væri líklega of langt fyrir skokkandi mann nema að taka í það heilan dag. Mig langaði heldur ekkert að hlaupa meira í bili eftir hlaupin um skíðasvæðið. Ég hafði komið auga á hjólaleigu á Ísafirði þar sem fengust fjallahjól leigð fyrir lítinn pening. Ég tók því ákvörðun um að hjóla þetta.

 

Horft til Ísafjarðar frá fyrsta stoppi

 

Ég lagði af stað frá Ísafirði frá hjólaleigunni klukkan 15:00 í mjög góðu veðri. Það var um 20 stiga hiti, sól og heiðríkja. Ég var í stuttbuxum og bol en hafði með mér flíspeysu í bakpokanum. Var einnig með í bakpokanum lítra af vatni, GPS-tæki, myndavél, sjónauka og síma. Ég hafði nýlokið við að borða svo nestið var ekkert. Ég var einnig með hjálm á höfðinu sem fylgdi með leigunni á hjólinu. Ég gat mér til um að leiðin væru u.þ.b. 15 km aðra leið og hélt að heiðin væri í u.þ.b. 400 m hæð. Ég hafði greininlega ekki lagt á mig mikla rannsóknarvinnu fyrir þessa ferð enda nóg annað skemmtilegt að gera í veðurblíðunni. Ég tilkynnti heimilisfólkinu að ég áætlaði að vera kominn heim klukkan 7 en sagði að það gæti auðveldlega dregist til kl. 8.

 

Horft fram á veginn frá fyrsta stoppi

 

Ég var svo spenntur að komast á heiðina að ég hjólaði í einum rykk frá Ísafirði og vel upp í heiðarbrekkuna. Þar stillti ég GPSinn og hvíldi mig í leiðinni. Hjólaði svo stuttan spöl og komst að því fljótlega að brekkan væri of brött til að hjóla hana. Hugsanlega hefði ég getað hjólað í lægsta gír en þá var ég ekkert fljótari en að ganga með hjólið og það var líka töluvert erfiðara. Fljótlega fór geitungur að sveima í kringum mig og þar var hann í a.m.k. hálftíma. Hann fór mjög í taugarnar á mér til að byrja með en þegar ég sá að hann sýndi ekki á sér farasnið sá ég að eins gott væri að sætta sig við þetta.

 

Kominn hálfa leið upp á Breiðdalsheiði. Horft til baka til Ísafjarðar

 

Ég komst upp á skotsvæði Ísfirðinga í 400 metra hæð og hélt þá að ég væri kominn upp á heiðina. Það hefði verið rétt ef að ég hefði verið á leið til Suðureyrar. Uppi á heiðinni eru nefnilega gatnamót þar sem hægt er að fara til Suðureyrar eða til Flateyrar. Til Suðureyrar lá vegurinn niður í móti frá 450 metra hæð en til Flateyrar var enn þá eftir 150 metra hækkun. Mér var ekki til setunnar boðið og byrjaði að reiða hjólið upp hækkunina á Flateyrarafleggjaranum. Ekki var hægt að hjóla því að grjótið á veginum var svo gróft að ómögulegt var að halda jafnvægi á hjólinu á litlum hraða. Veginum hafði líklega ekki verið viðhaldið síðan jarðgöngin voru tekin í notkun árið 1996. Fína mölin hafði greinilega veðrast úr veginum í áranna rás.

 

Upp á heiðinni við afleggjarann til Suðureyrar

 

Það kom greinilega í ljós á þessum seinasta kafla upp á heiðina hve gremjuleg örlög náttúran getur hlotið fyrir framkvæmdagleði mannana. Þarna var búið að ryðja úr efri hluta fjallshlíðarinnar niður í neðri hluta hlíðarinnar til að búa til veg í miðri hlíðinni sem sást varla inni í gríðarstóru sári fjallsins. Fyrir neðan hlíðina var svo eldri vegur sem var ennþá hlykkjóttari og brattari. Því var greinilegt hvernig framgöngu í vegaframkvæmdum á þessu svæði hefur verið háttað. Göngin í gegnum fjallið skildu þennan veg eftir ónotaðan og einskis nýtan en ummerkin verða til um ókomna tíð.

