Að hjóla Kjalveg hefur verið vinsælt meðal bæði innlendra og erlendra hjólreiðamanna. Auðvelt er að skilja af hverju lagt er á þennan veg. Þarna eru engar óbrúaðar ár sem heitið getur, fjöldi skála og gistimöguleika eru á svæðinu, rútur ganga þarna reglulega um, landslagið er stórbrotið á milli jöklanna þegar til þeirra sést og laugin á Hveravöllum nauðsynlegur áfangastaður til þess að slaka á og hreinsa sig eftir afrek ferðarinnar.

En þegar hjólreiðamaðurinn hefur eitt sinn hjólað yfir Kjöl, er ólíklegt að hann hafi hug á því að gera það aftur. Nú á hinum síðustu og verstu tímum ferðamannaparadísarinnar Íslands er umferðin of mikil, rykið of  mikið, kyrrðin of lítil og þvottabrettin of mörg. Sé ekki lagt í hann fljótlega eftir að vegurinn opnar má búast við nægum þvottabrettum til þess að hrista í sundur allar þær heilasellur sem viðkomandi átti í upphafi ferðar. En hvað er þá til ráða? Svarið er einfalt; að velja hina fáförnu hliðarvegi og götur.

Sunnan megin eru nokkrar leiðir eða hálfleiðir. Hægt er að fara upp skógræktina í Haukadal,  inn á línuveg á Haukadalsheiði og síðan austur og koma inn á Kjalveg aftur skammt norðan Gullfoss. Önnur leið er að fara af línuvegi nokkru vestar, en þó austan Mosaskarðs, beygja norður meðfram skógræktargirðingu, fara yfir Farið á göngubrú FÍ sunnan undir Einifelli, kíkja á Hagavatn og fara síðan Hagavatnsveg inn á Kjöl skammt norðan Sandár. Þrem til fjórum kílómetrum norðar er svo hægt að taka illa merktan veg/reiðgötu til hægri sem liggur inn í Fremstaver. Þaðan má svo fara reiðgötur meðfram Bláfelli að austanverðu í stað Bláfellshálsins (sem ég hef ekki hjólað) og koma aftur inn á Kjalveg við Hvítárbrú, eða taka stytting upp gamla Kjalveg sem mætir þeim nýja uppi á Bláfellshálsi, en sá vegur er illhjólanlegur niður í móti vegna grófleika þannig að ég biði ekki í hann upp í móti. Eftir  að yfir Hvítárbrú á Kjalvegi er komið er hægt að taka veginn í Hvítárnes og fara þaðan gömlu reiðleiðina sem gengur oft undir nafninu Kjalvegur hinn forni, um Hvítárnes, Þverbrekknamúla og Þjófadali í Hveravelli, en  leggurinn á milli Þverbrekknamúla og Þjófadala er allgrófur í hrauninu, og hætt við að ferðalangurinn þurfi að leiða hjólið á köflum, eða að koma strax aftur inn á veg við Árbúðir. Aðrar leiðir að sunnan eru t.d. um Hrunamannaafrétt með slæðingi af skálum og smærri vöðum og koma inn á Kerlingafjallaafleggjarann miðja vegu milli Kjalvegar og Ásgarðs, sunnan brúarinnar yfir Jökulfallið. Önnur leið og talsvert lengri er upp Gnúpverjaafrétt frá Sultartanga, en sú leið er nokkru erfiðari, stærri ár, nokkrir skálar og langir vatnslausir sandar um Setur og koma inn á Kerlingafjallaveg skammt vestan Ásgarðs. Þá kann að vera hægt að hjóla á köflum miðleiðina um Kjöl, vörðuðu leiðina sem liggur upp með Svartá um Beinhól og Grettishelli en hana hef ég bara gengið að hluta en hún er allgrýtt í Kjalhrauninu miðju. Að norðanverðu eru nokkrar leiðir, sú syðzta er Eyfirðingavegur sem fylgir norðurjaðri Hofsjökuls í Ingólfsskála og áfram í Laugafell, en þá leið varða fjöldi jökuláa sem eru ófærar  í vatnavöxtum snemmsumars, á meðan enn er að bráðna vetrarsnjór á Hofsjökli eða eftir rigningar, en þeirra helstar eru meginárnar Blanda og Vestari-Jökulsá. Hægt er að yfirgefa þessa leið til norðurs og sleppa Vestari-Jökulsá með því að fara t.d. Skiptabakkaleið eða Hraun­garðaleið ofan í Skagafjörð. Þessar leiðir skyldu engir nema vanir vatnamenn fara og þá vel síðsumars. Önnur leið og norðar, en einnig yfir Blöndu, liggur af Kjalvegi rétt sunnan brúar yfir Seyðisá og er þá komið inn í Guðlaugstungur. Meira um hana síðar. Tveimur kílómetrum norðan slysa­­varnarskýlisins við Arnarbæli  til vesturs er leiðin um Krákshraun sem tengist inn á Arnarvatnsheiðarvegakerfið og er hið áhuga­verðasta leiðarval sem bíður upp á marga möguleika, en er nokkuð seinfarin. Öruggt vatnsból og tjaldstaður er við Ströngukvísl ca. miðja vegu inn á Stórasand. Þá eru næst tvær leiðir til vesturs rétt sunnan við útfallið úr Blöndulóni. Sú syðri leiðir ferðalanginn þegar norðar dregur  um óskýrar en sæmilega greiðfærar reiðgötur vestan Mjóavatns vestur fyrir Friðmundarvötn þaðan sem leiðir eru til vesturs ofan í Vatnsdal eða til norðurs í Svínadal. Sú nyrðri fylgir vegi vestan Þrístiklu, á milli Friðmundarvatna og kvíslast síðan í leið til vesturs niður í Svínadal eða til austurs niður í Blöndudal. Norðan Blöndulóns er  bílvegur eftir stíflugörðum Blöndulóns austur Eyvindarstaðaheiði, en þaðan liggja leiðir norður Blöndudal að austanverðu, ofan í Svartárdal í Húnavatnssýslu, eða áfram austur og að Aðalmannsvatni og þaðan eru leiðir norður  í Mælifellsdal eða áfram austur  í Gilhagadal. Ýmsar óglöggar reiðleiðir eru á þessum slóðum.

