Gerti van HalÞað var árið 1997. Eftir svakalegar gönguferðir um afskektustu svæði skosku hálandanna og finnska Lapplands vildi ég komast að því hvort hjólreiðaferðir væru líka eitthvað fyrir mig. Á ferðaskrifstofu fyrir ævintýraferðir komst ég yfir amatörískan hjólreiðabækling frá Íslandi. Þar las ég um ferðir um hin ósnortnu víðerni hálendisins. Ævintýri! Ótruflaður í vikulöngu ferðalagi í gegnum hrikalegt og einmanalegt landslag, þetta var áfangastaðurinn minn.

Þetta ár hjólaði ég í fyrsta sinn á Íslandi, frá Grindavík að Geysi og þaðan upp á Kjöl, gegnum Akureyri, Egilsstaði og Kirkjubæjarklaustur að Landmannalaugum og þaðan að endingu til Reykjavíkur. Alls rúmlega 1600 km. Þetta var fyrir nákvæmlega 10 árum síðan. Mín fyrstu kynni við hið ævintýralega hálendi reyndust mér mjög erfið, ekki aðeins líkamlega heldur einnig tæknilega. Bögglaberinn eyðilagðist (eins og alltaf)og afturhjólið var í algjöru rugli. Á leið minni að Landmannalaugum hafði ég ekkert val annað en að taka á þessu. Ég fór að hafa gaman af baráttunni við erfitt veður, vonda vegi og sjálfan mig. Allan tímann var ég svo umkringdur síbreytilegu og kyngimögnuðu landslagi. Árið eftir kom ég til aftur til að sjá Snæfellsnes og hinn magnaða Sprengisand. Árið 2003, eftir fjögurra ára fjarveru, var svo haldið í erfiða en frábæra gönguferð um Hornstrandir. Ég var klárlega orðinn hugfanginn af Íslandi. Tveimur árum seinna rættist önnur ósk mín þegar ég hjólaði yfir Sprengisand og þaðan til Öskju, þaðan svo til Egilsstaða og svo meðfram Austurströndinni og gegnum Landmannalaugar, aftur til höfuðborgarinnar. Tveim vikum áður en lagt var af stað í þann leiðangur datt mér í hug að ævintýrlegra væri að hjóla eftir jeppaslóðanum um Vonarskarð til Öskju. Með 35 kílóa farangur og fjögurra vikna matarbirgðir lagði ég af stað í góðri trú. Hin algenga klisja úr ferðahandbókum um Ísland að íslensk veðrátta væri óútreiknanleg, var algerlega staðfest í ferðinni. Fimm vikur af sex var stanslaust óveður. Ískaldur mótvindur og rigning á hverjum degi í fimm vikur. Þessi nú þegar fífldjarfa ferð varð margfalt erfiðari og fyrir vikið hurfu 15 kíló af líkamanum. Í þessum ævintýralegu ferðum hef ég ítrekað lofað sjálfum mér að hjóla aldrei framar á Íslandi. En þegar ég kem aftur heim, langar mig strax aftur. Árið eftir kom ég til baka í hjóla- og gönguferð um Vestfirði og Hornstrandir. Og þetta ár, nú í sjötta skipti, fór ég í níu vikna ferð yfir Kaldadal, Arnarvatnsheiði og um hina norðlensku firði til Egilsstaða. Í þetta sinn fór það öðruvísi. 

Gerti van HalFrá Arnarvatnsheiði hjólaði ég í 10 m/s mótvindi í átt að Hvammstanga. Eftir þrjá daga, hjólandi í þessu veðri hafði ég fengið nóg. Fram að þeim tíma hafði það að gefast upp og snúa við verið tabú í mínum augum. En það verður að viðurkennast að ég er ekki 27 ára lengur og á mun erfiðara með að komast yfir brattar brekkur og vindhraða um 9 til 10 m/s. Auk þess hefur löngun mín til að berjast (gegn landslagi, vegum og veðri) minnkað. Mín svakalega ferð frá 2005 hefur klárlega skilið eftir sig dýpri spor en mig grunaði. 

