Fyrir allnokkrum árum kenndi ég hópi björgunarsveitarmanna á Ströndum fjallamennsku. Þetta voru kappar frá Hólmavík, Drangsnesi og alveg norður í Norðurfjörð. Ég sá það strax að þarna voru miklir kúnstnerar á ferð. Þeir voru lífsglaðir, gerðu óspart grín að hvor öðrum og virtust alveg hafa þurft að hafa fyrir því að hafa ofan af fyrir sér.

Síðan þá hefur þetta svæði verið mér hugleikið. Alltaf þótt það spennandi og leitað tækifæris til að hjóla þar um. Ekki er verra að það skuli vera einangrað yfir vetrartíðina;gerir það jafnvel enn áhugaverðara.
Strandir kallast svæðið sem nær frá botni Hrútarfjarðar norður eftir austanverðum Vestfjarðarkjálkanum. Þær eru meðal landsins afskekktustu svæða og lokast iðulega inni þegar snjór hylur landið.

Síðastliðið sumar var loks ákveðið að fara vestur í nokkra daga ævintýraferð. Ferðin var sett á dagskrá Fjallahjólaklúbbsins og öllum boðið að koma með. Klúbburinn stendur fyrir allskyns ferðum, bæði léttum og erfiðum, og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þessi ferð var hugsuð fyrir þá sem vilja komast í ferð þar sem hver og einn undirbýr sig og sitt hjól fyrir nokkurra daga átök. Þar má helst ekkert klikka því ekki eru nein hjólreiðaverkstæði á þessu svæði og fólk þarf helst að hafa alla varahluti með sér ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis. Sömuleiðis þarf hver og einn að hafa mat til ferðarinnar og allan búnað til þess að gista hvar sem dagurinn endar.

Sértæk ferðahjól verða oftast fyrir valinu, sterkbyggð og flestir þættir þeirra gerðir til að endast og bresta ekki þegar á reynir. Fjallahjól eru líka hentug í svona brölt en þegar hjól er valið þá þarf sömuleiðis að gera ráð fyrir að það geti borið búnaðinn sem til þarf. Flestir notast við fram- og afturtöskur en einnig hafa vagnar notið vinsælda. Hvort tveggja var með í för í þessari ferð og virkaði prýðis vel. Þetta heillar suma, aðra minna en mikilvægast er að sem flestir prófi að ferðast um á hjóli. Maður fær alveg nýja sýn á landið.

Við vorum sex félagar úr Fjallahjólaklúbbnum sem ætluðum að ferðast saman um þessar afskekktu slóðir. Ég nýtti mér landsbyggðaferðir Strætó og kom um kvöldið til Hólmavíkur. Nóg var að ferðamönnum eins og svo víða og allmargir aðrir hjólreiðamenn fyrir á tjaldsvæðinu. Manni kemur þetta alltaf jafn mikið á óvart, hve víða og hversu margir erlendir ferðamenn koma hingað með hjól og fara sumir í hvern krók og kima á okkar fallega landi. Nánast alveg sama hvert farið er, alltaf er einhver á hjóli með tjald. En nú var ég partur af þessum hópi og ég kunni alveg prýðilega við það.

Við hjóluðum frá Hólmavík og fyrir Drangsnes daginn eftir. Þar virtist svo til slokkna á umferðinni, mun færri á ferð og hægt að hjóla eins og maður ætti veginn, skuldlausan.

Þegar fáir bílar eru til að hrekja mann út í kant, þá gefst tími til að horfa í kringum sig, hlusta og njóta þess að vera til. Við sem vorum saman þarna, ræddum um hvaða dýralíf gæti orðið á vegi okkar. Í mínum huga komu upp villtir refir, ernir á flugi, jú og ísbirnir, þeir eiga það til að mæta á svæðið. Við vorum ekki búin að hjóla út Steingrímsfjörðinn þegar við heyrðum þessi einkennilegu hljóð rjúfa þögnina. Fjörðurinn var spegilsléttur og enginn vindur. Óvenjulegt. Þarna var hvalur með kálf, sjálfsagt að eltast við æti og þegar þeir komu upp til að anda og jafnvel stökkva, þá heyrðist merkilega vel í þeim. Við stoppuðum og nutum þessa. Þetta hafði ég aldrei upplifað áður og aldrei verið svona nærri þegar þeir leika sér svona í veðurblíðunni.

Áfram héldum við og brátt komum við í Drangsnes sem er skemmtilegt þorp og eins og skylda er, þá fer maður í bæjarverslunina. Þar er allt sem þú þarft til sölu. Ég hnaut um nammibarinn. Hann samanstóð af sex tegundum og afgreiðslukonan hafði á orði að reykvísk ungmenni sem ættu leið um, þætti úrvalið full lítið.

Vegurinn á Ströndum var mun betri en ég hafði búist við. Betri en mig minnti. Þetta er malarvegur sem eftir að komið er fyrir Drangsnes liggur ýmist niðri í fjöru eða í bröttum hlíðum. Kannski ekki fyrir lofthrædda en á reiðhjóli tekur maður minna eftir því. Þá er hugurinn upptekinn við að taka ekki of fast í frambremsuna eða koma sjálfum sér og þessu alltof þunga hjóli upp yfir seinustu bröttu brekkuna.

Við fundum okkur náttstað á fallegum stað í Kaldbaksvík. Þar er engin bær en á hjóli kemst maður bara ákveðið langt og ekki alltaf hægt að enda hvern dag í kaupstað. Við slógum upp tjöldum á stórkostlegum stað. Sumir fóru í sjósund og létu amstur dagsins líða úr sér, á meðan hinir lágu með fætur upp í loft.  Þetta gefur lífinu lit og fallegir næturstaðir eru eitthvað sem maður man lengi vel.

