Það hittist nú þannig á þetta skiptið að formaðurinn er ekki á landinu og verður ekki fyrr en um jól en sem betur fer eru fleiri í brúnni og Íslenska fjallahjólaklúbbnum er haldið stöðugum af þeim sem á landinu eru.

Af húsnæðismálum okkar er það að frétta að búið er að laga húsið að utan og er það okkur til sóma. Ekki náðist að mála húsið og halda grillveisluna sem við vorum búin að lofa okkur sjálfum en það verður gert við fyrsta tækifæri í vor.

Málningarstyrkurinn frá Hörpu átti að nýtast okkur á árinu 2000 en við erum búin að fá vilyrði fyrir því að tekið verði tillit til hvað verktakarnir voru á eftir áætlun og því fáum við mjög líklega styrkinn færðann til 2001. Búið er að gera viðgerðaaðstöðuna fína og kaupa verkfæri svo að klúbbmeðlimum er ekkert að vanbúnaði að laga fáka sína. Yfirleitt er einhver á staðnum til að leita til og gerum við öll okkar besta og hjálpumst að.

Eins og alltaf er fullt af verkefnum sem klúbburinn er að berjast fyrir og það verður að segjast eins og er að okkur vantar tilfinnanlega fólk til að starfa í nefndum hjá okkur. Ekki náðist á síðast þingi Alþingis að koma þingsályktun okkar á umræðuplan og það væri alveg frábært ef við gætum lagt smá meiri vinnu í þessa þingsályktunartillögu og komið með okkar hugmyndir að því hvernig við viljum hafa lögin. Það er auðvitað við hjólafólkið sem höfum mest vit á þessu og það þýðir ekkert að bíða eftir því að við fáum úrbætur í okkar málum. Við verðum að leggja eitthvað á okkur sjálf. Það hefur sýnt sig að á síðustu árum höfum við verið sýnilegur þrýstihópur sem er farið að taka tillit til í miklu meira mæli en áður. Við erum allavega hætt að fá háðsglósur á fundum um það hvort við höfum ekki efni á bíl og svoleiðis eins og við vorum vön að heyra. Núna heyrum við talað um hjólandi og gangandi sem hluta af umferðamenningunni og þó að við vildum gjarnan að það væri tekið meira tillit til okkar ÞÁ ERU ORÐ TIL ALLS FYRST og alltaf fjölgar hjólafólkinu svo að við erum sýnilegri.

Í klúbbhúsinu að Brekkustíg 2 eru kort af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og var hugmyndin að hjólafólkið kíkti á þessi kort sem sýna stíga og væntanlega stíga og teiknaði svo inn á þessi kort hugsanlega stíga, breytingar eða úrbætur. Þegar þessi hugmynd kom til umræðu og farið var að leita eftir því að fá kortin, tóku skipuleggjendur ótrúlega vel í að fá þessar hugmyndir teiknaðar inn á kortin. Oft sjáum við ýmsar hugmyndir á hjólaferðum okkar og vantar þá kannski ótrúlega lítið upp á að tengja saman svæði eða gera leiðirnar hættuminni fyrir okkur. Það er með þetta eins og annað, að þeir sem fara stígana sjá betur hvað henntar en þeir sem eru við teikniborðið og sjá hvernig línurnar fara á blaði. Ég vil fá stofnstíga fyrir hjólafólk inn á þessi kort og svo myndum við nota stígakerfið sem fyrir er innan hverfa. ÉG VIL ÞVÍ BIÐJA ÁHUGASAMA AÐ KÍKJA Á ÞESSI KORT OG KOMA MEÐ SÝNAR HUGMYNDIR! Einnig er hugmyndin að taka myndir af gangstéttabrúnum eða öðrum smærri verkefnum sem þarf að laga og setja það í möppu með kortunum þegar þeim verður skilað inn.

Það var óvenjulítið leitað til klúbbsins þetta árið með að hjálpa til við einstök verkefni eins og oft hefur verið. Við tókum þátt í hjóladegi 18. júní með ÍBR. Þessi hjóladagur var hluti af íþróttaviku á vegum Reykjavíkurborgar, menningarborgar 2000. Stóðu klúbbfélagar sig með mikilli prýði en eins og oft áður á hjóladögum hefði mátt vera fleira fólk. Einnig hjálpuðum við til við Reykjavíkurmaraþonið eins og undanfarin ár. Það var fámennur en góðmennur hópur frá ÍFHK sem hjólaði með hlaupurunum þetta árið. Því miður einkenndist keppnin af skipulagsleysi og umferðateppum. Mér fannst sérstaklega leiðinlegt að við náðum ekki fólki í þessa 22 jakka sem að Reykjavíkurmaraþonið lét merkja klúbbnum okkur að kostnaðarlausu og Örninn seldi okkur á MJÖG samgjörnu verði . Voru þessi jakkar hugsaðir til notkunar við svona tækifæri til að allir væru eins (sem auglýsing fyrir klúbbinn)  og til þess að hjólafólkið  væri sýnilegt. Almenn ánægja var með jakkana og sáust þeir langt að. Ég vil þakka ÍFHK félögunum fyrir hjálpina og vona að fleiri sjái sér fært að mæta næsta ár ef leitað verður til okkar.

 

Alda Jónsdóttir, Formaður ÍFHK (nóv. 2000)