Hjólafærni er verkleg hjólakennsla fyrir stjórnendur reiðhjóla, sem vilja læra að umgangast hjólið sitt af ábyrgð og alúð.
Þátttakandi í Hjólafærni lærir að meta ástand síns reiðhjóls, fær leiðsögn um bestu nýtingarmöguleika hjólsins og tekur virkan þátt í samræðum um gagn og gaman þessa magnaða farartækis.

Kennarinn stýrir hjólaleikjum sem þjálfa færni og getu hvers hjólreiðamanns.
Þungamiðja námskeiðsins felur í sér að kenna ábyrga stjórn á reiðhjóli við rólega umferðagötu í nágrenni skólans. Þar verður farið yfir ábyrga hegðan hjólreiðamanns í samspili við umhverfið og umferð á götunni með öryggi hjólreiðamannsins í fyrirrúmi.  

Nemendur eiga að koma á sínum eigin hjólum og alltaf á sama hjólinu. Ef gerðar eru athugasemdir við ástand hjólsins, verða heimilin að bregðast við þeim.
Bilað hjól er ekki leyft í Hjólafærnitíma.

Þróunarsjóður grunnskóla, sem Menntamálaráðuneytið stýrir, veitti styrk fyrir skólaárið 2008 – 2009 til þess að hægt væri að bjóða og þróa kennslu í Hjólafærni á miðstigi í Álftamýrarskóla. Nemendur í 6. og 7. bekk eru fyrstu grunnskólanemendur landsins sem boðið er að læra Hjólafærni. Kennsla hefst strax í lok fyrstu kennsluvikunnar séu tilskilin leyfi komin í skólann með börnunum. Nemendum er boðið 6 klukkustunda námskeið sem kennt er á þremur vikum. Þeir verða teknir í 6 manna hópum út úr almennri kennslu á meðan námskeiðið fer fram, einu sinni í viku, 2 klst. í senn. Það er áríðandi að nemendur séu klæddir fyrir útikennslu, því öll kennslan fer fram utanhúss. Námskeiðin í haust er hægt að bjóða nemendum algjörlega að kostnaðarlausu.

Foreldrar þurfa að gefa samþykki sitt fyrir þátttöku barnanna. Þeir fá einnig í hendur gátlista um ástand hjóls barnsins sem þeir eru beðnir að fara yfir og senda með barninu í fyrsta tímann.

Hugmyndafræðin að baki Hjólafærni kemur frá Bretlandi, en samskonar fræðsla er líka til í öðrum löndum. John Franklin er opinber ráðgjafi Bikeability í Bretlandi. Hann kom til Íslands og kynnti Hjólafærni/Bikeability á Samgönguviku haustið 2007 í boði Landssamtaka hjólreiðamanna. Bretar hafa sett sér það markmið að árið 2011 sé tryggt að öll 11 ára börn í landinu njóti Hjólafærniþjálfunar, á stigi 2.

Hjólreiðakennari ráðinn til landsins

Sl. vor réð verkefnastjórn breskan Hjólafærnikennara, Veroniku Pollard, til landsins til þess að þjálfa íslenska Hjólafærnikennara. Það var gert fyrir styrk frá Endurmenntunarsjóði Grunnskóla sem Menntamálaráðuneytið úthlutar úr.

Hjólafærnikennarar við Álftamýrarskóla eru:

Árni Davíðsson, Bjarney Gunnarsdóttir og Sesselja Traustadóttir. Auk þess er Sesselja ábyrg fyrir öllu skipulagi, sem og upplýsingamiðlun á milli heimila og skóla er snertir Hjólafærnina. Hún kennir einnig heimilisfræði við skólann.

Hjólafærnikennarar í þjálfun
Hjólafærnikennarar í þjálfun ásamt fyrsta nemendahópnum

Umferð og hjólreiðar á Íslandi

Nýleg könnun sýnir að umferðarfræðsla samkvæmt námskrá er ekki kennd sem skyldi í grunnskólum. Samkvæmt umferðarlögum eru hjólandi vegfarendur fullgildir þátttakendur í umferðinni á götunni.

Á Íslandi hefur ekki verið unnið markvisst með hjólandi vegfarendum á vettvangi eða með hliðsjón af lögunum. Reynslan af  námskeiðum í hjólafærni er að þátttakendur öðlast bæði færni, ábyrgðartilfinningu og öryggi í umferðinni. Námskeiðin stuðla líka að auknum hjólreiðum til samgangna.

Flest börn á Íslandi koma gangandi í skólann. Mörgum börnum sem vilja hjóla er ekki leyft það, að hluta vegna ótta um öryggi þeirra og að hluta vegna ótta við stuld og skemmdarverk á reiðhjóli. Þannig missa mörg börn af tækifæri til að kynnast þessum samgöngumáta. Hjólreiðar til samgangna bjóða upp á meira frelsi og sjálfstæði, þroskandi áhrif, heilbrigði og minni umhverfisáhrif, borið saman við skutlið, sem margir foreldrar standa í.

Vilt þú læra og njóta Hjólafærni?

Það er líklegt að fleiri en börn og unglingar vilji fá þjálfun í að ferðast um á reiðhjólinu sínu á ábyrgan hátt í umferðinni.
Ert þú ef til vill einn af þeim?
Aðstandendur námskeiðsins geta boðið þjálfun fyrir einstaklinga og litla hópa; hvort heldur er í að læra að sitja hjól eða hvernig skuli bera sig að á götunni þegar ferðast er hjólandi í gegnum hringtorg.  

Viltu vita meira? Sendu endilega línu eða sláðu á þráðinn; This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. s. 864 2776, Sesselja.