Af þessu öllu má vera ljóst að óþarfi er að þola ryk, þvottabretti og umferð þó Kjalvegur sé hjólaður. Fylgir hér með ferðasaga eins af sex styttri hjólreiðatúrum liðins sumars sem farin var í byrjun júlí 2014.

Ég hafði dvalið um helgi með fólki í sumarbústað í Úthlíð en sunnanátt næstu daga beindi mér í norðurátt. Þurrt hafði verið síðustu daga og mig langaði til þess að prufa nýjar Kjalleiðir. Samferðafólk mitt ferjaði mig góðfúslega norður á Bláfellsháls, og var ég ferðbúinn nokkru upp úr hádegi. Fékk ég rútubílstjóra til þess að ferja eitthvað af mat og klæðum fyrir mig í Hveravelli áður en ég stakk mér norður af hálsinum. Vegurinn var ekki eins slæmur og ég óttaðist, enda stutt síðan hann opnaði, og sóttist ferðin hratt niður í meðvindinum. Þegar yfir Hvítá var komið hélt ég áfram norður, framhjá Árbúðum og Fremri Skúta og u.þ.b. miðja vegu á milli Skútanna er ógreinilegur slóði til vesturs (vinstri) í átt að Þverbrekknamúla. Tók ég hann. Meðvindurinn hafði verið svo mikill, og umferðin þó það strjál, að enginn bíll hafði tekið fram úr mér þessa 25 kílómetra eða svo. Vegurinn var þægilegur en ögn sendinn til að byrja með. Eftir þrjá kílómetra var komið að vaði yfir Svartá. Vaðið var þokkalegt og ekki djúpt og þornaði ég hratt í sól og sunnanþey. Nú var komið í Kjalhraun þannig að leiðin varð nokkuð grýttari og krókóttari en þó hin fínasta skemmtun. Nokkrum kílómetrum norðar fer vegurinn yfir reiðgötuna á „Kjalvegi hinum forna”, heldur svo áfram norður með bökkum Fúlukvíslar uns leiðirnar mætast aftur við göngubrúna yfir í Þverbrekknamúla. Snæddi ég þar nesti við litla lind, minnugur vatnshallæris í hrauninu norðan Þverbrekknamúla í fyrri ferð. Leiðin norður gerðist nú all torsótt. Götur voru þröngar og mikið af lausum hraunmolum í þeim sem erfitt var að sneiða hjá. Oft þurfti að stíga af hjólinu og leiða það yfir mestu hindranirnar. Sóttist ferðin því seint. Áð var við göngubrúna við Hlaupin yfir Fúlukvísl.

