Þessi formannspistill hjá mér fer nú að verða gamlar lummur því að gott væri að fara að fá ferskt blóð í starfsemina. Við erum samt óðar að breytast úr byggingarklúbb í hjólaklúbb aftur en mikið var unnið í rafmagni fyrir uppskeruhátíðina og þá var tekið svo vel til að annað eins hefur ekki sést. Nú stendur til að fá hita á efri hæðina og vask til að hafa uppi. Uppskeruhátíðin var skemmtileg og áttum við notalega stund saman yfir aðkeyptum mat. Við tókum okkur til og keyptum blóm handa Magga Bergs sem varð fertugur í október og þökkuðum honum í leiðinni fyrir starfið í klúbbnum undanfarin ár.

Mikill tími hefur farið í að skipuleggja og finna gistimöguleika vegna fyrirhugaðrar Noregsferðar í júní svo að vonandi tekst vel til og við fáum skemmtilega ferðasögu í næsta Hjólhest. Einnig eru aðrar ferðir á dagskrá klúbbsins og höfum við verið að tala um að meðlimir verði að fara að safna leiðum í Fjallahjólaklúbbnum.

Vilja margir að við snúum okkur að ferðalögum og hættum í pólitíkinni. En undanfarin ár hefur verið dauft yfir ferðunum því að fólk er farið að fara sínar eigin ferðir. Ekki þarf að kvarta yfir því að við höfum gert mikið í pólitíkinni heldur en Borgarskipulag leitaði til okkar varðandi kynningu á reið- og hjólastígum upp við Rauðavatn. Einnig mættum við á skipulagsfundi þar sem að reynt var að finna lausnir á vandamálunum upp við Rauðavatn þar sem hestamönnum þykir sambúðin við hjólafólkið ekki góð. Verðum við að taka tillit til hestamanna og misvana knapa því að við viljum ALLS EKKI fá hlið og slár á þessa stíga.

Eftir nýju Samgönguáætlunni 2003-2014 förum við bara að hætta þessu hjólastússi því að þar segir að veðurfar og takmörkuð yfirferð séu helstu gallar hjólasamgangna á Íslandi. Þar er ekkert minnst á hvort kemur á undan hænan eða eggið. Umhverfisnefnd Alþingis fór af stað með þingsáliktunartillöguna um skipun nefndar um lagningu hjólastíga enn eina ferðina og hef ég verið að reka á eftir því að hún komist í gegn en þið mættuð alveg senda póst á þingmenn líka.

Það er mikil deyfð yfir öllum hjólamálum núna og allir að tala um hlutina en ekkert gerist í þeim málum. Reyndar voru tengingar stórbættar milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar í haust en það er allt og sumt. Núna þegar þetta er skrifað er hlákuspá og þá hlýtur að fara að styttast í vorið??

Ég skora því á þá sem hafa tíma til að gera smá í félagsmálum hjóreiðamanna að bjóða sig fram ef þeir hafa tíma aflögu. Öllum hinum sem hafa gert góða hluti fyrir okkur í ÍFHK þakka ég gott starf.

Við höldum áfram okkar hollu og góðu hreyfingu, hjólreiðunum, með bros á vör og höldum ótrauð áfram að benda á aðstöðuleysið, því að það hlýtur að koma að því að stjórnvöld átta sig á því hvort kemur á undan hænan eða eggið

Hjólum heil!!! og eftir umferðalögunum!!!

Alda Jóns formaður ÍFHK Apríl 2002