Sunnudaginn 21. nóvember síðastliðinn var haldin umhverfisráðstefna á kaffihúsinu Sólon Íslandus undir nafninu GRÆNA BYLTINGIN - hverjar eru horfurnar? Áður en hún hófst hjóluðu nokkrir félagar ÍFHK frá Kolaportinu, í fullum skrúða og í baráttuhug, smá hring um miðbæinn, og enduðu síðan við Sólon Íslandus. Í upphafi ráðstefnunnar var afhentur undirskriftalisti, með 3000 nöfnum, þess efnis að bæta þyrfti aðstöðu hjólreiðamanna á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Þótt að ráðstefnan fjallaði um umferða-, skipulags- og umhverfismál, sem varða okkur öll, þá mætti enginn frá umferðaráði, borgarskipulagi eða meirihluta borgarstjórnar. Var það því Kristín Á. Ólafsdóttir frá minnihluta borgarstjórnar sem tók við undirskriftunum með þeim orðum að hún mundi reyna koma málefnum hjólreiðamanna á framfæri.

Því var greinilega ekki logið, því fljótlega var hægt að lesa í betri blöðum landsins, þ.e. Vikublaðinu og Tímanum, að málið hefði farið fyrir borgarráð. Á Kristín lof skilið fyrir framgöngu sína í málinu. Ekki vitum við hvort það eru kosningarnar í vor eða fjöldi undirskrifta sem ollu sinnaskiptum meirihluta borgarstjórnar, en skyndilega virðist sem hjólreiðafólk hafi fengið áheyrn. Er því staðan sú í dag að stjórnarmeirihlutinn hefur aldrei þessu vant gert þetta að sínu máli. Því eru stærri blöðin farin að segja frá gangi mála og birti DV eftirfarandi klausu 28. desember sl.:
"Borgarráð hefur samþykkt tillögu Katrínar Fjelsted, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og Árna Sigfússonar um að tilnefna þrjá fulltrúa í nefnd til að gera tillögur til úrbóta fyrir hjólreiðamenn í Reykjavík.

Nefndin á að hafa samráð við samtök hjólreiðamanna og á fulltrúi borgarskipulags að starfa með henni. Tillögurnar verða lagðar fyrir borgarráð ekki síðar en 1. apríl. Þetta var samþykkt í kjölfar tillögu borgarfulltrúa Nýs vettvangs um að leita eftir samstarfi við Íslenska fjallahjólaklúbbinn um markvissar og samhæfðar aðgerðir til þess að auðvelda hjólandi vegfarendum að komast um borgina."

Svo var það 12. janúar að Mogginn birti eftirfarandi:
"Borgarráð hefur samþykkt að skipa nefnd er gerir tillögu til úrbóta fyrir hjólreiðamenn í Reykjavík. Á fundi Borgarráðs 4. janúar sl. var samþykkt að tilnefna Katrínu Fjeldsted, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þór Jakobsson í nefndina. Er henni ætlað að hafa samráð við samtök hjólreiðarnanna auk þess sem fulltrúi frá borgarskipulagi mun starfa með nefndinni. Gert er ráð fyrir að tillögurnar verði lagðar fyrir borgarráð eigi síðar en 1. apríl."

Það skal tekið fram að rétt áður en fréttabréfið fór í fjölritun hafði ekkert heyrst frá þessari nefnd.

Magnús Bergsson
Birtist fyrst í Hjólhestinum janúar 1994 sem leiðari.