 

Horft til Ísafjarðar úr 600 metra hæð

 

Ég komst svo upp á topp og þar var svolítil gola og ég klæddi mig í bolinn aftur sem ég hafði farið úr fljótlega eftir að ég hóf að príla upp heiðina. Ég horfði niður í Önundarfjörðinn og horfði á veginn hlykkjast niður eftir og hugsaði með mér að þetta væri miklu erfiðari vegur fram undan en sá sem að baki var. Ég íhugaði að snúa við þar sem ég miklaði fyrir mér að komast upp þessa brekku aftur á leiðinni til baka. Klukkan var orðin 5 og ætlunin að vera kominn heim klukkan 7 í kvöldmat. Það var þægileg tilfinning að hugsa um kvöldmatinn á þessari stundu eftir allt þetta príl og bara auðveld brekka niður í mót fram undan alla leið niður til Ísafjarðar. Ég ákvað samt að fara a.m.k. aðeins niður eftir (niður í Breiðadalinn) því ef ég færi til baka núna yrði ég örugglega kominn heim fyrir klukkan 6.

 

Horft fram á veginn til Flateyrar

 

Ég var ekki kominn langt þegar það mætti mér brattur snjóskafl sem náði næstum því yfir veginn. Það voru u.þ.b. 2 metrar frá skaflinum og að vegbrúninni og fyrir neðan vegbrúnina var 100 metra snarbrött skriða. Hefði ég verið á ferð tíu dögum fyrr hefði skaflinn örugglega náð yfir veginn og þá hefði verið ófært fyrir aðra en fótgangandi menn. Í beinu framhaldi af skaflinum var mikið af grjóti á veginum eftir grjóthrun úr hlíðinni. Það var greiðfært fyrir reiðhjólið en hefði verið ófært fyrir jeppa nema að eyða dágóðri stund í að færa til grjót.

 

Horft til Önundarfjarðar frá toppi Breiðdalsheiðar

 

Fyrir neðan skaflinn var vegurinn mjög blautur eins og gefur að skilja svo öll för sáust geinilega sem höfðu farið um veginn það sumarið. Það voru för eftir tvo hesta og annað ekki. Þegar ég var kominn fram hjá grjótinu á veginum varð ég var við mótorhjólaför. Mótorhjólið hefur örugglega keyrt upp frá Önundarfirði en snúið við þegar það kom að grjóthrunskaflanum. Nú ríkti ævintýraþráin hjá mér og engin löngun til að snúa við í bráð. Ég hjólaði niður hlykkjóttan veginn. Stoppaði oft til að virða fyrir mér útsýni og landslag. Tók meðal annars myndir af ljósgrænni mosabreiðu sem var algjörlega ósnortin sem er sjaldgæf sjón. Ég tók mikið af nærmyndum en passaði mig á að stíga ekki í mosann því ég var meðvitaður um að fótsporin myndu sjást í áraraðir á eftir.

 

Skaflinn á veginum

 

Vestfjarðargöngin komu út úr fjallinu við neðsta hluta heiðarvegsins og þar var allt í einu nóg um mannaferðir. Ég stoppaði við Flateyrarafleggjarann til að virða fyrir mér undurfagurt útsýnið inn og út Önundarfjörðinn. Það rétt glitti í Flateyrina í 7 kílómetra fjarlægð en yfir henni gnæfði snjóflóðagarðurinn sem var gerður eftir hamfarirnar miklu á Flateyri þar sem 20 manns létust í snjóflóði í október 1995. Kaldhæðnislegt til þess að hugsa að Vestfjarðagöngin voru opnuð 1996 sem hefur örugglega verið mikið tilhlökkunarefni fyrir Flateyringa á þessum tíma en svo dundu þessar hörmungar yfir sem varð til þess að margir fluttu í burtu af svæðinu.

 

Grjót á veginum

 

Það var auðvelt að hjóla Flateyrarafleggjarann til Flateyrar. Svolítið upp og niður en ég fékk örlítinn meðvind svo ég gat hjólað í hæsta gír mestalla leiðina. Ég stoppaði fyrir utan sjoppuna á Flateyri og athugaði símann minn í fyrsta sinn í ferðinni. Inga, konan mín, hafði sent mér SMS nærri tveimur klukkustundum fyrr og sagði að einkasonur minn, Eyþór, væri orðinn veikur með 38,6 gráðu hita. Eyþór var aðeins sjö mánaða gamall og þetta var í fyrsta sinn sem hann fékk hita. Á þessari stundu braust fram gríðarlegt föður- og umhyggjueðli í mér og allt sem mig langaði að gera var að komast heim sem fyrst til að hjúkra honum. Ég hafði hugsað mér að fara lengra niður á Flateyrina og fá betra sjónarhorn á snjóflóðagarðana en missti allan áhuga á því. Ég vissi að ég ætti krefjandi ferð fyrir höndum til baka yfir heiðina þannig að ég fór í sjoppuna til að kaupa mér skyndibita. Ég spurði hvaða skyndibita þeir ættu og þeir áttu pulsur í brauði og ekkert annað. Kom það sér vel fyrir mig þar sem ég var að flýta mér og vildi ekki eyða tíma í að velja á milli hluta. Ég fékk mér því tvær með öllu og hálfan lítra af malti. Skóflaði þessu í mig og lagði svo af stað passlega saddur fyrir átökin.