{oziogallery 475}

Við hana á ég eina af mínum gleðilegri minningum frá einni af mínum fyrstu göngu­ferðum, sem leiddi okkur einmitt norður þennan forna Kjalveg fyrir hartnær 20 árum. Við félagarnir vorum komnir í skálann undir Þverbrekknamúla til gistingar, þegar við lásum í ferðafélagsbók, sem þar var, að óþarfi væri að snúa aftur í vestur yfir göngubrúna, hægt væri að stytta sér leið beint í norður um Þverbrekkurnar og Múlana og stökkva yfir gilið þar sem heitir Hlaupin, og það sem meira var, fólk gat í alvörunni stokkið þarna yfir, öfugt við ýmis önnur „hlaup” sem finna má um landið, svo lengi sem menn væru hraustir fullhugar (sem við töldum okkur að sjálfsögðu vera). Mátti með þessu spara sér vel á fjórða kílómeter. Héldum við því morguninn eftir norður á bóginn. En það rigndi og seinna hellirigndi. Upplitið varð heldur minna, pokarnir þyngri og grjótið varð hálla í bleytunni. Lítt hlökkuðum við til stökksins yfir gljúfrið, þar sem bráður bani beið hvers þess sem rataði ekki yfir í fyrstu atrennu. En áfram héldum við og viðruðum ekki áhyggjur okkar hver við annan. Allt í einu sáum við brúna þarna fyrir neðan okkar og urðum harla glaðir og ekki eins tregt tungu að hræra.

En þarna var ég nú kominn (í þriðja sinn) aftur 20 árum síðar. Áfram var nú haldið, yfir erfiða kafla, en þegar nálgast tók Þjófafell komst ég út úr hrauninu og greikkaði því færið. Farið var að kvölda og því sló ég upp tjaldi suðvestan fellsins í syðra minni Þjófadala. Var nóttin tíðindalaus.

Mánudagurinn rann upp bjartur og fagur. Ég fylgdi reiðgötum austan ár, en skrapp þó vestur yfir á, án hjólsins, í erindagjörðum í afhýsi Þjófadalaskála. Eftir stutt stopp þar hélt ég aftur yfir Þjófadalakvíslina og var nýbyrjaður að leiða hjólið upp Þröskuldana þegar ég mætti hópi hestafólks á leið suður. Það ávarpaði mig auðvitað á útlensku, þó að íslensk væru. Þegar upp á Þröskuldana var komið settist ég aftur á fákinn og renndi mér norður á bóginn ofan í Sóleyjardal, yfir nokkra snjóskafla í lægðum mót norðri. Þegar niður í dalinn kom varð á hægri hönd fyrir nýstikuð gönguleið yfir í Hveravelli, yfir hraunið, og þarf þá ekki að fara yfir Stélbratt. Ákvað ég að láta reyna á þá leið enda bæði hjólað og gengið veginn áður. Ekki var leiðin greiðfær en þó að mestu þokkalega hjólanleg. Hlýtt var og lítill meðvindur og mátti ég fækka klæðum. Kom nú í ljós að ég hafði gleymt sólarvörninni og fannhvítt bak mitt hafði ekki litið sól síðan síðasta sumar, og óttaðist ég að ég myndi frekar uppskera rautt en brúnt. Áði ég í lítilli gjótu í skjóli fyrir vindum. Komu þá að tvær þýzkar göngukonur úr suðri, en ég hafði hjólað framhjá þeim án þess að taka eftir þeim þegar þær höfðu sjálfar áð í hrauninu skammt fyrir sunnan. Áttu þær sólarvörn og gáfu mér meira að segja það sem eftir var í lítilli túpu, og höfðu þökk fyrir og leiðbeiningar um hvernig þær gætu komið við í Strýtunum sem er gígurinn þaðan sem Kjalhraunið rann; magnaður staður. Var nú áfram haldið, og komið að Hveravöllum úr suðri. Fékk ég pakkann, sem ég hafði fengið rútubílstjóranum daginn áður, og fékk mér gott bað í lauginni áður en ég hélt af stað. Þegar komið var upp brekkuna ofan Hveravalla beygði ég til vesturs að Veðurstofuhúsinu og þaðan til norðurs að hesthúsi sem þar er. Tók ég síðan reiðgötur sem liggja í norður og síðar NNA og koma inn á Kjalveg rétt sunnan brúarinnar yfir Seyðisá. Þessar reiðgötur voru misgreiðfærar, en að mestu leyti hjólanlegar, engan var að sjá, og kyrrðin alltumliggjandi utan blíðs fuglasöngs. Vaða þurfti tvisvar yfir Þegjanda.

