"Eins og að hjóla yfir mólendi" var fyrirsögn á athyglisverðri frétt í Morgunblaðinu 31. ágúst 2000 um íbúa í Garðabæ sem ofbauð aðstæður til hjólreiða, settist niður og skifaði bréf til bæjaryfirvalda í Garðabæ. Þar færði hún rök fyrir máli sínu og var bréfið tekið fyrir á fundi bæjarráðs. Það þarf að láta í sér heyra ef maður vill breytingar.  Það kom í ljós að þar á bæ var meira lagt upp úr því að leggja lengri stíga en að huga að því að gera það almennilega, stígarnir voru lagðir án undirbyggingar og voru svo skemmdir eftir frostlyftingar að, eins og íbúinn komst svo lýsandi að orði, það er "eins og að hjóla yfir mólendi".
   Það er ekki nóg að leggja stíga sem líta vel út á kortum og í pappírum, það þarf að vanda til verka þannig að þeir nýtist til samgangna, árið um kring og til framtíðar. Lesið fréttina alla hér fyrir neðan.  PG

 

   "Eins og að hjóla yfir mólendi"

   BÆJARYFIRVÖLDUM í Garðabæ barst fyrr í þessum mánuði bréf frá Önnu Maríu Geirsdóttur, íbúa í Garðabæ, þar sem bent er á að göngu- og hjólreiðastígar í bænum séu víða í slæmu ásigkomulagi og sárlega vanti stíga frá bænum yfir til nærliggjandi sveitarfélaga, Hafnarfjarðar og Kópavogs.
   Bréf hennar var tekið fyrir á fundi bæjarráðs þann 8. ágúst og var meðal annars samþykkt að fela bæjarstjóra Garðabæjar að taka upp viðræður við bæjarstjóra Hafnarfjarðar og Kópavogs um stíga milli bæjarfélaganna auk þess sem Vegagerðin yrði höfð með í ráðum.
   Hjólað á malbikinu
   Anna segir í samtali við Morgunblaðið vonast til að stígar verði fljótlega lagfærðir þar sem ekki einungis sé bagalegt fyrir hjólreiðafólk að hafa enga eða slæma stíga til þess að hjóla á heldur geti gangandi vegfarendur og fólk með barnavagna og kerrur einnig lent í vandræðum vegna þessa. "Það er enginn hjólreiðastígur yfir í Kópavog. Maður hjólar helst á malbikinu vegna þess að úti á kantinum er malarundirlag með grjóti yfir og þar getur verið hættulegt að hjóla, til dæmis ef maður þarf að bremsa og rennur til í mölinni," segir Anna. Hún segir að til Hafnarfjarðar liggi göngustígar en brúnirnar á þeim séu mjög háar og geti það farið illa með gjarðir á hjólum.

   Frostlyftingar í göngustígum

   Anna segist einnig hafa vakið athygli á því í bréfi sínu að víða í bænum séu frostlyftingar í göngu- og hjólreiðarstígum en í bréfi frá bænum hafi hún fengið þær útskýringar að stígar hafi verið lagðir án undirbyggingar til þess að hægt væri að nýta fjárveitingu hverju sinni til þess að leggja lengri stíga. "Að mínu viti eru þessir stígar svo vondir að maður hjólar ekki á þeim, maður hjólar heldur á götunni. Ef ég tek Silfurtúnið sem dæmi þá er hægt að ganga eftir stígunum þar en á hjóli er þetta eins og að fara yfir mólendi," segir Anna.
   Guðjón E. Friðriksson, bæjarritari í Garðabæ, segir viðræður hafa staðið yfir í nokkurn tíma við Vegagerðina um lagningu stíga milli Garðabæjar og nærliggjandi sveitarfélaga en skiptar skoðanir séu um það hvort Vegagerðinni beri skylda til þess að sinna lagningu göngustíga. Hann segir þó fordæmi fyrir slíku og  nefnir sem dæmi göngustíga yfir Ölfusárbrú og víðar á landsbyggðinni auk stíga fyrir hestamenn. Guðjón segir að í nýjum hverfum sem hafa verið að byggjast upp í Garðabæ hafi göngustígar verið lagðir jafnóðum og þar séu þessi mál í betra horfi en í eldri hlutum bæjarins. Að sögn Guðjóns er unnið að því að lagfæra eldri göngustíga í Garðabæ.

 ©Morgunblaðið 31. ágúst 2000.