Í Rangárþingi nær miðju stendur Breiðabólstaður í Fljótshlíð, um 5 km austan við Hvolsvöll. Kirkja hefur verið á Staðnum síðan um 1070 og skartar hann nú fallegri krosskirkju teiknaðri af Rögnvaldi Ólafssyni, vígðri 1912. Margir nafntogaðir prestar hafa setið Staðinn og mætti nefna sr. Jón helga Ögmundsson, sr. Högna Sigurðsson ( oft nefndur presta-Högni) en hann átti miklu barnaláni að fagna, eignaðist 9 dætur og 8 syni sem allir urðu prestar. Sr. Tómas Sæmundsson, Fjölnismaður, er e.t.v. frægastur þeirra sem Staðinn hafa setið a.m.k. í seinni tíð og stendur bautasteinn sá gríðarþungur sem Fjölnismenn gáfu í minningu Tómasar í kirkjugarðinum á Breiðabólstað og haggast ekki nema í öflugustu jarðskjálftum, snýst þá jafnan hálfhring. Núverandi prestur og staðarhaldari á Breiðabólstað er sr. Önundur S. Björnsson.

Staðurinn hefur verið byggður mikið upp á s.l. 3 árum, útihúsin m.a. endurbyggð með það að markmiði að geta tekið á móti ferðamönnum, ekki síst íslenskum hjólreiðamönnum á ferð um Rangávallasýslu. Staðurinn er kjörinn áfangastaður í lengri ferðum, t.d. á leið í Þórsmörk, Emstrur eða inn á Einhyrningsflatir og stutt er í Tindfjöllin og hálendið allt, ekki má gleyma gömlu Markarfljótsbrúnni sem er austan við Dímon og styttir hún ferðina talsvert inn í Þórsmörk auk þess sem mjög skemmtilegt er að hjóla um hina gömlu Markarfljótsaura í kringum Dímon. Reyndar eru endalausir möguleikarnir á skemmtilegum ferðum í nágrenninu, og upplagt að hafa bækistöð í nokkra daga á Staðnum. Og þó að íslenskir hjólagarpar víli ekki fyrir sér brekkurnar hlýtur að vera notalegt að rúlla fyrirhafnarlítið um Landeyjarnar alveg niður í fjöru og ef menn geta ekki hugsað sér að stoppa þar má alltaf taka flugið til Vestmannaeyja frá Bakkaflugvelli (mjög ódýrt). Loks má minna á Njálusetrið á Hvolsvelli sem er víðfrægt orðið og einnig er óhætt að mæla með byggða- og samgöngusafninu á Skógum.

Á Breiðabólstað er aðstaða fyrir ferðafólk öll hin besta og að sjálfsögðu hægt að koma reiðskjótunum í hús. Í gistiskálanum er rými fyrir 20-25 manns í tveggja manna kojum og hægt er að leigja sængur og sængurföt aukalega, sjónvarp er í skálanum og nákvæm kort af suðurlandi. Fullbúið eldhús og ein "svíta" er í boði, lítið herbergi inn af eldhúsinu þar sem tveir geta gist eða þeir sem eru að ferðast með börn og vilja hafa meira næði. Sturta er að sjálfsögðu á staðnum og stutt er í góða sundlaug á Hvolsvelli. Við gistiskálann er verönd með stóru tunnugrilli og öðru minna svo hægt er að grilla ofan í mannskapinn og nota má hlöðuna til slíkra veisluhalda ef veðrið er ekki eins og menn hefðu helst kosið, hins vegar er nær undantekningarlaust blíða í Hlíðinni.

Gistingin kostar 1900 krónur fyrir manninn, 1200 krónur fyrir börn. Einnig er hægt að leigja allan skálann (fyrir 20-25 manns) og er þá veittur nokkur afsláttur. Félagar í Fjallhjólklúbbnum fá 10% afslátt komi þeir hjólandi og framvísi félagsskírteini. Til að fá afsláttinn þarf að panta beint hjá okkur á Breiðabólstað (þ.e. ekki vera á vegum ferðaskrifstofu) í síma 487-8010.

Að lokum bjóðum við alla hjólreiðamenn velkomna í Hlíðina í sumar og vonumst til að sjá sem flesta.

Harpa og Önundur, Breiðabólstað.