Nú var komið að ögurstundu í ferðinni. Átti ég að reyna við Blönduvaðið eins og ég hafði oft hugsað um, eða halda áfram norður þjóðveginn? Auðvitað að reyna við Blöndu, enda hafði ferðin verið farin til þess. Hjólaði ég nú upp með Seyðisá að sunnanverðu, fram hjá gömlu fjárhaldi, og áfram rúma fjóra kílómetra uns komið var að Blönduvaði. Þarna hafði ég hugsað mér að tjalda og reyna svo við ána um sex leytið um morgunninn þegar hvað minnst ætti að vera í henni. En klukkan var bara rúmlega sjö að kvöldi , og vaðið virtist ekkert mjög ógnvænlegt, þó heldur styttra en ég hafði búist við (stutt þýðir jú dýpra og/eða straumharðara). Mig langaði því til að reyna hvernig mér gengi, til þess að eiga samanburðinn um morguninn. Ég hringdi því í föður minn, sagði honum frá fyrirætlan minni, og ef að hann heyrði ekki í mér innan 20 mínútna, hefði illa farið. Fór ég nú úr öllu að neðan nema vaðskóm og fikraði mig út í ána. Hún var nánast volg, ekkert mjög straumhörð og dýpkaði lítið. Áfram hélt ég, og var nú kominn yfir miðja á og þó var dýpið ekki nema rúmlega hnéhæð. Við austurbakkann minnkaði straumurinn en dýpið hélst þar til skömmu áður en ég kom upp úr. Þetta hafði ekki verið neitt mál og óþarfi að bíða morguns. Skellti ég mér nú aftur yfir, hringdi í pabba og setti nýjan áhyggjutíma eftir 30 mínútur, óð aftur yfir með farangur, sótti svo hjólið, aflétti áhyggjutíma, lestaði hjólið á ný og lagði af stað hjólandi norður á bóginn. Þessar slóðir eru mjög fáfarnar af öðrum en hestamönnum, enda árnar sem þarna eru farar­tálmi fyrir bæði bíla og fótgangandi. Eftir um þriggja kílómetra reið var komi að Svörtu­kvísl. Hún er á strangara og grýttara vaði en Blanda, en reyndist mun vatnsminni. Fór ég hana í tveimur ferðum, með farangur annars vegar og hjól hins vegar. Enn var hjólað, en nú varð vart við „vegabætur”, og í stað mjúkra en þéttra moldagatna var búið að moka of miklu af leiðinda möl í veginn, sem dró heldur úr gleðinni. Fimm kílómetrum eftir Svartá fór Herjólfslækurinn að renna samhliða veginum, tveim kílómetrum seinna rann hann í Ströngukvísl en þaðan renna þær saman undir brú og út í Blöndu. Yfir brúna var hjólað og skömmu síðar kvíslaðist vegurinn norður á bóginn og suðaustur að Ströngu­kvíslarskála. Þar sem ég er mikill áhugamaður um hálendisskála, gat ég ómögulega látið tækifærið að kanna skálann framhjá mér fara, en tæplega kílómetra spotti liggur að honum. Hann var læstur, en símanúmer í glugga gaf mér samband við skálaverði við Galtará, sem gáfu mér upp númer á lásaboxi. Þetta reyndist allstórt og veglegt hús og fór vel um mig um nóttina.

