Sunnudagurinn 10. maí verður sögulegur hjólasunnudagur í sögu ÍFHK.
Fyrsta sérlega barna- og fjölskylduhjólaferðin verður farin úr Laugardalnum; nánar tiltekið kl. 11 frá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Þessi ferð er hugsuð fyrir alla á eigin hjóli frá 7 ára aldri með fjölskyldum sínum. Við biðjum alla að koma með gott nesti með sér og ef vel gengur, þá borðum við nestið í Geldinganesi. Þangað stefnum við og ætlum að skoða saman eyjuna áður en við hjólum aftur í Laugardalinn.
Þeir sem vilja geta skellt sér í sund við heimkomuna en við áætlum að vera 3 - 4 klukkutíma í ferðinni og fara rólega yfir.
Önnur ferð á vegum klúbbsins verður farin fyrr um daginn; þá hittast öllu vanari kappar við Víkingsheimilið kl. 9.30 og hjóla um borg og bý. Þessi hópur mun væntanlega hjóla til móts við fjölskylduhjólahópinn og þá verður þetta væntanlega býsna glæsileg fylking!