Þá eru nú laufin farin að falla af trjánum og það gefur til kynna að Hjólhesturinn bíður óþreyjufullur eftir að komast í ykkar hendur. Vil ég minna á að aðalfundur ÍFHK verður fimmtudaginn 8. nóvember kl. 20 í klúbbhúsinu að Brekkustíg 2. Þar verður einnig hægt að skrá sig á uppskeruhátíð ÍFHK rúmlega viku síðar eða laugardaginn 17. nóvember kl. 20. Mikilvægt er að fólk skrái sig því að við pöntum mat og kostar hann um 2000 kr á mann.

Það helsta úr klúbbstarfinu er að við fengum 1.000.000 kr styrk úr Borgarsjóði til að gera við húsið. Við létum smíða gluggann í upprunalegri mynd, létum setja blikk á þakkantana og á döfinni er að setja hita og uppþvottaaðstöðu uppi ásamt því að klára að mála og setja upp ljós á efri hæðinni. Einnig er Jón Örn Bergsson að mála fyrir okkur mynd til að hafa á gafli klúbbhússins og verður spennandi að sjá afraksturinn.

9. ágúst mætti vaskur hópur klúbbfélaga og málaði húsið 2 umferðir af rauðri málningu svo nú eigum við flottasta húsið í vesturbænum. (Skoðið myndir hér og fleiri hér ) Hurðin var líka máluð og bitarnir í loftinu uppi rifnir niður enda óþarfir eftir að stóri stálbitinn var settur upp. Á eftir þessu öllu var grillað og var ágætis mæting miðað við það að ekki var hægt að boða fólk með miklum fyrirvara vegna þess að það virtist alltaf rigna þegar talað var um að mála húsið. Var póstlistinn notaður til að boða fólk í málningarvinnuna og grillið og fær þessi vaski hópur kærar þakkir fyrir gott framtak og vönduð vinnubrögð.

Kvöldferðirnar hjá Bjössa Finns, Jakobi og félögum hafa gengið mjög vel og var aukning þetta árið. Almennt er fólk ánægt með ferðatilhögun og leiðir enda reynt að gera sem flestum til hæfis. Sú umræða hefur komið upp að hjólafólk í nágrannabæjum Reykjavíkur vill gjarnan komast í hópinn og þarf kannski að skipuleggja viðkomur á ákveðnum stað þar sem fólk getur komið inn í hópinn td. þegar hjólað er upp í Mosfellsbæ og í gegnum Hafnarfjörð eða Kópavog. Þessu verður kannski skotið inn í skipulagið ef hægt er að koma því við án þess að setja of mikla vinnu og pressu á skipuleggendur. (Skoðið hér myndir úr þessum ferðum og öðrum afburðum í klúbbstarfinu)

Lengri ferðir sumarsins hafa að mestu fallið niður vegna þáttökuleysis en þó var farið á Úlfljótsvatn í lok maí og tókst sú ferð vel eins og lesa má á hér. Einnig var farið um Verslunarmannahelgina og var sú ferð erfið og ferðalangarnir voru þreyttir en ánægðir. Einnig má lesa um hana í blaðinu (kemur á vefinn fljótlega). Mjög mikil aðsókn hefur verið í viðgerðaraðstöðuna og oft fullt út úr dyrum í sumar. Var einnig haft opið fyrsta laugardag í hverjum mánuði og var svona upp og ofan hvort að fólk mundi eftir því en núna er verið að ræða um það hvort að við verðum ekki að hafa opið alla laugardaga til að aðstaðan sé nýtt betur. Það hefur líka orðið algjör sprenging í skráningu nýrra klúbbfélaga og bjóðum við þau öll velkomin í klúbbinn. Hlutfallslega hefur aukningin verið mest af unglingum og þurfum við að hafa fleiri ferðir sem henta þeim og einnig að fá hugmyndir frá þeim sjálfum um hvað þau vilja gera í klúbbnum.

Klúbburinn hjálpaði til við Reykjarvíkurmaraþonið eins og svo oft áður og var fjölmennt lið frá okkur þetta árið. (Jakob sendi okkur myndir sem eru hér. Skoðið líka myndir Magnúsar Bergs frá sama degi hér og Jóns Arnar hér.) Klúbburinn sá um að skipuleggja "Hjólum sveitafélögin saman" frá Seltjarnanesi og í Hafnarfjörð með ýmsum skipuleggendum hjóla- og göngustíga í mígandi rigningu. En ég held að augu margra í borgar- og bæjarkerfinu hafi opnast þennan dag og vonum við að það skili sér beint til okkar í bættum samgöngum EKKI VEITIR AF Á MILLI SVEITARFÉLAGANNA. (Lesið frásögn Haraldar Tryggva og skoðið myndirnar sem hann tók hér.)

Klúbburinn tók að sér að sjá um forkeppni Eldraunarinnar (keppnin með ungmennafélagseldinn til Egilsstaða). Tröllaklúbburinn í Mosfellsbæ skipulagði skemmtilega braut í sínu heimasvæði og tókst sú keppni vel þó að auglýsingar sem að klúbburinn átti að fá sæjust hvergi. Maggi Bergs var með demparanámskeið og Björgvin var með viðgerðarnámskeið í vor. Einnig hafa Páll Guðjóns heimasíðustjóri og Kristín Hjólhestastjóri staðið sig með stakri prýði að ógleymdum Darren sem hefur svarað ótal útlendingum í gegnum tölvupóstinn. Klúbburinn gerði ýmsar athugasemdir við ótal gatnamót og aðrar vegaframkvæmdir ásamt heimsóknum á vordögum til Samgöngunefndar Alþingis og Vegagerðarinnar. Alltaf er verið að reyna að skapa hjólamenningu á Íslandi.

Það má líta á þetta sem dagbók klúbbsins frá síðasta Hjólhesti og svona þegar þetta er allt tekið saman þá er þetta heilmikið sem við erum að gera þó að okkur finnist við áorka svo litlu. Með von um að þið sem ætlið að hjóla í vetur séuð komin með réttu græjurnar þá er ég ekki bara að tala um bjöllu og standara heldur ljós (aftan og framan), nagladekk og endurskinsvetrarfötin að ógleymdum hjálminum.

Hjólum heil

Alda Jóns formaður ÍFHK (nóv 2001 - Hjólhesturinn - fréttabréf ÍFHK)