En það er einnig aðrar ástæður. Ísland hefur breyst. Það er eins og markhópurinn hafi breyst. Ævintýrafólk, frumkvöðlar, göngufólk, hjólreiðamenn, fuglaskoðendur og náttúruelskendur, m.ö.o. fólk sem kemur vegna óspilltrar náttúru og sætta sig við fátæklegar aðstæður gefur stanslaust eftir. Ríkara fólk sem gerir meiri kröfur færir sig stöðugt upp á skaftið. Sífellt meira er gert til að gera þotuliðinu til geðs. Á grófum jeppaslóðum mætir maður þeim, í glansfínum göllum á fjórhjóladrifnum leigujeppum. Maður þarf að færa sig út í kant og hleypa þeim framhjá á fimm mínútna fresti. Ævintýrið er fyrir bí. Mannlausu víðernin eru horfin.

Að mínu mati er þetta að gerast ekki endilega vegna þess að sífellt fleira fólk er að koma til Íslands, heldur vegna þess að hálendið verður sífellt aðgengilegra. Vegirnir hafa verið bættir eða endurnýjaðir. Fyrir tíu árum síðan voru allar hálendiferðir mjög ótraustar og tilviljunakenndar. Ef einhver lét sér detta í hug að fara þangað var það aðeins hægt á stórum bílum og alls ekki einn á ferð. Það laðaði að sér mikið af ævintýramönnum og sérvitringum. 

Nú til dags eru stór upplýsingaskilti með leiðbeiningar um það hvernig hægt er að komast yfir hálendið á allskonar farartækjum. Sjálfir jeppaslóðarnir eru þar vel merktir. Það er gefið í skyn að þetta sé öllum fært. Ísland býður því, því miður, aðeins upp á ævintýri fyrir þá sem ekki eru raunverulegir ævintýramenn. Ófyrirgefanleg synd. Þessir nýju ferðamenn er fyrsti vísir að því að hálendið verði fórnarlamb massa-túrisma.

Eitt hefur þó batnað. Það er viðhorf Íslendinga til hjólreiðafólks. Áður fyrr vorum við úthrópuð og talin half klikkuð, en í dag eru nánast allir vinalegir og hjálpsamir. Uppréttar löngutengur (sérstaklega í kringum Akureyri)og fýld andlit hafa vikið fyrir veifandi höndum og brosi. Þarmeð hefur álit mitt á Íslendingum einnig breyst. Fyrir tíu árum síðan fannst mér Íslendingar hlédrægir, stífir og heimóttalegir. Í dag finnst mér þeir vera hlýlegir, heiðarlegir og upp til hópa vinalegir. 

Hvað stendur þá eftir: Ísland er ótrúlega fallegt land með magnaðasta landslag veraldar. Það er einnig það land sem er með hæstu prósentu af ótrúlega fallegu kvenfólki. Sú klisja er sönn.

Ást mín á Íslandi er ekki horfin, en þrátt fyrir það er ég núna í smá hléi á Íslandsferðum, enda nauðsynlegt að líta víðar í kring um mig í leit af ævintýrum. Draumur minn til margra ára að ferðast til Spitsbergen hljómar mjög vel. Er þar hægt að hjóla? Nei, enda er ég komin með nóg af svakalegum hjólatúrum. En þar er í staðin hægt að taka langa og stranga göngutúra um víðernin. Og ísbirnirnir þar lifa talsvert lengur en á Íslandi!

Að hjóla á Íslandi er fyrir mig að hjóla einsamall, í allskonar veðrum, yfir eyðilega og ómalbikaða náttúru uppi á hinu ótrúlega hálendi. Ég er hættur að hjóla á Íslandi og í staðin tekur við (óhjákvæmilega) hið daglega strit. Það er kominn tími til þess að ég taki saman sögu mína, velji það besta úr ljósmyndasafni mínu og setji það saman í bók um lífsreynslu mína. Mun ég þá aldrei framar koma til Íslands? Nei, því innst inni vona ég að Hornstrandir megi sleppa við að komast í tísku hjá ferðamönnum. Kallið mig einfaldann...

Árni Freyr Stefánsson þýddi greinina úr hollensku

Myndir frá Gerti van Hal
Smellið á myndina til að skoða fleiri myndir frá Gerti van Hal