4. nóvember var haldinn aðalfundur Íslenska fjallahjólaklúbbsins í Þróttheimum, við Holtaveg, þar sem klúbburinn hafði aðsetur fyrstu árin.
Það urðu mannaskipti í stjórn og nefndum.  Alda Jóns var kosinn formaður aftur og Páll Guðjónsson og Haraldur Tryggva eru áfram í stjórn.  Nýjir í stjórn eru Björn Finns sem hefur verið með kvöldferðir klúbbsins síðustu ár og Sigurður Grétars sem einnig hefur verið virkur í starfseminni í mörg ár.  Stjórnin skiptir með sér stöfum.

Stjórn og nefndir fóru yfir störf sín síðastliðið ár, reikningar voru lagðir fram og samþykktir og starfsemin rædd fram og til baka.  Ekki var annað að heyra en hugur væri í fólki og menn mjög ánægðir með starfsemi síðasta árs.  Sérstaklega var Gísli Haralds heiðraður með smá gjöf sem þakklætisvott fyrir geysimikið starf við framkvæmdir í nýja klúbbhúsinu.

Gunnlaugur Jónsson fomaður Landssamtaka hjólreiðamanna kynnti starfsemi samtakanna síðasta árið og ákveðið var að Landssamtökin fengu framlag frá ÍFHK sem næmi 100kr fyrir hvern félagsmann af félagsgjöldum 1999 og sama af félagsgjöldum næsta árs og yrði gert upp við aðalfundinn næsta ár.

Fólk skráði sig síðan í nefndir en það er alltaf pláss fyrir fleiri og ekkert mál að skrá sig í nefndirnar hvenær sem er, það er bara að hafa samband við okkur. Skoðið hér hver er skráður í hvaða nefndir og hvernig þið getið enn skráð ykkur í nefndir.

 Klúbburinn í skápnum

Því miður steingleymdi ég að taka myndir af fundinum sem var ágætlega sóttur.  Eftir fundinn smellti ég hinsvegar þessari mynd af Öldu formanni við litla fataskápinn sem var eina húsnæðið sem klúbburinn hafði út af fyrir sig í mörg ár.

Sérstakar þakkir fær bakaríið Hjá Jóa Fel sem útvegaði veitingarnar.

Páll Guðjónsson