Frá því að ég var 5 ára, og vinkona mín hafði ýtt mér í 1000 skipti af stað út í óvissuna, niður stutta brekku á hjálpardekkjalausu tvíhjóli og ég fann langþráð jafnvægið, hef ég elskað að hjóla og, að undanskildum fyrstu árunum eftir bílpróf, gert mikið af því.

Líklega eru 4-5 ár síðan ég sá ÍFHK getið í einhverjum fjölmiðlinum og ég minnist þess að fá einhvern ílöngunarfiðring í magann, sem ég afgreiddi hins vegar fljótlega þegar sambýlis-maðurinn minn keypti sér um svipað leyti fjallahjól. Á því hjóli var eins og ég væri sífellt að steypast fram yfir mig og til að beygja þurfti ég að teygja "ytri" handlegginn töluvert lengra en hann náði. Ekki gætti ég þess að hjólið væri mér líklega ekki alveg passandi þar sem eigandinn var 190 cm en ég 166 cm, og reynslan því ekki dæmigerð fyrir hjólreiðar á fjallahjóli.

Fyrir 3 árum flutti ég úr miðbænum og í Breiðholtið og fóru þá hjólaleiðir mínar um borgina að lengjast og ég að kynnast þeirri ánægju sem fylgir að hjóla meira en 15 mín í senn og endurnýjuð löngun til að skoða möguleika þessa farskjóta til ferðalaga, fór að láta á sér kræla. Enn var ÍFHK einhversstaðar bakatil í huga mér og þegar ég á næturlífinu einhverju sinni kynntist manni einum sem leit út eins og vera frá öðrum hnetti, hlaðinn smáhlutum og klæðnaði sem ég hafði aldrei heyrt nefndan né séð, með reiðhjól undir arminum, innti ég hann óðara um það fyrirbæri og tengsl þess við kvenfólk. Lét hann vel af, sagði mér nokkra karlrembubrandara, hló stórkarlalega og ákvað ég enn og aftur að fjallahjólreiðar hentuðu víst illa viðkvæmri og tækjafávísri kvenlundinni.

Hjólaástríðan fór þó vaxandi og eyddi ég sumrinu ’97 í að rella í misáhugasömum vinkonum að koma nú hjólandi upp í Heiðmörk, á Þingvelli eða bara í bæinn. Þessi viðleitni bar lítinn árangur annan en pirring vinkvennanna, og smám saman sannfærðist ég um að ÍFHK yrði ég að gefa séns. Frétti svo til allrar hamingju af kvennafundi hjá klúbbnum sl. vor og dreif mig. Voru þar samankomnar nokkrar hressar kynsystur mínar, allsendis ógeimverulegar í útliti og ísinn auðveldlega brotinn. Síðar hef ég svo lagt leið mína af og til á almenna klúbbfundi á fimmtudögum, og fengið þar hellings fræðslu, hjálpsemi og ánægju. Stefnan var strax sett á fyrstu klúbbferð vorsins, Nesjavallaferðina. Ég kveið satt að segja töluvert fyrir, hætti m.a. að reykja mánuði fyrir ferðina til að minnka líkurnar á að heimferðin yrði í sjúkrabíl. Nú eins og yfirleitt er reyndist óttinn vita ástæðulaus og fer hér á eftir ferðasagan mín.

 

Nesjavallaferð 20. maí 1998

Þessi jómfrúarferð mín á reiðhjóli kallaði ekki á mikla velvild veðurguðanna og um hádegi var komið skýfall, en brottför var áætluð kl. 2 eh. frá Árbæjarsafni. Ég lét samt ekki bilbug á mér finna, enda búin að grobba mig töluvert fyrirfram af þessari ferð. Síðasta verkið mitt var að kjósa og þar sem töluverð biðröð var í Fellaskóla var ég orðin heldur sein. Stytti mér leið niður í Elliðárdalinn og datt í drullunni á stígnum, enda óvön að hafa töskur á hjólinu. Frábær byrjun.

Ég átti von á að sjá örfáar hræður við safnið og jafnvel að hætt yrði við vegna veðurs, en enga uppgjöf var að sjá á mannskapnum og vel mætt. Við hjóluðum síðan í lögreglufylgd út fyrir bæinn og ég var hin kátasta með mig og það að hjóla í svona stórum hóp. Fannst ég svo sannarlega vera að vinna þrekvirki þá þegar. Alla leiðina hellirigndi, og ég varð rennblaut nánast strax. Hins vegar var hlýtt og vindur í bakið, þannig að ferðin sóttist vel og mér reyndist ekkert erfitt að halda í við hina. Landslagið var heldur óspennandi framanaf og ekki til neins að stoppa. Það gerði hópurinn þó rétt áður en lagt var í Hengilinn og rifin í sig, í rokinu og rigningunni, einhver orka.

Helsta áhyggjuefni mitt varðandi þessar brekkur var að ég þyrfti að horfa á eftir öllum hinum hjóla upp án þess að blása úr nös, en ég með aukakílóin mín og langreyktu lungun í bleikum regnstakk myndi ein draga hjólið á leiðarenda í sárri niðurlægingu. Þegar svo fór ekki var útséð að, hvað sem síðan bæri við leiðinlegt, yrði þessi ferð böðuð ljóma í minni minningu. Niðurleiðin var að sjálfsögðu frábær, sérstaklega þar sem ský dró frá sólu og fötin nánast þornuðu í hlýindunum og útsýnið niður af Henglinun frábært. Þarna hef ég að líkindum fengið smjör-þefinn af einu af því sem gerir hjólaferðalög svo yndisleg. Þessari sælu-tilfinningu sem hellist yfir mann þegar lýkur því, sem virtist vera óendanlegur barningur upp brekkur í rigningu og/eða mótvindi og maður líður allt í einu áfram á endorfínskýi. Ég hafði aldrei komið á Nesjavelli áður, en varð eiginlega ekkert kát þegar ég uppgvötaði að við vorum bara komin á leiðarenda um leið og Henglinum lauk og fannst ég geta hjólað á heimsenda.

Eftir að hafa grillað og hesthúsað helling af mat og komið mér fyrir í fínu herbergi, setti ég persónulegt met (2-3 klst) í legum í heitum potti þar sem brandarar flugu og ég gerðist nafnkunnug slatta af fólki. Síðar tók við enn meira át yfir kosningasjónvarpinu sem var reyndar óspennandi en félagsskapurinn bætti það upp.

Daginn eftir var lagt af stað undir hádegi og reyndist heimferðin mér öllu erfiðari. Bæði var nú að byrja á að þrælast upp Hengilinn í upphafi ferðar en einnig virtist hnakkurinn minn á einni nóttu hafa breyst í ópússaðan steypuklump, einungis þægilegur í svo framhallandi stöðu að við lá að ég læki fram af. Ég var með gelpúða á hnakknum, en eftir þessa reynslu og meiri síðar mæli ég ekki með slíku hægindi. Þegar við bættist mótvindur og innra ergelsi var heimferðin átak, sem þó hvarf að fullu í skuggann af gífurlegu stolti hinnar fyrrverandi sófakonu yfir framtakinu, og því var sunnudagskvöldinu eitt í ferðadagdraumum með Íslandskortinu.

Bára Bryndís Sigmarsdóttir.