Það vakti athygli mína þegar ég rakst á litla aðsenda grein í Morgunblaðinu 7. nóvember þar sem Brynjar Kjærnested lýsir því að í sumum hverfum borgarinnar er snjóruðningur á höndum einkaaðila og í öðrum á höndum borgarstarfsmanna. Það ætti ekki að skipta máli ef allir stígar væru ruddir vel og tímanlega en í greininni lýsir hann því að einkaaðilunum hafi verið fyirskipað að halda að sér höndum meðan borgarstarfsmennirnir voru á fullu í öðrum hverfum. Þar sem ég fann greinina ekki á mbl.is læt ég hana fylgja með.

Brynjar Kjærnested

Afsökunarbeiðni fyrir hönd framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar

Í haust og það sem af er vetri hefur snjóað nokkuð á höfuðborgarsvæðinu og því mikilvægt að gangstígar séu ruddir og sandbornir til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Sú einkennilega staða hefur komið upp að þessum öryggisþætti er sinnt í sumum hverfum borgarinnar en ekki öðrum. Af hverju slík mismunun á sér stað er ekki gott að segja.

Í stuttu máli er þessum öryggisþætti í hverfum borgarinnar annaðhvort sinnt af borgarstarfsmönnum eða einkaaðilum. Það sem hefur gerst er að starfsmenn borgarinnar eru á fullu við snjómokstur og sandburð í hverfum sem eru í þeirra umsjá en einkaaðilunum er fyrirskipað að halda að sér höndum. Þarna gætir tvímælalaust ójafnræðis með borgarbúum, þeim sem búa í hverfum þar sem borgarstarfsmenn sinna snjómokstri og sandburði er gert hærra undir höfði á meðan ekki er gætt sama öryggis og þjónustu við þá borgarbúa sem búa í öðrum hverfum.

Fyrirtækið Garðlist og tvö önnur fyrirtæki annars vegar og framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar hins vegar gerðu með sér samning fyrr á þessu ári um grasslátt við stofnbrautir um sumarið og snjómokstur og sandburð í vetur á gönguleiðum á ákveðnum svæðum innan borgarmarkanna. Í verkahring Garðlistar er svæði sem afmarkast af Kringlumýrarbraut í vestri, Sæbraut í norðri, Kleppsvegi og Reykjanesbraut í austri og Bústaðavegi í suðri. Á þessu svæði eru nokkrar af fjölförnustu götum og gangstígum borgarinnar.

Stjórnendur og starfsmenn Garðlistar hafa þann metnað til að bera að vilja gera það vel sem þeir taka sér fyrir hendur. Nú hefur það ítrekað gerst að þeim er gert af Reykjavíkurborg að sleppa snjómokstri og sandburði göngustíga á fyrrnefndu svæði sem er við nokkrar af fjölförnustu stofnbrautum borgarinnar. Sem dæmi má nefna að snjóað hafði aðfaranótt laugardagsins 25. október en ekki var beðið um hreinsun gangstíga þrátt fyrir að margt fólk nýti göngustígana til gönguferða og hjólreiða um helgar.

Sagan endurtók sig á mánudegi þó að enn væri snjór á stígunum sem hafði breyst í hálku. Næturfrost var meira og minna síðustu viku október og mikil snjóbráð við sólarlag sem myndar hálku, ekki lengi en þó alveg nóg til þess að fólk geti runnið til og slasast. Ekki var beðið um sanddreifingu á stígana þrátt fyrir augljós hættumerki. Stjórnendur Garðlistar hafa komið á framfæri athugasemdum við framkvæmdasvið borgarinnar en talað fyrir daufum eyrum. Það er spurning hvað gerist ef slys verða á fólki - ætli svör fulltrúa borgaryfirvalda verði þau að það sé verktaki sem sjái um þetta hverfi?

Vegna þessa ósamræmis, mismununar og augljósu hættu vill starfsfólk Garðlistar biðja alla hlutaðeigandi, sem ferðast innan hverfisins sem Garðlist var ráðið til að sinna samkvæmt samningi en fær ekki, afsökunar fyrir hönd framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Garðlistar ehf.