NesjavallaferðÞessi pistill fjallar um hjólreiðar.  Þeir sem eru nú þegar búnir að átta sig á gagni þessa fararmáta þurfa ekki að lesa lengra. Þið hin sem rákuð augun í þennan pistil og hafið ekki enn uppgötvað það – lesið áfram...

Mín hjólasaga nær ekki langt aftur, tja... svona u.þ.b. átta ár aftur í tímann. Hún hófst þegar góður vinur bauð okkur hjónum í hjólatúr ásamt fleirum ... svona helgarferð. Ætlunin var að fara hringinn umhverfis Skorradalsvatn. 

Við mættum á staðinn með hjólin okkar, eiginmaðurinn á góðu hjóli og ég á aðeins síðra, en kva' ... hjól er bara hjól. Vinirnir mættu einn af öðrum. Vinur okkar hjóna var vel græjaður og ég brosti nú bara: Allt í lagi!  Þú ert dellukall; demparar og ljós og alles.

Ég þóttist nú alveg vera til í slaginn, hafði verið í spinnig allan veturinn og þolið var alveg frábært.  Til að gera langa sögu stutta var ég alveg búin á því þegar við komum aftur að upphafspunkti tæpum 40 km og sjö tímum seinna.  Ég var köld og mér var illt. Ég á demparalasa hjólinu minu og farið að rökkva. Ég hafði hjóla í ýmsum veðrum og á alls konar undirlagi. Sem sagt; fyrsta regla: Hjól er ekki sama og hjól. Demparar eru ekki aukabúnaður, þeir eru nauðsyn... og ljós líka.

Viku seinna var hjólinu mínu stolið og ég var hálffegin.  Mig langaði heldur ekki að halda þessu áfram. Fékk nóg í Skorradalnum.

Nokkrum árum seinna kom sami vinur að máli við okkur hjónin og minntist á hjólatúr - aftur varð Skorradalur fyrir valinu og ég komst ekki. Eiginmaðurinn fór og var hinn ánægðasti með túrinn. Ég jesúsaði  mig bara, átti ekki hjól og var ekki að fara að fá mér eitt slíkt.

En hvernig var það, átti þessi pistill ekki að snúast um ágæti hjólreiða? Jú!

Fyrir tæpum þremur árum kom sami vinur að máli við mig. Við höfðum verið að jeppast og klöngrast upp um fjöll og firnindi og haft gaman af. Hann hafði hjólað um allt og kveikt hjá mér örlítinn áhuga - en ég dreg mín mörk við að þurfa að bera hjólið Laugaveginn!

Mér áskotnaðist hjól eftir nokkrum krókaleiðum. Það þurfti svolítillar viðgerðar við og í það var ráðist, ég settist á bak og voila! Nú gat ég notið þess að hjóla, a.m.k á þessu hjóli. Frábært eintak, létt og meðfærilegt álhjól, kvenlegt fjallahjól í fínu standi.

NesjavallaferðÖnnur ferð mín á hjólaferli mínum var með Fjallahjólaklúbbnum. Stefnan var tekin á Nesjavelli.  Ég hafði æft mig aðeins, farið upp nokkrar brekkur, var kotroskin og kát þegar við lögðum af stað. Ég hjólaði af stað á nýja hjólinu mínu. Ég var að læra á 21 gír og taldi mig vera í fínum málum, sátt við lífið og tilveruna í fjandans roki og engum meðbyr. Hliðarvindurinn var erfiður og ég reyndi að halda mér á veginum, ekki utan við hann. En þetta var gaman, barátta við náttúruöflin og sjálfa mig sem skilaði mér áfram fyrir eigin orku. Þessa 48 km að Nesjavöllum hjóluðum við á um sex klukkutímum. Falleg leið í skemmtilegum félagsskap. Við lentum í Nesbúð, nærðum okkur og hvíldum í heita pottinum. Þetta var dásamlegur endir á yndislegum degi. Ég var þreytt en endorfínið var lengi að fara úr kroppnum.

