Það er búið að lýsa því yfir að Akraborgin hætti að sigla 15. júlí n.k. Fyrir marga sem notið hafa ferjuna til að komast bestu og öruggustu leið úr Reykjavík þá verður þetta ömurlegur atburður. Þegar þetta er skrifað þá er ekkert sem kemur í stað hennar sem gæti verið viðunandi eða sambærilegt við ferjuna. Það er nefnilega alveg makalaust hvað “hugsuðir” samgöngumála hér á landi eru ótrúlega lélegir fagmenn. Það er nefnilega fyrir löngu farið að taka reiðhjólið með í reikningin við hönnun samgöngumannvirkja í þróaðri löndum. Hér virðist hvaða kjáni sem er geta tekið að sér að klambra upp slíkum mannvirjum án þess að taka tillit til annars en nákvæmlega þess sem þröngsýnn hönnuðurinn hefur áhuga á. Eins og staðan er nú þá getum við “húkkað” okkur bíl við ganganmunnan og jafnvel þannig farið ókeypis í gegnum göngin. Það sagði allavega einhver stjórnarmaður Spalar í símaþætti útvarpsstöðvar. Annars eigum við bara að hjóla Hvalfjörðinn. Hvernig ætli bílafólki finnist að fara um suðurland og austurland til Akureyrar bara vegan þess að vegurinn um Holtavörðuheiði væri aflagður. Mig grunar að það mundi heyrast hljóð í horni. Öll vitum við hvernig það fer með hjólin að taka rútu, hvað þá í hópferðum. Þær ferðir verða víst aflagðar um leið og Akraborgin.

Í ljósi þessa þá er hjólreiðafólk hvatt til að fjölmenna niður við Reykjavíkurhöfn þann 15. júlí og kveðja Akraborgina með sæmd. Missum ekki af þessum einstæða atburði, það gæti verið eftirsjá í því.