 

Horft til Önundarfjarðar frá toppi Breiðdalsheiðar. Samsett mynd

 

Ég spurði hvort að þetta væri eini matsölustaðurinn á Flateyri og afgreiðslustúlkan hvað svo vera ef ekki væri talinn með veitingastaðurinn sem væri neðar á Eyrinni. Líklega lítill markaður fyrir staðarverslun eftir að göngin komu og alltaf greiðfært í Bónus á Ísafirði.

 

Fallegar mosabreiður

 

Ég hjólaði í einum rykk allan Flateyrarafleggjarann og stóran hluta vegaspottans frá afleggjaranum upp að gangamunnanum til Ísafjarðar, alveg þangað til brekkan varð svo brött að ég þurfti að reiða hjólið. Þá var tæpur hálftími liðinn frá því að ég var á Flateyri og strax búnir tæpir 10 kílómetrar af þeim 25 sem voru til Ísafjarðar. Þægileg tilhugsun en ég vissi samt að næstu 7 kílómetrar upp á heiðina yrðu ekki eins fljótfarnir. Ég lagði af stað tíu mínútur yfir 7 frá Flateyri og var búinn að setja mér takmark að ég yrði kominn upp á topp heiðarinnar klukkan 9. Ég var samt ekki mjög vongóður um að það næðist en var staðráðinn í að leggja mig allan fram. Þegar ég fór niður heiðina frá Ísafirði var ég búinn að spá í hvernig ég gæti flýtt förinni til baka. Það fólst aðallega í því að hjóla alla leið upp að að gangamunnanum í stað þess að fara heiðarveginn sem byrjaði hjá Flateyjarafleggjaranum. Frá gangamunnanum mundi ég svo fara upp eldri heiðarveginn sem var mun brattari en sá nýrri og komast að lokum upp á nýja heiðarveginn sem lá kannski 150 metrum fyrir ofan gangamunnan. Ef ég mundi fara nýja heiðarveginn alla leið var hann hvort eð er of brattur til að hjóla þannig að ætlunin hjóla eins langt á malbikinu og hægt væri.

 

Gangnamuninn á Ísafjarðargöngunum Öndunarfjarðarmegin

 

Nýi heiðarvegurinn (ef nýjan skyldi kalla) var lagður yfir gamla heiðarveginn og þar sem þeir mættust þurfti ég að fara upp á nýja veginn. Kanturinn var mjög brattur og laus svo það var mjög erfitt að koma hjólinu þar upp en það tókst að lokum í þriðju tilraun. Allt varð miklu auðveldara þegar ég komst upp á nýja veginn. Ég var búinn að komast að því að ég gat hækkað mig um 100 metra á hverjum 15 mínútum. Ég var svo ákveðinn að komast upp eftir á tilsettum tíma að líklega hvíldi ég mig aðeins í 10 mínútur alls. Ég var kominn upp á topp eina mínútu yfir 9 og tók mér þar nokkurra mínútna pásu. Svo brunaði ég niður eftir eins hratt og ég þorði á grófgrýttum veginum. Ég gat að vísu ekki brunað nema örfáar mínútur í einu eða þangað til lærvöðvarnir á mér loguðu af áreynslu af því að bruna niður holóttan og grýttan veginn. Það tók mig tuttugu mínútur að fara frá 621 metra hæð og niður að sjávarmáli og um klukkan 21:30 skilaði ég hjólinu á hjólaleiguna á Ísafirði.

 

Horft til baka upp heiðina frá Flateyrarafleggjaranum

 

Ég var farinn að hugsa um það á leiðinni niður af heiðinni hvað það mundi kosta mig mikið að kaupa bremsupúða og nýjar gjarðir á hjólið eftir þessa misnotkun. Það kom hins vega í ljós að hjólið var í góðu standi eftir þetta allt saman og hækkaði Mongoose um allnokkur virðuleikastig hjá mér í kjölfarið. Ég tek það fram að ég er ekki með auglýsingasamning hjá GÁP en ég keypti mér samt nýtt Mongoose-hjól í kjölfarið.

Smellið hér til að sjá allar myndir úr ferðinni.

Birtist í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK, mars 2010.

 

Horft út Önundarfjörð inn til Flateyrar

 

 

 

Horft inn Önundarfjörð inn frá Flateyrarafleggjara

 

 

 

Við gangnamunann