Stefnum að öflugri samgönguhjólreiðum:
Viltu vera með í að móta Hjólafærni?

Sannanlega má segja að með komu John Franklin hafi ákveðin straumhvörf mótast í hugum þeirra íslensku hjólreiðamanna sem á hann hlýddu. Hugmyndir hans hljóma svo eðlilega fyrir umferðina og það er ekki hægt annað en hrífast með því sem Bretarnir hafa tileinkað sér.

Verkefnastjórn hefur orðið til innan raða ÍFHK og LHM, skipuð Sesselju Traustadóttur, Morten Lange og Páli Guðjónssyni. Þessi stjórn hefur sett sér það markmið að afla fjár til þess að byggja ofan á þá þekkingu sem John Franklin miðlaði til okkar.

Hjólafærni

Ef allt gengur að óskum og fjármögnun verður í lagi, þá er stefnt að því að ráða breska hjólreiðakennara til landsins, strax í vor, sem munu kenna íslenskum hjólreiðamönnum að kenna öðrum hjólreiðamönnum að vera á hjóli í umferðinni. Bretarnir ætla síðan að fylgja íslensku kennurunum úr höfn og styðja þá í gegnum sín fyrstu námskeið. Samhliða þessu leitar verkefnisstjórnin leiða til þess að vinna íslenskt námsefni sem hentar kennslu í Hjólafærni. Jafnframt stefnir hún að ímyndarherferð með prentverki til þess að minna á hina jákvæðu eiginleika reiðhjóla.

Einn grunnskóli í borginni hefur gefið vilyrði fyrir því að þróunarkennsla í hjólreiðum geti farið fram á meðal nemenda skólans strax næsta vetur.

ÍSÍ hefur þegar lýst stuðningi við verkefnið og fleiri hafa sýnt þessu mikinn áhuga. Mikil vinna hvílir á herðum verkefnastjórnarinnar til næstu missera. Öflugt kynningarstarf er í uppsiglingu og unnið verður markvisst að því að fá ólíka leikmenn að borðinu. Þetta ætti að vera hagsmunamál innlendra sveitarstjórna, Samgöngu-, Mennta-, Heilbrigðis- og Umhverfisráðuneytis, tryggingafélaga, ökuskóla, íþróttafélaga, Lýðheilsustöðvar og fleiri.

Þeir hjólreiðamenn sem vilja verða nemendur á námskeiðum Bretanna ættu að senda okkur í verkefnastjórn línu. Allir aðrir sem áhuga hafa á að styðja þetta verkefni á einn eða annan hátt, ættu endilega að gera það sama; sendið okkur línu og takið þátt í að móta þetta stóra og mikla verkefni okkar. Það er næg vinna framundan og alltaf pláss fyrir velviljaðan mannskap til þess að leysa skemmtileg og krefjandi verkefni.  Skoðið hér eina útfærslu.

Sessý, Morten og Páll. This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.