Ferðanefnd ÍFHK er með ferð á Nesjavelli til að horfa á Eurovision 16. - 17. maí þar sem boðið verður upp á trúss og kol á grillið. Þátttakendur sjá sjálfir um að panta sína gistingu en það er búið að taka frá 20 svefnpláss fyrir hópinn og hótelið býður gistingu í uppábúnu rúmi í 2ja manna herbergi með morgunmat á 4.000 kr. á manninn. Ennfermur er rétt að benda fólki á hvort stéttarfélög þess bjóði hótelávísun, sem gæti verið örlítið ódýrara en þetta ágæta tilboð.

Þá er stefnt á ferð í kringum Skorradalsvatn um Jónsmessuhelgina. Lagt verður af stað út úr bænum fös. 19. júní og hjólað kringum vatnið á laugardeginum. Heimferð á sunnudeginum.

Stóra sumarleyfisferð ÍFHK hefst laugardaginn 4. júlí. Þá verður ekið út bænum og stefnt í Hólaskjól. Síðan verður hjólað um Fjallabak syðri og endað í Þórsmörk 10. - 12. júlí. Trússað og gist í skálum. Darri hefur hjólað þetta svæði fram og til baka og ætlar að fara fyrir ferðinni. Hann auglýsir hana fljótlega betur og mun einnig sjá um allar skráningar í ferðina. Hámark er sett við 16 þátttakendur í skálagistingar og trúss. Næsti undirbúningsfundur fyrir þessa ferð verður fim. 28. maí.

Að lokum verður farið í óvissuferð fyrstu helgina í September.

Þriðjudagsferðirnar halda sér í sumar en hefjast við inngang Húsdýra og fjölskyldugarðsins, ekki frá Mjódd eins og verið hefur.

Nýlunda í skipulögðum ferðum ÍFHK eru þrjár sunnudagsferðir sem hugsaðar eru fyrir fjölskyldufólk. Lagt af stað kl. 11, sunnudagana 10. maí, 14. júní og 16. júlí. Farið rólega yfir og reiknað með að vera á ferðinni í 3 - 4 tíma.

Af nógu er að taka og nú er bara að ákveða hvaða ferð á að fara!

Góða ferð!

Ferðanefndin