Annars var einhver sumarbústaðareigandi alveg brjálaður yfir því að við værum þarna. Kallaði í sífellu að þetta væri bannað en kom aldrei til okkar til að ræða málin eða reka okkur alveg í burtu. Við létum sem ekkert væri og fórum ekki fet. Seinna heyrðum við frá heimamönnum að þegar aðrir en heimamenn eignast jarðirnar, þá er allt girt af og öllu harðlæst. Öllum bannað að fara um svæðin og allt merkt sem einkaeign. Leiðinleg þróun.

Norðan Hólmavíkur eru nokkrar afar skemmtilegar bæjarþyrpingar. Drangsnes, Gjögur, Norðurfjörður og Trékyllisvík. Mismunandi stór þorp en e.t.v. er Djúpavík þeirra þekktast. Þorpið stendur við fallegan foss, Djúpavíkurfoss, innarlega í Reykjarfirði og í kyrrlátu veðri er hvergi fallegra. Þar var sett á stofn síldarsöltunarstöð sem hóf framleiðslu árið 1917. Seinna var þar reist fullkomin síldarverksmiðja sem stendur enn, en eingöngu sem minnisvarði um löngu liðna tíma.

Tvisvar í ferðinni snæddum við á hótelinu í Djúpavík og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Viðmót landsbyggðarinnar er sjaldan eins hrjúft og borgarinnar. Öllu er reddað.

Ég hafði ekið til Norðurfjarðar nokkrum árum fyrr og alltaf var svæðið í kringum Gjögur ofarlega í huga mér. Þessi gróna slétta sem þar er. Sérstakt, því almennt er þetta svæði umlukið bröttum fjöllum en Gjögur leyfir manni aðeins að anda og horfa til allra átta. Mig hafði lengi langað til að ná þessu á mynd en oft getur verið erfitt að fanga mikilfenglegt  landslag á eina ljósmynd. Á ferðalögum er ég með gamlar en góðar filmuvélar og reyni að mynda það sem fyrir er. Svo líða oft nokkrar vikur áður en ég fæ að sjá útkomuna. Myndirnar fá að fylgja með hér og dæmi nú hver fyrir sig.

Hluti leiðarinnar sem ákveðin hafði verið, átti að fara um illfæra heiði sem nefnist Trékyllisheiði. Bara nafnið er klætt dulúð.

Við höfðum heyrt að vegurinn væri ekki góður ef veg skyldi kalla og hann ætti það til að hverfa stundum. Hann væri stórgrýttur og raunar verulega vondur. Fyrir suma hljómar þetta spennandi en skiljanlega ekki alla.

Við lögðum á heiðina af hálsinum milli Ingólfsfjarðar og Norðurfjarðar. Eitthvað hafði rignt dagana fyrir svo vegurinn var víða blautur og hafði jarðvegurinn eitthvað runnið til. Þær hugmyndir um heiðina sem við höfðum gert okkur í hugarlund stóðust fullkomlega og meira til. Þetta var nú meiri vitleysan. Ég hef aldrei áður farið um verri veg á hjóli og sjálfsagt er leit að öðru eins. Þetta var endalaust klungur, um stóra og hvassa steina, upp og niður endalaust. Það lá þoka á hluta heiðarinnar og ef við hefðum ekki verið með GPS, þá hefði ég á köflum verið sannfærður að við værum að fara í hringi. En allar hetjusögur eru sjálfsagt hálfgert rugl á köflum.

Við börðumst í þessu allan daginn. Þegar við stóðum fyrir ofan Djúpavík og horfðum yfir Reykjarfjörðinn, ákváðum við að taka slóða sem lægi niður í þorpið. Við einfaldlega nenntum ekki meir; þetta var orðið gott í bili. En þetta var ekki búið enn. Slóðinn var alveg ferlegur og mikið basl að fara með fullklyfjað reiðhjól þarna niður. Þegar við komum í tjaldstað, var klukkan orðin eitt að nóttu. Við höfðum lagt af stað klukkan átta að morgni.

Seinna heyrðum við að suðurhluti heiðarinnar væri mun betri en norðurhlutinn og vart hægt að líkja þeim saman. Við tókum ekki sénsinn og fórum svo til sömu leið til Hólmavíkur aftur.

Ég minntist á dýralífið sem við vonuðumst til að yrði á vegi okkar. Ekki vorum við sviknir af því. Hvalir og ernir á fyrstu metrunum gáfu okkur von. Seinna komu selir og refir til sögunnar. Allaf gaman að sjá dýrin í sýnu náttúrulega umhverfi. Þegar heim var komið fengum við fréttir af því að ísbjörn hefði verið skotinn þessa sömu helgi. Alveg í fanta formi og eflaust til í að elta uppi villtan hjólreiðamann og smakka aðeins á honum. Hann er jú í útlöndum! Sem betur fer ákvað hann að koma að landi hinu megin flóans í þetta sinn.

Strandir stóðu fullkomlega undir mínum væntingum. Auðvitað leikur gott veður stórt hlutverk og næst væri kannski að heimsækja Strandir þegar vetur konungur hefur hertekið svæðið. Allt fær þá nýja mynd. En þetta svæði lætur engan ósnortinn. Náttúran og frelsið sem þarna býr er alveg einstakt. Ég hvet alla til að fara þarna um og ekki er verra ef fleiri þora á reiðhjóli; þá færðu allt beint í æð og þó þú komir líkamlega þreyttur heim, þá er andinn endurnærður.

Þokkalegt reiðhjól, töskur eða vagn, útiföt og kannski tjald - meira þarftu ekki.

Sjáumst á vegum út!
Friðjón G. Snorrason

Fleiri myndir á:
www.photographybyfridjon.com