Ferðin til baka var svolítið klöngur í upphafi en endaði með frjálsu bruni niður allar brekkurnar sem ég hafði hjólað og reitt hjólið upp daginn áður. Það var æðislegt! Ég var reyndar á bremsunni á meðan aðalhjólanjólarnir brunuðu framhjá mér á hraða sem ég hélt að aðeins Louis Armstrong mætti vera á í Tour de France. Hann keppti við við tímann en ferðafélagar mínir voru komnir handan við mána og sunnan við sól á mettíma.

Þetta var frábær ferð. Ég var alveg búin með orkuna þegar ég kom heim, vind- og sandblásin en mér leið mjög vel. Þetta sumar hjólaði ég ekki jafnmikið og til stóð, stökk á bak þegar veður var gott, þriðjudagstúrar Fjallahjólaklúbbsins voru mín helsta viðvera á hjólinu.

En svo rann upp sumarið 2008 og upp spratt hjólanjólinn Margrét fullskapaður.  Tekinn var fram fákur sem leit mig hornauga: Af hverju hef ég verið hér í bílskúr svona lengi? Á maður ekkert að fá að hreyfa sig eða hvað?! Ég tók fram hjólið, dittaði aðeins að því og endurnýjaði rafhlöðurnar í odometernum. Odometer er nauðsynlegt mælitæki hjólreiðamanna. Hann telur kílómetrafjölda sem farinn er og greinir meðalhraða.

Þetta var dásamlegt sumar, odometerinn taldi og taldi. Ég keppti við sjálfa mig næstum daglega, tók suma áfanga leiðarinnar í vinnuna á meiri hraða og undirbjó spretti upp og niður brekkur og var farin að nálgast Mr. Armstrong svakalega. Þetta var nú mitt mat en á maður ekki að nota helstu fyrirmyndirnar þegar árangur á að nást.....

Ég fór í þriðjudagstúra, Nesjavallaferð var tekin í nefið og ég hjólaði í vinnuna. Ég vann í Smáralind og bý í Grafarholti og vegalengdin þar á milli u.þ.b.níu  km aðra leiðina, 18 km á dag, 3-4 daga vikunnar telja mikið í þoli og kílóum fækkaði.

Nesjavallaferð Sumarið var frábært. Ég hjólaði út um allt með vindinn í fangið og bakið, sólin skein sem aldrei fyrr og sumarið var langt og bjart. Okkur hjónum bauðst að taka þátt í starfi fjallahjólaklúbbsins fyrir Reykjavíkurmaraþon og við slógum til. Við fórum sem eftirfarar í fullu maraþoni ásamt Guðnýju. Við hjóluðum á eftir tveimur kanadískum dísum sem löbbuðu heilt maraþon. Þetta tók okkur sjö tíma en var mjög skemmtilegt. Þegar heim var komið fann ég fyrir því hvernig ég hafði fengið ofgnótt af súrefni.

Ég mæli eindregið með hjólreiðum sem fjölskyldusporti, samveran er á forsendum hvers og eins og hraðinn er ekki mikill.

Fyrir sumarið 2009 ætla ég að fá mér ný dekk á hjólið. Ég tek fram götudekk og slæ öll hraðamet sem ég setti í fyrrasumar. Læt vind um eyru fjúka og kílóin fá líka að fjúka. Hjólreiðar og sund eru frábær aðferð til að fækka kílóum og auka þol. Ég hef talsvert stundað æfingasali líkamsræktarstöðva en hef ekki haft jafn gaman að því og að hjóla með vindinum. Ég kem mjúk undan vetri og þarf svo sannarlega að herða kroppinn enda er framundan frábært hjólasumar, Bláalónsþraut, Nesjavellir, Maraþon eftir/undanfari (fer eftir formi) og þriðjudagstúrar. Þetta er frábært og ég hlakka mikið til. Eruð'i ekki með...?

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2009