Þriðjudagsmorgunn var þyngri en fyrri dagarnir og strekkingur að sunnan. Húsið var kvatt og síðan fokið norður á bóginn. Skömmu eftir að ég var kominn aftur á aðalveginn ætlaði ég að vera vakandi fyrir reiðgötu til austurs sem myndi leiða mig að Aðalsmannsvatni, en missti af henni á þeysingnum norðureftir. Miðaði ferðinni nú allhratt, nema hvað ég varð þess fljótlega var að ég hafði misst vatnsbrúsann og mátti ég berjast til baka nokkur hundruð metra að sækja hann. Skömmu seinna sprakk afturdekkið og mátti ég gera við það. Fór nú að rigna og átti eftir að súlda á mig öðru hverju það sem eftir leið dags. Galtará var því miður komin í ræsi, þannig að rómantíkin við að greiða lokka mína þar, var minni en í þau tvö skipti sem ég hafði komið áður að norðurbakka hennar. Í skálanum var mér boðið upp á kaffi og eftir að hafa gert upp skála­gjaldið hélt ég áfram norður á bóginn uns ég kom að gatnarmótum norðan Galtarár. Til vestur var leiðin yfir Blöndustíflur inn á Kjalveg, til austurs voru leiðirnar ofan í Skagafjörð en til norðurs ofan í Blöndudal eða Svartárdal. Ég hafði hug á því að ná strætó í bæinn um kvöldið og borga sem minnst fyrir hann skv. því þyrfti ég annað hvort að ná strætó í Varmahlíð eða vestan Blönduóss. Það sem ég hafði hjólað bæði Mælifellsdal og Blöndudal áður, ákvað ég að fara ofan í Svartárdal og ákveða þar hvort ég myndi reyna við Kiðaskarð yfir í Skagafjörð. Hélt ég því norður og seinna austur þegar leiðin kvíslaðist, fór brekkuna ofan í Svartárdal, en ákvað þar að tíminn væri óþarflega naumur fyrir Varmahlíð og hjólað því út Svartárdalinn. Dalurinn er þröngur og fallegur og því skemmtilegri til hjólunar en ég hafði átt von á. Vindurinn blés enn duglega á eftir mér. Kom ég upp á hringveginn við Húnaver, beygði til vesturs, uns komið var í Blöndudal, fór síðan suður yfir Blöndu á brú og Svínvetningabraut (nyrðri). Var nú leiðin í vestur og vindur hættur að blása í bak heldur var nú orðinn mun vestlægari og því allmótstæður. Sóttist ferðin því seint, auk þess sem vegurinn var eitt drullusvað. Þegar upp á malbik var komið við Húnavelli var ég svo drullugur að ég taldi fyrir víst að mér yrði aldrei hleypt inn í nokkra rútu svo útlítandi. Fór ég því að hótelinu og spurði hvort  vatnslanga væri á svæðinu svo ég gæti spúlað mig. Það reyndist víst ekki vera. (Þau voru ekkert mjög lausnarmiðuð þessi útlensku grey sem voru þarna í afgreiðslunni). Þá hélt ég áfram og náði inn á hringveg 20 mínútum áður en von var á strætó. Brá mér að Stóru-Giljá þar sem ég átti að eiga fjarskylda ættingja, bar upp erindið, og fékk ungling til þess að sprauta mig hátt og lágt með garðslöngunni, en sjálfur sprautaði ég á hjólið Mér varð ögn kalt við þessar aðfarir þannig að ég hjólaði af stað og náði strætó í mynni Vatnsdals. Þá kom í ljós að afgreiðslukerfi strætisvagnsins var bilað, svo það var ókeypis þennan daginn, þannig að ekki hafði ég sparað mér mikið fé á því að taka vagninn svona vestarlega. Í Staðarskála skipti ég yfir í þurr föt. Úr Mjóddinni hjólaði ég svo aftur heim í Hlíðarnar eftir þennan þriggja daga hjólreiðatúr norður Kjöl þar sem eingöngu fyrstu 25 kílómetrarnir voru á bílvegi.

Haukur Eggertsson

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015